Skip to main content
Síða og Fljótshverfisögur

Bárðargata

By January 6, 2020January 8th, 2020No Comments
Kindurnar sælar í Fljótshverfinu. Núpafjallið í baksýn. Þar er bærinn Núpar. (Ljósm. JSen)

Bárðargata liggur frá Bárðardal í Fljótshverfi.

Bárðargata er kennd við landnámsmanninn Bárð sem sigldi norður fyrir landið upp Skjálfandafljót og nam land í Bárðardal og bjó að Lundarbrekkum. Bárður fann að sunnanáttin var hlýrri en norðanáttin og vildi flytja suður.  Leiðin sem hann fór er kölluð Bárðargata og liggur frá Bárðardal, suður öræfin, sennilega með Skjálfandafljóti austanverðu, gegnum Vonarskarð og niður í Fljótshverfi, um 250 km leið, í allt að 1000 m hæð. Ferðina fór Bárður á útmánuðum á árunum í kringum 900. Veðurfar hefur verið ólíkt því sem nú er, jöklar voru miklu minni en núna og jökulárnar sennilega mun auðveldari yfirferðar. Ferðin var farin með fjölskyldu og bústofn og hefur verið nokkurt þrekvirki.

Hvert kvikindi dró sitt fóður

Það er skemmtilegt að skoða leiðina og velta fyrir sér hvernig Bárður flutti sig milli landshluta, beint yfir hálendið. Í Landnámu segir svo:

Þá markaði hann at veðrum, at landviðri voru betri en hafviðri, ok ætlaði af því betri lönd fyrir sunnan heiði. Hann sendi sonu sína suðr um gói. Þá fundu þeir góibeitla og annan gróður. En annat vor eftir þá gerði Bárðr kjálka hverju kykvendi, því er gengt var, ok lét hvat draga sitt fóðr og fjárhlut. Hann fór Vonarskarð, þar er síðan heitir Bárðargata. Hann nam síðan Fljótshverfi og bjó að Gnúpum. Þá var hann kallaður Gnúpa-Bárður. [1]

Þessi flutningsmáti, að láta hvern grip draga sinn fóðurhlut, er mjög snjöll og umhverfisvæn og kannast menn ekki við hana úr öðrum sögum.

Teikning Ólöf Rún Benediktsdóttir

Leiðin er löng, víða torfær og yfir mikil vötn að fara. 

Ekki er vitað til að aðrir hafi farið þessa leið á milli landshluta. Gróður er afar lítill á þessu svæði en þarna er afskaplega fallegt og land vel fallið til gönguferða ef fólk er vel búið. Enginn akvegur er í Vonarskarð en hægt að ganga þangað frá Kolufelli, Gjóstu og Nýjadal. Í Vonarskarði eru vatnaskil milli Norður- og Suðurlands og upptök bæði Skjálfandafljóts og Köldukvíslar og þar er  háhitasvæði. Ferðir yfir Vonarskarð kannast menn ekki við fyrr en 1839 en þá fóru norður yfir Vonarskarð landmælingamaðurinn Björn Gunnlaugsson og Sigurður Gunnarsson, seinna prestur á Hallormsstað, en þeir voru að rannsaka Vatnajökul. Vonarskarð og Tungnáröræfi eru nú hluti af vestursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs.

 

Lygileg saga

Er margt í sögu Gnúpa-Bárðar með ólíkindum en þó ekki svo að ekki sé ástæða til að trúa henni. Nafn leiðarinnar minnir á þennan stórhuga landnámsmann og það gerir líka Bárðarbunga á Vatnajökli og Bárðardalur. Og skynsamlega hefur Bárður ætlað að betra væri að búa í Fljótshverfi en fyrir norðan, segja Skaftfellingar.

Áin Sveðja, Hágöngur syðri t.v. Hágöngur nyrðri hægra megin. (Ljósm. JBJ)

Hér hefur Bárður farið um. Horft í norður í átt að Vonarskarði. Tungnafellsjökull og líbarítfjallið t.v. er Skrauti. Ekki mikill hagi fyrir fé! (Ljósm. JBJ)

Horft inn á Vatnajökul. Bárðarbunga t.v. á jöklinum, Snapadalur er neðan jökulsins og Deilir fyrir miðri mynd. (Ljósm. JBJ)

Horft í er í norður yfir Hverabotn. Bárðarbunga í Vatnajökli blasir við. Hér hefur Bárður getað áð og baðað sig í heitum lindum. (Ljósm. JBJ)

[1] Landnámabók Íslands. 1948. Einar Arnórsson bjó til prentunar. Helgafell, Unuhúsi Rv. s. 246