Warning: Uninitialized string offset 0 in /var/www/virtual/eldsveitir.is/htdocs/wp-includes/class-wp-term-query.php on line 1

Warning: Uninitialized string offset 0 in /var/www/virtual/eldsveitir.is/htdocs/wp-includes/class-wp-term-query.php on line 1

Warning: Uninitialized string offset 0 in /var/www/virtual/eldsveitir.is/htdocs/wp-includes/html-api/class-wp-html-tag-processor.php on line 1

Warning: Uninitialized string offset 0 in /var/www/virtual/eldsveitir.is/htdocs/wp-includes/html-api/class-wp-html-tag-processor.php on line 1
Erró ólst upp á Klaustri — Sögur, menning og náttúra Skip to main content
Kirkjubæjarklaustursögur

Erró ólst upp á Klaustri

By May 9, 2019March 28th, 2020No Comments

Á Klaustri lék Guðmundur sér í læknum, klifraði í fossinum, hljóp um túnin, veiddi silung í net, fór á hestbak, skellti sér stundum til sunds í Skaftá, gróðursetti agnarlítil tré í skóginum á Klaustri og tók þátt í öllum daglegum störfum á íslensku sveitaheimili.

En tvennt  var  óvenjulegt. Guðmundur, sem seinna tók upp listamannsnafnið Erró, fékk að fylgjast með Kjarval mála í barnaskólanum sem stóð fyrir utan húsið á Kirkjubæ I. Enginn annar krakki á Klaustri fékk að koma inn á vinnustofu Kjarvals.

Þegar Kjarval fór frá Klaustri á haustin skildi hann eftir striga, pensla og málningu sem strákurinn fékk að nota.

Annað var að Erró fékk vinnuaðstöðu í einum bragganum á Klaustri. Segir Erró að stjúpfaðir hans hafi áttað sig á að hann þyrfti næði og rými til að mála og lét honum eftir hluta af bragganum sem stóð niður við Skaftá.

Erró með Vigdísi Finnbogadóttur á opnun sýningarinnar Heimsferð Maós í Listasafni Reykjavíkur vorið 2019. (Ljósm. Listas.Rv.)
Á stóru myndinni eru Erró og Vilai í heimsókn hjá Margréti Helgadóttur og Erlendi Einarssyni í Seglbúðum. Bræður Errós, Lárus, Ari Trausti og Kristinn eru fyrir miðri mynd. (Eig. LS)

Erró er fæddur 1932

Erró, Guðmundur Guðmundsson, fæddist í Ólafsvík 19. júlí 1932. Hafa Ólafsvíkingar verið duglegir að segja frá veru drengsins í Ólafsvík og hafa haldið listasýningar honum til heiðurs. En Erró var ekki lengi á Snæfellsnesinu því þegar hann var á öðru ári flutti móðir hans, Soffía Kristinsdóttir, með hann að Fossi á Síðu þar sem hún gerðist ráðskona. Kirkjubæjarklaustur er ekki langt frá Fossi og þar fann Soffía eiginmanninn, Siggeir Lárusson, einn Klausturbræðranna. Þau byggðu sér hús við hlið burstabæjarins á Kirkjubæjarklaustri  sem heitir Kirkjubær I og þar ólst Erró upp hjá móður sinni, stjúpföður og þremur systkinum.

Krakkarnir fjórir eru Guðmundur og frænkurnar á Klaustri, f.v. Auður, Elín Frigg og Unnur. (Eig. KJ/JJ)
Á myndinni í garðinum er Munda með Lárus, Soffía með Kristin, Guðmundur og góður vinur, Jón Sen. 
Fermingardagur Guðmundar, f.v. Lárus, Gyða, Soffía, Kristinn og Guðmundur. (Eig. GSS)
Systkinin á Klaustri og Siggeir, stjúpfaðir Guðmundar. (Eig. GSS)

Fór suður í skóla 14 ára

Erró var á Klaustri til 14 ára aldurs að hann fór til náms í Reykjavík en kom heim í fríum. Seinna fór hann til Noregs og er myndin af honum á skíðum þaðan. Erró er sonur Guðmundar Einarssonar, myndlistarmanns frá Miðdal sem var mjög fjölhæfur listamaður; myndhöggvari, málari, leirkerasmiður og fl.. Þeir  feðgar höfðu lítil samskipti á meðan Erró var á Klaustri en kynntust eftir að Erró flutti til Reykjavíkur og hvatti faðirinn hann til að fara utan til listnáms.

Erró var skírður Guðmundur en var oftast kallaður Gundur þegar hann var krakki á Klaustri. Hann tók sér fyrst listamannsnafnið Ferró en varð að breyta því þegar kom í ljós að annar listamaður notaði það nafn. Þá varð til nafnið Erró og frá 1963 hefur það verið listamannsnafn stráksins sem byrjaði ferilinn á bökkum Skaftár.

Vinnur enn að list sinni og sýningum

Listferill Errós sem hófst á Klaustri hefur varað óslitið síðan og árið 2019 er hann enn að mála myndir á vinnustofunni sinni í París og setja upp sýningar á verkum sínum víða um heim. Í Skaftárhreppi eru margar myndir eftir listamanninn á heimilum og stofnunum. Margar þeirra hefur Erró gefið og á Hótel Klaustur má sjá nokkrar mynda Errós sem hann sendi austur. Erró gaf Listasafni Reykjavíkur mikið af verkum, skyssum og efni sem tengist lífi hans og starfi. Errósafnið er í Hafnarhúsinu við Tryggvaggötu og er alltaf uppi sýning á verkum hans. Best er að skoða á vef Listasafns Reykjavíkur þar sem eru myndir af verkum listamannsins og umfjöllun um verk hans. Nýjasta sýning Errós, Heimsferð Maós, var opnuð í Hafnarhúsinu 01.05 2019 og stendur yfir í eitt ár.

Bræðurnir Lalló og Gundur eins og þeir voru kallaðir á Klaustri kátir að vanda. (Eig. LS). Erró á einni af fyrstu myndlistarsýningu sinni í Rv. (Eig. BL). Soffía og Siggeir á Kirkjubæ I með Turu, dóttur Errós. (Eig GSS)

Styrkur til myndlistarkvenna

Á hverju ári veitir Erró styrk úr sjóði sem er til minningar Guðmundu Kristinsdóttur en hjá henni og ömmu sinni átti Erró athvarf þegar hann fór til náms í Reykjavík. Sjóðurinn er merkilegur að því leyti að það eru aðeins konur sem geta fengið úthlutað.

Listakonur sem hafa hlotið styrk úr sjóðnum eru Ásdís Sif Gunnarsdóttir, Dodda Maggý, Elín Hansdóttir, Finna Birna Steinsson, Gabríela Friðriksdóttir, Guðný Rós Ingimarsdóttir, Guðrún Vera Hjartardóttir, Hekla Dögg Jónsdóttir, Hildigunnur Birgisdóttir, Hulda Stefánsdóttir, Katrín Sigurðardóttir, Margrét H. Blöndal, Ólöf Nordal, Ósk Vilhjálmsdóttir, Sara Björnsdóttir, Sara Riel, Sirra Sigrún Sigurðardóttir, Þóra Þórisdóttir,  Þórdís Aðalsteinsdóttir og 1. maí 2019 var það Hulda Rós Guðnadóttir sem fékk styrkinn.

Það er mikið verk sem liggur eftir Erró og Klausturbúar geta verið stoltir af þessum strák sem hljóp þar um tún og heiðar fyrir rúmum áttatíu árum. Fjölskylda og vinir Errós hafa sameinast um að byggja safn honum til heiðurs á Kirkjubæjarklaustri. Vonandi verður það að veruleika fyrr en síðar.

Vinkonur úr Reykjavík en þar átti Soffía heima áður en hún eignaðist Guðmund. Guðmunda Kristinsdóttir er í aftari röðinni lengst t.v. og Soffía Kristinsdóttir í fremri röðinni lengst t.h. (Eig. GSS)
Miriam Bat Yosef, eiginkona Errós, aðstoðaði hann mikið við að koma myndlistinni á framfæri. Hér er hún með Soffíu. (Eig. GSS)
Erró og Vilai, sambýliskona hans, í faðmi fjölskyldu og vina. (Eig. GSS)
Erró á reiðhjóli við fyrstu vinnustofuna í bragganum á Klaustri. (Eig. LS) og svo er Erró í silungsveiði í einni af heimsóknunum á Klaustur. (Eig. Listasafn Rv.)
Myndin af Erró efst á síðunni er í eigu Listasafns Reykjavíkur

Aðalsteinn Ingólfsson. 1991. ERRÓ. Margfalt líf. Mál og menning, Rv.                Danielle Kvaran. 2007. Erró í tímaröð – líf hans og list. Mál og menning og Listasafn Reykjavíkur, Reykjavík.