Warning: Uninitialized string offset 0 in /var/www/virtual/eldsveitir.is/htdocs/wp-includes/post-thumbnail-template.php on line 1

Warning: Uninitialized string offset 0 in /var/www/virtual/eldsveitir.is/htdocs/wp-includes/post-thumbnail-template.php on line 1

Warning: Uninitialized string offset 0 in /var/www/virtual/eldsveitir.is/htdocs/wp-includes/class-wp-http-streams.php on line 1

Warning: Uninitialized string offset 0 in /var/www/virtual/eldsveitir.is/htdocs/wp-includes/class-wp-http-streams.php on line 1

Warning: Uninitialized string offset 0 in /var/www/virtual/eldsveitir.is/htdocs/wp-includes/rest-api/endpoints/class-wp-rest-posts-controller.php on line 1

Warning: Uninitialized string offset 0 in /var/www/virtual/eldsveitir.is/htdocs/wp-includes/rest-api/endpoints/class-wp-rest-posts-controller.php on line 1

Warning: Uninitialized string offset 0 in /var/www/virtual/eldsveitir.is/htdocs/wp-includes/rest-api/endpoints/class-wp-rest-sidebars-controller.php on line 1

Warning: Uninitialized string offset 0 in /var/www/virtual/eldsveitir.is/htdocs/wp-includes/rest-api/endpoints/class-wp-rest-sidebars-controller.php on line 1
Mannskaði á Fjallabaksleið — Sögur, menning og náttúra Skip to main content
Skaftártungasögur

Mannskaði á Fjallabaksleið

By October 18, 2019March 22nd, 2020No Comments

Fjallabaksleiðin er norðan Mýrdalsjökuls

Þeir sem farið hafa Fjallabaksleið-syðri þekkja margir frásögn af hörmulegu slysi þegar fjórir menn týndust á Fjallabaksleiðinni. Má finna minnismerki um mennina á leiðinni. Hér eru kaflar úr frásögn Pálma Hannessonar úr bókinni Hrakningar og heiðavegir. [1]

Fyrir norðan Mýrdalsjökul hefur um langan aldur legið fjallvegur milli Skaftártungu og Rangárvalla, og er hann tíðast nefndur Fjallabaksvegur syðri. Allt fram á síðasta mannsaldur áttu Skaftfellingar aðdrætti að sækja til Eyrarbakka eða vestur um Hellisheiði, og var þá vegur þessi fjölfarinn, enda er hann miklum mun skemmri en byggðaleiðin um Mýrdal og stórvötn engin til fyrirstöðu. En síðan verzlun hófst í Vík í Mýrdal, hefur vegurinn lagzt af að mestu, nema helst á haustum, því að hann liggur um afrétti Rangæinga og Skaftártungumanna.

Fjórir menn á leið til sjóróðra 1868

Haustið 1868 bjóst Þorlákur [í Gröf í Skaftártungu] til sjórróðra að venju og hugðist fara Fjallabaksveg. Með honum réðust til ferðar þrír menn aðrir, og voru þeir þessir: Jón Runólfsson, vinnumaður í Gröf, 32 ára, ókvæntur, mikill maður vexti og afrendur að afli. Árni Jónsson, er lengi bjó að Skálmarbæ í Álftaveri, en hafði verið kaupamaður í Hlíð um sumarið. Hann var 52 ára og talinn heilsuveill. Loks var Davíð Jónsson, 17 ára unglingur frá Leiðvelli í Meðallandi, og er sagt, að áður en hann færi að heiman, hafi hann skipt barnagullum sínum milli systkina sinna með þeim ummælum, að hann myndi ekki vitja þeirra aftur.

Þorlákur var sjálfur 44 ára og talinn fullhraustur maður og reyndur að harðfengi. Það er sagt, að kvöldið áður en förin var ráðin, hafi allir þessi menn hitzt að Eiríks í Hlíð, og var þar þá fyrir fleira manna. Hægviðri var á, en meðan þeir töfðu, hlóð niður mikilli fönn og hugðu menn uggvænlega horfa um ferðalag þeirra Þorláks. En hann brosti við og kvaðist eigi mundu láta slíkt aftra ferðum sínum. Féll svo talið niður.

Sunnudaginn 11. október, hálfum mánuði fyrir vetur, lögðu þeir félagar upp árla morguns. Ætluðu þeir að ná í Hvanngil um daginn og komast þangað í björtu, því að tungl var á síðasta kvartili og kvöldin dimm. Fjóra hesta höfðu þeir í ferðinni og flutning á sumum, ef ekki öllum.

Kalsarigning og krapaslitringur til fjalla

Þennan morgun er talið, að kalsarigning hafi verið í byggð í Skaftártungu, en krapaslitringur til fjalla og vindur suðlægur. Héldu þeir félagar nú frá Gröf, sem leið liggur upp Skaftártungu, en komu við í Búlandsseli, næsta bæ við fjallið. “ […]

Nú var lagt á fjallið og haldið vestur Skaftártunguheiðar, eins og leið liggur, yfir Hólmsá hjá Brytalækjum og vestur á Mælifellssand. Þegar kom fram á daginn, gekk vindur til útsuðurs, með hvössum hríðaréljum, er gerðust eftir því harðari, sem ofar dró.”Austanvert á Mælifellssandi fellur lítil kvísl suður úr jöklinum, en síðan í Hólmsá, og heitir hún Brennivínskvísl. Við kvíslina var farið af baki, og tók Þorlákur upp lítinn pela með brennivíni, sumir segja hálfpela, og sagði: “Þið sjáið það, piltar, að ekki drepur vínið okkur á fjallinu.” Drukku þeir svo allir úr pelanum. Taldi Sæmundur [fylgdarmaðurinn] fullvíst, að meira vín hefði ekki verið í förinni, fyrst Þorlákur hafði þessi orð við, er hann tók upp pelann, og sýnir þetta litla atvik að minnsta kosti, hvert álit Sæmundur hafði á ráðvendni Þorláks.

Skammt vestur frá Brennivínskvísl verður ávöl hæð á sandinum, allmikil. Nær hún allt upp að hlíðum Torfajökuls og veitir vötnum vestur og austur til Hólmsár og Markarfljóts. Nefnist hún Skiptingaralda, því Rangæingar skipta þar í leitir í fjallgöngum. Af öldunni eru tólf kílómetrar eða rúmlega tveggja stunda lestagangur vestur í Hvanngil og um tvær leiðir að velja. Liggur önnur beint vestur sandinn, og er stefnt á einstakt fell, er Stóra-Súla heitir, unz komið er á móts við Hvanngil. Þá er beygt norður Emstruá, upp að sælukofanum. Hin leiðin liggur norðan við sandinn, með hlíðum Torfajökul, yfir Kaldaklof og hæðirnar vestur þaðan, unz komið er í Hvannagilsbotn, og er þá skammt að fara suður að kofanum. Þessi leið er lengri en hin og mislendari, en þó er hún tíðast farin nú.

Hin var aftur fjölfarnari áður fyrr, þegar ferðazt var með þungar klyfjar, því að hún er skemmri og miklum mun greiðfærari, ef sandurinn er þurr. En villugjarnt er þar í dimmviðrum, því kennileiti eru engin á auðri sandsléttunni.

Þegar komið var á Skiptingaröldu, sneri Sæmundur við, og skildust þar leiðir að þessu sinni, eins og oft áður og síðan. Veður var nú tekið að vaxa og harðna, og gekk að með dimmum éljum, en þó ratljóst vel milli.

Þeir Þorlákur og félagar hans héldu áfram vestur af, og er eigi kunnugt, hvora leiðina þeir tóku, hina syðri eða nyrðri, en haft var það eftir Þorláki, “að honum væru báðar leiðir jafnkunnar”. Og þarna hverfa þeir sýnum í sortann og hina miklu óvissu.

En það er frá Sæmundi að segja, að hann hélt til baka með hestana og kom heim í aldimmu. Átti hann undan að sækja, enda fékk hann sæmilegt veður, og eigi datt honum annað í hug, en að þeir Þorlákur hefðu komizt heilu og höldnu í Hvanngil um kvöldið.

Næsta dag var sæmilegt veður í byggð þar eystra en hríðarkólga á fjöllum. Á þriðjudaginn hélzt enn svipað veður, en birti þó upp um miðjan daginn, svo að um stund sást nokkuð norður á Skaftártunguheiðar, en ískyggilegt útlit vestur til Rangárvallafréttar. Nóttina eftir gerði grimmdarveður af landnorðri, og stóð það nokkur dægur.

Hvar eru fjórmenningarnar?

Í Skaftártungu var það ekki talið efunarmál, að þeir Þorlákur hefðu náð í Hvanngil á sunnudagskvöldið, og líklegt þótti að þeir hefðu komizt vestur af á mánudag eða þriðjudag, því þá daga var sæmilegt veður austur þar. En jafnvel þó að þeir hefðu ekki haft sig áfram, átti þeim að vera óhætt í sæluhúsinu. Enginn var því uggandi að marki um ferðir þeirra, enda vissu menn Þorlák vanan í ferðalögum, úrræðagóðan og kunnugan öllum leiðum. [2]

Vestanfjalls, á Rangárvöllum og Landi, var útsynningsveður á sunnudaginn, með krapahryðjum, en um kvöldið eða næstu nótt gekk til norðurs. Næstu 3-4 daga var landnorðanhvassviðri með hreytingsfjúki og sandbyl, og sá lítt til lofts eða fjalla, en þó var lengi í minnum haft, hve ljótur hann var á austurfjöllin þau dægur, og svo var veðrið mikið að baggar þeyttust af skógarlest, sem var á ferð á Rangárvöllum.

Þeir komu ekki til byggða á Rangárvöllum

Leið svo fram á veturinn að ekkert fréttist af hvernig ferð þeirra Þorláks og félaga hafði gengið. Þegar maður úr Skaftártungu fór vestur á Rangárvelli kom í ljós að hvergi höfðu félagarnir fjórir komið þar. Var strax ákveðið að leita þeirra og fóru Rangæingar upp að vestan og Skaftártungumenn að austan. Leituðu hvorir sín megin að Hvanngili en hvergi sást tangur né tetur af mönnunum né neinu sem þeir voru með í ferðinni. Ekki sást neitt sem benti til að þeir hefðu komist í sæluhúsið í Hvanngili.

Þegar á leið leitina fannst þó ein hryssa, dauð og allslaus. Síðar fundust slitur af tveimur hestum sem, af beisli og reiðtygjum að merkja, voru úr leiðangrinum. Voru þá fundnir hestarnir, utan einn, en engin fundust líkin þrátt fyrir mikla leit á hverju sumri. Hestarnir fundust við stóra sandöldu og leit út fyrir að þeir hefðu verið bundnir og festar reiðingsdýnur á bak þeirra til að veita þeim skjól. Þóttust menn nú vita að sand hefði skafið yfir líkin og fóru margir menn þangað upp eftir með skóflur og grófu skurði í sandölduna.[3]

Höfðu útilegumenn náð þeim og drepið?

Ekkert fannst. Menn misstu alla von um að finna mennina og sögur fengu byr undir báða vængi: Mennirnir áttu að hafa gengið í lið með útilegumönnum, þá helst við Torfajökul. Þorlákur átti jafnvel að hafa verið útúrdrukkinn og því hafi mennirnir týnst, aðrir sögðu að til þeirra hefði sést bæði fyrir austan og annarsstaðar á landinu og enn aðrir fullyrtu að Þorlákur hafi sést í Reykjavík. Hann hafi talað þar við menn og tjáð þeim að hann byggi með útilegumönnum, hefði það gott og væri staddur í Reykjavík til að taka út út búð fyrir þá. Ein sagan var sú að líkin hefðu verið rænd og  síðan dysjuð. Allt voru þetta þó sögusagnir og enginn vissi hvað varð um mennina.

Líkin finnast ekki

Svipuð voru örlög Reynistaðabræðra sem urðu úti á Kili 1780 ásamt tveimur fylgdarmönnum, rúmri öld  áður en þessi  saga gerist. Vorið eftir fannst tjaldið þeirra, fjögur lík og mikið af dauðum kindum. Strax var gerður leiðangur til að sækja líkin en þegar að var komið voru aðeins tvö lík í tjaldinu, lík bræðranna voru horfin svo og ýmis verðmæti sem þeir höfðu með sér. Seinna, 1845, fundust líkin í klettaskoru og steinhella yfir en aldrei fundust verðmætin. Fylgdarmaður sem þeir höfðu fengið fyrir sunnan fannst hvergi en síðar fannst hönd hans að talið var. Vakti þetta mikinn óhug og sögur. Voru menn á fjöllum sem voru tilbúnir að ræna lík?

Tíu árum síðar fundust fjögur lík

Tíu árum eftir hvarf Þorláks og félaga voru tveir menn frá Rangárvöllum sendir að leita kinda á Mælifellssandi. Var það óvenjulegt því vel sést yfir sandinn og óþarfi að ganga þarna ef ekki sést til kinda. Félagarnir höfðu ekki gengið lengi á sandinum er þá bar að öldu nokkurri suður frá Kaldaklofi. Var þar eitthvert umrót og voru þar fundin líkin fjögur. Tvö þeirra lágu saman og brekán breitt yfir, töldu menn það leifar Árna og unga piltsins Davíðs. Hafa þeir sennilega látist fyrst og hinir veitt þeim þennan umbúnað. Um þremur föðmum norðar lá lík sem talið var af Þorláki. Hann hafði verið í vesti með silfurhnöppum og mátti greina það á staðnum. Aðeins vestar lá fjórða líkið. Var talið víst að þar væri Jón Runólfsson því það voru fótólar spenntar um leggina en það var háttur Jóns. Rangæingar fundu líkin og var afráðið að koma þeim til byggða. Tókst þá ekki betur til en svo að menn settu öll beinin í einn haug. Sárnaði Skaftfellingum það mikið en ekki varð við gert. Voru mennirnir jarðaðir í einni kistu í Ásakirkjugarði.

Þorlákur leitar til dóttur sinnar í draumi

Dóttur Þorláks dreymdi föður sinn ítrekað eftir jarðarförina og kvartaði hann undan fótkulda. Var farið aftur á líkfundarstaðinn og fundust þar fáeinir kögglar úr fótum. Voru þeir fluttir heim og dreymdi stúlkuna þá föður sinn léttan í bragði.

Aldrei fáum við að vita hvað nákvæmlega gerðist. Hvers vegna urðu þessir fjórir menn úti svo stutt frá sæluhúsinu? Þeir voru óþreyttir, á fyrsta degi ferðarinnar, með fjóra hesta og vel útbúnir á allan hátt? Var veðrið algjörlega snarvitlaust eða hvað?

Minnismerki 

Nú má sjá koparplötu með nöfnum mannanna á kletti við staðinn þar sem þeir fundust. Það var Erlingur Filippusson, grasalæknir, sem lét gera plötuna og koma henni þarna fyrir en afi Erlings var bróðir Þorláks í Gröf. [4] Eftir þetta slys lögðust af ferðir um Fjallabaksleið syðri í marga áratugi. Færðust þá ferðalög yfir á nyrði leiðina.

Útilegumenn voru hættulegir!

Í tímariti frá þessum tíma sést hvaða augum menn litu hálendið og lýsir tíðaranda sem er okkur framandi. Menn telja að útilegumenn búi á fjöllum. Þessi auglýsing í Þjóðólfi birtist áður en Þorlákur og félagar fóru þessa örlagaríku ferð. Sýnir auglýsingin þær hugmyndur sem menn höfðu um útilegumenn:

Leitum útilegumanna

Auglýst eftir mönnum til að leita útilegumanna í Landmannalaugum.

Þessi auglýsing birtist í Þjóðólfi 9. maí 1865 s. 106:

Vegna þess eg hefi heyrt svo marga Íslendínga tala um að fjallaþjófar sé til, sumir eru að hálfrífast um það í dagblöðunum, og sumir heima, en engi hefir hug eða kjark til að vita hvort þeir eru til eða ekki.

Nú býðst ég til að hjálpa þeim sem halda þeir sé til, vegna þess eg hefi séð vistir eptir þá á Landmannaafrétti, samt með því móti, eg fai með mér 60-100 manna og fái að ráða útbúningi þeirra og öllu sem þar að lýtr.

Nú bið eg alla mína landa sem halda eða vita til þeirra að láta mig vita það, því það hefði gömlu Íslendíngunum þótt skynsamlegra að fara og sjá híbýli þeirra heldr en, að vera að klifast á því fram og aptr bæði í blöðunum og heima á pöllum.

                                                                               Runólfr Runólfsson, steinhöggvari

Engum sögum fer af því hvort þessi ferð var farin og þá hvort einhverjir útilegumenn hafi náðst. Þessi auglýsing er ótrúleg í dag þegar við þeysumst um hálendið, spjöllum í símann, tökum myndir og gistum í fínum upphituðum skálum. Á þessum tímum var hálendið einskismannsland sem enginn vissi hvað hafði að geyma. Andrúmsloftið í samfélaginu var þannig að tilvera útilegumanna var möguleg. Matthías Jochumson samdi leikritið Útilegumenn árið 1861. Leikritið fjallar um líf útilegumanna þar sem Skugga-Sveinn stjórnar flokki manna sem lifa af utan guðs og manna laga, ræna sér til matar og eru á sífelldum flótta frá yfirvöldum og bændum sem vilja gera allt sem hægt er til að ná þeim. Hugmyndin um útilegumenn var raunveruleg og kannski voru útilegumenn í hópum upp til fjalla, hver veit!

[1] Pálmi Hannesson. 1950. “Mannskaðinn á Fjallabaksvegi.” Hrakningar og heiðavegir I. bindi. Bókaútgáfan Norðri, Akureyri. s. 175-187

[2] Jón Þorkelsson skrifaði frásögn af þessum atburði og þar segir að fólkið í Skaftártungunni hafi strax orðið mjög hrætt um mennina því að veðrið hafi verið afspyrnu slæmt. Fólkið vonaði samt að þeir hefðu sloppið vestur af eða beðið af sér veðrið í sæluhúsinu. s. 180  Jón Þorkelsson. 1953. “Þorlákur í Gröf og félagar hans.” Hrakningar og heiðavegir III. bindi. Pálmi Hannesson og Jón Eyþórsson völdu efnið. Bókaútgáfan Norðri, Ak. s. 178-183

[3] Í frásögn Jóns Þorkelssonar er sagt að hestarnir hafi fundist við sandölduna en í frásögn Pálma er sagt að þeir hafi fundist lengra frá og ekki verið á sama stað. Ekki minnist Pálmi á leit mannanna í sandöldunni. s. 181

[4] Franz Gíslason. 2004. Ágrip af sögu Þórunnar, Filippusar og barna þeirra. Grasaættin. Útg af ritnefnd Grasaættarinnar, Rv. s. 201

Ljósmyndirnar af fjallabaki eru frá Heiðu Guðnýju Ásgeirsdóttur, utan eina af Slysaöldu sem er frá Ingibjörgu Eiríksdóttur.