Warning: Uninitialized string offset 0 in /var/www/virtual/eldsveitir.is/htdocs/wp-includes/class-wp-term-query.php on line 1

Warning: Uninitialized string offset 0 in /var/www/virtual/eldsveitir.is/htdocs/wp-includes/class-wp-term-query.php on line 1

Warning: Uninitialized string offset 0 in /var/www/virtual/eldsveitir.is/htdocs/wp-includes/html-api/class-wp-html-tag-processor.php on line 1

Warning: Uninitialized string offset 0 in /var/www/virtual/eldsveitir.is/htdocs/wp-includes/html-api/class-wp-html-tag-processor.php on line 1
Sæmundur Hólm — Sögur, menning og náttúra Skip to main content
Meðallandsögur

Sæmundur Hólm

By October 18, 2019December 20th, 2019No Comments

Myndlistarnám í Kaupmannahafnarháskóla

Sæmundur Hólm var fyrsti Íslendingurinn til að stunda háskólanám í myndlist. Það kom á óvart að finna listmenntaðan mann sem var fæddur um miðja 18. öld. Mann sem sjaldan er nefndur á nafn en nafnið hans er þó helst þekkt af því að hann gerði landakort af sveitunum milli sanda, fyrir og eftir Skaftárelda. Hann var myndlistarmaður, kortagerðarmaður, fræðimaður, skáld og guðfræðingur. Maðurinn er Meðallendingurinn Sæmundur Hólm Magnússon. Hann fór til náms í Kaupmannahöfn og skráði sig í lögfræði, færði sig yfir í guðfræði og stundaði nám í dráttlist meðfram guðfræðinni. Honum gekk vel í myndlistinni, fékk verðlaun og góðar umsagnir kennara sinna, allnokkur kort eru til eftir hann og mikill skáldskapur liggur á handritasafni Landsbókasafnsins, misjafn að gæðum og fæst hefur komið fyrir augu almennings. Hann skrifaði fræðigreinar og skrifaði sögu Skaftáreldanna á dönsku. Sú bók var aldrei þýdd á íslensku. Hann lagði sig lítið fram við guðfræðina, fékk þar þriðju einkunn og gekk illa að fá prestsembætti á Íslandi þegar hann vildi koma heim til Íslands aftur. Var hann því 15 ár í Kaupmannahöfn.

Ævisagan

Sæmundur Hólm skrifaði ævisögu sína í stuttu máli 1789 þegar Lewetsow stiftamtmaður veitti honum loksins embætti sóknarprests á Helgafelli á Snæfellsnesi.

Hér til hliðar eru brot úr ævisögunni  í íslenzkri útleggingu eptir Pál Sveinsson skólakennara:

Jeg er fæddur árið 1749 á bænum Hólmaseli í Meðallandi í Vestur-Skaptafellssýslu, sem áður var, en nú hefur sá bær eyðst, ásamt kirkjunni, af jarðeldi, sem rann úr iðrum jarðarinnar í breiðu, löngu og háu flóði um jörðina, og er þar nú hraun eptir.

Árið 1766 var mjer veitt inntaka í Skáholtsskóla; útskrifaðist þaðan 1771 að loknu námi, 22 ára að aldri. Var svo 1 ár í föðurhúsum og síðan af háæruverðugum og hálærðum byskupi Skálholtsstiptis sro stæ theologiæ doctore Finni Jónssyni skipaður djákni á Kirkjubæjarklaustri. Er jeg hafði verið þar 2 ár fór jeg til Kaupmannahafnar 1774, til þess að ná meiri framförum í námi mínu, og lauk þar exam. Artium (inntökuprófi við háskólann) 22. des það ár og philosoficum (prófi í heimspeki)1776 og embættisprófi í guðfræði 15. janúar 1783. Jafnframt tók jeg að leggja stund á frumatriði dráttlistar frá því 20. marz 1776, og gekk í gegnum alla 4 bekki listaskólans og hlaut árið 1778 hinn fyrsta verðlaunapening og 1783 annan, ásamt öðrum meiri úr silfri sama ár og 1784 hinn stærsta verðlaunapening úr gulli fyrir gljápappírsuppfindingu og ennfremur konunglegt einkaleyfi til 10 ára til þess að búa hann til.

Skálholti 7. sept 1789 S. M. Holm [1]

Foreldrar

Magnús faðir Sæmundar var Skaftfellingur í marga ættliði og sennilega móðir hans líka en hún hét Guðleif og var frá Steig í Mýrdal. Bjuggu þau fyrst í Hólmaseli en fluttu síðan að Staðarholti í Meðallandi. Segir frá því að Guðleif hafi verið vel viti borin en hafi hagað sér á margan hátt undarlega og trúðu því sumir að hún hefði mök við álfa. Fylgdi þessa saga af móðurinni Sæmundi alla ævi og notfærðu óvinir hans sér þetta til að gera lítið úr honum og uppruna hans.

Djákni hjá Eldklerkinum

Sæmundur var aðstoðarmaður eða djákni hjá Séra Jóni Steingrímssyni á Kirkjubæjarklaustri 1772-1774 [2] og talar Jón um í Æfisögu sinni að hann sé stoltur af að hafa átt þátt í að koma Sæmundi til náms. [3] Sæmundur var fæddur nokkru fyrir Skaftárelda í Hólmaseli og þegar sveitin hans fór undir hraun er hann 34 ára námsmaður í Kaupmannahöfn. Það ár tók hann við tveimur verðlaunapeningum fyrir myndlist og þeim þriðja fyrir að finna upp sérstaka tegund pappírs sem kölluð er gljápappír. Sæmundur fékk seinna tvær medalíur í viðbót, alls fimm. Fékk Sæmundur einkaleyfi til 10 ára frá danska konunginum til að framleiða gljápappír. Af þessu tilefni yrkir Sæmundur:[4]

Um verðlaunin fyrir teikningarnar

Medalíur fimm eg fjekk

forþjent verkin standa;

teikningin til gæða gekk

gjörði eg reynslu vanda.

Um uppfinningu gljápappírsins 

Uppfinningu rækta er ráð

raun skal vitni bera.

Ríkis fjekk um lög og láð

leyfi að fabríkera.

Það var mikill heiður að fá þessar medalíur og sýnir að Sæmundur stóð sig vel í myndlistarnáminu. Hann lifði í allt öðrum heimi en foreldrar hans og ættingjar sem börðust við að lifa af í Meðallandinu. Greinilegt er þó af ljóðum og bréfum Sæmundar að hann hefur hugsað mikið heim og fylgst með Meðallandinu úr fjarlægð þegar hraunið rennur yfir æskuslóðir hans. Hann fær mörg bréf frá ættingjum sínum og skrifar hann bók um jarðeldana árið eftir að mest gekk á og teiknar kort af svæðinu fyrir eld og eftir eld. Eru þau kort flestum kunn sem fjallað hafa um Skaftárelda og þykir kortið sem sýnir landið fyrir eld sérstaklega fróðlegt. Kortið hér fyrir neðan er hluti af stærra korti af Skaftafellssýslum.

Sæmundur þekkti sveitina vel, þarna var hann alinn upp. Kortið sem sýnir hraunið og umbreytingarnar teiknar hann eftir fyrirmælum annarra og þar er margt sem ekki passar. Hann hafði ekki tækifæri til að bregða sér til Íslands og skoða ummerkin sjálfur. Bókin ber titilinn Om Jordbranden paa Island i Aaret 1783. Sveinn Pálsson læknir og náttúrufræðingur var samtímamaður Sæmundar. Hann gerir lítið úr bók Sæmundar um eldinn og segir:

…og er hún að öllu leyti byggð á fjölda skriflegra frásagna til höfundarins úr heimahögum hans, sem eldarnir mæddu á, og er það út af fyrir sig nægilegt til að geta sér til um sannfræði ritsins, því bréfin eru að mestu skrifuð af mönnum, er létu hug fallast og flýðu héraðið af ótta við eldanna og hafa því miklað allt fyrir sér í hræðslunni. [5]

Dómurinn yfir verkinu var harður og var bókin aldrei gefin út á íslensku en gefin var út þýsk þýðing bókarinnar. Dómur Sveins er margar blaðsíður og hefur birst fyrst í danskri útgáfu Ferðabókarinnar árin 1791-1797. Sæmundur hefur orðið að sitja undir skömmum Sveins og varla hefur það orðið til að bæta líf hans meðal landa sinna í Kaupmannahöfn. Handrit Sæmundar er á dönsku, varðveitt á Handritadeild Landsbókasafns Íslands fyrir þá sem vilja kynna sér hvað það er sem Meðallendingarnir sögðu um eldana í bréfum sínum til Sæmundar.

Um Skaftárelda yrkir Sæmundur:

Björgin sundur bresta,

brennur himinn og jörð,

geisar grimmdin versta,

grenjar plágan hörð,

fyrr en hindrast ágirnd óð,

til þess hjartað, sinnið, sál

svíður í vítis glóð.

Listamaðurinn Sæmundur Hólm.

Sæmundur lærði dráttlist í háskóla og er Sæmundur fyrsti Íslendingurinn sem stundar nám í listaháskóla. Hann innritaðist 20. marz 1776 og stundaði nám til 1778. Sæmundur tekur alla fjóra bekki listaháskólans. Þegar hann var í fyrsta bekk Listaháskólans var með honum piltur að nafni Bertel Thorvaldssen (1770- ) sem nú er öllum kunnur sem einn helsti myndhöggvari Danmerkur. Þennan mann vilja þó Íslendingar eiga að einhverju leyti því faðir hans Gottskálk Þorvaldsson myndskeri var íslenskur en flutti til Danmerkur ungur maður og tók upp nafnið Thorvaldssen.Gottskálk hjálpaði seinna syni sínum Bertel við að fullgera myndir því hann var góður handverksmaður. Sæmundur hafði engan stuðning og gekk ekki eins vel og Bertel að koma sér áfram.

Teikningarnar

Mannamyndir Sæmundar eru varðveittar á Þjóðminjasafninu. Þetta eru teikningar af þekktum Íslendingum, allar sporbaugslaga og vel gerðar. Ómetanlegar heimildir því ekki eru til aðrar myndir af þessum mönnum. Flestar mannamynda Sæmundar má finna í bókinni bókinni Saga Íslendinga tímabilið 1770-1830 upplýsingaröld. Þar eru myndir af Árna Þórarinssyni, Bjarna kaupmanni Sívertssen, Geir biskup Vídalín,  Oddi Hjaltalín (mjög frumleg mynd), Magnúsi Ketilssyni, Sigurði Péturssyni, Hannesi Finnssyni og Sveini Pálssyni, lækni,  þeim hinum sama sem jarðaði bókina hans og er á myndinni hér fyrir neðan.

Björn Th Björnsson fjallar um Sæmund sem fyrsta menntaða íslenska listamanninn í bók sinni Íslenzk myndlist og gefur honum góða einkunn fyrir teikningarnar. Hann segir um mannamyndirnar:

Allt eru þetta teikningar, ýmist með svörtu ritblýi eða rauðkrít, en ávallt sporbaugslagaðar, svo sem þá var mjög í tízku. Þótt erfitt sé um það að dæma nú, virðist Sæmundur hafa lagt sig mjög eftir því að gera góða og hispurslausa sviplíkingu; að öðrum kosti væru andlitsmyndirnar líkari hver annarri en raun er að og meira til þess reynt að sýna glæsilegt yfirbragð. En jafnframt þessu er teikningin sjálf víðast hvar með miklum ágætum. Myndir Árna biskups og Sveins Pálssonar læknis, en þá síðari gerði hann tæpum áratug eftirheimkonuma, 1798, eru þar einhver beztu dæmin þó allólíkar séu. Hin fyrri er ákaflega fáguð, mótunin gerð með léttum, nostursamlegum skuggum, smáatriða er mjög gætt, en þó hvergi í óhófi, þannig að dragi úr virðulegum eða samstæðum svip teikningarinnar. Mynd Sveins Pálssonar er miklu hrjúfari, sem og sjálf andlitsgerð mannsins. Hún virðist ófegruð og sannfærandi, hárið laust og strítt, treyjan opin; okkur finnst við kannast hér við þann Svein Pálsson sem lagði Kópi út í straumþunga Jökulsá í jakaburði, þegar kona í barnsnauð beið hans hinum megin, svo sem segir hjá Grími Thomsen. Báðar þessar myndir, og raunar fleiri eftir Sæmund bera vitni þjálfuðum teiknara og um leið manni sem sleikir ekki aðeins yfirborðið, heldur sýnist leita alldjúpt í skapgerð þeirra sem hann lýsi. [6]

Björn Th. gefur Sæmundi góða einkunn en telur hann ekki hafa notið sannmælis. Kom þar margt til en sögur um að hann hafi verið slarkgefinn og erfiður í samskiptum eiga sennilega við rök að styðjast og hefur honum ekki samið við rétta fólkið til að komast áfram á listabrautinni.

Myndir í ferðabók Ólafs Olavisusar

Nokkrar myndir og kort eru í Ferðabók Ólafs Olavisusar sem gefin var út í Kaupmannahöfn árið 1780. Bókin var gefin út á íslensku árið 1964, tvö bindi og eru myndir Sæmundar í seinna bindinu. Hans er ekki getið á titilsíðu en myndirnar eru merktar honum S. M. Holm en þannig merkti hann verk sín. Myndirnar Sæmund eru af ýmsu t.d. gjósandi hver sem heitir Uxahver í Reykjahverfi í Þingeyjarsýslu, hvalategundunum hámeri og háfsgot, bergmola og skeljum úr Hallbjarnarstaðakambi á Tjörnesi, mynd af því er tveir menn liggja á gólfi, hvor á móti öðrum og þæfa vaðmál inni í tunnu með fótunum og fleiru.

Kort eru eftir Sæmund af Hafnarmynninu á Siglufirði og Múlahöfn sem er sunnan undir Kollumúlafjalli á Fljótsdalshéraði og kort af Steingrímsfirði. Ekki er vitað til að Sæmundur hafi verið með í þessari för Ólafs til Íslands og því hefur hann sennilega teiknað kortin og myndirnar upp eftir fyrirmyndum annarra. Sigurður málari fullyrðir að myndirnar í náttúrusögu N. Mohrs séu líka eftir Sæmund en það er ekki alveg víst.

Teikningar varðveittar í Kaupmannahöfn

Í Konunglegu bókhlöðunni í Kaupmannahöfn má finna tvö bindi af teiknuðum myndum og skýringum eftir Sæmund sem hann kallaði Tegninger af adskillige Mærkværdigheder paa Island. Einnig fylgja teikningar grein Sæmundar um Dyrhólaey, grein hans um skýstrók og bókinni um Skaftáreldana. Það er því til nokkuð af myndum eftir Sæmund og það væri áhugavert að sjá þær myndir á sýningu eða í bók.

Kortagerðarmaður

Eitt af því sem Sæmundur lagði stund á, og hann nefnir ekki í ævisögu sinn sem birt er hér að ofan, er kortagerð. Hann var með fyrstu Íslendingunum til að leggja stund á slíkt og segir Haraldur Sigurðsson í Kortasögu Íslands:

Fyrirferðarmestur þessara kortagerðarmanna er Sæmundur Hólm. Eftir hann eru varðveittir 18 uppdrættir og vitað er um þrjá til viðbótar, sem nú eru glataðir.” (…) “Sæmundur gerði líka tvær elztu myndir, sem til eru af Reykjavík. Af þeim má ráða, hvernig byggð var háttað í verðandi höfuðborg Íslands, meðan hún var enn í reifum. [7]

Landabréfin eru af Suðurströnd Íslands Vestmannaeyjum, eitt af Grundarfirði og nágrenni en 6 kort eru af eldfjöllum og umhverfi þeirra. Kort Sæmundar eru varðveitt í Landsbókasafni en nokkur þeirra eru þó í Konungsbókhlöðunni í Kaupmannahöfn.

Skáld

Sæmundur orti mikið af kvæðum. Fæst af því hefur verið gefið út en er varðveitt á Þjóðdeild Landsbókasafnsins. Rithönd Sæmundar er afar falleg og má líka sjá skreytt kaflaheiti og upphafsstafi. Eru þessi handrit listaverk út af fyrir sig.

Mikill skáldskapur eftir Sæmund Hólm er til í handritum sem varðveitt eru á Handritadeild Landsbókasafnsins. Fyrst lítum við á Lbs 1204 4to. Þar er langur kvæðabálkur og eitt erindið um Kötlugos.

Formáli að jarðeldum

Undur yfir dundu

upp úr Kötlugjá

grátlegt var að sjá 1755.

voða með í vetur

varðaði plágan dimm

Vatnsboga loft í lagði

langt úr jörðu sá

miðmunda brátt að bragði

braust fram náttmál á,

bifaðist fold við bresti 3

þegar eldurinn æða fór

upp úr Kötlugjá.

Fræðimaður

Meðfram náminu í listaháskólanum og guðfræðinni skrifar hann nokkur rit eða greinar:

  • Topografisk skýrsla um Suðursíðu Íslands, einkum Skaptafellssýslu, er sú skýrsla til á Landsbókasafninu en hefur ekki verið gefin útSamin 1776.
  • Lýsing á Dyrhólaey og teikningar af eynni.
  • Ritkorn á dönsku um skýstrokk ásamt 5 myndaspjöldum.
  • Om jordbranden paa Island i Aaret 1783. Ásamt tveimur uppdráttum af sveitunum fyrir og eftir eld. Samið 1784 (Gefið út á þýsku: Erdbrand auf Island.)
  • „Um meltakið á vestur-parti Skaptafellssýslu”, Sæmundur var einn upphafsmanna Lærdómslistafélagsins sem stofnað var í Kaupmannahöfn 1781. Í fyrsta tölublaði þess er þessi merkilega grein um ræktun og nýtingu melsins í Meðallandinu. Þessi ritgerð var seinna birt í Sandgræslubókinni og hún er líka í bókinni Vestur-Skaftafellssýsla sem Björn O Björnsson gaf út. Þessi ritgerð gefur góða mynd af því tungumáli Sæmundar og er eina sem er aðgengilegt almenningi eftir hann. Fylgja 5 myndir sem Matthías Þórðarson segir að séu ekki eftir Sæmund en kannski eftir hans fyrirsögn.

Gæfa eða gjörvileiki

Sæmundur var mjög margt vel gefið. Hann hafði mjög gott vald á teikningu, kortagerð, að skrifa fræðilega texta og semja kvæði. Gæði þess sem hann skrifaði hafa verið misjöfn og umdeilt allt sem hann gerði. Hann var góður handverksmaður og smíðaði það sem þurfti, meðal annars tóbakspontur.

En það fer ekki alltaf saman gæfa og gjörvileiki. Líf Sæmundar í Kaupmannahöfn var eflaust enginn leikur vegna peningaleysis og allt bendir til að hann hafi verið slarksamur og lent oft í átökum við aðra en það varð hálfu verra eftir að hann flutti til Íslands þegar hann loksins fékk prestsembætti á Helgafelli á Snæfellsnesi 1789, þá fertugur að aldri. Lewetsow stiftamtmaður veitti honum embættið.

Eilíf málaferli

Sæmundur eignaðist marga óvini eftir að hann gerðist prestur á Helgafell og má sjá ágreiningsefnin í kvæðum hans. Minna kvæðin um margt á skáldskap Bólu-Hjálmars sem vandaði nágrönnum sínum og yfirvöldum í Akrahreppi ekki kveðjurnar í bundnu máli. Sæmundur stendur í eilífum illdeilum við nágranna sína og yfirmenn og málaferlin eru svo mörg að dómurum blöskrar tíminn sem fer í þennan eina mann. Ekki er hægt að átta sig á hvers vegna Sæmundi lynti svo illa við aðra en í sumum heimildum kemur fram að hann hafi verið afar sérvitur, einsýnn og þver. Einnig er víða ýjað að því að hann hafi verið drykkfelldur. En yfirvöld á þessum tíma voru líka viðkvæm fyrir gagnrýni, eins og yfirvöld allra tíma. Kannski hefur hann sagt ranga hluti á röngum stað og þess vegna lent úti í kuldanum.

Prestur

Eftir að Sæmundur varð prestur hagaði hann starfi sínu eins og honum sjálfum sýndist. Fátækum var Sæmundur afar góður og lagði sig fram um að bæta hag þeirra en hann hirti ekki um að húsvitja. Lenti hann í málaferlum út af því og svo mörgu fleiru. Séra Sæmundur var ekki við kvenmann kenndur og því lítil von á afkomendum en hann ól upp tvo pilta eftir að hann flutti að Helgafelli. Sæmundur var íþróttamaður góður og sérstaklega var hann góður sundmaður.

Sæmundur Magnússon Hólm († 5. apr. 1821)

Hví var hugvitsmaður

heimskur talinn,

og aðra elskanda

unnt af svo fáum?

Hví var hann hrekkvísra

og heimskra skotmál,

og fal að hjarta snúið

þá faðm hann bauð?

Því var Sæmundur

á sinni jarðreisu

opt í urð hrakinn

útúr götu,

því hann batt eigi

bagga sína

sömu hnútum og

samferðamenn[8]

 

Vinur í raun

Einn maður sker sig úr fjöldanum og virðist alltaf hafa staðið með Sæmundi en það er Bjarni Thorarensen. Hann hafði sjálfur lent upp á kant við yfrstétt landsins og tekur málstað Sæmundar í erfikvæði sem hann yrkir um Sæmund Hólm. Hann segir að menn hafi hver á eftir öðrum ráðist að Sæmundi og hafi þar verið um að kenna fávisku og hjarðhegðun. Sæmundur hafi alls ekki átt þetta skilið en þannig hafi öll hans verk um ævina verið nídd niður og eyðilögð. Er greinilegt að Bjarna er mikið niðri fyrir.

Þegar kvæðið er lesið veltir maður fyrir sér hvort Bjarni sé að lýsa eigin slag við yfirvöld um leið og hann segir sögu Sæmundar. Kvæðið sem er 23 erindi,  á ekki síður erindi við samtímann en samferðamenn Sæmundar. Það lýsir því sem við köllum í dag einelti. Margir leggjast saman á einn. Velja þann sem á ekki öfluga fjölskyldu né marga vini. Þann sem er hæfileikaríkur og skarar fram úr.

Rangur maður á röngum stað

Það er mörgum spurningum ósvarað um líf þessa listhneigða Skaftfellings en látum hér staðar numið að sinni. Listamaðurinn Sæmundur Hólm fæddist  í Meðallandi 136 árum áður en Kjarval sem líka fæddist í Meðallandi.  Kjarval fékk náðargáfu í vöggugjöf, hann batt ekki bagga sína sömu hnútum og samferðamennirnir frekar en Meðallendingurinn Sæmundur Hólm. En Kjarval farnast betur.

Sæmundur er fyrsti Íslendingurinn til að læra list og ruddi þar með brautina þó hann hafi ekki notið þess sjálfur nema að litlu leyti.

Allar ljósmyndir á þessari síðu eru teknar af LM á Handritadeild Landsbókasafnsins í Þjóðarbókhlöðunni þar sem mikið er til að handritum og myndum S. Hólm. Kortin tvö af Reykjavík voru fengin af vefnum Íslandiskort.is með góðfúslegu leyfi eiganda.

[1] Matthías Þórðarson. 1920. Íslenzkir listamenn. Prentsmiðjan Gutenberg, Reykjavík. s. 23

[2] Matthías Þórðarson. 1920. Íslenzkir listamenn. Prentsmiðjan Gutenberg, Reykjavík. s.10-13

[3] Jón Steingrímsson. 1973. Æfisagan og önnur rit. Helgafell, Rv. s. 74-75

[4] Júlíana Gottskálksdóttir. 2011. Íslensk listasaga. I. bindi. Ritstjóri Ólafur Kvaran. Reykjavík:Forlagið og Listasafn Íslands.

[5] Sveinn Pálsson. 1983. Ferðabók Sveins Pálssonar. II. bindi. Bókaútgáfan Örn og Örlygur, Rv. s. 571

[6] Björn Th. Björnsson. 1964. Íslenzk myndlist á 19. og 20. öld. I. bindi. Helgafell, Rv. S. 14

[7] Haraldur Sigurðsson. 1978. Kortasaga Íslands, frá lokum 16. aldar til 1848. Bókaútgáfa Menningarsjóðs og Þjóðvinafélagsins, Rv. s. 173

[8] Bjarni Thorarensen. 1935. Kvæði. Hið íslenska fræðafélag, Kaupmannahöfn. S. 102-107