Skip to main content
Kirkjubæjarklaustursögur

Sr. Jón Steingrímsson

By October 18, 2019April 4th, 2020No Comments

Hvaðan kom hann og hver var hann þessi magnaði séra Jón Steingrímsson sem skráði sögu eldanna og stöðvaði för hraunsins þegar það stefndi yfir kirkjustaðinn Kirkjubæjarklaustur?

Skagfirðingur sem flutti í Mýrdalinn

Jón Steingrímsson fæddist í Skagafirði 1728 og ólst þar upp. Hann missti föður sinn ungur en komst þrátt fyrir það til náms í Hólaskóla með góðra manna hjálp. Eftir námið varð hann djákni að Reynistað. Klausturhaldarinn á Reynistað lést og tók Jón saman við ekkjuna Þórunni Hannesdóttur Scheving (1718-1784). Var ýjað að því að lát fyrri mannsins hennar hefði verið grunsamlegt og Jóni kennt um. Féll dómur í því máli á Þingvöllum og voru Jón Steingrímsson og Þórunn þar fullkomlega hreinsuð af rætnum sögusögnum. Hitt sannaðist fljótlega að Jón var Þórunni meira en traustur vinur því þau eignuðust saman barnfuglinn Sigríði áður en í hjónaband var komið. Hentaði það ekki vel prestsefni og og breytti engu þó að þau giftust 1753. Missti Jón réttinn til að verða prestur vegna lauslætisins.

Þessar aðstæður hafa örugglega ýtt undir að Jón og Þórunn kusu heldur að flytja á Suðurlandið en sitja undir kjaftaganginum fyrir norðan. Þórunn var efnuð kona og hún, eða börn hennar af fyrra hjónabandi, áttu jarðirnar Reyni og Dyrhóla í Mýrdal. Ákveða hjónin að flytjast suður eftir að Jón hafði árangurslaust reynt að finna góðan stað til búsetu fyrir norðan. Fór Jón á undan,  með bróður sínum, og bjuggu þeir í helli á bænum Hellum í Mýrdal meðan húsum var komið í lag.[1]

Þennan vetur, 1755, gaus Katla og var það allstórt gos, fylgdist Jón með því af áhuga og punktaði hjá sér ýmislegt. Þórunn kom svo síðar með þrjú börn af fyrra hjónabandi, þau Jón, Karitas og Vigfús sem öll báru ættarnafnið Scheving, barnfuglinn Sigríði og Jórunni sem Þórunn var ófrísk að þegar Jón fór suður. Fjölskyldan bjó á Hellum í nokkur ár en 1761 tók Jón prestsvígslu í Skálholti. Greinilega hefur þá verið liðinn sá tími sem þótti hæfilegt straff fyrir lauslætið.

Sr. Jóni samdi rétt mátulega við Mýrdælinga

Jón vígðist að Felli í Mýrdal þar sem hann var prestur í 17 ár. Prófastur var séra Jón skipaður 1774 yfir Vestur-Skaftafellssýslu og síðar báðum Skaftafellssýslunum.

Jón var bóndi meðfram prestsverkum alla sína ævi. Hann virðist hafa verið framkvæmdamaður og vann að miklum umbótum á jörðinni Felli. Var sérstaklega til þess tekið hversu óeigingjarnt starf hans var því jörðin var eign konungs. Jón lærði lækningar að því er virðist af bókum og með aðstoð vinar síns Bjarna Pálssonar, landlæknis. Hann tók oft fólk inn á heimili sitt til að lækna það eða fór til fólks sem þurfti á aðstoð hans að halda. Hann virðist hafa kunnað vel til verka og nýtti sér gjafir náttúrunnar en verkfæri og meðöl fékk hann hjá Bjarna vini sínum. Svo þekktur varð Jón fyrir lækningar að hann var sóttur til að vitja sjúklinga í alla Vestur-Skaftafellssýslu, Rangárvallasýslu og jafnvel lengra.

Fyrir þau störf og önnur mannúðarverk, ásamt umbótunum á jörðinni Felli, fékk Jón medalíu frá Christian 7, konungi Danmerkur. Með þeirri upphefð fylgdi að Jón fékk ríkisborgararétt í Danmörku og leyfi til að embætta þar.[2] Þarna hefði hann haft útgönguleið þegar hörmungarnar voru sem mestar í Skaftafellssýslu en hann nefnir það aldrei í ævisögu sinni.

Það fór á margan hátt vel um fjölskylduna á Felli en Sr. Jón ákveður þó að flytja sig um set þegar Kirkjubæjarklaustursprestakall losnar árið 1778. Eftir langa umþenking og bæn til guðs réði ég það af að sækja um það.[3]

Hann hefur þá áður lent í margvíslegum deilum við Mýrdælinga sem hann skýrir vel í ævisögunni og eru flestar til orðnar af illum hvötum Mýrdælinga eins og hann segir sjálfur: Áður en ég öðlaðist áðurnefnda kongsnáð og æruskenk, hlaut ég margt og mikið að líða af vondum og öfundssjúkum mönnum; því þess framar sem guð blessaði mig og stóð með mér í öllu, þess meir ólmuðust þeir að sverta mig og gert mér allt til meins, svo segjast mætti, ég yrði þar í Mýrdalnum fyrir þeim verstu og fólskustu mönnum er þar voru til á þeirri tíð. Rekur hann svo nákvæmlega deilurnar og vandar mönnum ekki kveðjurnar.

Á Prestsbakka leið þeim hjónum vel

Flutningurinn að Prestbakka varð Sr. Jóni og sveitungum hans til gæfu. Hann lýsir fólkinu: Hér var fólk langtum hreinlyndara og umgengilegra en þar í Mýrdalnum, greiðviknara við prest sinn og riktugt í öllum skyldum, að fráteknum einum.[4] og þó margt megi segja um Sr. Jón þá reyndist hann fólkinu vel þegar Skaftáreldar brunnu. Hann yfirgaf ekki sveitina! Það gerðu hinir prestarnir þegar verstu hörmungarnar gengu yfir. Þekktastur er Sr. Jón fyrir að hafa með áhrifaríkri bænargjörð í kirkjunni á Kirkjubæjarklaustri stöðvað framrás Skaftáreldahraunsins vestan við Systrastapa svo jörðin á Kirkjubæjarklaustri slapp alveg við skemmdir. Fékk Jón af þessu viðurnefnið eldklerkur og eldmessan er frægur viðburður og má sjá frásögn af aðdraganda hennar og framgangi gossins í kaflanum um Skaftárelda sem vísað er til hér fyrir ofan. Eldmessan var 20. júlí og hafa prestar á Klaustri minnst þessa atburðar æ síðan.

Sr. Jón flutti eldmessuna í gömlu kirkjunni á Klaustri og er líkan af henni í Minningarkapellunni. (Photo LM)

Sr. Jón nýtir lækniskunnáttu sína til að hjálpa fólki að nýta náttúruna til að bæta heilsu sína eftir langvarandi eiturloftið, mengað vatn og matarskort. Hann ferðast um héraðið og fylgist með því sem er að gerast og hann virðist hafa reynt að liðsinna öllum sem hann gat. Er meðal annars sagt frá selveiði í Skaftárósi stuttu eftir eld sem Jón stjórnar og leggur til bátinn og veiðarfærin en veiðinni skiptir hann á milli þeirra sem mest þurftu á að halda. Má nærri geta hvað selsafurðir hafa verið mikils virði fyrir glorhungað fólkið þar sem eitur úr öskunni var í öllum mat á landi.

Sr. Jón sá að árnar Holtsá og Fjaðrá höfðu brotist fram hraunið á sama tíma og hann messaði í kirkjunni á Kirkjubæjarklaustri. Vatnið kældi hraunið og það stoppaði rétt áður en það kom að Systrastapa. Hér sést Holtsá í minni Holtsdals til hægri og jökullituð Skaftáin sem kemur með hlíðinni. Skaftáreldahraunið til vinstri. (Ljósm. LM)

Þórunn og dæturnar

Þórunn Hannesdóttir Scheving styður við bakið á manni sínum alla tíð og hælir hann henni á alla lund. Hann segir frá því er hún var unglingur og stjúpfaðir hennar var svo dolfallinn yfir greind hennar og athyglisgáfu að hann stundi: “Ó hvað gekk guði til þess að þú Þórunn varðst ekki drengur. Þú nemur allt og manst allt.[5] Þórunn er 60 ára þegar þau flytja að Prestbakka, prestsetrið sem fylgdi Kirkjubæjarklaustursprestakalli. Hún stýrir stóru heimili og hún hlýtur að hafa stjórnað bæði úti og inni því Jón var mikið á ferðalögum, ýmist sem prestur eða læknir. Þegar eldarnir geisa bauð Jón mörgu fólki að Prestbakka þegar það missti heimili sitt og hefur það væntanlega lent á herðum húsmóðurinnar að sinna öllu saman. Jón talar afar fallega um konu sína og virðist hjónaband þeirra hafa verið farsælt. Þau eignuðust fimm dætur en fyrir átti Þórunn þrjú börn eins og áður sagði.

Margir Íslendingar geta rakið ættir sínar til þeirra hjóna og fleiri til Þórunnar eins og gefur að skilja. Dætur Sr. Jóns og Þórunnar hétu: Sigríður f. 1753, Jórunn f. 1755 (eignaðist ekki börn), Guðný f. 1757, Katrín f. 1761 og Helga f. 1762. Dæturnar giftust allar prestum. Börn Þórunnar og Jóns Vigfússonar klausturhaldara hétu: Jón, Vigfús og Karitas sem fæddist eftir lát föður síns og báru öll ættarnafn móður sinnar Scheving.

Þórunn og 75 aðrir létust á einu ári

Dimmasta vetur lífsins segir Jón hafa verið þann vetur er eiginkonan lést, 1784. Þá hefur ástandið í sveitinni verið hræðilegt og dauðinn nálægur alla daga. Það létust 76 manneskjur í sókn Jóns þennan vetur og það var aðeins til einn hestur til að koma líkunum til kirkju. Jón er ánægður með að það tókst að smíða kistur utan um alla en viðurkennir að stundum varð að láta 6, 8 eða 10 kistur í sömu gröfina og eru þær grafir í suðvesturhorni gamla kirkjugarðsins á Klaustri. Eru fá dæmi önnur um fjöldagrafir á Íslandi. Nokkrir voru grafnir í aflögðum kirkjugarði á Hörgslandi því ekki var mannskapur til að koma þeim út að Klaustri. En Jón aftekur að nokkur hafi verið grafinn utan kirkjugarðs en greinilega hafa gengið einhverjar sögur um það.[6] Það hefur þurft sterk bein til að lifa af og halda áfram við þessar aðstæður. En Jón gefst ekki upp. Hann býr áfram og reynir að gera það sem hann getur til að aðstoða fólkið í kringum sig af veikum mætti. Og guð er þeim líka “náðugur” Skaftfellingum; það strandar skip í Meðallandi og þar var hægt að kaupa mjöl viðbit, hamp, járn og fleira!

Sr. Jón fór að sækja peninga

Séra Jón fór gangandi suður til Bessastaða þegar hann frétti af söfnun fyrir fólkið í eldsveitunum og var fenginn til að flytja peninga til Lýðs Guðmundssonar sýslumanns í Vík sem átti að útdeila þeim. Jón freistast til þess á leiðinni að rétta sveitungum sínum sem voru að kaupa fé í Rangárvallasýslu hluta af peningunum. Fyrir það er hann víttur harðlega og verður af heilmikil rimma sem endar með því að Jón verður að greiða sekt og biðjast afsökunar.

Eymdin eftir eldana og önnur eiginkona

Árin eftir Skaftárelda eru öllum þungbær í eldsveitunum. Margir eru dánir, aðrir fluttir, jörðin skemmd, vatnið eitrað, skepnur fáar, vonleysi mikið. Í eymd sinni dettur Sr. Jóni í hug að líf hans verði betra fái hann aðra eiginkonu. Eftir mikið þras, vegna þess að hann fékk ekki þá stúlku sem hann vildi, fær hann prestsdóttur frá Stafholti í Mýrasýslu. Hún hét Margrét Sigurðardóttir (f. 1757) og var þrítug þegar þau giftust en Jón nær sextugu.

Margrét og Jón eiga saman fjögur ár en þá lést Sr. Jón haustið 1791. Það sama ár lést dóttir Jóns, Jórunn. Hún hafði gifst séra Þórði Brynjólfssyni sem endurbyggði prestsetrið á Kálfafelli eftir eld. Þau Sr. Þórður og Margrét, ekkja Jóns, studdu hvort annað í sorginni og giftu sig síðar eftir að hafa fengið til þess konungsleyfi því mágsemdir voru miklar; Þórður var áður stjúptengdasonur Margrétar.[7]

Ævisagan er einstök í bókmenntasögunni

Sagan af því er Sr. Jón Steingrímsson, eldprestur, messar í litlu kirkjunni á Kirkjubæjarklaustri og hraunið stöðvast hefur haldið nafni hans á lofti og lifað sem kraftaverkasaga í einum hryllilegustu náttúruhamförum sem orðið hafa á Íslandi. Þessa sögu þekkja flestir en færri hafa lesið alla ævisöguna en hún er mikilvæg í íslenskum bókmenntum ekki síður er hún náttúrufræðirit, sagnfræðirit og góð lýsing á trúarhugmyndum aldarinnar. Matthías Viðar Sæmundsson skrifar kafla um ævisöguna í íslenskri bókmenntasögu. Þar segir hann meðal annars:

 

Séra Jón lýsir freistingum sínum á svo opinskáan hátt að einsdæmi er í bókmenntum 18. aldar; hugartruflun, kynórar og sjálfsvígsþankar tilheyrðu því sem ekki mátti segja frá um þær mundir. Þrátt fyrir það er frásögn hans felld að hefðbundnu táknmáli sem snýst um krossfestingu, niðurstigningu og upprisu; píslarvætti Jesú Krists er eftir sem áður viðmiðun og fyrirmynd. Séra Jóni tekst að rísa upp úr víti sínu minnugur þess að mótlætið er prófraun samkvæmt bókinni, að manneskjan réttlætist fyrir trú sína. Það sem skiptir öllu máli er að sýna þolgæði í þrautunum. Séra Jón bregst við næsta vonlausum aðstæðum með því að gefa sig trúnni á vald og hafna löngunum, skynsemi og vilja. [8]

Séra Jón er flókinn persónuleiki sem lifir tímana tvenna og það er hægt að lesa margt út úr ævisögunni um þennan tíma í Íslandssögunni.

Það átti að henda handritinu!

En það að Sr. Jón skyldi rita ævisögu og að hún skuli hafa varðveist er hálfgert kraftaverk líka. Ævisöguna varðveittu dætur Jóns eftir hans dag. Ein þeirra samþykkti að lána frænda sínum, Steingrími Jónssyni biskup í Reykjavík, systursyni Jóns, bókina til aflestrar með því fororði að hann fargaði henni að lestri loknum. Sagan segir frá ýmsu persónulegu úr lífi Jóns sem þær systur töldu greinilega að ætti ekki erindi út fyrir fjölskylduna. Biskupinn gerði ekki eins og hann var beðinn heldur varðveitti handritið og rúmri öld eftir að hún var skrifuð kom hún út í fyrsta sinn í heilu lagi árin 1913-1916 en um aldamótin voru birtir kaflar úr henni í tímaritinu Fjallkonunni.[9]

Ævisagan er mjög fróðlegt rit um líf fólks og hugsunarhátt á 18. öldinni og ekki síður er fróðlegt að lesa 200 ára gamlan texta. Orðfæri er sérkennilegt á okkar tíma mælikvarða en textinn samt auðlæsilegur. Sr. Jón bjó á Íslandi alla sína ævi, fór aldrei til Kaupmannahafnar til náms og umgekkst lítið embættismenn á Íslandi. Málfar hans er því íslenska þessarar aldar án allra dönskuáhrifa sem voru algeng á þessum tíma og bókin því góð heimild um íslenskt mál.

Önnur ritstörf Sr. Jóns

Ritstörf voru Jóni hugleikin. Hann skrifar rit um læknisráð og hollustuhætti; “Lækningar eftir stafrófinu” og hann skrifaði ritgerð um sjómennsku sem hann kallaði “Um að ýta og lenda í brimsjó fyrir söndum.” Jón var formaður á skipi í Mýrdalnum meðan hann bjó þar og var farsæll á sjó, missti aldrei mann. Hann vill greinilega kenna fleirum kúnstina að lenda bát við Suðurströndina en þarna hafa orðið mörg sjóslys. Samantekt um Kötlugosin ”Kötlugjá” skrifar hann meðan hann er enn í Mýrdalnum.[10] Þegar tekur að gjósa í Lakagígum sendir hann; “Lítið ágrip um nýja eldsuppkomu í vestaraparti Skaftafellssýslu og þess verkanir sem framkomnar eru” til Kaupmannahafnar.

Undir það skrifa tveir hreppstjórar í eldsveitunum til að staðfesta frásögnina. Sr. Jón er sá eini sem er staddur á vettvangi og sendir skýrslur til Danmerkur um ástandið í sveitunum austan Mýrdalssands þegar gosið byrjar. Hans bréf er dagsett 4. júlí 1783 og nær til Danmerkur um sumarið. [11] Það að Sr. Jón skyldi setjast niður og skrá hjá sér framgang gossins og athugasemdir um veður, öskufall, hraunrennsli, mannlífið og allt sem var að gerast gefur okkur sýn inn í líf fólksins sem upplifði Skaftárelda. Rit það sem oftast er kallað Eldritið eða Fullkomið rit um Síðueld er ómetanleg heimild um þetta mikla eldgos og framgang þess.

Varnarrit Sr. Jóns er okkar fjársjóður í dag

Sr. Jóni hefur verið margt til lista lagt og hann hefur komið mörgu áleiðis á sinni ævi. Hann fæðist almúgafólki, missir föður sinn ungur, kemst til mennta fyrir tilstilli góðra manna og ölmusustyrk, giftist efnaðri ekkju með þrjú börn, verður prestur og prófastur. Hann eignast margt og upplifir líka mikinn missi en þráast áfram. Gafst ekki upp. Ævisagan er hans leið til að skrifa sig frá sorginni og óhugnaðinum. Hann byrjar hana þó sem varnarrit. Hann rakst illa í hópi og fór sínu fram sem gerði það að verkum að hann eignaðist auðveldlega óvildarmenn. Ævisagan er svar hans við ásökunum samtímamanna hans og kannski ættum við að þakka þeim ótugtarskapinn því án þeirra hefði engin ævisaga verið rituð.

Gerð hefur verið stuttmynd um Skaftáreldana sem nefnist Eldmessan. Myndina má sjá á netinu fyrir sanngjarnt verð. Smellið hér

Þórunn Scheving og Sr. Jón Steingrímsson hvíla í gamla kirkjugarðinum á Kirkjubæjarklaustri. Krossinn sýnir hvar gamla kirkjan var. Inni í Minningarkapellunni er líkan af kirkjunni sem Einar Bárðarson, húsasmíðameistari, smíðaði. (Ljósm. IH)

[1] Ófeigur Sigurðsson. 2010. Skáldsaga um Jón & hans rituðu bréf til barnshafandi konu sinnar þá hann dvaldi í helli yfir vetur & undirbjó komu hennar & nýrra tíma. Mál og menning, Rv. Í þessari bók segir frá dvöl Jóns og bróður hans í hellinum.

[2] Einar Laxness. 1985. “Á 200 ára afmæli Skaftárelda.” Dynskógar 3. Vestur-Skaftafellssýsla, Vík. s. 101 Þetta er líka í grein í Læknablaðinu og þar er bein tilvitnun í greinargerðina sem fylgdi verðlaununum. Örn Bjarnason. 2006. “Síra Jón Steingrímsson – líf hans og lækningar.” Læknablaðið 12. tbl. 92. árg. Desember 2006 s. 891

[3] Jón Steingrímsson. 1973. Æfisagan og önnur rit. Helgafell, Rv.    s. 189

[4] Jón Steingrímsson. 1973. Æfisagan og önnur rit. Helgafell, Rv. s. 189

[5] Jón Steingrímsson. 1973. Æfisagan og önnur rit. Helgafell, Rv. s. 249

[6] Jón Steingrímsson. 1973. Æfisagan og önnur rit. Helgafell, Rv. s. 381

[7] Gísli Gunnarsson. 2002. „Börn síns tíma.“ Skírnir 176. haust s. 308

[8] Matthías Viðar Sæmundsson. 1996. „Sjálfsævisaga klerksins.“ Íslensk bókmenntasaga III. bindi. Mál og menning, Rv. s. 132

[9] Einar Laxness. 1985. „ Á 200 ára afmæli Skaftárelda.“ Dynskógar 3. Vestur-Skaftafellssýsla, Vík s. 97

[10] Jón Steingrímsson. 1973. Æfisagan og önnur rit. Kristján Albertsson ritaði formála. Helgafell, Rv. s. 18-19 Báðar þessar ritgerðir er að finna í þessari útgáfu Æfisögunnar en Lækningar eftir stafrófinu er varðveitt á Þjóðdeild Landsbókasafns Íslands JS 647 4to.

[11] Skaftáreldar 1783-1784. 1984. Mál og menning, Rv. s. 272