Warning: Uninitialized string offset 0 in /var/www/virtual/eldsveitir.is/htdocs/wp-includes/class-wp-term-query.php on line 1

Warning: Uninitialized string offset 0 in /var/www/virtual/eldsveitir.is/htdocs/wp-includes/class-wp-term-query.php on line 1

Warning: Uninitialized string offset 0 in /var/www/virtual/eldsveitir.is/htdocs/wp-includes/html-api/class-wp-html-tag-processor.php on line 1

Warning: Uninitialized string offset 0 in /var/www/virtual/eldsveitir.is/htdocs/wp-includes/html-api/class-wp-html-tag-processor.php on line 1
Álaveiðar — Sögur, menning og náttúra Skip to main content
LandbrotMeðallandsögur

Álaveiðar

By October 18, 2019November 6th, 2019No Comments

Álaveiðar tíðkuðust í Landbroti og Meðallandi. Állinn er furðuskepna og minnir meira á slöngu en fisk.  Í gamla daga var hann stundum í vötnum þar sem menn voru á engjum. Kom þá fyrir að hann vafði sig um fætur fólksins sem vann við heyskapinn og urðu þá mikil óp og læti. Sláttumenn slógu hann einstaka sinnum í sundur. Var fólki illa við álinn og kallaði hann hrökkál og eru til þjóðsögur því tengdar. Töldu sumir að hann kviknaði fyrir galdur í mýrunum.

 

Lirfurnar koma frá Flórída um 4000 km

En ótrúleg er ferð álsins til Íslands þó ekki komi galdur til. Hrygningarstöðvar álsins eru í Sargassohafi (Þanghafið) sem er í námunda við Bahamaeyjar og Flórída . Þaðan berast lirfur álsins til Evrópu um 4000 km og rekur upp í ár og læki á Íslandi. Þá eru þær orðnar 6-7 sm og ferðin hefur tekið þrjú ár. Hængarnir dveljast við sjóinn en hrygnurnar geta haldið alllangt inn í landið. Þá taka við nokkur ár þar sem álarnir reyna að éta og fitna eins og þeir lifandi geta og verða hér á landi um hálfur metri á lengd og 250-500 grömm. Þegar þeir eru orðnir ríflega níu ára þá rýrna meltingarfærin en kynfæri þroskast í staðinn og álarnir halda á hrygningarstöðvarnar í Saragossahafi og á þeirri leið éta þeir ekkert. Það er ráðgáta hvernig álarnir rata aftur á hrygningarstöðvarnar. Þegar állinn er búinn að hrygna drepst hann og sama hringrásin hefst með litlu lirfunum sem berast með Golfstraumnum til Íslands og annarra land hér í norðri. [1]

Nota þurfti sérstakar álagildrur

Áll þykir herramannsmatur víða um heim og var veiddur nokkuð hér á landi um 1960 meðal annars í Landbroti og Meðallandi. Þótti állinn þaðan með þeim stærstu og bestu sem veiddust á Íslandi. Notaðar voru sérstakar álagildrur við veiðarnar. Lengi mátti fá ál á veitingahúsinu Sægreifanum í Reykjavík en Kjartan, eigandinn, var Meðallendingur. Állinn var saltaður eða reyktur og roð álsins var notað í skóþvengi. En mest af álnum var selt til annarra landa því Íslendingar voru ekki hrifnir af að borða hann.

Færri álar en áður

Álar eru sjaldséðari nú en fyrir 40 árum og lítil skipulögð veiði verið undanfarin ár. Kemur þar margt til. Sandur hefur flust til og víða fyllt upp í vötn t.d. Beruflóðið í Meðallandi sem hvarf alveg. Mýrar hafa verið ræstar fram og minkum hefur fjölgað en þeir éta álinn ef þeir ná til hans. Alltaf má þó finna ál ef vel er leitað í mýrum sem liggja nærri sjó í Meðallandi og Landbroti.

 

[1] Muus, Bent. J, Jörgen G. Nielsen, Preben Dahlström, Bente O.Nyström. 1997. Fiskar og fiskveiðar við Ísland og Norðvestur-Evrópu. Mál og menning, Rv. s. 80-84 og Gunnar Jónsson. 1992. Íslenskir fiskar. 2. útg. Fjölvi, Rv. s. 233-236