Skip to main content
Kirkjubæjarklaustursögur

Þjóðsögur á Klaustri

By October 18, 2019April 1st, 2020No Comments

Gullkambur  og nykur í Systravatni

Fyrir ofan Kirkjubæ er fjallshlíð fögur og grasi vaxin upp undir eggjar og eggjarnar víða manngengar þó bratt sé. Uppi á fjalli þessu er graslendi mikið og fagurt umhverfis stöðuvatn eitt sem kallað er Systravatn af því nunnur tvær frá Klaustrinu áttu að hafa lagt þangað leiðir sínar, annaðhvort báðar saman eða sín í hvoru lagi. Það er sagt að gullkambur óvenju fallegur var réttur upp úr vatninu og fór önnur fyrst að reyna að vaða eftir honum, en vatnið varð henni of djúpt og fórst hún í því. Hina er sagt að einnig hafi langað til að eignast kambinn en ekki séð nein ráð til þess. Loksins kom hún auga á steingráan hest hjá vatninu og ræður það af að taka hann og ríða honum en hann var svo stórvaxinn að hún komst ekki á bak honum fyrr en hann lækkaði sig allan að framan eða lagði sig á knén. Reið hún honum svo út í vatnið og hefur ekkert af þessu sést síðan, nunnan, hesturinn né kamburinn. Af þessu er vatnið kallað Systravatn.

Nunnur brenndar á Systrastapa

Meðan Agatha Helgadóttir var abbadís á Kirkjubæjarklaustri urðu þar ýmsir hlutir undarlegir. 1336 heyrðust langan tíma sumarsins stunur miklar í svefnhússgólfi og borðstofugólfi á Kirkjubæ en ekki fannst þó að væri leitað. Árið sama og Agatha dó, 1343, kom út Jón Sigurðsson austur í Reyðarfirði með biskupsvígslu og byrjaði þaðan visitasíu sína vestur um land sunnan megin og kom í þeirri ferð sinni að Kirkjubæ. Var þar þá brennd systir ein sem Katrín hét fyrir guðleysi og fleiri þungar sakir sem á hana voru bornar og sannaðar; fyrst sú að hún hefði bréflega veðdregið sig djöflinum, annað það að hún hefði misfarið með Krists líka (vígt brauð) og snarað aftur um náðhússdyr, það þriðja að hún hefði lagst með mörgum leikmanni, og var það því dæmt að hana skyldi brenna kvika. Sumir segja að það hafi verið tvær systur sem þá hafi verið brenndar, hin fyrir það að hún hafi hallmælt páfanum eða ekki þótt tala nógu virðulega um hann og því hafi hún verið brend með Katrínu. Skaftá rennur rétt hjá Kirkjubæ og stendur einstakur steindrangur þverhnípur upp fyrir vestan hana og er aðeins einstigi upp á hann einumegin. Efst á honum er slétt flöt lítil og tvær þúfur á flötinni og segja menn að þær þúfur séu leiði þeirra systra og þar hafi þær brenndar verið og sé önnur þúfan sígræn, en hin grænki aldrei, en á henni vex þyrnir. Af þessu er drangurinn kallaður Systrastapi.

Munkarnir í Þykkvabæ heimsóttu systurnar í Kirkjubæ

Meðan nunnuklaustrið var í Kirkjubæ var því samtíða munkaklaustur á Þykkvabæ í Álftaveri og er ekki lengra á milli en 1 ¼ mílu vegar þegar beint er farið; en á milli Síðunnar og Álftaversins rennur Skaftá sem kunnugt er. Á ánni var brú í fornöld og lá sú kvöð á Kirkjubæjarklaustri að viðhalda henni og því var rekafjara lögð til klaustursins sem enn heitir Brúarfjara. Seinna á öldum braut brúna af en þar sem hún hafði verið á ánni heitir enn Brúarhlað og er það nú almenningsvað á Skaftá. Það er sagt að oft hafi ábótinn og munkarnir úr Þykkvabæ farið í Kirkjubæ að hitta abbadísina og systurnar og var það hægt í högum meðan brúin var á Skaftá. En á þeirri leið fyrir sunnan eða vestan ána heitir Sönghóll, þaðan sér fyrst heim að Kirkjubæ þegar sú leið er farin. Þegar munkarnir komu á þenna hól hófu þeir allajafna upp söng svo mikinn að heyrðist heim að klaustrinu og af því dregur hóllinn nafn enn í dag. Þegar söngurinn heyrðist heim að Kirkjubæ lét abbadísin hringja klukkum, en gekk sjálf með öllum systrunum í mót ábótanum og munkunum niður að Skaftá; það eru nú sandgígar eintómir og heitir það svæði Glennarar. Mikið var jafnan um dýrðir í Kirkjubæ þegar Þykkbæingar voru þar komnir og aldrei þótti systrunum jafngóð ævi sín sem þá. En snemma lagðist sá orðrómur á að munkarnir vendu þangað komur sínar meir en góðu hófi gegndi til að fífla systurnar. Þessi lifnaður keyrði svo úr hófi að abbadísin og systurnar vissu þetta nálega hver með annarri og eru enn um það nokkrar sagnir. Einu sinni er sagt að ábótinn frá Þykkvabæ hafi verið nótt í Kirkjubæ sem oftar. Morguninn eftir komu systurnar inn í kompu abbadísarinnar og ætluðu að fara að klæða hana. Leituðu þær þá að nærklæðum hennar undir höfðalaginu og fundu þar brókina ábótans, en hvergi niðurhlut abbadísarinnar. Þær þekktu brókina og spurðu hvernig á þessu stæði, en þá er haft eftir abbadísinni að hún hafi átt að segja: „Allar erum vér brotlegar,“ og svo er bætt við: „kvað abbadís, hafði brók ábóta undir höfðinu. Öðru sinni var bæði ábótinn og munkur einn eða fleiri með honum nætursakir í Kirkjubæ. Það greinir nú ekki frá því fyrst um sinn hvar ábótinn svaf um nóttina en þess er getið að abbadísin fór á hnotskóg með ljós um miðja nótt til að líta eftir lifnaði systranna. Kom hún þá í kompu einni að munki og nunnu sem sænguðu saman. Abbadísin ætlaði að fara að ávíta nunnuna en nunnunni varð litið á höfuðbúning abbadísar og segir: „Hvað hafið þér á höfðinu, móðir góð?“ Varð þá abbadísin þessi vör að hún hafði tekið brókina ábótans í misgripum og skautaði sér með henni í staðinn fyrir skuplu svo hún mýkti málin og sagði um leið og hún gekk burtu: „Allar erum vér syndugar, systur.“

Anna Sigurðardóttir. 1988. Allt hafði annan róm, áður í páfadóm. Kvennasögusafn Íslands, Rv. s. 77 -78

(Það er ekki rétt að það sé ein og hálf míla frá Þykkvabæjarklaustri að Kirkjubæjarklaustri. Það er um 35 km bein loftlína og hefur sennilega verið um 7 tíma gangur á milli klaustranna og yfir Kúðafljótið að fara. Fyrirsagnir eru frá LM)

(Ljósmyndir af Systravatni, Systrastapa og Sönghelli LM)