leita

Bárðargata

Bárðargata liggur frá Bárðardal í Fljótshverfi

Á Núpum í Fljótshverfi bjó Gnúpa-Bárður en eftir honum er Bárðargata og Bárðarbunga nefnd. Bárðargata er leið frá Bárðardal, suður öræfin, sennilega með Skjálfandafljóti austanverðu, gegnum Vonarskarð og niður í Fljótshverfi, um 250 km leið, í allt að 1000 m hæð. Er leiðin kennd við landnámsmanninn Bárð sem sigldi norður fyrir landið upp Skjálfandafljót og nam land í Bárðardal og bjó að Lundarbrekkum (Lundarbrekka). Bárðarbunga í Vatnajökli ber nafn þessa manns. Þessi leið er aldrei farin núna í einu lagi enda margar torfærur.

Hvert kvikindi dró sitt fóður

Það er skemmtilegt að skoða leiðina og velta fyrir sér hvernig Bárður flutti sig milli landshluta beint yfir hálendið. Í Landnámu segir svo:

   Þá markaði hann at veðrum, at landviðri voru betri en hafviðri, ok ætlaði af því betri lönd fyrir sunnan heiði. Hann sendi sonu sína suðr um gói. Þá fundu þeir góibeitla og annan gróður. En annat vor eftir þá gerði Bárðr kjálka hverju kykvendi, því er gengt var, ok lét hvat draga sitt fóðr og fjárhlut. Hann fór Vonarskarð, þar er síðan heitir Bárðargata. Hann nam síðan Fljótshverfi og bjó að Gnúpum. Þá var hann kallaður Gnúpa-Bárður.” [1]

Þessi flutningsmáti að láta hvern grip draga sinn fóðurhlut er mjög snjöll og umhverfisvæn og kannast menn ekki við hana úr öðrum sögum. Ferðir yfir Vonarskarð kannast menn heldur ekki við fyrr en líður á 19 öldina. Þá fóru þar norður yfir Vonarskarð landmælingamaðurinn Björn Gunnlaugsson og Sigurður Gunnarsson, seinna prestur á Hallormsstað, en þeir voru að rannsaka Vatnajökul.  Er margt í sögu Gnúpa-Bárðar með ólíkindum en þó ekki svo að ekki sé ástæða til að trúa henni. Og skynsamlega hefur Bárður ætlað að betra væri að búa í Fljótshverfi en fyrir norðan segja Skaftfellingar.

Eftir Gnúpa-Bárði var síðan nefnd Bárðarbunga á Vatnajökli.

[1] Landnámabók Íslands. 1948. Einar Arnórsson bjó til prentunar. Helgafell, Unuhúsi Rv. s. 246

 

Share it on your social network:

Or you can just copy and share this url
Related Posts