Skip to main content
sögur

Þjóðsögur í Landbroti og Meðallandi

By June 2, 2017October 18th, 2019No Comments

Loðni maðurinn á Skarði

Það hefur alloft borið við, að lík sjódrukknaðra manna hafi rekið á land á Meðallandsfjörum. Oft er þetta í sambandi við skipreika, er orðið hafa þar í grenndinni, þar sem einhverjir af skipshöfnunum hafa farizt, en stundum er ekki hægt að vita nein deili á, hvaðan af landi eða löndum líkin eru.

Það bar við fyrir löngu, að á fjöru einni í Meðallandi fannst rekinn maður nokkur, sem þótti mjög einkennilegur útlits. Klæðlaus var hann, en allur kafloðinn og með klær á tám og fingrum. Sumir segja, að tvo slíka menn hafi rekið, báða eins. Enda þótt öllum stæði stuggur af líki þessu, þá var það þó flutt til bæjar og því gjörð kista, eins og venja er til, er svo ber undir. Þá var enn kirkja á Skarði í Meðallandi og kirkjugarður á sama stað. Sá staður er nú fyrir löngu eyddur af sandfoki með hjáleigum sínum. Að Skarði var líkið flutt til greftrunar. En er jarðarförin skyldi hefjast og menn ætluðu að byrja að syngja útfararsálmana, komust þeir í vandræði, því hver stafkrókur í grallaranum var orðinn öfugur og umsnúinn í guðlast og formælingar. Þótti mönnum þetta kynlegt, sem von var, og stóðu ráðþrota. Varð heldur lítið úr líksöngnum. Ekki tók betra við, er presturinn skyldi mæla yfir líkinu. Jafnvel blessunarorðin umhverfðust í blótsyrði á vörum hans, svo hann hlaut að hætta. En þrátt fyrir undur þessi, mun líkið hafa hlotið leg þarna í vígðum reit og verið moldu ausið af presti, eins og til stóð. Voru nú leiddar margar getur að því, hver sjórekni maðurinn hefði verið. Skýringar manna á því voru einkum þrjár: að hann hefði verið Hund-Tyrki, illur andi, holdi klæddur, eða þá api. En hvernig sem því var farið, þá er víst, að ekki leið á löngu eftir jarðarför þessa, unz vart þótti verða við reimleika í nánd við Skarðskirkju. Kvað svo rammt að því, að ófært þótti að vera þar á ferli, er dimma tók. Sáu ófreskir menn þá loðna manninn, – eins og nú var farið að nefna líkið nýjarðaða, – lemja kirkjuna að utan með fjölum úr kistu sinni. Ýmis fádæmi önnur gerðust þar. Skal því við bætt, að eftir jarðarför þessa og æ fram á þennan dag þykir mjög villugjarnt á Kirkjumelunum svonefndu.

Nú orðið er stikaður og nokkuð fjölfarinn vegur á milli bæjanna Hnausa og Langholts í Meðallandi, og er hann á kafla mjög nálægt þeim stað, þar sem Skarðskirkja var áður. En þar hefur komið kynlega oft fyrir, að menn hafa farið villir vega, ef á ferð hafa verið í dumbungi eða dimmviðri. Hestar hafa og verið annarlega fælnir og óratvísir á þessum vegarkafla í slíku veðri, svo að ekki hefur bætt úr skák að láta þá ráða ferðum.

Fyrir löngu bjó prestur sá á Hnausum, er Jón hét. Vetur einn var hann á heimleið um Meðallandið, seint um kvöld. Veðri var þannig farið, að dumbungur var og mjög skuggsýnt. Presturinn var þaulkunnugur á þessum slóðum, og þótti dimman því ekkert saka. En þegar hann er kominn út á kirkjumelabrautina, verður hann bráðlega ramáttavilltur. Er hann nú að villast um sandinn lengi nætur. Heimilisfólk prests átti von á honum þetta kvöld. En þegar það fer að lengja eftir honum, setur það ljos út í glugga, þar sem víða mátti sjá það að. Undir morgun komst prestur loks heim, magnvana og dasaður mjög eftir villuna á þessum kunnugu slóðum. Sagði hann fátt af ferðum sínum. En þegar hann var spurður, hví hann hafði ekki stefnt á ljósið heima, sem hann hlyti þó að hafa séð, andvarpaði hann og sagði: “Ljósin voru svo mörg, að ekki var fyrir nema fjandann sjálfan að vita, hvert væri hið rétta.”

Stefán hét bóndi, er bjó á Hnausum, var fæddur og ól þar allan sinn aldur. Honum þótti miklu miður, ef menn fóru suður á Kirkjumela seint að kvöldi eða hvenær sem var í ótryggu útliti. Lagði hann oft blátt bann við, að þeir, sem um garð fóru á Hnausum – hvað þá heimilisfólk hans – gerði svo. Þó eru engar hættur í venjulegum skilningi.

Einar Guðmundsson. 1932. „Loðni maðurinn á Skarði.“ Íslenskar þjóðsögur I. Ólafur Erlingsson var kostnaðarmaður útgáfunnar, Rv. s. 12-15 (Sagan er stytt og er ítarlegri í bókinni.)

 Silungamóðir

Í landnorður frá Botnum í Meðallandi er stöðuvatn eitt, sem kallað er Botnakrókur. (Í dag nefnt Fljótsbotn.) Er það í einni kverk  Skaftárhraunsins frá 1783, og ætla menn að það fái vatnsmegin sitt undan hrauninu, og úr því rennur Eldvatnið í Meðallandi. Botnakrókur kvað vera ákafleg djúpur, og svo mikil ókjör voru þar af silungi, að hann óð uppi í torfum í yfirborðinu. En ótrú var á því að veiða silunginn, og alla þá tíð, sem Erasmus hinn gamli bjó í Botnum, en það hefur verið nær 60 ár, lét hann aldrei veiða þar sjálfur né leyfði öðrum að gera það, þó að krókurinn væri fullur af fiski. Erasmus lézt 1873 fjörgamall.

Þótti ýmsum ungum mönnum þá fýsilegt að reyna silungsveiði í Botnakróki og töldu ótrú þá, er á því lægi, bábilju eina. Olgeir hét sonur Þorsteins í Króki í Meðallandi Sverrissonar, skotmaður hinn bezti og veiðimaður, harðgerður og þá ungur, Hann falaði leyfi hjá Karitas Brynjólfsdóttur prests Árnasonar, ekkju Erasmusar, til að veiða í króknum, og fékk ekki afsvar um það, þó að bæði henni og öðru Botnafólki væri reyndar lítið um, að farið væri að taka upp á þessu.

Er ekki að orðlengja það, að Olgeir tekur til að veiða í króknum haustið 1874 eða 1875, og hafði hann litla kænu til veiðanna, svo að hann gæti komizt út á vatnið. Gekk svo um hríð, og bar ekki neitt á neinu. Veiddist þar ógrynni silungs, en að lyktum tók Olgeir eftir því, að farið var að fækka um fiska í vatninu, en fram hélt hann veiðiskap sínum eigi að síður.

Eina nótt í tunglsljósi og góðu veðri er hann sem oftar á kænu sinni við veiðiskap úti á vatninu og veiðir þá lítið eða ekki, en þegar hann er á leið til lands, sér hann hvar özlar að bátnum skepna ein heldur en ekki ófrýnileg, líkust stórri skötu. Var þar komin silungamóðirin og leggur annað barðið upp á borðstokk kænunnar og vildi hvolfa henni. En af því að Olgeir var knár maður, náði hann heilu í land, og upp frá því hætti hann veiðinni. Olgeir fór síðan út í Selvog og dó þar litlu fyrir 1890. En sjálfur sagði hann frá sögu þessari og kvaðst aldrei framar skyldu ráða neinum til að veiða í Botnakrók.

Jón Þorkelsson. 1956. Þjóðsögur og munnmæli. Bókfellsútg. Rv. s. 216

 

Mela-Manga

Það bar til fyrir löngu, að stúlka ein umkomulítil, er Margrét hét, var á ferð um vetur á Kirkjumelunum í Meðallandi eða í nánd við þá. Var hún með prjóna sína, eins og títt var fyrr meir um konur, er þær fóru bæjarleið á þeim tíma árs. Veður var milt þenna dag, en mikil þoka. Spurðist aldrei til Margrétar lifandi framar; hún varð úti, en enginn vissi hvar, enda segir fátt af einum.

Þetta slys, sem mörg önnur, var kennt loðna manninum á Skarði, er getur hér á undan. En ekki virðist Margrét hafa orðið fegin hvíldinni, því að mjög þótti hún ganga aftur. Sást hún oft á Meðallandssöndunum og þó einkum á Kirkjumelunum. Alltaf var hún með hálfprjónaðan sokkbol og prjónaði í ákafa. Stundum heyrðu menn til hennar, en stundum urðu menn varir við návist hennar á annan hátt. Draugur þessi var nefndur Mela-Manga, og gerði hún ýmsum, einkum þó smalamönnum, skráveifur; lét þeim til dæmis sýnast kindur, þar sem ekki var annað en steinar eða fífubreiður, er að var komið. Og fleiri sjónhverfingar gerði hún þeim.

Maður er nefndur Sigurður og átti heima á Botnum í Meðallandi, er saga þessi gerðist. Hafði hann fjárgeymslu á hendi. Eitt sinn var hann á ferð nálægt Melunum í dimmviðris-kafaldi. Villtist hann og vissi lengi ekki, hvert hann fór. Heyrði hann sífellt suðað og endurtekið sama orðið í kringum sig: „Siggi, Siggi, Siggi, Siggi“. En er þetta hafði gengið lengi, fór Sigurði, sem var þó geðspektarmaður, að renna í skap, og kallaði hann heldur styggilega: „Þú veizt þó, hvað ég heiti, helvítið þitt?“ Þá brá svo við, að röddin þagnaði, en maðurinn komst á rétta leið.

Talið var víst, að Mela-Manga hafi gert glettingar þessar.

Einar Guðmundsson safnaði. 1932. Íslenskar þjóðsögur I. „Mela-Manga.“  Ólafur Erlingsson var kostnaðarmaður útgáfunnar, Rv. s. 17-19

Sú nýjasta af Loðna manninum á Skarði

Það síðasta sem ég hef frétt af Loðna manninum á Skarði er þegar hann kom á undan mér í veiðihús hérna við Eldvatnið. Þar voru þá nokkrir þekktir menn og fjölskyldur þeirra. Þá langaði mikið til að ég segði draugasögur hérna úr sveitinni. Ég kom þarna til þeirra í kvöldmatinn og á eftir fengum við okkur aðeins í glas minnir mig vera. Og ég sagði söguna af loðna manninum á Skarði. Manni þykir alltaf gott að vera þar sem maður getur fengið einhverja athygli, en þarna var það bara heldur mikið. Það var glápt á mig eing og eitthvert furðuverk. Það kom þá í ljós að eina konuna dreymdi, að brotist sé þarna inn í skálann. Og húsbrjótur kemur inn og svo er hann farinn að brjótast inn í herbergið sem þau sváfu, er búinn að brjóta hurðina og hún er farin að sjá hann, og hann er ógnvekjandi. Henni fannst að það myndi ekkert geta bjargað, nema helst Guð. En þá vaknaði hún frá þessu og ekkert varð meir úr. En svo fer ég að segja sögu af svona fyrirbæri. Þarna hefur sá Loðni komið á undan mér.

Mér hefur stundið dottið í hug hvort ég hafi ekki verið að rugla eitthvað í beinum hans þegar ég var að grafa niður mannabein þarna í kirkjugarðinum.

Saga þessi sem höfð er eftir Vilhjálmi Eyjólfssyni á Hnausum og er úr óútgefnu viðtali sem Guðmundur Óli Sigurgerisson tók vorið 2000 og varðveitt er á Héraðsbókasafninu á Kirkjubæjarklaustri