Skip to main content
Álftaversögur

Katla tók brúna í júlí 2011

By October 18, 2019February 28th, 2020No Comments

Kötluhlaup

Katla minnti hressilega á sig sumarið 2011 þegar hlaup kom úr jöklinum og tók af brúna yfir Múlakvísl og rauf þar með hringveginn. Miklir jarðskjálftar voru um nóttina og undir morgun kom vatnið fram og hreif með sér brúna og stóran hluta vegarins. Hlaupið er talið hafa stafað af litlu gosi undir jökli. Það sýnir okkur að Katla gamla er ekki alveg sofnuð.

Brúin farin

Brúin hvarf aðfaranótt 9. júlí, einmitt þegar ferðamenn voru flestir og mjög mikil umferð um hringveginn. Olli þetta margháttuðum erfiðleikum og truflun á ferðum fólks.  Brúin sem hlaupið hreif með sér var 130 m löng, tvíbreið, steypt og vönduð, aðeins rúmlega 20 ára gömul. Kraftar hlaupsins færðu hana alla til, í einu lagi, og má af því sjá hvílíkir ógnarkraftar búa í Kötluhlaupum.

Björgunarsveitarmaður með myndavél

Björgunarsveitarmenn mættu strax og útkall barst til að gæta þess að enginn færi sér að voða. Ingibjörg Eiríksdóttir í Björgunarsveitinni Kyndli á Kirkjubæjarklaustri greip með sér myndavélina og hér segja myndir hennar meira en mörg orð um þennan atburð.

Hringvegurinn rofinn

Hringvegurinn lokaðist á háannatíma. Ferðamenn urðu að komast leiðar sinnar. Þá datt einhverjum í hug það þjóðráð að ferja bíla og fólk á trukkum og stórum rútum yfir Múlakvísl. Þótti sumum ferðamönnum þetta mikið ævintýri en öðrum þótti þetta háskalegt og voru skelfingu lostnir eftir ferðina yfir ána.

Umferð var beint inn á Fjallabaksleiðirnar sem nýlega höfðu verið opnaðar en þar gátu þó aðeins farið jeppar. Einhverjir ferðalangar sem lokuðuðust austan Mýrdalssands tóku það ráð að keyra austur fyrir landið, aðrir fóru til Hafnar og tóku flug þaðan. Enn aðrir tóku áætlunarrútuna sem fór Fjallabaksleið nyrðri á leiðinni frá Höfn til Reykjavíkur.

Nýjar brýr

Vegagerðarmenn og brúarsmiðir landsins tóku höndum saman, unnu dag og nótt og byggðu nýja brú. Hringvegurinn var opnaður aftur, viku eftir hlaup, 16. júlí 2017, og má telja það ótrúlegt afrek brúarsmiða og vegagerðarmanna.

Ný brú var svo byggð og opnuð formlega í ágúst 2014. (Ljósm. LM)

Vatnsgöngin í Mýrdalsjökli litu svona út  5. ágúst 2017.
Göngin eru mjög stór eins og sjá má af
samanburðinum við manninn. (Ljósm. RLÞ)