Warning: Uninitialized string offset 0 in /var/www/virtual/eldsveitir.is/htdocs/wp-includes/class-wp-term-query.php on line 1

Warning: Uninitialized string offset 0 in /var/www/virtual/eldsveitir.is/htdocs/wp-includes/class-wp-term-query.php on line 1

Warning: Uninitialized string offset 0 in /var/www/virtual/eldsveitir.is/htdocs/wp-includes/html-api/class-wp-html-tag-processor.php on line 1

Warning: Uninitialized string offset 0 in /var/www/virtual/eldsveitir.is/htdocs/wp-includes/html-api/class-wp-html-tag-processor.php on line 1
Bjarni í Hólmi — Sögur, menning og náttúra Skip to main content
Landbrotsögur

Bjarni í Hólmi

By October 18, 2019February 28th, 2020No Comments

Bjarni í Hólmi var frumkvöðull í að setja upp rafstöðvar og smíða túrbínur. Efnið í túrbínurnar var járn úr skipum sem höfðu strandað á Meðallandsfjörum. Bjarni keypti fyrsta bílinn milli sanda og byggði frystihús í Hólmi.

Bærinn Hólmur í Landbroti er á bökkum Skaftár með útsýni til tveggja jökla og Systrastapa í túnfætinum. Þar ólst upp mikill frumkvöðull og athafnamaður, Bjarni Runólfsson, sem ávallt var kallaður Bjarni í Hólmi. Hann fæddist árið 1891 og ólst upp við hefðbundin sveitastörf; vann við búskapinn, smíðar og viðgerðir. Foreldrar hans voru Rannveig Bjarnadóttir og Runólfur Bjarnason. Þau voru bændur í Hólmi en jafnframt stundaði Runólfur lækningar með jurtum seinni árin. Bjarni var elstur barna þeirra hjóna og var strax atorkusamur og áhugasamur um allt sem til framfara horfði. Eftir að Bjarni féll frá fluttist bróðir hans, Valdimar Runólfsson, að Hólmi og stofnaði smíðaskóla.

Bjarni heillaðist snemma af mætti rafmagnsins. Bjarni hafði fylgst með uppsetningu rafstöðvarinnar í Þykkvabæ í Landbroti 1913 og fór strax að velta fyrir sér hvernig hann gæti virkjað Rásina í Hólmi. Hann prófaði sig áfram og smíðaði túrbínuna og setti upp rafstöð 1921. Er það fyrsta túrbínan sem smíðuð var á Íslandi. Til smíðanna hafði Bjarni lítið af verkfærum og varð að smíða þau sjálfur jafnóðum. Rafstöðin var 2 kw og nýttist til ljósa og eldunar og reyndist vel. Þessi túrbína er nú á Byggðasafninu á Skógum.

Samverkamenn frá Svínadal í Skaftártungu. Næstu rafstöð smíðaði Bjarni í Svínadal með þeim bræðrum Eiríki og Sigurjóni Björnssonum, sem urðu hans samstarfsmenn við smíði rafstöðva. Enginn þeirra var skólagenginn og urðu þeir því að bjarga sér á brjóstvitinu. Eina bók höfðu þeir undir höndum um smíði rafstöðva. Siggeir Lárusson á Klaustri hafði pantað tvö eintök af bókinni beint frá forlaginu í Danmörku og fékk Bjarni í Hólmi annað eintakið. Bókin hét: Lommebog for Mekanikere og var eftir Peder Lobben. Í sveitinni var bókin aldrei kölluð annað en Lobbinn, eftir höfundinum. Aðstoðaði Valgerður Helgadóttir, eiginkona Bjarna, ungu mennina við að skilja dönskuna en Valgerður var kvennaskólagengin. Efnið í rafstöðvarnar fékkst úr strönduðum skipum af fjörunum.

Bíllinn kom með Skaftfellingi 1926. Það var mikil vinna og erfiði að ná í efnið í túrbínurnar, níðþunga járnhluti sem þurfti að flytja á hestum neðan af fjörum alla leið heim að Hólmi. Bjarni var sá fyrsti á þessum slóðum til að fá sér bíl 1926 og notaði hann óspart við flutninga af fjörunni. Kom bíllinn, Ford T módel 1 tonn að þyngd, með Skaftfellingi og var skipað upp við Skaftárós. Bíllinn var ósamsettur en Bjarni og vinir hans settu hann saman. Breyttust allar aðstæður við það að geta sótt járnið á bíl í stað hesta. Fóru sögur af því að Bjarni beitti bílnum í jökulvötnin jafn djarflega og Skaftfellinga var siður þegar þeir fóru vötnin, gangandi og á hestum. Vakti það mikla athygli þeirra sem sáu til hans sullast yfir árnar á bílnum.

Rafstöðvar setti Bjarni upp víða um landið og voru túrbínurnar ýmist keyptar erlendis frá eða smíðaðar af Bjarna, Eiríki Björnssyni frá Svínadal, Sigfúsi Vigfússyni á Geirlandi eða Sigurjóni Björnssyni frá Svínadal.[1] Fjöldi manna kom svo að því að setja upp stöðvarnar og ekki síður að sækja járnið niður á fjöru. Talið er að Bjarni og menn hans hafi reist yfir hundrað rafstöðvar á árunum 1926-1938 um allt land, til dæmis settu þeir upp 28 rafstöðvar í Suður-Þingeyjarsýslu. Ferðalögin á milli landshluta hafa verið bæði tímafrek og erfið því vegir voru lélegir og mörg vötn óbrúuð.

Frystihús í Hólmi 1936 og sláturhús ári síðar. Bjarni gerðist frumkvöðull á fleiri sviðum en að lýsa upp bæina. Um aldir höfðu Skaftfellingar rekið sláturfé allt til Reykjavíkur og seinna til Víkur í Mýrdal, eftir að farið var að slátra þar. Bændur austan Mýrdalssands höfðu reynt að slátra fyrir austan og senda saltkjötstunnurnar til Reykjavíkur en það gekk mjög illa að koma þeim um borð í Skaftfelling.

Eftir að farið var að frysta kjöt varð það miklu verðmætara en það sem saltað var í tunnur. Á árunum 1931-1934 var fé rekið alla leið að austan til Reykjavíkur til slátrunar. Rekið var yfir Mýrdalssand og með ströndinni. Var þetta gert vegna þess að það fékkst helmingi meira fyrir lömbin á fæti  heldur en þegar búið var að salta kjötið niður í tunnur. En það var erfitt og kostnaðarsamt að reka fé tæpa 300 kílómetra og væntanlega hefur féð misst einhver kíló á ferðalaginu.   Bjarni í Hólmi tók af skarið og keypti árið 1935 frystivélar og spírala af Sláturfélagi Suðurlands og sendi Jón Björnsson á Klaustri á bílnum suður að sækja góssið.Vorið 1936 reis svo frystihús í Hólmi og ári síðar reisti Kaupfélag Skaftfellinga þar sláturhús. Var nú hagur bænda allnokkru betri en áður, hægt að selja allt kjötið frosið og fá fyrir það gott verð. Árið eftir var slátrað um 6000 fjár í Hólmi.[2]

Bjarni lést skyndilega. Haustið 1938 gerðist það sem enginn átti von á. Bjarni í Hólmi fékk heilablóðfall og lést löngu fyrir aldur fram, aðeins 47 ára gamall. Dauði Bjarna var ekki bara áfall fyrir fjölskyldu hans og vini, heldur ekki síður sveitina fyrir austan þar sem fallinn var mikill framfaramaður og fyrir íslenskar sveitir þar sem menn gerðu sér vonir um bjartari tíma með komu rafmagnsins fyrir atbeina þessa töframanns tækninnar.

Gefin var út Minningabók um Bjarna. Helgi Lárusson frá Klaustri skrifaði grein í bókina og þar segir:

Árið 1936 setti Bjarni upp frystihús í Hólmi, af eigin rammleik og án þess að fá nokkurs staðar styrk. Bjarni þurfti engan sérfræðing í frystivélum til að koma frystihúsinu upp. Hann gerði allt sjálfur, hann gerði og meira, hann smíðaði mikið af „spírölum“ fyrstihússins.

Í sambandi við frystihús þetta fór fram á síðastliðnu hausti sauðfjárslátrun í Hólmi. Bjarni frysti kjötið jafnóðum, 200 skrokka á sólarhring, sem síðan voru fluttir frosnir til Reykjavíkur, um 300 km leið. Það tókst vel.

Nú í sumar var Bjarni að vinna að því að stækka rafmagnsstöð sína í Hólmi stórlega. Hann var nýbúinn að ljúka því verki. – Einnig var hann að stækka frystihúsið, þannig að hann gæti fryst þar að minnsta kosti 600 skrokka á sólarhring. Frystivélarnar og efni í „spíralana“ var hann búinn að flytja austur að Hólmi. Allt átti að vera fullbúið um miðjan þennan mánuð. Því miður entist honum ekki aldur til þess. Einnig var Bjarni með margar rafmagnsstöðvar í undirbúningi, sem hann ætlaði að koma upp í haust. Þar er því skarð fyrir skildi, þar sem hann er allt í einu fallinn frá.Bjarni var framúrskarandi athafnamaður. Hann vann oft 16 til 18 klukkustundir á sólarhring, heima og heiman, þó einkum þegar hann var að setja upp rafmagnsstöðvarnar. Þá vinnu sína kallaði hann „dagsverk“ og tók venjulega 10 kr. fyrir „dagsverkið“[3]

Bjarni féll frá í miðju verki. Hann var að byggja þriðju rafstöðina í Hólmi til að nóg væri rafmagnið fyrir frystihúsið og sláturhúsið. Það var svo margt sem hann var að gera og átti eftir að gera.

Búnaðarfélag Íslands eignast Hólm. Valgerður Helgadóttir hafði unnið með manni sínum og hefur sennilega séð meira og minna um búskapinn því Bjarni var mikið að heiman. Valgerður sá einnig um bókhald og bréfaskriftir og hún sá um heimilið. Innanstokks var margt betur úr garði gert en á öðrum heimilum og í grein um Bjarna í Hólmi segir Þórarinn, bróðir Valgerðar, frá því að „ Skilvindan og strokkurinn snúast þar fyrir afli hinnar ósýnilegu orku.“[4] Óvíða hafa strokkur og skilvinda gengið fyrir rafmagni þrátt fyrir að þau tæki væru mikið notuð langt fram eftir öldinni. Hefur því vinnuaðstaða og verkefni Valgerðar verið á margan hátt önnur en annarra kvenna á íslenskum sveitabæjum. Valgerður bjó áfram í Hólmi í fjögur ár eftir lát Bjarna en þá bauðst hún til að gefa Búnaðarfélagi Íslands jarðirnar Hólm I og Hólm II ef mannvirkin á þeim yrðu keypt og þar unnið líkt og verið hafði í tíð Bjarna.

Íbúðarhúsið, verkstæðið og skólahúsnæðið stendur enn í Hólmi. Verkstæði Bjarna er með öllum vélum og verkfærum. Eftir að Búnaðarfélag Íslands eignaðist Hólm fluttu hjónin Valdimar Runólfsson, bróðir Bjarna, og Rannveig Helgadóttir, systir Valgerðar, austur og var stofnaður Smíðaskólinn í Hólmi. Vonandi tekst í framtíðinni að gera húsin í Hólmi upp og segja sögu þess sem þarna var þegar úr  smiðjunni komu vélarnar sem gáfu fólki ljós og yl og ekki síður sögu skólahaldsins sem Valdimar og Rannveig stýrðu.

 

[1] Þórólfur Árnason. 1983. Rafvæðing Vestur Skaftafellssýslu. Dynskógar 2. Vestur-Skaftafellssýsla, Vík. S. 39

[2] Bjarni Runólfsson Hólmi. Minningarrit. Víkingsútgáfan. Rv. S.

[3] Helgi Lárusson. 1944. Bjarni Runólfsson Hólmi. Minningarrit. Víkingsútgáfan. Rv. S. 118

[4] Bjarni Runólfsson Hólmi. Minningarrit. 1944. (höfundar greinarinnar ekki getið) Víkingsútgáfan, Rv. S. 59