Warning: Uninitialized string offset 0 in /var/www/virtual/eldsveitir.is/htdocs/wp-includes/class-wp-term-query.php on line 1

Warning: Uninitialized string offset 0 in /var/www/virtual/eldsveitir.is/htdocs/wp-includes/class-wp-term-query.php on line 1

Warning: Uninitialized string offset 0 in /var/www/virtual/eldsveitir.is/htdocs/wp-includes/html-api/class-wp-html-tag-processor.php on line 1

Warning: Uninitialized string offset 0 in /var/www/virtual/eldsveitir.is/htdocs/wp-includes/html-api/class-wp-html-tag-processor.php on line 1
Bænhúsið á Núpsstað — Sögur, menning og náttúra Skip to main content
Síða og Fljótshverfisögur

Bænhúsið á Núpsstað

By January 5, 2020March 27th, 2020No Comments

Bænhúsið á Núpstað er með elstu húsum á Íslandi.

Bænhúsið á sér langa sögu sem rakin er í grein Gísla Gestssonar í árbók Fornleifafélagsins. Hann telur hafa verið kirkju á Núpsstað um 1200 en elsti máldagi kirkjunnar sé frá 1340. Þar segir: “Nikulásskirkja að Lómagnúpi á tvo hluti í heimalandi, 3 kýr, 50 ásauðar og 4 geldær, naut tvæætt, hundraðshest og 10 aura”. (1) Síðan eru taldar upp fleiri eignir kirkjunnar, kirkjumunir, skrúði, innanstokksmunir á heimilinu og fleira. Eitt af því sem talið er upp er bænhús að Raufarbergi (sem hlýtur að vera Rauðaberg) og að þar skuli vera prestur og djákni. Kemur þetta nútímafólki spánskt fyrir sjónir þar sem nú er byggð á þessu svæði þannig að ekki þarf margar kirkjur til að þjóna þeim sem þarna búa.

Kirkjan hefur verið endurbyggð 1657 en öld síðar er hún lögð niður með konungsbréfi og sóknin lögð undir Kálfafell. Kirkjan sjálf hefur þó staðið áfram og hún er þarna þegar Sr. Jón Steingrímsson gegnir embætti sóknarprests árið 1783 og það er ljóst að hann hefur messað í kirkjunni. Þegar kirkja hefur verið aflögð sem sóknarkirkjua hefur þessi kirkja sennilega verið nefnd bænhús. Sr. Jón Steingrímsson segir frá því í bréfi að þegar hraun fór að renna austur í Fljótshverfi hafi hann farið austur að Núpsstað til að bjarga öllu úr kirkjunni og þar hafi hann tekið Núpsstaðarfólkið til altaris og embættað áður en hann fór vestur aftur með skrúðann úr kirkjunni, bækur, peninga og fleira.

Klukkurnar gat hann ekki tekið með sér og bað hann því Hannes á Núpsstað að gæta þeirra. Sr. Jón ætlar sér að koma aftur og messa í kirkjunni og er á honum að skilja að hann líti á kirkjuna sem sóknarkirkju. Bændur á Núpsstað keyptu kirkjuna 1840 og hefur hún síðan verið í eigu Núpsstaðarbænda en þar hefur sama ættin búið lengi. Bændur nýttu kirkjuna sem skemmu og heimildir eru fyrir því að þar hafi verið búið um ferðamenn og árið 1879-1880 fékk Einar sýslumaður Thorlacius húsið á leigu og bjó þar. (2)

Lómagnúpur setur mikinn svip á umhverfið. (Ljósm. JSen)
Núpsstaður var áningarstaður þeirra sem fóru yfir Skeiðarársand. (Ljósm. JSen)

Bænhúsið var tekið á fornminjaskrá 1961

Húsinu hefur verið haldið við í gegnum tíðina en 1958 tók Þjóðminjasafnið að sér að sjá um endurbætur og viðhald kirkjunnar og var bænhúsið tekið á fornminjaskrá árið 1961 en húsið hafði áður verið friðlýst 1930. Hannes Jónsson (landpóstur) og fjölskyldan á Núpsstað lagði til mikla vinnu og aðra fyrirgreiðslu við endurgerð kirkjunnar og sýndi það vel hug Núpsstaðarfjölskyldunnar til þessarar litlu kirkju. Hannes sá bæði um hleðslu veggja og vann við hellulögnina í gólfið en smiður var Sigurjón Magnússon frá Hvammi undir Eyjafjöllum. (3)

Kirkjugaður er við bænhúsið og hvíla þar margir þeirra sem búið hafa á Núpsstað. Þar fannst legsteinn með rúnaletri en þegar átti að rannsaka steininn fannst hann ekki aftur. Síðar fann Hannes steininn í bænhúsveggnum og er hann nú varðveittur á Þjóðminjasafninu. Á honum stendur með rúnaletri: Hér hvílir Björn. Veit enginn hver sá Björn var. (4)  Er þetta merkur fundur því ekki er svo margt til skrifað með rúnaletri á Íslandi.

Bæjarstæðið á Núpsstað. Því miður hefur ekki tekist að hafa gæslumann á Núpsstað og þess vegna er ekki opið þangað heim. (Ljósm. LM)

Messað er á Núpsstað sunnudaginn í verslunarmannahelgi

Að lokinni endurbyggingu bænhússins haustið 1961 messaði prófasturinn í V-Skaftafellssýslu, séra Gísli Brynjólfsson. Reyndist bænhúsið taka 30-40 manns í sæti. Þeirri hefð hefur við fylgt síðustu ár að messað er á Núpsstað einu sinni á ári, sunnudaginn í Verslunarmannahelgi.

Þessi mynd er tekin sumarið 2018 við messu í bænhúsinu. T. v. er Lárus Siggeirsson sem var lengi sá maður sem ferjaði fólk yfir Skeiðarársand og t.h. er Hannes Jónsson sem er eigandi Núpsstaðarins, 9. ættliður þeirrar ættar sem hefur átt Núpstaðinn frá árinu 1720. (Ljósm. LM)

Myndin efst á síðunni er tekin af Jóni Sen

  1. Gísli Gestsson. 1961. Árbók hins íslenska fornleifafélags. Rv. s. 63.
  2. Gísli Gestsson. 1961. Árbók hins íslenska fornleifafélags. Rv. s. 61-73
  3. Gísli Gestsson. 1961. Árbók hins íslenska fornleifafélags. Rv. s. 77-78
  4. Gísli Gestsson. 1961. Árbók hins íslenska fornleifafélags. Rv. s. 80