Skip to main content
Meðallandsögur

Baldvin strandaði 2004

By October 18, 2019January 27th, 2020No Comments

Skip strandaði í Meðallandi árið 2004

Að morgni 9. mars 2004 bárust boð um  að skip væri strandað á Skarðsfjöru. Björgunarsveitir úr Skaftárhreppi og Mýrdal fóru á staðinn. Fjölveiðiskipið Baldvin Þorsteinsson var á loðnuveiðum út af Meðallandinu þegar það strandaði á Skarðsfjöru um þrjár sjómílur austan Skarðsfjöruvita. Veður var slæmt og skipið drekkhlaðið af loðnu þegar það fékk nótina í skrúfuna. Önnur loðnuskip reyndu að koma Baldvini til hjálpar en ekkert dugði. Bjarni Ólafsson Ak var fyrstur á vettvang og var bæði reynt að draga Baldvin með taug og vír en hvortveggja slitnaði og rak skipið upp í fjöruna og strandaði.

Þyrlan sótti skipverjana

Þyrla landhelgisgæslunnar kom á staðinn og bjargaði allri áhöfninni, 16 manns, fyrir klukkan sjö um morguninn. [1] Skipverjarnir höfðu allir fengið þjálfun í björgunarskólanum og sagði flugstjóri þyrlunnar að sú þjálfun hefði komið að góðum notum. Ekki þurfti að senda sigmann niður í skipið heldur bundu skipverjarnir sig sjálfir í línuna, tveir og tveir saman og sparaðist þannig allnokkur tími.

Björgun skipsins gekk brösuglega

Strax var hafist handa við að bjarga skipinu líka. Þær aðgerðir gengu brösuglega og kom það mönnum á óvart hversu fast skipið sat á fjörunni. Slitnuðu sterkir vírar og tó sem reynt var að nota til að draga skipið.  Var loðnufarmurinn losaður í sjóinn til að létta skipið. Dráttarskipið Normand Mariner var fengið frá Noregi til að toga skipið út. Aðstoðaði þyrlan við að koma taug á milli skipsins og dráttarskipsins og um 60 björgunarsveitarmenn á landi hjálpuðu við að halda Baldvini á réttum kili með því að toga í hann með bílum og gröfum. Einnig komu að björguninni Landhelgisgæslan, varnarliðið og Landsvirkjun.

Öll þjóðin fylgdist með hvort Baldvin kæmist aftur á sjó

Á meðan á björgunaraðgerðunum stóð var veður rysjótt og voru fréttir ýmist af því að björgun væri alveg að takast eða að eitthvað hefði farið úrskeiðis. Fylgdist öll þjóðin með þessu verkefni. Samherji á Akureyri var eigandi skipsins og kom forstjóri fyrirtækisins, Þorsteinn Már Baldvinsson, ásamt fleirum til að stjórna aðgerðum.

Koma þurfti mörgum tækjum niður á fjöru en þangað var aðeins slóði um mýrar og sanda og var þar allt komið á kaf í drullu eftir alla umferðina. Var þá brugðið á það ráð að bera ofan í veginn og bæta hann en það er um 17 km leið frá bænum Bakkakoti í Meðallandi að strandstað. Allt var lagt í sölurnar til að bjarga skipinu.

Baldvin Þorsteinsson var eitt stærsta og verðmætasta skipið í flota Íslendinga á þessum tíma, smíðað í Noregi árið 1994. Baldvin  er 3000 brúttólesta skip, 86 metra langt og 14 metra breitt og vegur ásamt afla 5600 tonn. Eigendur eru Samherji á Akureyri. Næsta strand á undan þessu var þegar Halkion strandaði 1969 og þar á undan var það strand King Sol 1955. Baldvin Þorsteinsson var tvímælalaust það allra stærsta sem strandað hefur á Meðallandsfjörum. Íslendingar fylgdust með í fjölmiðlum hvort öll þessi verðmæti myndu grafast í sanda Meðallandsins eða hvort tækist að koma skipinu aftur til veiða.

Baldvin Þorsteinsson sigldi burt

Aðfaranótt 17. mars tókst að ná skipinu á flot og það sigldi burt í fylgd norska dráttarbátsins til Noregs með laskað stýri og bilaða kúplingu og fór beint í slipp. Björgunaraðgerðin kostaði mikið, en hún tókst og það var fyrir mestu. Að aðgerðinni lokinni var við hæfi að skála í kampavíni á Skarðsfjöru í Meðallandi

 

 

 

 

Allar ljósmyndir með þessari grein eru frá Jónasi Erlendssyni í Fagradal sem var einn björgunarsveitarmanna á strandstað.

[1] Grein í Morgunblaðinu 10. mars 2004