Skip to main content
Síða og Fljótshverfisögur

Galdramaðurinn Sr. Magnús á Hörgslandi

By October 18, 2019March 27th, 2020No Comments

Séra Magnús, galdramaður á Hörgslandi

Á Hörgslandi var sóknarkirkja sem var lögð af 1765. Hún kemur þó við sögu í frásögnum af Skaftáreldum því Jón Steingrímsson segir að þar hafi verið jarðað fólk sem dó austur á Síðu vegna þess að ekki voru til hestar eða mannskapur til að koma líkunum að Klaustri. Segir ekki margt af kirkjuhaldi á Hörgslandi en einn prestur sem þar sat hefur orðið þjóðsagnapersóna. Það er Séra Magnús Pétursson sem lést 1686.

Hér fer á eftir þjóðsaga um það þegar Magnús nýtti sér galdramátt sinn til að fá afturgöngu pilts til að auka námshæfileika sína og eignast stúlku sem hann girntist. Sagan er mjög skemmtileg og ítarleg og gæti verið handrit að stuttmynd.

Fáðu mér duluna mína, Mangi

Magnús prestur sem síðar var á Hörgslandi þótti hinn gáfaðasti í uppvexti. Var hann því settur til mennta í Skálholtsskóla. En fyrsta veturinn sem hann var í skóla varð hann að allra manna athlægi því hann hafði snögglega misst námsgáfur sínar án allra orsaka. Þótti kennurum hans hann ei líkur að gáfum eftir því sem áður var af honum látið. Var hann fyrir þessa sök hafður þar í litlu gildi.

Sigurður hét skólapiltur sem hafður var í mestum metum fyrir framúrskarandi gáfur í þann tíma þar í skólanum. Hann hafði fengið mjög ákafa ást til stúlku nokkurrar sem var á staðnum en hún vildi í engan máta aðhyllast hann. Féll honum þetta svo mikils að hann grandaði sjálfum sér. Síðan var lík hans borið í kirkjuna og eftir sem þá var siður til varð einhver að vaka yfir því um nóttina. Kom það hlutfall á Magnús sem fór út í kirkju um kvöldið og bjóst til að vaka.

En sem þriðjungur var af nótt sér hann að kistan hreyfist og þar næst rís draugurinn upp og sprettir af sér hjúpnum og skilur hann eftir en gengur sjálfur út úr kirkjunni. Veit Magnús ei meir um hann. Nú hugsar hann sér ráð meðan draugsi er burtu, tekur þar nýjan færisstreng er hann finnur og leggur hann á kistubarminn en tekur hjúpinn til sín. En að stundu liðinni kemur draugurinn og mælti:

“Fáðu mér duluna mína, Mangi.”

“Ekki gjöri ég það,” segir hann, “nema þú segir mér hvað þú varst að gjöra síðan í nótt að þú fórst burtu.”

“Ég var,” mælti draugurinn, “að finna stúlkuna mína. Ætla ég mér að njóta hennar dauður fyrst ég gat það ei í lífinu.”

Þá mælti Magnús: “Drapstu hana þá?”

“Svo má kalla það,” sagði draugurinn, “og fáðu mér nú duluna mína, Mangi.”

“Ekki gjöri ég það nema þú segir mér hvernig lífga megi stúlkuna, “ sagði Magnús.

“Þar munu fáir verða til,” mælti draugurinn, “og gildir mig því einu þó ég segi þér það og er sú aðferð til þess að leggja hana í sæng og hátta þar hjá henni og strjúka hana vörmum höndum því ég fal allt lífið úr henni undir annarri litlu tánni á henni sjálfri og fáðu mér nú duluna mína, Mangi.”

“Ekki gjöri ég það,” segir Magnús, “nema að þú segir mér hvernig því var varið að ég missti námsgáfuna þegar ég kom hingað í haust.”

“Djöfullinn tók hana frá þér,” kvað draugurinn, “svo þér skyldi ei auðnast að vera prestur,” mælti draugurinn, “og átti ég að verða þrígiftur.”

“Illa hefur þú farið með þig,” mælti Magnús.

“Satt er það, Mangi, mælti draugurinnm, “og fáðu mér nú duluna mína.”

“Aldrei gjöri ég það,” segir Magnús, “nema að þú gefir mér eitthvað af þeim gáfum sem þú hafðir í lífinu.”

“Þorir þú þá að leggjast undir mig?” mælti draugurinn.

“Já,” kvað Magnús. Síðan lagðist hann niður og draugurinn ofan á hann. Síðan blés hann stroku mikilli ofan í Magnús og spurði hvort það væri ei nóg. Hann kvað nei við. Þá blés draugurinn í annað sinn og spyr hvort ei sé nóg komið. En Magnús neitaði og bað hann blása í þriðja sinn.

“Þá máttu vara þig, kvað draugurinn, “því þeim innblástri fylgir ódaunn mikill og ef þú lifir eða stenst þetta þá muntu verða nógu margfróður.”

Magnús kvaðst til hætta. Síðan blés draugurinn í þriðja sinn ofan í hann svo mikilli fýlu að Magnús vissi ei meir af sér og vaknaði ei fyrr en á björtum degi og við það að staðarmenn voru þar að stumra yfir honum. Hann skipar þá að hefja söng yfir líkinu og grafa síðan. Var hann forsöngvari. Undruðust þá allir hve fögur hljóð Magnús væri búinn að fá þar öllum þótti sem það væri rödd Sigurðar (draugsins).

Eftir það lætur hann leggja lík stúlkunnar í sængurrúm og háttar sjálfur hjá henni, fer að öllu sem draugurinn sagði honum uns hún lifnaði við. Þar hóf Magnús að nýju lærdóm sinn í skólanum. Var enginn jafn honum að gáfum og fannst kennurum hans þær svo líkar þeim gáfum sem Sigurður (draugurinn) hafði haft. En sem hann útskrifaðist úr skóla gekk hann að eiga þessa stúlku sem hann lífgaði og var það fyrsta konan hans því hann varð þrígiftur. Síðan varð hann prestur á Hörðslandi (eða Hörgslandi) og hafa margar kynstrasagnir af honum sagðar verið, þar hann átti í stríði við drauga og afturgöngur alla sína ævi en bar þó jafnan hærri hlut í þeim viðskiptum.

Íslenskt þjóðsagnasafn, 1. b. 2000. Ólafur Ragnarsson, Sverrir Jakobsson og Margrét Guðmundsdóttir sáu um útgáfuna. Vaka-Helgafell, Rv. 2000.

Myndin hér að ofan er frá því um 1950 en klettarnir eru þeir sömu og voru þegar Sr. Magnús kom þangað um 1659, en hann var fæddur um 1600. (Eig. HK_RB)

Séra Magnús hrekur Tyrki frá landinu

Sögur herma að Magnús hafi kveðið niður drauga, þar á meðal Höfðabrekku-Jóku í Mýrdal og Flóða-Labba sem áreitti fólk undir Eyjafjöllum. Séra Magnús lifði á dögum Tyrkjaránsins og óttaðist, eins og margir aðrir, aðra árás. Stuttu eftir Tyrkjaránið er Sr. Magnús prestur í Meðallandsþingum. Hann fékk vitrun í draumi um að árás Tyrkja væri yfirvofandi og eitt sinn er menn töldu sig sjá fjölda skipa stefna að Meðallandinu reið séra Magnús að Skaftárósi og hóf að þylja Tyrkjasvæfu, standandi á kirkjuhurð. Hér eru þrjú erindi Tyrkjasvæfunnar:

21.

Vil og kvöl þeim veki

vafa djöfullinn seki,

raga rugli og reki,

rýmda og límda hreki,

sökkvi dökkvum sigluhún

sólginn bólginn dreki,

sjávar jöfurs ybbin brún,

svo undan skundi fleki.

23.

Þeim verði alt að voða

fyrir valdið drottins boða,

stefnt til stærstu rauða

með steglu og bálið nauða;

vatn og eldur velli um þá,

vein og kveinið snauða;

alt, hvað nefnist og orka má,

þeim orsök sé til dauða.

24.

Öndin yndi rúin,

undan friðnum flúin,

aldri aptur snúin,

eymdum verði lúin;

þessa klemmi, hreki og stemmi

heljar kvöl tilbúin,

í sig hremmi og af því emji

illa villutrúin.

Þegar líður á kvæðið afsakar skáldið sig við guð sinn fyrir hvað hann er hvassyrtur en fátt af þessu er guði þóknanlegt. En hvað gerir ekki prestur til að vernda sitt fólk?

Sigurjón Einarsson. 2004. Dynskógar 9. Vestur Skaftafellssýsla, Vík. s. 32

Jón Helgason. 1983. Tyrkjaránið. Iðunn, Rv. s. 145-146

Myndin efst á síðunni er tekin af Birni Pálssyni, eigendur Hörður og Ragnheiður á Hunkubökkum. Þau hjónin eiga líka myndina sem er á litlu myndinni á kortinu.