Nunnuklaustur á Kirkjubæ frá 1186 – 1554
Þorlákur helgi, ábóti í Veri, og Bjarnhéðinn sem var lengi prestur á Kirkjubæ áttu mestan þátt í stofnun klaustursins. Sex ár voru þeir Þorlákur og Bjarnhéðinn samtíða prestar á Kirkjubæ áður en Þorlákur fór að Þykkvabæ í Veri. Bjarnhéðinn var auðugur maður og lét fé renna til klaustursins eftir sinn dag.
Klaustrið var af reglu Benedikts
Nunnuklaustrin tvö á Íslandi voru bæði af reglu heilags Benedikts af Núrsíu en slík klaustur voru víða áberandi og valdamikil í trúarlegum efnum en ekki síður framleiðslu og vinnu. Meginlífsregla munka og nunna af Benediktsreglu var – að biðja og að iðja -. Sólarhringnum var skipt upp í tíðasöng, vinnu og lærdóm. Iðjuleysi var talið allra lasta verst. Allt bendir til að nunnurnar á Kirkjubæjarklaustri hafi fylgt þessari lífsreglu. [1] Sagt er frá því í fornum ritum að nunnurnar hafi unnið eða látið vinna messuklæði, refla, glitofna dúka og hökla. Hafi jafnvel sumir þessara muna endað í kirkjum og klaustrum í Evrópu.
Agatha og Agnes
Tvær þekktar abbadísir í Kirkjubæ tóku sér nafnið Agatha. Bæði þessi nöfn, Agatha og Agnes, eru sótt til heilagra kvenna í kaþólskum sið en heilög Agatha var verndri gegn eldsvoða og eldgosum og ekki fráleitt að á slíku væri þörf austur á Síðu en heilög Agnes var verndari fórnarlamba nauðgana, stúlkna og skírlífra. Til eru sögur þessara heilögu kvenna í nokkrum handritum á íslensku. [5]
Valdabarátta
Abbadísin var yfirmaður klaustursins og sá um reksturinn. Einum Skálholtsbiskpnum, Magnúsi Gissurarsyni, líkaði ekki þetta fyrirkomulag og tók yfir klaustrið um 1218 og skipaði þar staðarhaldara Svínfellinginn Digur-Helga Þorsteinsson og seinna tók Ögmundur Helgason við staðnum en hann er aðalpersóna Svínfellingasögu. Er talið að klausturhald hafi verið í lágmarki á þessum tíma því lítið er að finna um það í heimildum. Nunnurnar náðu yfirráðum yfir staðnum aftur 1293 og héldu þeim þar til klaustrið var lagt niður í kjölfar siðaskiptanna. Það hefur eflaust haft töluverð áhrif á samfélagið fyrir austan að þar var klaustur en þangað leitaði mikið af fátæku og sjúku fólki sem og förufólki. Einnig eru til sögur af því að kona hafi flúið eiginmann sinn og leitað á náðir nunnanna í klaustrinu. Biskup gengur erinda eiginmannsins til að abbadísin skipi konunni heim aftur. Forræði abbadísarinnar í því máli og öðrum virðist hafa verið algjört og þannig hefur þetta kvennasamfélag haft sérstöðu í landi þar sem karlmenn fóru með nánast öll völd.
Fínni konur fara ekki út að mjólka
Einn af undirmönnum abbadísarinnar var ráðsmaður sem sá um búskapinn og vinnufólk sem vann með honum því nunnurnar komu ekki að verkum úti við. Nunnurnar voru börn betri bænda sem lögðu með þeim jörð eða önnur verðmæti. Fátækar alþýðustúlkur voru í klaustrinu sem vinnustúlkur. Sagt er að þegar svarti dauði herjaði í héraðinu hafi nunnurnar orðið að fara út og mjólka kýrnar sjálfar. Er tekið fram að það hafi þær aldrei gert áður og því hafi þær varla kunnað að mjólka. Styður það hugmyndir manna um að þær hafi nýtt tímann til hannyrða og annarra verka inni við en ekki tekið þátt í veraldlegu vafstri.
Var Katrín brennd á báli?
Í skáldsögunni Eldfórnin skrifar Vilborg Davíðsdóttir um nunnurnar á Kirkjubæ. Hún rekur sögur Katrínar og þó sagan sé skáldskapur þar sem forboðin ást stýrir atburðarásinnni fáum við nasasjón af lífinu í klaustrinu og aldarfari þessara tíma
Í annálum er sagt frá þvi að Jón Sigurðsson biskup hafi komist að því að nunnan Katrín hafi lagst með leikmönnum og hallmælt páfanum í rituðu máli, ásamt fleiru, og að hann hafi kveðið upp þann dóm að hún skyldi brennd á báli. Þjóðsögur segja að nunna hafi verið brennd uppi á Systrastapa 1343 og ef það er rétt er það í fyrsta skipti sem þeirri refsingu er beitt á Íslandi. Sumar sögur segja að nunnurnar hafi verið tvær og hafi önnur nunnan hallmælt páfanum en hin hefði veðdregið sig djöflinum, misfarið með Krists líkama og snarað aftur um náðhúsdyr. Þúfur tvær uppi á Systrastapa eru leiði þessara ógæfusömu kvenna.
Sú sem forsmáði páfann fékk þó fyrirgefningu eftir siðaskiptin og grær gras á hennar leiði en hitt er ennþá ógróið. Verða menn að fara upp á stapann til að sannreyna þetta.
Klaustrið var aflagt eftir siðaskipti
Klaustrið var lagt niður á árunum 1552 til 1554 eftir tæp fjögur hundruð ár frá stofun þess. Kristján III Danakonungur lét semja kirkjuskipan fyrir Ísland þar sem tekið var fram að nunnur megi vera áfram í klaustrum og beri klausturhaldaranum að standa straum af kostnaðinum en þegar klaustrið var lagt niður voru þar sex nunnur og ein abbadís. Nunnurnar eiga að klæðast nunnubúningi, ekki endilega höfuðbúnaðinum þó, tileinka sér nýja kirkjusiði og syngja á móðurmálinu frekar en latínu. Ef þær vilja ekki vera lengur í klaustrinu er þeim heimilt að fara og giftast karlmanni ef þeirra nánustu telja það ráðlegt. Tekið er fram að í klaustrinu eigi að vera góður og vel giftur prestur til að predika guðsorð yfir systrunum [6] Ekki er vitað hversu lengi nunnur voru á Kirkjubæ. Búskapur og eignir klaustursins hafa verið miklar í gegnum tíðina. Þegar klaustrið í Kirkjubæ var aflagt átti það um 42 jarðir auk hlunninda ýmiskonar. [7] Danakonungur eignaðist þessar eignir við siðaskiptin og klausturhaldarar gættu eigna konungsins næstu aldir. Búskapur virðist alltaf hafa verið mikill á Kirkjubæ löngu eftir að klaustrið var aflagt og er þess getið í ferðabók 1813 að reisulegra hefði verið á Kirkjubæjarklaustri en nokkrum öðrum bæ í héraðinu.
Klausturhaldarar
Í Eldriti séra Jóns Steinsgrímssonar segir: Sigurður Ólafsson klausturhaldari flutti allt lauslegt úr kirkjunni og klaustrinu í óhultari staði. [8] Tók Sigurður muni úr Klaustrinu 1783? Var klaustrið uppi standandi á dögum Skaftárelda? Og ef svo var hvernig leit það út, til hvers var það nýtt og hvaða munir eru þetta sem Sigurður tekur úr klaustrinu? Hugsanlega eru þetta einhverjar leifar klausturbygginganna sem kallaðar eru klaustrið. Margar spurningar vakna en fátt er um svör. Síðasti klausturhaldarinn á Kirkjubæjarklaustri var Jón Guðmundsson alþingismaður og ritstjóri Þjóðólfs. Hann varð síðar sýslumaður Skaftfellinga en missti það embætti vegna skeleggrar framgöngu á Þjóðfundinum 1851.
Klausturrústirnar eru nærri kapellunni
Leitað var klausturrústanna á Kirkjubæjarklaustri árin 2002-2004. Grafið var við norðausturhorn kirkjugarðsins sem er hjá kapellunni en menn telja að þar hafi klaustrið staðið og heita þar Klausturhólar, stundum kallaðir Kirkjuhólar. Kom ýmislegt í ljós, þar á meðal var líkleg vefnaðarstofa og hlutir sem menn telja að hafi verið hluti af vefstólum; trjálurkar með götum, vaðmálsbútum, kljásteinum, vefskeiðar og fleira. Einnig fundust prjónar í knippi sem bendir til að nunnurnar hafi kunnað að prjóna. Ef það er rétt er það á skjön við það sem áður var talið að Íslendingar hefðu ekki farið að prjóna fyrr en á öndverðri 16. öld. [9] Fróðlegt verður að fylgjast með rannsóknum á prjónakunnáttu og sögu nunnanna á Kirkjubæ og vonandi að haldið verði áfram að grafa upp klausturrústirnar.
[1] Endurfundir. 2009. Ritstjórar Guðmundur Ólafsson og Steinunn Kristjánsdóttir. Þjóðminjasafn Íslands, Rv. s. 48-51
[2] Sigurjón Einarsson. 2004. Dynskógar 9. Dynskógar, Sögufélag Vestur-Skaftfellinga, Vík.
[3] Anna Sigurðardóttir. 1988. Allt hafði annan róm áður í páfadóm. Kvennasögusafn Íslands, Rv. s. 40-41 og 52
[4] Guðrún Ása Grímsdóttir. 1999. Heimildir í handritum um klaustrin í Skaftafellsþingi. Dynskógar 7. S. 112
[5] Steinunn Kristjánsdóttir. 2017. Leitin að klaustrunum. Klausturhald á Íslandi í fimm aldir. Sögufélagið í samstarfi við Þjóðminjasafn Íslands, Rv. S.279-280
[6] Anna Sigurðardóttir. 1988. Allt hafði annan róm áður í páfadóm. Kvennasögusafn Íslands, Rv. S. 70 -77
[7] Loftur Guttormsson. 1999. Var sögu íslensku klaustranna lokið með siðaskiptunum? Dynskógar 7, Vestur-Skaftafellssýsla. S. 161
[8] Jón Steingrímsson. 1973. Eldritið. Æfisagan og önnur rit. Helgafell, Rv. s. 360-361
[9] Kristján Mímisson og Bjarni Einarsson. 2008. Klausturlíf kvenna í Skaftárþingi. Dynskógum 11. Vestur-saftafellssýsla. s. 169-171 (Uppgreftrinum lýst mjög nákvæmlega í máli og myndum í þessari grein s. 151-177