Warning: Uninitialized string offset 0 in /var/www/virtual/eldsveitir.is/htdocs/wp-includes/class-wp-term-query.php on line 1

Warning: Uninitialized string offset 0 in /var/www/virtual/eldsveitir.is/htdocs/wp-includes/class-wp-term-query.php on line 1

Warning: Uninitialized string offset 0 in /var/www/virtual/eldsveitir.is/htdocs/wp-includes/html-api/class-wp-html-tag-processor.php on line 1

Warning: Uninitialized string offset 0 in /var/www/virtual/eldsveitir.is/htdocs/wp-includes/html-api/class-wp-html-tag-processor.php on line 1
Hannes landpóstur — Sögur, menning og náttúra Skip to main content
Síða og Fljótshverfisögur

Hannes landpóstur

By January 6, 2020March 26th, 2020No Comments

Hannes á Núpsstað var bóndi og landpóstur. Hann fór með póst yfir Skeiðarársand í öllum veðrum, allan ársins hring. Sögur af landpóstunum segja mikið um lífsbaráttu fólksins í eldsveitunum þar sem jökulár skáru sundur sveitina. Fólkið kunni að vaða árnar, ríða þær, lesa í strauninn, finna vöð og varast hættur.

Hannes var nánast goðsögn í lifanda lífi. Hann varð áttatíu og átta ára, fæddist á Núpsstað og bjó þar alla ævi.

En margur Skaftfellingurinn varð þó að lúta í lægra haldi í baráttunni við vötnin. Það á við um ljósmyndarann Eggert Guðmundsson frá Söndum sem tók þessa mynd af Hannesi. Eggert drukknaði í Kúðafljóti. Á myndinni sem er sennilega tekin um 1902  er Hannes rúmlega tvítugur. 

Hannes landpóstur

Hannes Jónsson fæddist að Núpsstað 13. janúar 1880 og bjó þar alla sína ævi en hann lést 1968. Fæðing Hannesar var söguleg að því leyti að móðir hans var aðeins 15 ára þegar hann fæddist og faðir hans vinnumaður á bænum. Vildu foreldrarnir giftast en faðir stúlkunnar harðbannaði það, ætlaði henni annað mannsefni. Ekki varð úr því hjónabandi því móðir Hannesar lést aðeins 17 ára úr mislingum. Þessi saga var ákaflega sorgleg á allan hátt, þarna tókust feðginin á, stúlkan varð að lúta í lægra haldi, faðirinn missti svo dótturina sem hann hafði ætlað miklu betra hlutskipti en að giftast þessum pilti sem var faðir Hannesar. Faðir Hannesar kvæntist síðar en eignaðist ekki börn með þeirri konu. Hann tók við búinu á Núpsstað þó ráðahagurinn við dótturina væri ekki samþykktur og þar ólst Hannes Jónsson upp.[1] Hannes kvæntist Þórönnu Þórarinsdóttur og eignuðust þau 10 börn. Hannes Jónsson var bóndi á Núpsstað alla ævi en er þó þekktastur fyrir að hafa verið landpóstur en því starfi gegndi hann frá árinu 1918-1942.

Hannes var líka bóndi og hér er hann með meis fullan af heyi. (Eig. GR)
Hannes varð 88 ára og sat síðustu árin oft úti við og spjallaði við gesti eins og synir hans, Eyjólfur og Filippus, gerðu síðar. Hér er Ragnheiður Magnúsdóttir frá Prestbakka og Hermann, maður hennar, að heilsa Hannesi.

Allt guði að þakka

Hannes var þekktur af áræðni og dug í ferðum sínum yfir vötn og jökla. Segir í Sögu landpóstanna að þeir Fljótshverfingarnir Hannes og Stefán á Kálfafelli (landpóstur 1896-1917) hafi verið

…yfirlætislausir og eigi skrumgjarnir. Eru þeir ófúsir að tala um sjálfa sig og segja frá ferðum sínum og svaðilförum og frá því, er fyrir þá hefir komið á lífsleiðinni í póstferðum og endranær. [2]

Hannes hefur þó fengist til að senda bókarhöfundi bréf þar sem sagt er frá svaðilförum. Tekur höfundur beint upp úr bréfi frá Hannesi pósti og lýsa orð hans sjálfs honum vel:

…Og það vita allir er mér hafa kynnzt, að maðurinn er ekki líklegur til stórræða … Ég hefi flotið svona, þetta sem af er, skammlítið, og á það mikið að þakka, að ég hefi oftast haft góða hesta, sem ég hefi mátt reiða mig á í vötnum og dimmviðri, og er það ekki mínum dugnaði að þakka…. Og hafi ég lent í einhverju misjöfnu, sem að sönnu hefir nokkrum sinnum komið fyrir, þá hefi ég líka verið svo heppinn, að jafnan hefir allt farið vel. Þótt hálfilla liti út:

En það hefir annar staðið við stýrið,

og stjórnin hans gefizt svo vel,

og þá var ég öruggur ætíð, –

oft einmana á lítilli skel.[3]

Þannig hefur þetta allt verið guði að þakka að mati Hannesar. En það er augljóst að landpóstar hafa þurft að vera mjög harðir af sér og ráðagóðir til að geta sinnt því starfi að fara yfir Skeiðarársand með öllum þeim jökulfljótum sem þar eru og síðan Breiðamerkursand þar sem jökulfljótið var oft þannig að það varð að fara jökulinn frekar en yfir Jökulsána.

Í kapphlaupi við Skeiðarárhlaup

Eina sögu segir Hannes í bréfi af ferð sinni frá Núpsstað í Öræfin árið 1922. Hann er á leið með póstinn austur yfir Skeiðarársand og í för með honum er stúlka sem honum hefur verið trúað fyrir. Þegar þau eru komin alllangt austur á sandinn sér Hannes að það er nokkuð mikið í á sem ekki er vön að vera vatnsmikil og sátu stórir jakar í sumum álum hennar. Grunar hann að nú sé að hefjast hlaup en Skeiðarárhlaup eru yfirleitt þannig að áin er algjörlega ófær vegna straumþungans og jakaburðurinn er stórhættulegur. Hannes hugsar um að snúa við en

…að öðru leyti þótti mér snupra að snúa við, og sennilega væri þetta aðeins vatnaflutningur, eins og komið hafði fyrir tveim árum áður, er Skeiðará flutti sig í þennan farveg að nokkru leyti og var þar nokkra mánuði.

Tók ég það ráðið að halda áfram og lét ekkert á neinu bera við stúlkuna, hvað ég hugsaði, það er ég vildi ekki gera hana hrædda. Lagði ég svo í álana og hafði stúlkuna við hlið mér. Urðum við að sæta lagi, svo stærstu jakarnir lentu ekki á hestunum. Gekk allt vel, en þó voru sumir álarnir nokkuð harðir á. Riðum við greitt austur að Skeiðará. En þá sá ég fyrir víst, að þetta var byrjun á hlaupi, og nú var ekki annars kostur en herja á ána, úr því sem komið var. Er við vorum komin yfir nokkra ála, sá ég, að tveir menn komu út yfir ána í veg fyrir okkur.[4]

Og þar með eru þau hólpin. Hannes fer með póstinn austur að Svínafelli og biður Skaftafellsbændur að fylgjast með Skeiðará. Þegar hann kemur aftur að Skaftafelli er honum sagt að lítið hafi vaxið í Skeiðará. Ákveður Hannes þá að ríða yfir Skeiðarársandinn og ná að Núpsstað um kvöldið. Honum finnst miklu minni áhætta en um morguninn því nú er hann einn og ekki með neinn póst. Þegar hann er kominn nokkuð áleiðis heyrir hann mikla dynki og skruðninga og drífur sig eins og hann mögulega getur. Er nokkuð ljóst að jökullinn er að brotna og jakarnir koma fram hvað af hverju. Sleppur Hannes yfir sandinn og heim til sín án meiri vandræða en eftir á að hyggja taldi hann þessa ferð mesta feigðarflan. Hann afsakar sig;

Það sem olli því, að ég lagði svo mikið kapp á að komast heim að þessu sinni, var, að ókleift var þá að koma skeyti um það, hvernig mér hefði gengið austur yfir. En heima átti ég konu og börn og auk þess háaldraðan föður og stjúpmóður og var ekki viss um, hvernig því yrði tekið, er hlaupið færi að sjást á vestursandinum.[5]

Áhyggjur póstsins af fólkinu heima eru skiljanlegar og oft hlýtur fólki að hafa liðið illa, bæði því sem að heiman fór og því sem heima var þegar ekki var hægt að fá neinar fréttir eða láta vita af sér. Hlutverk eiginkonunnar, Þórönnu, hefur verið að sjá um allt heima við og vona það besta um ferðalag eiginmannsins.

Núpsstaður 1903. Það var ljósmyndarinn Eggert Guðmundsson sem tók myndina. (Eig. LÍ)

[1] Helgi Valtýsson. 1942. Söguþættir landpóstanna. I. bindi. Bókaútgáfan Norðri, Ak. s. 128

[2] Helgi Valtýsson. 1942. Söguþættir landpóstanna. I. bindi. Bókaútgáfan Norðri, Ak. s. 150

[3] Helgi Valtýsson. 1942. Söguþættir landpóstanna. I. bindi. Bókaútgáfan Norðri, Ak. s. 151

[4] Helgi Valtýsson. 1942. Söguþættir landpóstanna. I. bindi. Bókaútgáfan Norðri, Ak. s. 155

[5] Helgi Valtýsson. 1942. Söguþættir landpóstanna. I. bindi. Bókaútgáfan Norðri, Ak. s. 156