Katla matselja og Barði smali
Þykkvabæjarklaustur í Álftaveri lét Klængur biskup byggja 1169, og setti þar fyrstan ábóta Þorlák hinn helga, og var þar síðan lengi munkaklaustur og helgistaður mikill. Það er sagt, að einhverntíma byggi á klaustrinu ábóti, sem hélt bústýru þá sem Katla hét. Hún var forn í skapi og ill viðureignar. Mælt er að Katla hafi átt brók, sem hafði þá náttúru, að hver sem í hana fór þreyttist aldrei á hlaupum, og brúkaði Katla brókina í viðlögum. Mörgum stóð ógn af skaplyndi Kötlu, og jafnvel ábóta sjálfum þótti nóg um tröllskap kerlingar. Sauðamann hélt ábóti, er Barði hét. Hann varð oft að líða harðar átölur af Kötlu, ef nokkuð vantaði af fénu.
Á einu hausti bar svo til, að ábóti og Katla fóru í heimboð, en heim skyldu þau ríða um kvöldið, átti féð að vera til taks þegar Katla kæmi heim, því hún vildi sjálf mjólka það að vanda. Barði leitaði fjárins um daginn, en fann hvergi. Tók hann það því til bragðs, að fara í brók Kötlu, hljóp svo það sem af tók, og léttir ekki fyrr en hann finnur allt féð. Þegar Katla kemur heim, verður hún þess vör, að Barði hafi brúkað brókina góðu; verður hún þá svo reið, að hún tekur Barða og kæfir hann í sýrukeri, sem stóð í karldyrum, og lét hann liggja þar.
Vissi enginn hvað af Barða varð; er er á leið veturinn, og sýran tók að minnka, heyrðu menn Kötlu segja, þegar hún fór í kerið: “Senn bryddir á Barða.” En þegar hún sá að allt mundi komast upp, tók hún brók sína og hljóp út úr klaustrinu og stefndi í útnorður, upp til jökulsins, og steypti sér ofan í gjá í honum, sem síðan heitir Kötlugjá. Litlu þar eftir kom vatnsflóð úr jöklinum, sem stefndi á Álftaverið. Varð það síðan trú manna, að hlaupin væru að kenna fjölkynngi Kötlu.
Markús Loftsson. 1930. Rit um jarðelda á Íslandi. 2. útg. aukin. Útg. Skúli Markússon, Rv. s. 10
Ævintýri Sturlu og fleiri ótrúleg tíðindi af Kötlugosi
Sjötta gos árið 1311.
Þetta Kötlugos er kallað Sturluhlaup. Það kom upp sunnudaginn næstan eftir jól. Annaðhvort hefir það verið um nótt, að hlaupið kom, eða það hefir komið með óvanalegum hraða, því bóndinn, Sturla Arngrímsson, sem þá bjó að Láguey, kom út úr bænum og gekk upp um húsagarðinn. Sá hann þá vatnið koma flóandi yfir byggðina og stefna á bæinn. Hljóp hann þá inn aftur og greip ungbarn úr vöggu, sem stóð við rúm þeirra hjóna. Aðrir segja, að hann hafi gripið vögguna með barninu í, og beðið fólkið að fela sig miskunn Drottins, hlaupið síðan út og upp á garð, sem hlaðinn var kringum bæinn; vildi þá svo til, að vatnsflóðið bar stóran jaka að garðinum, en Sturla hljóp upp á jakann með barnið; flaut jakinn út á sjó, og rak eftir nokkra daga upp á Meðallandsfjörur.
Hafði jakann þá rekið fullar fimm mílur á sjó austur með landi, frá því hann kom fyrst á hann. Engum mat náði Sturla með sér þegar hann fór út á jakann, því svo bar brátt að. Tók Sturla því það til ráðs, að hann skar geirvörtur af brjósti sínu og lét barnið sjúga blóð sitt, og fyrir það hélt barnið lífi. En af því Sturla var hinn hraustasti maður bar lítt á því þegar hann kom í land, að hann hefði í hrakningum staddur verið.
Um vorið var farið að leita þar sem bæirnir höfðu staðið, því hlaupið hafði svo gjörsamlega sópað burtu bæjum, húsum, engjum og högum, mönnum og öllum fénaði, að það sást ekki að þar hefði nokkurntíma byggð verið, heldur eintóm eyðimörk, hulin sandi og vikri, margra faðma djúpt niður.
En þegar menn gengu um sandinn, þar sem Lambey hafði staðið, heyrðu þeir hund gelta undir fótum sér, grófu þar til og komu niður á hús eitt; var það fiskiklefi. Í húsi þessu fundu menn stúlku eina. Hafði hún verið stödd í húsi þessu, þegar hlaupið kom, og hundurinn runnið með henni.
Sagt er að stúlka þessi hafi verið svo vel að sér, að hún hafi vitað hver mánaðardagur var, þegar hún fannst. Hún hafði sagt, að sér hefði lítið leiðst, en aldrei hafði hún orðið fullkomlega jafngóð eftir þessa löngu einveru.
Þetta hlaup kom upp sunnudaginn næstan eftir jól, eins og fyrr er sagt, en var að renna fram að kyndilmessu, með miklu vatns-og jökulflóði, þó hlé yrði á milli dag og dag. Það tók af alla byggðina, sem eftir var á Mýrdalssandi. Það svæði var kallað Lágueyjar-hverfi. Þar voru þessir bæir: Láguey og Lambey, þar sem nú kallast Lambajökull. Þar voru 50 hurðir á járnum. Dýralækir; þar fannst stúlka dauð eftir hlaupið, við lítinn læk, með hárgreiðu í hárinu; hefir hún líklega ekkert vitað um hlaupið, fyr en það kom yfir hana, þar sem hún var að greiða sér -Rauðilækur og Holt. – Margir fleiri bæir voru í Lágueyjarhverfi. Það náði yfir allt það svæði, sem er á milli Dýralækjar og Hafurseyjar, upp að Sandfelli og fram að sjó.
Markús Loftsson. 1930. Rit um jarðelda á Íslandi. 2. útg. aukin. Útg. Skúli Markússon, Rv. s. 14-15 (Nú leikur vafi á hvort Katla hafi gosið 1311 en við látum það liggja á milli hluta að sinni því sagan er góð.)