Skip to main content
Kirkjubæjarklaustursögur

Svínfellingasaga.

By October 18, 2019April 2nd, 2020No Comments

Svínfellingasaga er hluti Sturlungu og gerist að mestu á Kirkjubæ á Síðu á árunum 1248-1252

Sagan segir frá valdabaráttu Ögmundar staðarhaldara á Kirkjubæ á Síðu og Sæmundar Ormssonar goða á Svínafelli í Öræfum. Hún er ólík öðrum sögum Sturlungu að því leyti að allt er sveipað kristilegum ljóma. Brandur ábóti í Þykkvabæjarklaustri gerir allt til að stilla til friðar en það eru bróðursynir hans og mágur sem berjast. Brandur ábóti kemur oftar við sögu í Sturlungu og er þá ávallt sá sem reynir að stilla til friðar á milli manna. Systir Brands og Orms, Steinunn á Kirkjubæ, er kristin kona og hún leggur nokkuð af mörkum til að stilla til friðar en maður hennar, Ögmundur, vinnur samt það voðaverk að drepa, Sæmund og Guðmund Ormssyni. Guðmundur var í fóstri hjá Steinunni og Ögmundi eftir lát föður síns í nokkur ár og gerir það verk Ögmundar enn verra. Þetta er fjölskylduharmleikur.

Þórður kakali er illmenni sögunnar 

Þórður kakali er Sighvatsson Sturlusonar af ætt Sturlunga. Hann rægir menn og hvetur þá Ögmund og Sæmund til að gefa ekkert eftir, berjast áfram. Hann er Mörður og Loki sögunnar. Í Sturlungasafninu er Svínfellingasaga fleyguð inn í safnið milli Þórðar sögu kakala og Íslendinga sögu. Maður veltir fyrir sér hvort Svínfellingasaga sé samin til að sýna illvirki Þórðar? Getur verið að frændi kakalans, sagnaritarinn Sturla Þórðarson, hafi skeytt sögunni þarna inn til að sýna innræti Þórðar? Annað sem gæti skýrt ráðabrugg Þórðar kakala í er að hann veit að Brandur, Steinunn og Ormur, faðir Sæmundar og Guðmundar, eru náskyld Kolbeini unga sem lét drepa föður hans og bræður. [1] Er það hluti af hefnd Þórðar kakala að etja saman ættingjum Kolbeins í Skaftafellssýslu?

Goði Skaftfellinga deyr og lætur eftir sig tvo syni

Sagan hefst á Þingvöllum þar sem goðinn Ormur Jónsson á Svínafelli veikist og deyr. Goðorð Orms nær frá Lónssveit í austri að Mýrdalssandi í vestri. Sæmundur, eldri sonur Orms, tekur við goðorðinu en Guðmundur, yngri sonurinn, fer í fóstur til Steinunnar og Ögmundar  sem var staðarhaldari á Kirkjubæ en biskup hafði á þeim tíma tekið völdin af nunnunum. Byrjar sagan í sátt og samlyndi en fljótlega verða atburðir sem draga dilk á eftir sér. Upphaf málsins virðist ekkert stórmál. Sæmundur á Svínafelli lætur eiðfæra ómaga á landseta Ögmundar í Kirkjubæ. Ögmundur lætur færa ómagann til baka og segir að bóndinn hafi ekki efni á að taka við honum. Það fýkur í Sæmund og gerir hann ferð að Kirkjubæ, stefnir Ögmundi til þings og í leiðinni fer hann og hirðir allt af tveimur bændum; þeim Snorra Sveimi í Holti í Meðallandi og Agli skyrhnakka í Mörtungu.

Býður hann þeim að koma og dvelja í Svínafelli þegar þeim henti. Bændurnir eru foxillir yfir þessari aðför Sæmundar en geta lítið gert því goðinn hefur valdið. Þeir Snorri og Egill leita liðsinnis Ögmundar og eru með honum um veturinn. Guðmundur, bróðir Sæmundur, dvelur í Kirkjubæ og fylgist með hverju fram fer. Ögmundur sendir mann til Brands ábóta í Þykkvabæ í Veri og leitar ráða. Hvetur Brandur hann til að halda friðinn þó illa hafi Sæmundur farið að ráði sínu. Leggst málið illa í Brand.

Sæmundur stefnir Ögmundi að ráði Þórðar kakala

Næsta vor ríður Sæmundur Ormsson til þings og vill stefna Ögmundi. Guðmundur Ormson, litli bróðir Sæmundar, telur hann af því enda Ögmundur fóstri Guðmundar. Brandur ábóti er með í för, hvetur til sátta og fær hrós fyrir á þinginu. Verður ekkert úr málsókn. Eftir þingið fer Sæmundur og fær Ingunnar Sturludóttur Sighvatssonar af ætt Sturlunga á Vesturlandi. Hittir Sæmundur þar Þórð kakala Sighvatsson sem er föðurbróðir Ingunnar. Sæmundur rekur sögu sína fyrir Þórði og hvetur Þórður hann til að gefa Ögmundi á Kirkjubæ ekkert eftir. Haldin er mikil brúðkaupsveisla í Svínafelli. Fer Guðmundur litli Ormsson í veisluna og vill síðan flytja að Svínafelli til bróður síns. Samþykkir Ögmundur það að ráði Steinunnar konu sinnar. Lætur Ögmundur Guðmund hafa allt sem hann geymdi fyrir hann.

Bækur Einars Kárasonar: Óvinafagnaður, Ofsi, Skáld og Skálmöld rekja sögur Sturlungu á óborganlegan hátt. Þórður kakali er aðalpersónan í fyrstu bókinni.

Bræðurnir koma vopnaðir að Kirkjubæ en virða kirkjugrið

Dregur nú til tíðinda um veturinn. Sæmundur safnar saman liði, 80 manns, og stefnir vestur að Kirkjubæ. Í hópnum er drengurinn Guðmundur 16 ára. Móðir hans reyndi allt til að koma í veg fyrir að hann færi þessa ferð. Meðal annars lokaði hún hann inni í herbergi en hann braust út sem sýnir einbeittan vilja hans til fararinnar. Hópurinn kemur um nótt að Kirkubæ. Þar eru flestir sofandi en brytinn, kona hans og einn vinnumaður á bænum eru úti í eldaskála að sjóða mat. Með þeim er hundur sem geltir þegar hann verður var mannaferða og laumast þá vinnumaðurinn að rúmi Ögmundar, vekur hann og segir honum hverjir séu komnir, fjölmennir og vopnaðir. Steinunn vaknar líka og biður Ögmund lengstra orða að auka eigi vandræði við frændur sína.

 

Ögmundur safnar saman öllu fólki á bænum, karlmennirnir vopnast og fara allir út í kirkju. Ræða þeir við Svínfellinga út um glugga kirkjunnar en Sæmundur vill ekki rjúfa kirkjugrið og getur því ekkert gert og gagnast ekkert allt það lið sem hann hefur með sér. Ögmundur reynir að höfða til samvisku Guðmundur sem verið hafði fóstursonur hans í mörg ár. Guðmundur svarar kokhraustur að Ögmundur geti sjálfum sér um kennt fyrir að egna Sæmund í ómagamálinu. Málið virðist í pattstöðu en þá er það að Móðólfur, einn manna Ögmundar í kirkjunni, laumast út, sleppur frá varðmanni bræðranna, steypir sér í Kirkbæingaá og hleypur að bænum Tungu í Landbroti. Sæmundur ákveður að forða sér og sínu liði þegar hann veit að verið er að ná í liðsauka. Ríður hann til Skálar þar sem Helgi Loftsson vinur hans býr.

Ögmundur fær liðsauka

Sveitungar Ögmundar bregðast snarlega við og koma 80 menn til hjálpar. Vilja þeir fara á eftir Sæmundi að Skál. Sérstaklega hvetur Svartur Loftsson til eftirreiðar sem er undarlegt því hann er bróðir bóndans í Skál. Steinunn Jónsdóttir latti menn til þessarar farar. “Kvaðst hún bæði til spara bónda sinn og bróðursonu sína og kvað illt mundu hljótast af þessu herhlaupi.”[2] Fær Steinunn þessu ráðið.

 

Ögmundar leitar til Þórðar kakala sem hvetur hann til að gefa ekkert eftir

Ögmundur fer frá Kirkjubæ með nokkra menn með sér og ríða þeir að Geldingaholti í Skagafirði, til Þórðar kakala Sighvatssonar. Ögmundur dvelur hjá Þórði um veturinn en Steinunn býr áfram í Kirkjubæ. Og Þórður er með ráð undir rifi hverju rétt eins og þegar hann hitti Sæmund og hvatti hann áfram í baráttunni við Ögmund. Þórður segir Ögmundi að hann eigi meira fé en Sæmundur og að hann sé vinsælli og eigi þess vegna ekki að gefa Sæmundi neitt eftir þó Sæmundur sé goðinn. Þórður er nú nátengdur Sæmundi þar sem hann er föðurbróðir konu hans en samt hvetur hann Ögmund gegn honum. Ráð Þórðar kakala eiga eftir að verða öllum dýr.

Sæmundur sækir ómagamálið á þingi og hefur sigur

Á næsta þingi sækir Sæmundur ómagamálið. Ögmundur mætir ekki til varnar og Brandur ábóti er fjarri þannig að enginn er til að verja málið og Ögmundur dæmdur sekur. Brandur ábóti fréttir af dómnum og verður mjög reiður. Hann reynir að sætta Sæmund og Ögmund og tekst það nokkurnveginn og flytur Ögmundur aftur heim í Kirkjubæ. Fyrst fer þó Sæmundur og hirðir það sem honum var dæmt af eigum Ögmundar en Steinunn, föðursystir Sæmundar, heldur sínum hlut. Eignir þeirra hjóna á Kirkjubæ voru gríðarlega miklar: 90 kýr, 30 geldneyti, 8 arðuruxa, 420 ær, 160 sauði, 200 kinur veturgamlar, 70 hross, 50 svín og 100 gæsir. [3] Steinunn grét er Sæmundur fór með eigur Ögmundar.Töldu menn að það væri vegna þess hvernig komið var en hún sagðist gráta vegna þess sem átti eftir að gerast. Bað hún fyrir friði í fjölskyldunni þar til hún yfirgæfi þessa jörð og gekk það eftir.

Svikalogn

Líður nú nokkur tími að allt er með kyrrum kjörum. Ögmundur talar vinalega um þá bræður en samskipti eru lítil. Um veturinn sendir Ögmundur Sæmundi bréf þar sem hann biður Sæmund að fara um með minna lið því bændur séu fátækir um þessar mundir vegna þess hve tíðin er slæm og matur af skornum skammti. Bregst Sæmundur vel við þessu og fækkar í hópnum. Steinunn andast og er jörðuð á Kirkjubæ laugardaginn fyrir páska árið 1252, ellefu árum eftir að Ormur bróðir hennar lést. Fylgir Brandur ábóti systur sinni til grafar. Það er spenna í loftinu, friðurinn er fallvaltur og loks gerast þeir atburðir sem Steinunn hafði óttast. Hér er frásögnin af stóratburðum tekin beint úr Svínfellingasögu.

En friðurinn endist ekki lengi. Mannvíg verða á Kirkjubæ á Síðu. Vegnir eru bróðursynir  húsmóðurinnar og var annar piltanna einnig fóstursonur hjónanna á Kirkjubæ.

 1. apríl 1252        kafli 367

En föstudaginn eftir páskaviku reið Sæmundur heiman við fjórða mann. Var í reið með honum Guðmundur bróðir hans og þeir frændur hans Skeggjasynir, Klængur og Þorsteinn. Ætluðu þeir að finna Brand ábóta en áður höfðu þeir senst orð í milli. En síðan ætlaði hann að ríða í Skál til Helga vinar síns. En föstudagskveldið riðu þeir á þann bæ er á Hörgslandi heitir. Það er á Síðu. Sæmundur átti þar bú. Þar var fyrir búinu sá maður er Sölmundur hét. Sæmundur hafði hann þar fyrir settan síðan hann tók landið af Hákoni smið Móðólfssyni.

Um kveldið er þeir gengu frá baði mælti Sæmundur við konu þá er honum þerrði að hún skyldi gnúa þurrkunni um háls honum sem fastast “því að mér klæjar þar mjög”.

Hún gerði sem hann mælti.

“Ekki gnýr þú, “ segir hann.

Tekur hún nú dúkinn og gnýr sem tíðast.

Um morguninn segir Guðmundur draum sinn.

Spurðist um kveldið þegar í Kirkjubæ að þeir Ormssynir voru um nóttina á Hörgslandi.

Verkmenn í Kirkjubæ stóðu upp að vanda sínum laugardagsmorguninn og spurðu bónda hvað þeir skyldu gera.

Ögmundur mælti: “Gangið fyrst til matar,” segir hann.

En er þeir voru mettir gengu þeir til Ögmundar bónda. Hann var þá klæddur og þótti þeim nokkuð undarlega því að hann var í brynju og pansara um utan, stálhúfa á höfði og öll ryðug. Öxi hafði hann í hendi, Svartleggju, þá er hann gekk oftlega með, buklara í annarri hendi. Hann var manna mestur og sterkastur, vel á sig kominn, rauðhár, þykkur í andliti, digurnefjaður og bjúgt nakkvað svo nefið, fámæltur hversdagslega. Þar var þá hjá honum Jón karl son hans. Hann var vopnaður og í hringabrynju. Þar var og Þórarinn Snorrason úr Ásum, Egill skyrhnakkur, Snorri sveimur, Árni gullskeggur, Brandur Guðmundarson. Þessir voru vopnaðir allir.

Ögmundur fékk húskörlum sínum vopn svo að hann gekk út við hinn þrettánda mann og snýr til kirkju og dvaldist þar litla hríð. Eftir það gengur Ögmundur austur eftir geilum við þessa menn. Þeir nema stað í einum hvammi skammt frá veginum.

Kafli 368

Nú er að segja frá Sæmundi og þeim frændum að þeir rísa upp um morguninn á Hörgslandi og báðu taka hesta sína. Og eftir það stigu þeir á bak og riðu allir í steindum söðlum. Riðu síðan sem leið liggur til Kirkjubæjar og að því síki sem leiðin liggur yfir fyrir ofan Kirkjubæ og skammt frá þeim hvammi er þeir Ögmundur sátu í.

 

Sæmundur reið þeirra fyrstur. Hann var í hálflitum kyrtli, rauðum og grænum, og hafði kastað yfir sig söluvoð og voru saman saumaðir jaðrarnir, því að þoka var myrk ákaflega og hraut úr af vætu, og stálhúfa á höfði og gyrður sverði, buklara á söðulboga. Hann var meðalmaður vexti og manna kurteisastur, ljóshærður og föleitur, eygður vel og nokkuð munnljótur og þó vel farinn í andliti, manna best knár, jafnmikill.

Guðmundur bróðir hans reið næst honum. Hann var í blám kyrtli og hafði yfirhöfn strípenda. Hann reið við alvæpni. Hann var lágur maður og sívalvaxinn, herðimikill og miðmjór og rauðgulur á hár og hærður mjög, þykkleitur og fríður maður sýnum, blíður í viðræðu.

Þorsteinn Skeggjason reið næstur honum. Hann var meðalmaður vexti og fálátur maður í skaplyndi. Klængur reið síðast. Hann var hár og grannlegur, ljós á hár og vel á sig kominn. Vopnaðir voru þeir báðir Skeggjasynir.

Ögmundur stendur upp er þeir ríða á síkið og bað taka þá.

Þorsteinn Skeggjason mælti þá: “Sérð þú Sæmundur að Ögmundur situr hér fyrir oss við marga menn?”

Sæmundur svarar: “Hvað kemur til þess?”

“Er sem má,” segir Þorsteinn.

Sæmundur ríður fram í götuskarðið.

Ögmundur gekk á bakkann fram og tók báðum höndum um Sæmund fyrir neðan axlir og ætlaði að færa hann af baki en það gekk eigi því að hann sté svo í stigreipin fast er hann reið í standsöðli. Tóku þá til þrír aðrir með Ögmundi. En sumir sprettu gjörðunum og tóku hann svo ofan. En þeir Snorri sveimur og Brandur Guðmundarson tóku Guðmund af baki. Þórarinn Snorrason og Árni gullskeggur tóku Þorstein af baki.

 

Klængur komst af síkinu og hljóp af baki og brá sverði.

Það sér Egill skyrhnakkur og leggur til Klængs með spjóti svo að hann féll á bak aftur í síkið og varð honum laust sverðið.

Þá gekk að Jón karl og rétti að honum spjótskefti og bað hann í taka.

Klængur stóð upp og tók í skaftið og mælti: “Grið vildi ég frændi.”

“Vel mun það,” segir Jón, “og mun eg taka við vopnum þínum.”

Klængur gerði svo.

Jón gekk þá að Þorsteini og bauð honum grið. Hann tók við vopnum hans.

Þá mælti Sæmundur: “Hvað skal fyrirsát þessi Ögmundur? Ég hugði að vér værum menn sáttir.”

Ögmundur segir að Sæmundur skyldi þá ekki lengi kunna að segja frá tíðindum.

 

“Prestsfund vildi eg hafa,” segir Sæmundur.

“Skömmu muntu prest hafa fundið,” segir Ögmundur.

“Ger nú sem guð kennir þér,” segir Sæmundur.

Jón karl sagði að eftir presti skyldi fara.

Þrír voru prestar á staðinum. Þormóður hét staðarprestur, annar Hjalti, þriðji Sæmundur. Nú koma prestar og biðja þeir Þormóður þeim griða en Sæmundur prestur varð við hraporður og sagði þá seint mundu bætt fá glæp sinn ef þetta færi fram.

Ögmundur hlýddi til hvað þeir töluðu og gaf sér ekki um.

Sæmundur Ormsson bað Ögmund að senda skyldi eftir Brandi ábóta og kvaðst vilja finna hann.

Ögmundur kvað þess öngva von.

 

Og er engi kostur var griða skriftaðist Sæmundur við Þormóð prest en Guðmundur við Hjalta prest og tóku báðir þjónustu, hold og blóð Jesú krists í sinn líkama. Eftir það lástu þeir letanian [andlátsbænina]. Síðan varp Sæmundur af sér yfir yfirhöfninni og féll á kné og laut í gaupnir sér og bað guð almáttkan sér miskunnar. Hann varð bæði við dauðann harðlega og hjálpvænlega.

Ögmundur mælti til Árna gullskeggs: ,,Tak hér öxi og högg í höfuð Sæmundi ef hann leggst eigi niður. “

Sæmundur féll þá til jarðar og hafði hendur fyrir augum sér. Árni hjó þá á hálsinn svo að öxin stóð í sandinum en höfuðið hné að honum. En það undruðust menn er ekki blæddi líkamanum. Guðmundur Ormsson og prestarnir lásu þá sjö sálma og fann engi maður að hann brygði sér nokkuð við þessi tíðindi annan veg en hann kvað nokkuð harðara að orðunum en áður. Þá var hann átján vetra.

 

Guðmundur mælti til Ögmundar þá er þeir höfðu lesið sálmana: “Gott væri enn að lifa og vildi eg grið fóstri.”

Ögmundur leit frá og mælti: “Eigi þorum vér nú það fóstri minn,” segir hann. Var hann þá rauður sem blóð.

Guðmundur svarar þá: “Sá liggur héðan nú skammt í brott að eigi er betra að sæma við yður og lifa eftir hann dauðan.”

Gekk Ögmundur frá eftir það og settist niður og var þrútinn mjög í andliti.

Jón karl mælti þá: “Slíka för skaltu fara, Guðmundur, sem bróðir þinn.”

Jón kvaddi þá til nokkura menn að vega að Guðmundi en engi vildi því að Guðmundur var flestum mönnum þar hugþekkur. “ [4]

 

Enginn vildi höggva unglinginn, Guðmund

Önundur þorði ekki að láta Guðmund lifa en tekur mjög út fyrir að þurfa að láta drepa fósturson sinn. Svo var og með aðra úr liði Ögmundar að þeim var hlýtt til Guðmundar en þó fór svo að vinnumaður á Kirkjubæ var þvingaður til að höggva höfuðið af Guðmundi. Er afar dramatísk lýsing á þeim verknaði. Ekki er vitað nákvæmlega hvar bræðurnir voru höggnir en talað um síki ofan við Kirkjubæ. Það er möguleiki að atburðirnir hafi átt sér stað í mýrinni upp á Klausturheiði (sjá myndina) fyrir ofan þorpið á Kirkjubæjarklaustri.

Lýkur sögunni á því að Ögmundur sendir eftir Brandi ábóta. Stóð Brandur yfir moldum bróðursona sinna sem mágur hans hafði nú drepið eða látið drepa og var svo fenginn til að dæma í málinu ásamt Skóga-Skeggja. Var Ögmundur dæmdur til að greiða bætur fyrir dráp bræðranna og var dæmdur útlægur af Síðunni nema ef hann færi í klaustur í Þykkvabæ. Valdi Önundur heldur að greiða sektina, varð hann efnalítill og flutti síðan á bæ undir Eyjafjöllum ásamt þeim Agli skyrhnakka og Snorra sveimi.

Íslendingasaga með kristilegu ívafi

Svínfellingasaga er hefðbundin saga um átök, svik, hefnd, undirferli og margt fleira en líka minnir þessi saga að mörgu leyti á sögur um biskupa. Mennirnir vilja allt til vinna að vera guði þóknanlegir og halda fjölskyldunni saman en á sama tíma er harkan og grimmdin mikil. Það sem gerir allt sorglegra er skyldleiki þeirra sem berjast. Allir líða fyrir að ekki skuli vera hægt að stöðva átökin. Konur og prestar reyna ýmislegt til þess en það dugir ekki og sagan endar með ósköpum þar sem allir tapa.

 

(1) Hermann Pálsson. 1999. Brandur Jónsson ábóti. Dynskógar 7. Útg. Dynskógar, sögufélag Vestur-Skaftfellinga, Vík. S. 71-72

(2) Sturlunga saga. 1988. Svínfellingasaga. Svart á hvítu, Rv. S. 556

(3) Gunnar Karlsson. 2004. Goðamenning. Staða og áhrif goðorðsmanna í þjóðveldi Íslendinga. Heimskringla. Háskólaforlag Máls og menningar, Rv. S. 347

(4) Sturlunga saga. 1988. Svínfellingasaga. Svart á hvítu, Rv. s. 560-564