Skip to main content
Álftaversögur

Klaustur í Þykkvabæ, Harmsól og Lilja

By October 18, 2019February 28th, 2020No Comments
Norðan við kirkjuna voru Fornufjós, stórar rústir, sem alltaf var talað um að hefði verið fjós til forna. Nú hafa rannsóknir sýnt að þarna gæti klaustrið hafa verið. (Ljósm. LM)

Klaustur frá 1168 til siðaskipta

Á Þykkvabæ í Veri var stofnað munkaklaustur af Ágústínarreglu árið 1168. Bóndinn á Þykkvabæ, Þorkell Geirason (d. 1178) sem var auðugur mjög ákvað að verja fé sínu til að stofna klaustur. Valdi hann Þorlák biskup til að vera í forsvari fyrir klaustrið. Þykir líklegt að í þessu klaustri hafi verið skrifað margt af þeim handritum sem Íslendingar eiga frá tólftu til sextándu öld. Enginn veit þó með vissu hvað þarna fór fram. Klaustrið var lagt niður með nýjum sið árið 1550 og rann jörðin og aðrar eignir klaustursins þá til danska kóngsins og þar með þær 55 jarðir sem tilheyrðu klaustrinu. [1]

Þegar komið er heim að Þykkvabæjarklaustri er ekki mikið að sjá sem minnir á klaustrið. Rústir þess eru grafnar í sand og margra alda öskufall. Landslag og landgæði hafa sennilega verið allt önnur þegar klaustrinu var valinn staður hér í Álftaveri en Katla hefur leikið sveitina grátt í gegnum aldirnar.

Lengi var talið að rústir klaustursins væru í þessum hól sem var umflotinn vatni. (Ljósm. LM)

Helgikvæðið Harmsól

Klaustrin voru menningarmiðstöðvar síns tíma og það er alveg ljóst að þar var samið eitthvað af þeim ljóðum og sögum sem við eigum í dag. Tvö kvæði allmerkileg eru talin ort í Þykkvabæjarklaustri. Það eru helgikvæðin Harmsól og Lilja.

Harmsól er lítið þekkt kvæði en afar merkilegt. Það er elsta varðveitta kvæðið þar sem skáldið fjallar um sig sem hluta af kristnu samfélagi. Höfundurinn kallar sig Gamla kanúka og var munkur í Þykkvabæjarklaustri.[2] Kvæðið er ort seint á 12. öld. Það segir frá iðrandi syndara sem leitar til Krists eftir fyrirgefningu. Kristur er þrunginn harmi vegna synda mannkynsins og býður hinum iðrandi syndara sáluhjálp. Nafn kvæðisins “sól harmsins” er kenning fyrir Krist. Kvæðið er 65 erindi, það er fullt af kenningum, orðaröð snúin og formið strangt. Það er ekki auðvelt að skilja kvæðið en mjög áhugavert þegar það tekst og efni þess verður lesandanum ljóst. Allt kvæðið má lesa á vef sem heitir Heimskringla   en hér er erindi númer 31 sem segir frá heimsendi:

 

Enn mun öðru sinni

öðlingr koma hingað

mána tjalds inn mildi

meðr til dóms að kveðja.

Geisar eldr og æsist

ölna fold; úr moldu

ferð vaknar þá fyrða

flest við ugg inn mesta.

Skýring vísunnar er á þá leið að Konungur himna (hinn mildi öðlingur mána tjalds) mun koma hingað öðru sinni að kveðja menn til dóms. Geisa þá eldar og æsist hafið (ölna fold). Menn fyllast skelfingu. [3]

 

Allir vildu Lilju kveðið hafa

Lilja er hið dýrðlegasta kvæði sem kveðið hefur verið á íslenska tungu. Nafn kvæðisins er eitt kenningarnafna Maríu meyjar og tákn hreinleika hennar. En kvæðið er ekki bara fallegt það er líka auðvelt aflestrar fyrir nútímafólk þrátt fyrir að vera ort á árunum1340-1360 eða fyrir tæpum sjö öldum. Lilja er til í mörgum útgáfum og hægt er að fletta því upp á netinu í fullri lengd á vefnum Heimskringlu. Í kvæðinu segir frá veraldarsögunni eins og kristnin kennir hana; sköpun heimsins, dvöl Adams og Evu í Paradís, syndafallinu, lífi Jesú, dauða hans og upprisunni. Loks er sagt frá heimsendi og bænir til guðs og Maríu til hjálpar mannkyninu. Hér eru tvö erindi þar sem segir frá sköpun Adams og Evu:

  1. erindi

Sá er líðandi maðr af móður

moldu og þó með skæru holdi,

Adam nefndur, alls í heimi

átti ráð með frelsi og náðum.

Höfginn rann svo hægt á þenna

heimsstýranda, og fekk hann skýra

andagift, þá er síðan sýndi,

svo vorðinna spádómsorða.

 

13. erindi

Út af leiðandi af Adams síðu

Evam brátt, sem Móíses váttar,

vist með æru, vald og ástir

vísa gaf hann þeim Paradísar,

þangað til er þau með englum,

-það er blíðan mest -, lifði síðan

viðr afspringi, allt það er fengi,ævinlega og þakkir gæfi.

Næst er gripið niður í kvæðið þar sem Jesú er fæddur og vondir menn elta hann uppi.

  1. erindi

Fúsir hlupu og fundu Jesúm,

fundinn hröktu, lömdu og bundu, –

bundinn leiddu, heimskir hæddu, –

hæddan, rægðan slógu, afklæddu. –

Fjandans börnin þröngum þyrni

þessum spenna um blessað enni.

Þessir negla Krist á krossinn,

keyra járn svo stökkr út dreyri.

 

Öll ævi Jesú er rifjuð upp í einu erindi þar sem María grætur son sinn:

  1. erindi

Rödd engilsins kvenmann kvaddi,

kvadda af engli Drottinn gladdi, –

gladdist mær þás Föðurinn fæddi, –

fæddan sveininn reifum klæddi, –

klæddan með sér löngum leiddi, –

leiddr af móður faðminn breiddi, –

breiddr á krossinn gumna græddi, –

græddi hann oss, er helstríð mæddi.

 

Kvæðið er ort af kaþólskum munki og hann lofar Maríu:

  1. erindi

Máría! Ert þú móðir dýrust.

Máría! Lifir þú sæmd í hári.

Máría! Ert þú af miskunn skírust.

Máría! Létt þú syndafári.

Máría! Lít þú klökk á tárin.

Máría! Græð þú meinin stóru.

Máría! Dreif þú smyrsl á sárin.

Höfund Lilju telja menn Eystein Ásgrímsson munk í Þykkvabæjarklaustri. 

Miðað við efni kvæðisins og framsetningu hefur höfundurinn verið vel lesinn og menntaður. Hann velur að hafa kvæðið á máli sem allir skilja, forðast kenningar og flókna orðaröð. Ekki er vitað mikið um Eystein þennan en ein sagan er sú að hann hafi, ásamt fleirum, barið ábóta sinn, Þorlák Þórhallsson, helga. Var Eysteini hent í fangelsi/refsiklefa í Þykkvabæjarklaustri og til iðrunar og yfirbótar syndar sinnar hafi hann ort kvæðið í straffinu. Á þessari sögu er allnokkur þjóðsagnablær en skemmtileg er hún.

[1] Gunnar F. Guðmundsson. 2000. Kristni á Íslandi II. Alþingi gaf út, Rv. s. 223

[2] Ásdís Egilsdóttir. 1989. “Þorláks saga og Lilja. Tvö tímamótaverk.” Dynskógar 7. Sögufélag Vestur-Skaftafellinga, Vík s. 64

[3] Vésteinn Ólason. 1992. Íslensk bókmenntasaga I. Mál og menning, Rv. s. 493-495