Warning: Uninitialized string offset 0 in /var/www/virtual/eldsveitir.is/htdocs/wp-includes/class-wp-term-query.php on line 1

Warning: Uninitialized string offset 0 in /var/www/virtual/eldsveitir.is/htdocs/wp-includes/class-wp-term-query.php on line 1

Warning: Uninitialized string offset 0 in /var/www/virtual/eldsveitir.is/htdocs/wp-includes/html-api/class-wp-html-tag-processor.php on line 1

Warning: Uninitialized string offset 0 in /var/www/virtual/eldsveitir.is/htdocs/wp-includes/html-api/class-wp-html-tag-processor.php on line 1
Bjarnargarður í Landbroti — Sögur, menning og náttúra Skip to main content
Landbrotsögur

Bjarnargarður í Landbroti

By January 6, 2020February 28th, 2020No Comments
Á kortinu hér að ofan sem Sæmundur Hólm teiknar af Suðurströnd Íslands má sjá Skjaldbreið austan Skaftár. (Ljósm. LM)

Hlaðinn túngarður frá því um 1200

Bjarnargarður í Landbroti er einn þeirra fornu garða sem varðveist hafa frá þjóðveldistímanum. Hann er myndarlegt mannvirki en talsvert af honum er horfið vegna ræktunar og vegagerðar. Heillegustu hlutar hans hafa verið varðveittir skv. lögum um fornminjar. Garðurinn var hlaðinn til að bændur í Skjaldbreið gætu beitt kindum sínum vestan Landbrotsbæjanna.

Meðal fornra mannvirkja sem varðveist hafa hér á landi eru leifar af túngörðum. Þetta eru torfgarðar sem gerðir voru til þess að vernda tún, engjar og beitilönd á löglegan hátt. Í Jónsbók, er tekið fram að

,,hver maður skal löggarð gera um töðuvöll sinn.”[1] Samkvæmt Grágás eru þrír af sex mánuðum sumarmisseris nefndir garðannir. Garðahleðsla hefur því verið mikill þáttur í útistörfum í íslenskum sveitum til forna. Með tilliti til náttúrufars eru getgátur um að íslensk garðamenning eigi rætur að rekja til Írlands og hafi í upphafi byggðar verið þrælavinna. [2]

Bjarnagarður er víða sýnilegur en á víða hefur hann verið sléttaður út fyrir tún eða vegi. Þetta kort er hluti af rannsókn Margrétar Ólafsdóttur frá Hraunkoti og sýnir appelsínuguli liturinn hvar garðurinn var vel sýnilegur árið 2002.
Byggðin Skjaldbreið var fyrir austan Skaftá, sunnan Múlakots og Hörglands á Síðu. Sennilega hefur Skjaldbreið náð austur að Orrustuhól. Hér er mynd af Hörgslandi og sér yfir svæðið fyrir sunnan. Skaftá er sennilega töluvert breytt vatnsfall frá því sem var um 1200. (Ljósm. LM)

Bændurnir í Skjaldbreið beittu landið vestan Landbrotsins

Elstu heimildir um Bjarnagarð er að finna í riti séra Jóns Steingrímssonar Fullkomið skrif um Síðueld. Þar er getið um löngu horfna byggð fram af Hörgslandi á Síðu sem nefnd er Skjaldbreið. Nefndir eru átta bæir sem eyðst hafi af sandyfirgangi og hlaupum. Fram kemur að hagbeit þessara bæja hafi verið fyrir vestan Bjarnagarð sem legið hafi eftir allri Landbrotsbyggð frá Ásgarðshálsi suður fyrir Þykkvabæ. Jón segir:

Í því víðlenda plázi fram að Hörgslandi, sem nú kallast Skjaldbreið, var byggð til forna. sem öll hefur eyðst af vatns-og sandyfirgangi eður hlaupum […] Er sagt að þar hafi 8 bæir verið, hafi ei annað land verið hjá þeim , en slægjur einar en hagbeitin hafi verið fyrir vestan Bjarnagarð, er liggur eptir allri Landbrotsbyggð, frá Ásgarðahálsi suður fyrir Þykkvabæ. Til sannindamerkis sést nú hlaðin tröð á báðar síður eður ein bein gata, milli Landbrots byggðarinnar vestur fyrir greindan Bjarnagarð, og austur í Saurbæjarháls við Skaptá, um hverja Skjaldbreiðarbændur skyldu reka allan kvikfénað sinn, að hann gjörði eigi skaða þeim, er þar á báðar síður bjuggu. [3]

Það er ljóst að vötn og sandar hafa legið allt öðru vísi en núna er og því getur vel verið að byggð hafi verið austan Landbrotsbæjanna, austur að Orrustuhól þó að núna sé þetta vatnasvæði Skaftár, Breiðbalakvíslar og Fossála og sandur og mýrar á milli vatnanna. Það er gaman að horfa yfir svæðið og ímynda sér átta bæi á þessu svæði og sjá fyrir sér fólk reka sitt fé eftir hlöðnum tröðum vestur fyrir Landbrotið til beitar. Kort sem Margrét Ólafsdóttir vann og er hluti af BA ritgerð hennar um Bjarnargarð sýnir hversu viðamikill garðurinn var. [4]

Öskulögin sýna aldurinn

Á nokkrum stöðum hafa verið grafnar holur í Bjarnagarð til aldursákvörðunar. Þá verða þar fyrir þrjú gjóskulög sem fyrst og fremst koma að gagni. Hið yngsta þeirra er úr Öræfajökulsgosinu 1362. Næsta lag neðan við það er talið vera úr Grímsvötnum. Elsta Grímsvatnagos sem annálar geta um var árið 1332 en þetta lag er að líkindum talsvert eldra. Þriðja lagið er talið vera myndað í gosi sem átti upptök í Kötluöskjunni 1245 en gæti þó verið eldra. Óhreyfð mold nær yfirleitt 2-3 sm niður fyrir þetta lag ofan á Bjarnagarði í þeim sniðum sem mæld hafa verið í Koðrabotnum og norðan þeirra. Niðurstaðan af þessu er sú að mestur hluti hins eiginlega Bjarnagarðs hafi verið hlaðinn nálægt aldamótum 1200.

Bjarnargarður sést vel í landi Efri-Víkur í Landbroti. Þar hefur verið sett upp skilti um garðinn og þar er aðstaða til að skoða öskulögin í Landbrotinu. (Ljósm LM)

Átta kílómetra langur, 2000 dagsverk

Garðurinn er allmikill og um 8 km langur. Með tilliti til fornra heimilda, um hvað sé meðaldagsverk við garðhleðslu miðað við löggarð, lætur nærri að Bjarnagarður slagi upp í 2000 dagsverk. Ber mannvirkið þess vitni að hér hafi verið um að ræða sameiginlegt félagslegt átak fólks í Landbroti og Skjaldbreið, að öllu leyti verk frjálsborinna manna, framkvæmt löngu eftir að þrælahald var aflagt. Hugsanlega hafa hólarnir í hrauninu verið nefndir Birnir og nafn garðsins dregið af því.

Býlin í Skjaldbreið, ef verið hafa, eru löngu horfin í sand og sér þeirra engin merki. En Bjarnagarður hlykkjast enn um grösugar lægðir og drög Landbrotsbyggðar, þögult vitni um ástand sem einu sinni var.

 

[1] Jónsbók. 1970. Útgef. Ólafur Halldórsson. Odense Universitetsforlag. S. 159

[2] Sigurð Þórarinsson. 1982. “Bjarnagarður”. Árbók hins íslenska fornleifafélags 1981. S. 4-39 Grein Sigurðar er aðalheimildin um Bjarnargarð og verður ekki vitnað til hennar frekar.

[3] Jón Steingrímsson. 1907-1915. Fullkomið skrif um Síðueld. Safn til sögu Íslands IV. Hið íslenska bókmenntafélag, Kaupmannahöfn og Reykjavík. S. 55

[4] Margrét Ólafsdóttir.  BS-ritgerð í landafræði við HÍ.  „Hver vegna hlóðu menn Bjarnagarð“. (Ritgerðin er til á Héraðsbókasafninu á Kirkjubæjarklaustri og Þjóðarbókhlöðunni)