Warning: Uninitialized string offset 0 in /var/www/virtual/eldsveitir.is/htdocs/wp-includes/class-wp-term-query.php on line 1

Warning: Uninitialized string offset 0 in /var/www/virtual/eldsveitir.is/htdocs/wp-includes/class-wp-term-query.php on line 1

Warning: Uninitialized string offset 0 in /var/www/virtual/eldsveitir.is/htdocs/wp-includes/html-api/class-wp-html-tag-processor.php on line 1

Warning: Uninitialized string offset 0 in /var/www/virtual/eldsveitir.is/htdocs/wp-includes/html-api/class-wp-html-tag-processor.php on line 1
Baráttan við sandinn og skógurinn á Klaustri — Sögur, menning og náttúra Skip to main content
Kirkjubæjarklaustursögur

Baráttan við sandinn og skógurinn á Klaustri

By October 18, 2019April 2nd, 2020No Comments
Stjórnarfoss er í ánni Stjórn sem rennur um Stjórnarsand. Vatnið úr Stjórn var leitt um sandinn til að græða hann upp. Enn má sjá móta fyrir áveituskurðunum. 

Sandfok ógnaði byggð á Kirkjubæjarklaustri

Stjórnarsandur  er 1500 hektara land austan við Klaustur og var áður svartur sandur sem fauk yfir allt. Stjórnarsandur er nú er að stórum hluta ræktað land og mýrar, flugvöllur er syðst á honum og á stórum hluta er landgræðsluskógur. Með samstilltu átaki Landgræðslunnar og ábúenda tókst að snúa vörn í sókn, rækta og hemja þann ógnarsand sem Stjórnarsandur var.

Sandgræðslan 1886 -1980

Fyrstu skrefin steig Sigurður Ólafsson sýslumaður í samstarfi við Búnaðarfélag Suðuramtsins sem sendi Sæmund Eyjólfsson austur sumarið 1886. Hlaðnir voru garðar og ánni Stjórn veitt út á sandflæmið. Næstu fimm ár var unnið ötullega að þessu verki og tókst að græða sandinn mikið. Eftir það varð nokkurt hlé því Sæmundur fór til náms og Sigurður flutti burtu. Var unnið á sandinum næstu ár en ekki eins markvisst og áður og tapaðist eitthvað af því sem áunnist hafði. Lárus Helgason hélt áfram uppgræðslunni eftir að hann tók við jörðinni í samstarfi við Sandgræðsluna. Voru reistar girðingar, áburði mokað á sandinn og sáð mel og grasfræi. Tókst smátt og smátt að græða lítil svæði, jafnvel þannig að það urðu tún.

Siggeir Lárusson, með óþekktum mönnum og þremur börnum, á Stjórnarsandi, rétt við Geirlandsveginn. Myndin gæti verið frá því um 1950. Sandurinn var ógnarstór og ógróinn, fauk yfir byggðina og lagðist í skafla yfir það sem búið var að græða. (Eig. LS)
Á næstu mynd sést hvernig búið er að græða Stjórnarsand, rækta tún og gróðursetja skóg. (Ljósm. LM)
Á þriðju myndinni sést sandurinn fjær og nakin hlíðin nær, þar sem ekki er komið eitt einasta tré. Ferningurinn fyrir miðri mynd er garðurinn sem var reistur 1941. umhverfis gamla kirkjugarðinn hjá kapellunni.  Jónshús er ekki komið en það var byggt 1946. Fossnúpurinn í fjarska. (Ljósm. KJ_JJ)

Rafmagnið kom að góðum notum við uppgræðsluna

Sandgræðslumálin komust þó fyrst á verulegt skrið þegar Klausturbræður reistu dæluhús niður við Skaftárbrú, tengdu dæluna við rafmagn, lögðu löng rör og dældu vatninu úr Skaftá yfir sandinn. Görðum var ýtt upp með jarðýtu sem þeir bræður áttu og árangurinn lét ekki á sér standa. Jökulvatnið úr Skaftá og tært vatnið úr Stjórn rann yfir sandinn og græddi upp stóran hluta hans. Margir komu síðar að uppgræðslunni, bæði með fé og vinnu og um 1980 má segja að sandfokið sé hætt rúmri öld eftir að að sandgræðslan hófst. Það er áhugavert að virða fyrir sér Stjórnarsand af brúninni fyrir ofan þorpið og reyna að koma auga á hvar enn mótar fyrir skurðum og görðum sem tengdust uppgræðslunni. Þegar komið er að Kirkjubæjarklaustri í dag er mjög erfitt að sjá fyrir sér að þarna hafi fyrir svo fáum áratugum verið sandfok og hálfgerð eyðimörk. Nú blasa við gróin tún og skógrækt þar sem áður var auðn.

Húsið á Kirkjubæ II var reist á sandi um 1960. Þetta er rauða húsið sem varla sést í fyrir trjám í dag. (Ljósm. JSen)
Barn að leik í risastóra sandkassanum sem var á Klaustri. (Ljósm. JSen)

Skógurinn – hæsta tré á Íslandi

Brekkurnar fyrir ofan þorpið eru nú skógi vaxnar. Klausturbræður og fjölskyldur þeirra hófust handa við þá ræktun 1945. Þar var ekki ein hrísla áður en farið var að gróðursetja en nú er þarna gróskumikill skógur sem þekur allar brekkurnar. Hefur vaxið vel á þessum stað enda fádæma veðursælt. Hæsta tré á Íslandi er að finna í þessum skógi, það er sitkagreni sem var 28,36 metrar á hæð í ágúst 2018. Tréð stendur við göngustíginn sem beygir af leiðinni upp skóginn rétt ofan við útsýnispallinn við Systrafoss.

Um 1964 var gerður samningur við Skógrækt ríkisins um viðhald girðinga og umsjón með skóginum. Hefur Skógræktin á síðustu árum bætt aðgengi að skóginum auk þess að bæta við sjaldgæfum trjátegunum og leggja skemmtilegar gönguleiðir þar sem finna má notaleg rjóður með borðum og bekkjum. Skógurinn er prýðilegt svæði til lautarferða og náttúruskoðunar þar sem margar tegundir trjáa, blóma og berja vaxa og fjöldi fugla  og smádýra lifir þar sumar og vetur.

Móbergið fyrir ofan þorpið

Hlíðin fyrir ofan Klaustur er úr móbergi og oft brotnar úr henni. Stóri steinninn sem er fyrir neðan fossinn heitir Fossasteinn eða Stóri steinn. Talið er að hann hafi brotnað úr fjallinu í eldingaveðri árið 1830. Steinninn er til hægri á myndinni sem Jón Sen tók og hefur litað. Til eru teikningar af Systrafossi þar sem steinninn er enn hluti af fjallinu.

Hjónasteinn

Hjónasteinn er stór steinn sem er í garðinum við gamla bæinn. Steinninn hefur einhverntíma fallið úr hlíðinni fyrir ofan og er skemmtilegt að reyna að sjá fyrir sér hvar hann hefur verið í berginu. Nafn steinsins kemur til af því að maður og kona voru að heyja á túninu undir hlíðinni þegar steinninn féll, á þau ofan. Það eru hörmuleg örlög á fallegum sumardegi að verða undir öðru eins bjargi og því við hæfi að halda minningu fólksins á lofti með því að nefna steininn Hjónastein.

Kirkjugólfið 

Á myndinni hér fyrir ofan eru Samúel Jónsson og Lárus á Klaustri. Takið eftir rákunum í sandinn þar sem verið er að sá í sandinn. Mörgum sinnum fauk allt í burt áður en tókst að græða þetta svæði. (Eig. EAV)

Flestir ferðamann sem koma að Klaustri leita að Kirkjugólfinu og það er nefnt í flestum ferðabókum. Kirkjugólfið er einstakt náttúruvætti 1000-1100 steinstöplar, 50% sexhyrningar, fimmhyrningar nokkru færri og ferhyrningar, sjö og áttstrendingar. 80 fermetra gólfflötur. Gangstígur að kirkjugólfinu er frá bílastæði við Geirlandsveg.

Það hefur mikið breyst á Klaustri. Þar sem áður var barátta við sand er nú gróið land og í skóginum má finna margar tegundir af trjám, jurtum, fuglum og berjum. Ef vel er að gáð finnast lítil jarðarber. (Ljósm. LM)

Arnór Sigurjónsson. 1958. „Hefting sandfoks fyrir 1907.“ Sandgræðslan. Búnaðarfélag Íslands og Sandgræðslaríkisins. s. 153-159

Lesbók Morgunblaðsins. 1958. Baráttan við Stjórnarsand. Þar sem eyðimörk er orðin að grónu landi. s. 353-359.

Helgi Lárusson. 1995 (endurprentun frá 1930). Vestur-Skaftafellssýsla og íbúar hennar. Kornið forlag, Rv. s. 219