Skip to main content
Meðallandsögur

Kirkjurnar hurfu undir sand og hraun í Meðallandi

By October 18, 2019October 6th, 2023No Comments

Kirkjusaga Meðallandsins er með ólíkindum. Þar hefur þurft að flytja kirkjuna vegna sandfoks og náttúruhamfara þrisvar sinnum á nokkrum öldum. Kirkjustaðurinn Skarð varð sandinum að bráð og ný kirkja var byggð í landi Hólmasels þar sem litlar líkur voru á sandfoki. Nokkrum árum síðar hvarf sú kirkja undir Skaftáreldahraunið með öllu sem í henni var. Þriðja kirkjan var reist á Langholti og þar er kirkjustaður Meðallendinga í dag. Skoðum þessa ótrúlegu sögu betur.

Moka varð sandskaflana frá kirkjudyrunum á Skarði

Á Skarði var kirkja fram eftir 18. öldinni. Skarðs í Meðallandi er fyrst getið í Landnámu og sagt að Eysteinn digri hafi numið Meðallönd og búið að Skarði. Væntanlega hefur þá verið gróðursælt í þessum hluta sveitarinnar enda ekki valdir kirkjustaðir nema að því gefnu. Þegar Skarðs er getið af séra Einari Hálfdánarsyni 1725 stendur kirkjan hins vegar ein á berum sandi og auðnin allt í kring. Sjálft höfuðbólið Skarð fór í eyði um 1700. [1]

Skírnarfonturinn í Langholtskirkju er gerður af Einari Einarssyni frá Syðri-Fljótum. Skírnarfonturinn er allur útskorinn og mynstrið er melgresi sem er fallegt skraut og vel við hæfi í þessari sveit. (Eig. LR)

Árið 1721 var gólf kirkjunnar í Skarði sandi kafið og var fyrirskipað að endurbyggja kirkjuna en af því varð ekki. Oft urðu Meðallendingar að byrja á því að moka sandinum frá kirkjudyrunum þegar þeir komu til messu og urðu svo að beygja sig niður þegar gengið var inn til þess að forðast að reka sig upp undir siginn dyraumbúnaðinn. Jarðsett var í kirkjugarðinum í Skarðskirkju til 1750 jafnvel þótt sandurinn rifi moldina af gröfunum og sæist í berar líkkisturnar og jafnvel beinagrindur.

Talið er að Meðallendingar hafi áður þurft að flýja með kirkju sína vegna sandfoks og munnmæli herma að um skeið hafi verið kirkja við Hólmadrang, síðan við Heggershólma og svo á Mel. Ýmsar sagnir eru til sem tengjast Skarðskirkju. Í einni þeirri segir að þegar kirkjan var flutt frá Mel að Skarði hafi hestur sem bar prédikunarstólinn úr Melskirkju farist af brú í Skarðsá. Sögnin segir að prédikunarstóllinn hafi brotnað en um leið hafi verið spáð að ekki mundi Meðallendingum frá þeim tíma verða haldsamt á prestum sínum og má segja að sú spá hafi ræst því illa gekk að fá presta til að þjóna í Meðallandi, meðal annars vegna þess að ekkert var prestsetrið.

Skarð var Þykkvabæjarklaustursjörð og því var leitað á náðir þeirra manna er þar höfðu völd um hvaðeina sem við kom kirkjunni. Allt frá 1700 var rætt um flutning kirkjunnar og alltaf talað um Hólmasel sem framtíðarkirkjustæði sveitarinnar. Þar var talin minnst sandhætta. Vorið 1749 fer Ólafur Gíslason biskup í vísitasíuför í Skaftafellssýslur og er það síðasta skoðun á Skarðskirkju. Að þessari vísitasíu lokinni er Skarðskirkja dæmd til niðurrifs. Það sem nýtilegt var úr kirkjunni skyldi flutt að Hólmaseli og notað í nýju kirkjuna. Staðurinn þar sem kirkjan á Skarði var hefur nú verið merktur með krossi innan landgræðslugirðingarinnar og það er príla við veginn þar sem á að fara inn í girðinguna og ganga síðan stuttan spöl í norður. Áður hafði fundist þar altarissteinn sem nú er varðveittur á Þjóðminjasafni Íslands. Það er áhrifamikið að ganga að krossinum og virða fyrir sér landið þar sem nú sjást engin merki mannabyggðar. 

Örlög Hólmasels

Á haustdögum 1748 undirbúa Meðallendingar byggingu kirkju að Hólmaseli og lauk hleðslu hennar það haust. Bygging þeirrar kirkju gekk þó seinna en ætlað var og urðu nokkrir málarekstrar þar. Það var því ekki fyrr en vorið 1751 sem kirkjan á Skarði var rifin og allir nýtanlegir viðir nýttir til að byggja kirkjuna í Hólmaseli ásamt töluverðu af rekaviði. Kirkjugarður var hlaðinn við kirkjuna í Hólmaseli um 1757. Árið 1779 vísiteraði Hannes Finnsson biskup kirkjuna. Þessi vísitasía biskups var hin síðasta að Hólmaseli. Á hvítasunnudag hinn 8. júní 1783 var messað í Hólmaseli en á leið til kirkju snérust umræður fólks mest um einkennilega bólstra bak við Síðufjöllin.Þetta var upphafsdagur Skaftárelda og kirkjan í Hólmaseli fór undir hraun skömmu síðar Þann 20. júní tók séra Björn sig upp þaðan með fólk sitt og fénað enda nálgaðist hraunið óðfluga. Hann fór í miklu hasti og var hallmælt lengi fyrir að hafa ekki hugað að eignum kirkjunnar sem eftir urðu í henni læstri. Var þar meðal annarra muna forláta klukka sem lánuð hafði verið frá Þykkvabæjarklaustri í nýju kirkjuna. Stuttu síðar stóð kirkjan og bærinn í Hólmaseli í björtu báli. Nýja kirkjan nýttist Meðallendingum í þrjá áratugi og brann þá með öllu sem í henni var. Hafa menn getið sér til um hvar nákvæmlega kirkjan var og er merki í hrauninu norður af Hnausum þar sem menn telja Hólmasel hafa verið.

Langholt valinn kirkjustaður

Í Meðallandi var engin kirkja í þrjú ár en sumarið 1786 var lokið byggingu kirkjunnar á Langholti en byrjað var að nota kirkjugarðinn þar eftir að Hólmaselskirkja hvarf undir hraun. Í millitíðinni hafði meðal annars verið notast við skemmu á Ytri-Lyngum sem kapellu til messugjörðar.Kirkjan að Langholti var endurbætt eftir aldamótin og aftur 1846 en þrátt fyrir það telur prófastur árið 1851 í visitasíu sinni að ekki sé hægt að lagfæra hana nema með því að byggja hana alveg frá grunni úr nýju efni. Ekki voru allir á eitt sáttir um það hvar kirkjan ætti að rísa. Vildi fólk af austustu bæjunun ofan Eldvatns, Steinsmýri og þar um kring, frekar að kirkjan yrði reist á Hnausum en því var ekki sinnt og kirkjan byggð í Langholti. Kirkjan var öll endurbyggð úr rekaviði og var mikið verk að vinna það efni til kirkjubyggingarinnar en fullgerð var hún 1863. Á þessum tíma var fjölmenni í Meðallandi, alls 407 manns á 66 býlum og hefur því verið brýnt að hafa kirkju fyrir söfnuðinn. Þessi kirkja stendur enn en hefur verið mikið endurbyggð og lagfærð. (Ljósm. IH)

Kirkjumunir eiga margir áhugaverða sögu. Olíuvegglampar, ljósakróna, ásamt tveimur háum kertastjökum sem prýða altarið komu úr Spítalaskipinu Sankti Paul. Í Langholtskirkju er líka að finna altarisklæði, svart flauelsefni sem á er saumaður stór kross með gullþræði. Allar líkur benda til að það sé komið úr Sankti Paul líka. [2] Altaristaflan er eftir danska málarann Anker Lund. Gömul kertaljósakróna er komin úr kirkjunni í Skál sem eyðilagðist í Skaftáreldum. Skipsbjalla er í kirkjunni og er hún gjöf skipverja á þýska flutningaskipinu Martha sem standaði á Koteyjarfjöru 11. desember 1920. Tókst að bjarga allri áhöfninni og vildu skipverjar þakka fyrir sig með þessum hætti.

Bærinn Langholt hafði staðið uppi á melabrúninni norður af Skarði en þaðan varð að flytja bæinn og var hann byggður þar sem kirkjan hefur verið í rúm 200 ár. Árið 1979 ákváðu ábúendur á Langholti að byggja íbúðarhús og fjós norðan við veginn. Í dag er því langt á milli kirkju og bæjarhúsa á Langholti og kirkjan stendur við afleggjarann að Lyngum þó hún sé í landi Langholts.

Árið 1907 voru sóknirnar sameinaðar; Álftaver, Skaftártunga og Meðalland og prestsetur ákveðið að Ásum í Skaftártungu. Ekki rættist því draumur Meðallendinga um prest og prestsetur í Meðallandi og hafa mjög margir prestar þjónað þessari sókn. Einn prestur sat þó afar lengi eða 46 ár. Var það séra Valgeir Helgason í Ásum sem þjónaði Ásasókn frá 1934-1980

Ein fjölskylda á Íslandi  er þekkt fyrir marga kirkjunnar þjóna en það eru afkomendur Sr. Sigurbjarnar Einarssonar, biskups og Magneu Þorkelsdóttur. Þar á meðal er Séra Karl Sigurbjörnsson biskup. Sr. Sigurbjörn fæddist á Efri-Steinsmýri en eftir að hann missti móður sína ólst hann að mestu leyti upp hjá móðurforeldrum sínum í Bakkakoti í Meðallandi.

Á myndinni með Sr. Sigurbirni eru, talið frá vinstri: Sr. Fjalar úr A-Skaft, Sr. Sigurjón Einarsson á Klaustri, Sr. Sigurbjörn Einarsson biskup, nunna sem ekki er vitað hvað heitir, Sr. Sighvatur Birgir Emilsson í Ásum, Magnea Þorkelsdóttir, eiginkona Sigurbjörns sem líka var ættuð úr Skaftárhreppi, Guðrún Þorkelsdóttir og Jón Helgason í Seglbúðum. (Ljósm. LR)

 

[1] Ingimundur Ólafsson. 1985. Frá Skarði að Langholti. Dynskógar 3. Vestur-Skaftafellssýsla, Vík. (Greinin um kirkjusögu Meðallandsins er byggð alfarið á þessari heimild.)

[2] Vilhjálmur Eyjólfsson. Óbirt viðtal Lilju Magnúsdóttur við hann 21. jan 2010