Strákurinn úr Landbrotinu sem varð fyrsti lútherski biskupinn.
Gissur Einarsson var alinn upp í Ytra-Hrauni í Landbroti. Hann fór í nám til Þýskalands og var valinn fyrsti lútherski biskupinn á Íslandi. Hann barðist fyrir því að klaustrin yrðu gerð að menntastofnunum en fékk því ekki framgengt. Gissur var biskup í sjö ár en hann lést í janúar 1547, aðeins fertugur að aldri.
Það var Halldóra abbadís í klaustrinu á Kirkjubæ sem sá til þess en Halldóra var föðursystir Gissurar. Hún studdi vel bróður sinn og eftir lát hans ekkjuna og börnin. Ein stúlka úr systkinahópnum varð nunna á Kirkjubæ. [1]
,,Villutrúarmaður” kennir í kaþólsku klaustri
Gissur var ekki lengi í Skálholti því Ögmundur biskup sendi hann til náms í Hamborg. Vekur furðu að kaþólskur biskup skyldi senda ungan mann til Hamborgar sem þá var orðinn lútherskur bær. Gissur drakk í sig nýja strauma í Þýskalandi og skyndilega hætti Ögmundur að styrkja hann til námsins. Gissur átti þá ekki annarra kosta völ en fara aftur til Íslands, Hann var ekki velkominn í Skálholt og Halldóra frænka hans í Kirkjubæ vildi ekkert við hann tala. Móðir hans fagnaði honum og hann aðstoðaði hana með heimilið og yngri systkinin. Fór meðal annars á vertíð til að afla fjár fyrir heimilið og til að geta greitt námsskuldir sínar.
En ekki var Gissur alveg vinalaus innan kirkjunnar. Ábótinn í Þykkvabæjarklaustri Sigvarður Halldórsson (sem sennilega var náfrændi Gissurar) bauð honum að koma til sín að kenna munkunum latínu og fleira. Það var merkilegt ráðslag að kaþólskur ábóti skyldi velja þennan “villutrúarmann” til að kenna ungu munkunum. Eftir dvöl Gissurar í Þykkvabæjarklaustri kallaði Ögmundur biskup hann til Skálholts og síðan gerist það fáum árum síðar að strákurinn úr Landbrotinu er kosinn biskup Íslands. Konungur kom með her sinn til Íslands til að fylgja eftir siðbreytingunni og 1541 var samþykkt lúthersk kirkjuskipan í Skálholtsbiskupsdæmi. Ögmundur biskup var fluttur í járnum með herskipi til Danmerkur.
Gissur vildi gera klaustrin að menntastofnunum
Formleg vígsla Gissurar Einarssonar, fyrsta lútherska biskupsins, fór fram í Frúarkirkjunni í Kaupmannahöfn 1542. Konungur Danmerkur var nú orðinn æðsti yfirmaður kirkjunnar á Íslandi í stað páfans í Róm í kaþólskum sið. Konungur eignaðist við þessi umskipti allar eignir kirkjunnar. Gissur Einarsson, biskup, beitti sér fyrir því að klaustrin fengju að halda eignum sínum og þau yrðu gerð að menntastofnunum fyrir presta og ungt fólk. Það hefði breytt miklu fyrir þetta hérað ef tvær menntastofnanir hefðu staðið hér og laðað til sín ungt fólk og menntaða kennara. En Gissur fékk ekki sínu framgengt. Allt rann undir konung og klausturjarðirnar tvær urðu að hefðbundnum býlum og dröbbuðust niður í höndum misviturra klausturhaldara.