Bærinn Sandar í Meðallandi stendur á hólma úti í Kúðafljóti. Þegar Katla gaus 1918 jókst mjög í fljótinu og stefndi að bænum. Bóndinn á Söndum, Jóhannes Guðmundsson, hafði brugðið sér til Víkur og var þar þann örlagaríka dag 12. október 1918 þegar Katla gaus. Heima á Söndum var eiginkonan, Þuríður Pálsdóttir, fimm ungir synir þeirra og vinnufólk. Til er frásögn Þuríðar af gosdeginum og birtist hún í bókinni Vængjatök sem hefur að geyma frásagnir, sögur og ljóð eftir sunnlenskar konur.
Einn dagur úr ævi minni
Það er 12. október 1918, klukkan er tæpt sex að morgni. Ég vakna við það að þeir eru að tala saman synir mínir sem eru fimm, sá elsti á sjötta ári, sá yngsti er á öðru ári, sumir vilja klæða sig, aðrir biðja um pelann sinn og svo er spurt hvort pabbi sé kominn úr Vík en hann fór með tvo afsláttarhesta til Víkur og ætlaði að senda kjötið til Vestmannaeyja. Klukkan rúmlega sjö eru flestir komnir á fætur og farnir til vinnu sinnar. Karlmenn þrír, Bjarni bróðir minn, Magnús Sigurbergsson frá Háu-Kotey í Meðallandi, hann var milli fermingar og tvítugs, Sigurður Sigurðsson frá Lágu-Kotey 14 eða 15 ára, þeir fóru að keyra út sumarmykju úr haughúsinu. Stúlkurnar þrjár, allt systur frá Háu-Kotey, ein fór í fjósið að mjólka og láta út kýrnar, ein fór að fást við eldhúsverkin, og sú þriðja að hjálpa mér að klæða það sem óklætt var af bræðrunum og búa um rúmin. Það lá vel á öllum þennan morgun, veðrið dásamlegt og við að sjá fyrir endann á að ganga frá slátrinu um hundrað fjár, mest lömbum.
Uppúr hádegi fórum við að taka eftir óvanalega miklum skruggum sem alltaf ágerðust, töldu víst flestir að þetta væru svona stórkostlegar skruggur. Þegar mér fannst keyra framúr hófi með lætin fór ég út til Bjarna og fór að tala við hann um hvað þetta væru óvanaleg læti, segir hann þá að þetta séu bara svona stórkostlegar skruggur, fór ég svo inn í eldhús og hélt áfram við það sem ég var að gera.Þeir voru að moka í síðasta vagninn og tæma hann, fóru svo með hestinn og vagninn í Lygnuvík í fljótinu austan við túnið til að þvo mykjuna úr vagnkassanum og sleppa hestinum. Þegar þeir voru búnir að þessu kemur Bjarni inn og segir að það sé farið að rigna ösku og Katla sé komin austur í Skálm. Þegar ég kem út sé ég hvar féð er á hörkuferð heim, við heyrðum jarmið í því þar sem það kom í hópum heim á leið til fjárhúsanna. Kýrnar komu heim veg, voru komnar heim undir, ég bað Manga að fara og láta inn kýrnar, hann rekur þær inn og lokar fjósinu, án þess að binda þær.
Bjarni taldi að ekki væri víst að okkur væri óhætt hérna í bænum og að við ættum að reyna að komast austur yfir fljótið. Sirri tók beisli og ætlaði að taka hross sem voru á túninu rétt við götuna en þegar hann kom til hrossanna voru þau öll fæld, þá vorum við komin austur að fljóti. Bjarni með yngsta drenginn berandi og leiddi þann elsta, systurnar báru sinn drenginn hver og ég bar fataböggul, það voru sparifötin bræðranna, þau lágu á kommóðunni austur í stofu. Ég greip þar klút og batt utan um þau. Við vorum fyrir stuttu búin að færa einn drenginn úr blautum buxum og sokkum, hann var uppi í baðstofu að leika sér þegar hann var vafinn í teppi og borinn alla leið austur að Háu-Kotey. Elsti sonurinn sem Bjarni leiddi, týndi sokk og skó af öðrum fæti á leiðinni austur að Kotey.
Þegar við komum austur yfir mitt fljót komu á móti okkur bóndinn á Sandaseli, Magnús Oddsson og vinnumaður hans Gísli Tómasson, og tóku sinn drenginn hvort. Þá var ein systirin eftir með drenginn sem hún bar (ekki man ég hver þeirra það var). Hún sagði að þá hefði sér fundist að hún ætlaði aðhníga niður. Þegar við vorum komin á austurbakkann á fljótinu voru jakar og vatn komin í götuna vestanmegin. Við héldum áfram gangandi alla leið að Háu-Kotey þar sem við dvöldum í rúma viku.
Það var margt manna saman komið það kvöld á baðstofugólfinu í Háu-Kotey hjá Sigurbergi Einarssyni og konu hans Árnýju Eiríksdóttur. Minnisstæðastur er mér þó einn gesturinn, það var Stefán Ingimundarson á Rofabæ hreppstjóri Meðallendinga. Hann hafði verið rúmliggjandi um tíma, fólk þorði ekki annað en að koma honum að Háu-Kotey því sá bær stóð hæst af bæjunum þar í kring. Ég man þegar hann var leiddur og studdur inn á baðstofugólfið, ég hjálpaði til þess að koma honum í rúmið austan við gluggann. Ekki man ég hvað hann var lengi þar, hann var ekki lengi í Kotey áður en hann var fluttur heim til sín en hann komst aldrei á fætur aftur.
Ekkert man ég hvort ég fékk skinn í skó á drenginn minn um kvöldið eða daginn eftir. Þegar við komum að Sandaseli varð heimilisfólkið þaðan okkur samferða austur að Kotey og gisti þar um nóttina.
Ég man nú ekki hvort ég nokkurn tíma þakkaði fólkinu sem mest hjálpaði þennan dag og marga erfiðisdaga sem fylgdu í kjölfarið. Ef til vill gerði ég það aldrei upphátt en margoft þar sem ekki nema sá heyrir sem allt heyrir. (1)
Það var ekkert símasamband milli Meðallandsins og Víkur þannig að Jóhannes fékk engar fréttar fréttir af fjölskyldu sinni né fjölskyldan fréttir af honum fyrr en hann komst heim, tveimur vikum seinna.
Jóhannes hafði 13 árum áður horft á eftir bróður sínum Eggert ljósmyndara í Kúðafljótið en áföllin urðu fleiri. Þuríður var ófrísk að sjötta barni þeirra Jóhannesar þegar Kötlugosið var en alls eignuðust þau 11 börn. Barnið var fyrsta stúlka þeirra hjónanna, hún fékk nafnið Lára en lifði aðeins örfáa mánuði. En það var haldið áfram þrátt fyrir mikil áföll og erfiðleika.
Jóhannes og Þuríður fluttu að Herjólfsstöðum í Álftaveri eftir gosið og bjuggu þar síðan.
Tjónið á Söndum var gífurlegt. Flest af kindum og hestum Sandafjölskyldunnar lenti í hlaupinu og drapst. Nokkrum hrossum tókst að bjarga og höfðu sum þeirra borist með jakahrönninni langt niður með fljótinu. Vakti það furðu manna að þau væru lifandi og sum alheil. Kjallari sem var undir húsinu fylltist af vatni og þar með skemmdust þau matvæli sem búið var að að útbúa fyrir veturinn og fleira sem þar var geymt. Jörðin var stórskemmd en áður hafði hún verið kostajörð og talin ein hin allra besta hér um slóðir, vel hýst og stórbætt með áveitum. Flóðgarðar sópuðust burtu og víða flettist svörðurinn af og eftir var aðeins svartur sandur. Sandur og jökulleðja lagðist yfir gróna haga og jörðin var talin óbyggileg eftir þetta áfall.
Flóðið náði einnig austur fyrir bæinn Sandasel en olli þar miklu minni skaða. Engjar og hagar á næstu bæjum; Strönd, Rofabæ, Melhóll og Efri-Ey skemmdust en bændum tókst að reka fé frá fljótsbökkunum í kappi við vatnsflauminn og bjargaðist þannig búpeningurinn að mestu.
Til allrar hamingju var minni hluti Kúðafljótsins austan við bæinn þetta haustið þannig að fólkið komst fótgangandi yfir vatnið. Má því segja að mitt í þessum hörmungum hafi líka verið mikil gæfa að ekkert fólk skaðaðist við þessar hættulegu aðstæður. (2)
Gísli Tómasson, sem seinna bjó á Melhól var í Sandaseli þegar þetta gerðist og var einn þeirra sem kom á móti Þuríði. Til er upptaka af frásögn Gísla sem má hlusta á vefnum Ísmús. Smellið á frásögn Gísla Tómassonar (6 mín).
(1) Þuríður Pálsdóttir. 2004. „Einn dagur úr ævi minni.“ Vængjatök –hugverk sunnlenskra kvenna. Pjaxi, 2004. S. 75-76
(2) Vilhjálmur Bjarnason. 1985. Saltfiskur á hvalbeini. Dynskógar 3. Vestur-Skaftafellssýsla, Vík. s. 172