Warning: Uninitialized string offset 0 in /var/www/virtual/eldsveitir.is/htdocs/wp-includes/class-wp-term-query.php on line 1

Warning: Uninitialized string offset 0 in /var/www/virtual/eldsveitir.is/htdocs/wp-includes/class-wp-term-query.php on line 1

Warning: Uninitialized string offset 0 in /var/www/virtual/eldsveitir.is/htdocs/wp-includes/html-api/class-wp-html-tag-processor.php on line 1

Warning: Uninitialized string offset 0 in /var/www/virtual/eldsveitir.is/htdocs/wp-includes/html-api/class-wp-html-tag-processor.php on line 1
Smíðaskólinn í Hólmi — Sögur, menning og náttúra Skip to main content
Landbrotsögur

Smíðaskólinn í Hólmi

By October 18, 2019February 28th, 2020No Comments

Í Hólmi í Landbroti var stofnaður fyrsti verkmenntaskólinn á Íslandi árið 1946. Smíðaskólinn var starfandi til ársins 1963. Á þeim sautján árum sem skólinn starfaði voru allir nemendur strákar. Skólastjóri var Valdimar Runólfsson, trésmiður, sem var alinn upp í Hólmi.

Valgerður Helgadóttir í Hólmi ákvað að gefa Búnaðarfélagi Íslands jörðina eftir að maður hennar Bjarni Runólfsson féll frá. Búnaðarfélagið samþykkti að kaupa húsin og eignaðist jörðina. Hugmyndin var að byggja upp skóla eða starfsemi sem gæti haldið áfram starfi Bjarna að virkja sveitir landsins. Leitað var að manni til að byggja upp starfsemina og kom þá Valdimar Runólfsson austur og tók við í Hólmi.

Valdimar Runólfsson trésmíðameistari var skólastjórinn öll árin og aðalkennarinn. Valdimar var bróðir Bjarna, og voru eiginkonur þeirra systur, frá Þykkavbæ í Landbroti. Fluttu Valdimar og Rannveig Helgadóttir  austur að Hólmi en þau höfðu verið búsett í Reykjavík. Var ákveðið að heppilegast væri að stofna smíðaskóla í Hólmi. Smíðaskólinn tók til starfa í ársbyrjun 1946. Í smíðaskólanum gátu verið 6-8 nemendur við nám í einu. Nemendur unnu við smíðar sjö stundir á dag og bóklegt nám var fjórar stundir á viku. Námið tók sex mánuði og komu ungir menn alls staðar að af landinu. Smíðaskólinn starfaði fram á sjöunda áratuginn en var þá lagður niður. Alls stunduðu tæplega 60 nemendur nám við skólann þann tíma sem hann starfaði.[1]

Einar Bárðarson (1926) sem lengi stýrði byggingarfyrirtækinu Hag á Klaustri var einn þeirra fyrstu sem stundaði nám í Hólmi. Hann lýsir komu sinni að Hólmi með þessum orðum:

Þegar að Hólmi kom var komið kvöld og mikil undur fannst okkur aðkomumönnum öll ljósin úti og inni. Öll þessi mikla birta. Það var hægt að ganga um hlaðið eins og um hádag væri. Það leyndi sér ekki að við vorum komnir á stað sem skaraði fram úr með rafvæðingu.[…] Á neðstu hæð skólahússins hafði Valdimar áður komið fyrir trésmíðavélum, stórri hjólsög, fremur litlum heflum til afréttingar og þykktarheflunar, bandsög og hulsuborvél. Þetta hefur verið mikið verk og vandsamt því aðeins einn stór mótor snéri öxli sem lá í rauf eftir endilöngu gólfinu og frá honum voru allar vélarnar drifnar og þurfti að taka reimar af og setja þær á eftir því hvaða vél átti að snúast hverju sinni en líka gátu þær gengið allar í einu.[2]

Rafmagnið var nýtt til allra hluta og Valdimar var laginn að lagfæra vélar og annað sem þurfti fyrir smíðaskólann. Hann hafði víðtæka reynslu af húsa- og húsgagnasmíði. Hann valdi verðug verkefni fyrir nemendur þennan fyrsta vetur. Fyrst smíða þeir rennibekki, rúm, borð og skóla fyrir skólann. Og í lok þessa fyrsta skólaárs byggðu nemendur hús fyrir bóndann í Hæðargarði. Þegar þurfti að smíða úr járni beið smiðja Bjarna fullbúin. Greinilegt er að Valdimar hefur ekki síður verið verklaginn en Bjarni og hann virðist hafa verið vinsæll meðal nemandanna.

Íbúðarhúsið, verkstæðið og skólahúsnæðið stendur enn í Hólmi. Verkstæði Bjarna er með öllum vélum og verkfærum, skólahúsnæðið eins og það var og allt annað er á sínum stað. Litlar breytingar hafa orðið frá því sem var þegar Smíðaskólinn lagðist af. Vonandi tekst í framtíðinni að gera húsin upp og segja sögu þess sem þarna var þegar Bjarni og Valgerður stýrðu búi og úr smiðjunni komu vélarnar sem gáfu fólki ljós og yl og ekki síður sögu skólahaldsins sem Valdimar og Rannveig stýrðu.

[1] Gísli Brynjólfsson. 1983. Smíðaskólinn í Hólmi. Fyrsti verknámsskólinn. Dynskógar 2. V-Skaft., Vík S. 124-125

[2] Einar Bárðarson. 2001. Smíðaskólinn í Hólmi, og ferðalag þangað á fimmta áratug aldarinnar. Dynskógar 8. Vestur-Skaftafellssýslu, Vík. S. 227