Skip to main content
Skaftártungasögur

Skaftfellingar nema land í Utah

By October 18, 2019October 6th, 2023No Comments

Húsmóðirn  í Hrífunesi fór með dæturnar til Utah  árið 1874. 

Guðrún Jónsdóttir tók mormónatrú og ákvað að yfirgefa eiginmann og syni og fylgja bróður sínum, Lofti trúboða, til Spanish Fork í Utah. Guðrún (1816-1878) var seinni kona Einars Bjarnasonar (1809-1890) bónda og hreppsstjóra í Hrífunesi. Tók Guðrún með sér tvær dætur þeirra, Helgu og Þorgerði og eina fósturdóttur, Gróu Þorláksdóttur. Einar vildi alls ekki fara, leist ekki á mormónatrú og varð eftir ásamt þremur sonum þeirra hjóna; Gísla, Jóni, sem síðar bjó í Hemru og Bjarna sem síðar varð prestur og bjó á Mýrum í Álftaveri. Gísli fór síðar út til Utah en Jón og Bjarni bjuggu á Íslandi og eru þeirra afkomendur hér á landi.

Bróðirinn taldi hana á að koma með til Utah

Loftur Jónsson hafði búið í Utah frá 1857 en þangað flutti hann frá Vestmannaeyjum með konu sinni ásamt nokkrum öðrum Íslendingum. Þetta fólk var með þeim allra fyrstu sem fóru frá Íslandi til að setjast að í öðru landi. Nokkrum árum síðar fóru margir Íslendingar til Brasilíu og síðar straumur fólks til Kanada. Loftur kom heim í þessa ferð gagngert til að fá fleira fólk með sér til Utah og það tókst vel. Hann hafði misst konu sína ytra og fann nýja konu hér heima í þessari ferð. Sú hét Halldóra Árnadóttir og var frá Undirhrauni í Meðallandi

.

Krege Christenssen, afkomandi Gísla sem var sendur út að sækja Guðrúnu móður sína, er hér á tali við Höllu Valdimarsdóttur sem er afkomandi Jóns Einarssonar í Hemru. Jón var sonur Guðrúnar en fór ekki vestur. (Ljósm. SHH)

Sonurinn var sendur að sækja hana

Bóndinn í Hrífunesi var að vonum ósáttur við þetta flandur á konunni og þegar hann frétti að bróðir hennar hefði dáið af slysförum ári eftir að hann narraði systur sína með sér í þetta ferðalag sendi hann son sinn, Gísla út að sækja konuna og dæturnar. Guðrún var þá orðin mjög heilsulítil. Gísla leist vel á sig í Spanish Fork. Hann skrifaði föður sínum og hvatti hann til að koma til Utah. Ekki leist bóndanum í Hrífunesi á það og varð hvergi hnikað.[1]

Mennirnir áttu aðrar konur fyrir

Guðrún virðist ekki hafa sótt mikið lán til Utah. Hún þoldi illa umskiftin, varð heilsulítil og lést 1878. Helga og Þorgerður giftust mönnum í söfnuðinum og eignuðust börn. Báðir áttu mennirnir aðrar konur fyrir. Gróa giftist en lést frá ungum syni sem Þorgerður ól upp. Gísli var bóndi en hans aðalstarf var dýralækningar þó ekki hefði hann formlega menntun á því sviði. Hann stundaði líka býflugnarækt af mikilli alúð.[2]  Gísli giftist ekkju móðurbróður síns, Halldóru og eignaðist börn með henni. Síðar giftist hann líka systur hennar, Marínu Eyjólfsdóttur.[3]  Hafði þá fleirkvæni verið bannað og fundu yfirvöld að þessari ráðstöfun. Marín flutti því frá Gísla og Halldóru til Kanada. Þar bjó hún í tvö ár en kom þá aftur á heimilið og mun hafa verið þar síðan.[4]

Vitinn með nöfnum fyrstu landnemanna. F.v. Örn Ævarr Markússon, Halla Valdimarsd, Sigurveig H Sigurðard. og Sveinn Hjörtur Hjartarson. Halla og Sigurveig eru afkomendur sona Guðrúnar sem ekki fóru frá Íslandi. (Ljósm. SHH)
Hátíðarkvöldverður í tilefni 150 ára landnáms Íslendinga í Spanish Fork (Ljósm. SHH)

Afkomendunum vegnaði vel

Af frásögnum að dæma virðist afkomenum þessara landnema hafa farnast vel. Flest börnin og barnabörnin hafa náð að mennta sig og koma sér vel fyrir. Ekkert þeirra flutti til Íslands en sonur Gísla var sendur heim um aldamótin til að boða mormónatrú og dvaldi hann hér í á fjórða ár. Hann hét Loftur Bjarnason (1879-1939) (Bjarnason var ættarnafn Einars í Utah), sonur þessa manns og alnafni, Loftur L Bjarnason, stundaði nám um tíma við Háskóla Íslands. Að öðru leyti hafa verið lítil samskipti og umfjöllun um þessa Íslendinga í Utah. Eiríkur frá Brúnum skrifaði sögu sína en hann var einn af Mormónunum sem flutti út stuttu á eftir Guðrúnu. Halldór Laxness byggði seinna sögu sína Paradísarheimt á skrifum Eiríks og má því segja að þessi hópur Íslendinga eigi sinn hlut í bókmenntunum hér heima þó lítið hafi verið um þá fjallað að öðru leyti. Á hverju ári er haldin hátíð til að minnast komu landnemanna til Spanish Fork og árið 2005 var reistur minnisvarði um 150 ára búsetu Íslendinga í Utah. Myndirnar hér til hliðar eru teknar við það tækifæri. Afkomendur Guðrúnar hér á landi fóru vestur, hittu ættingjana þar og tóku þátt í hátíðarhöldunum.

Fleiri Skaftfellingar fóru vestur

Hér er sögð saga þessarar einu fjölskyldu en það voru allmargir aðrir Skaftfellingar sem fluttu til Utah, langflestir úr Meðallandinu. Hafði sumt af því fólki verið í Vestmannaeyjum en þar gekk trúboðið best. Nöfn Utahfara og uppruni kemur fram í sérstökum kafla í 2. bindi bókaflokksins Saga Íslendinga í Vesturheimi [5] og sögð er saga mormóna í nýlegri  bók, Eldur á ís, sem kom út 2005 en var þýdd á íslensku 2007.[6] Er áhugavert fyrir þá sem hafa gaman af ættfræði og grúski að rekja þessar ferðir og afdrif Skaftfellinganna í Utah.

[1] Finnur Sigmundsson tók saman. (1975). Vesturfarar skrifa heim I. Frá íslenzkum mormónum í Utah. Setberg, Rv. S. 9-11

[2] Þorsteinn Þorsteinsson. 1943. Saga Íslendinga í Vesturheimi. 2. bindi. Þjóðræknisfélag Íslendinga í Vesturheimi, Winnipeg. Bls. 27

[3] Í bók Þorsteins er sagt að kona þessi heiti María en í grein eftir Siggeir Björnsson sem bjó að Holti á Síðu segir að hún heiti Marín. Móðir Siggeirs bar nafnið Marín en Halldóra og Marín (María) voru ömmusystur Siggeirs og tel ég því líklegra að nafnið sé rétt hjá honum.

[4] Siggeir Björnsson. 1998. Örlagasaga frá Hrífunesi. Lesbók Mbl. 3. jan. 1998. s. 14

[5] Þorsteinn Þorsteinsson. 1943. Saga Íslendinga í Vesturheimi. 2. bindi. Þjóðræknifélag Íslendinga í Vesturheimi, Winnipeg 1943.

[6] Woods, Fred. 2005. Eldur á ís. Friðrik Rafn Guðmundsson þýddi. Háskólaútgáfan, Reykjavík.

Hjónin, Sr. Bjarni Einarsson frá Hrífunesi og Guðrún Runólfsdóttir frá Holti á Síðu. Bjarni var einn barna Guðrúnar og Einars sem ekki fóru. Sr. Bjarni var prestur í Álftaveri og bjó á Mýrum. (Ljósm. EG. Eig. LR)