Melurinn varð að mat í Meðallandi og Álftaveri
Melur eða melgresi, er harðgerð jurt sem lifir í rökum sandi og breiðir úr sér við Suðurströndina. Víða á Íslandi var melurinn notaður til beitar en í sveitunum milli sanda einnig til matar, lengst í Meðallandi og Álftaveri. Kornið var notað til að búa til brauð, kökur og graut. Ræturnar og stráin sjálf voru líka nýtt. Sérstakar aðferðir voru notaðar við að skera og vinna melinn. Í Meðallandi var safnað melfræi langt fram eftir 20. öldinni. Seinni ár hefur þessi harðgera jurt eingöngu verið nýtt til landgræðslu þar sem hefur verið sandfok eða uppblástur lands.
Saga melnytja
Þórður Tómasson í Skógum hefur kynnt sér ræktun og nýtingu melsins í gegnum aldirnar og hann segir:
Meltekja var mest í Meðallandi og Álftaveri en talsverð búbót einnig á Síðu og í Landbroti. Hraun í Landbroti hafði talsverðar melnytjar. Sama máli gegndi um Foss og Hörgslandsþorp á Síðu. Frægt melapláss frá fornu fari var Skjaldbreið á Síðu. [1]
Í máldögum má sjá að það teljast hlunnindi jarða á Síðunni að eiga meltekju. Í Hrauni í Landbroti er talað um meltekju þegar foreldrar Gissurar biskups Einarssonar bjuggu þar um og eftir 1520. Þórður segir að í Háfshverfi og í Þykkvabæ í Rangárvallasýslu hafi vaxið mikill melur sem hafi borið þroskað fræ en ekki er vitað til að sá melur hafi verið nýttur.
Villikornið þolir sandbylji og öskufall
Þegar þeir félagar Eggert og Bjarni fara um sveitirnar milli sanda 1756 nefna þeir að villikornið, eins og þeir kalla melinn, standi af sér sandbyl og öskufall sem fylgi Kötlugosinu. Blöðin smjúgi í gegn og teygi sig upp úr öskunni. Segja þeir að menn í 6-8 kirkjusóknum nýti melinn til matar og síðan séu einhverjir sem koma úr fjarlægari héröðum til að sækja sér mel eða það korn sem unnið var úr melnum. Segja þeir að fátt sé eins tímafrekt og gefi eins lítla eftirtekju og að vinna korn úr mel. Segja þeir að af 40 hestum af mel fáist ein tunna af korni og eru ófá handtökin til að ná því. [2]
Sæmundur Hólm vildi kenna verkun melsins
Sæmundur Hólm, sem var fæddur 1749 í Meðallandi, lýsir verkun mels í ritgerð sem birtist í 1. og 2. bindi í riti Lærdómslistafélagsins 1781-1782. Hann elst upp við verkun melsins og greinilegt að hann þekkir aðferðirnar vel.[3] Hann segir einnig nákvæmlega frá því hvernig á að sá mel. Markmið hans með greininni er að kenna öllum Íslendingum að nýta þessa harðgeru jurt.
Sæmundur telur að eini skaðinn af ræktun mels sé sá að þá blási landið upp. Hann telur sem sagt að það valdi gróðurauðn að sá mel, öfugt við það sem við vitum núna að melurinn græðir uppblásið land.
Myndin hér fyrir neðan sýnir tæki og tól sem þarf við verkun mels. Fyrst er að telja sofnhúsið og svo ýmislegt fleira. Myndin fylgdi grein Sæmundar en er ekki teiknuð af honum sjálfum heldur Olavsen.
Hvernig var meltekjan og verkun melsins?
Hannes Hjartarson (f. 1882, d. 1980) skrifaði grein um melinn og nýtingu hans. Hannes átti heima á Herjólfsstöðum í Álftaveri og lýsir melskurði, verkun og nýtingu melsins mjög nákvæmlega. (Myndin af Hannesi er tekin af Eggert Guðmundssyni, ljósmyndara, og er varðveitt á Skógasafninu.)
Melurinn er orðinn þroskaður þegar hann er 70 til 80 cm á hæð. Þá er hann skorinn með sérstöku verkfæri sem heitir sigð. Sigð er boginn hnífur á skafti. Hnífnum er brugðið á melinn niður við rót. Síðan er melurinn bundinn saman í knippi með mel (einu strái) sem tekinn hefur verið upp með rótinni en hún er mjög löng og sterk. Farið er heim með knippin og þar er kornið slegið úr, með því að slá því utan í staur, þetta var kallað að skaka melinn. Kornið þurfti síðan að þurrka. Ef raki komst að því gat hitnað í því og þá var ekki hægt að nýta það, hvorki til manneldis né skepnufóðurs. Kornið var sett í lanir (aflangar hrúgur) úti á bersvæði þar sem land var þurrt, síðan melur (stráin sjálf) lagður yfir og loks tyrft. Kornið var svo verkað síðla vetrar. Til þess þurfti sérstök hús sem kölluð voru sofnhús. Þar var korninu hellt á grind sem búin var til úr melstöngum, kveiktur eldur undir og kornið þannig þurrkað þar til tininn losnaði úr hýðinu. Eftir þetta var kornið sett í sérstök ílát og maður tróð á korninu berum fótum. Þá losnaði hýðið af tinanum. Eftir það var kornið hreinsað með því að hrista það í sérstöku íláti, hýðið hrist frá en eftir varð tininn, þetta var kallað að drifta. Næst þurfti að mala kornið (tinann) og þegar því var lokið var hægt að skella í graut. Grauturinn var kallaður „deig” og var afbragðsmatur með smjöri, segir Hannes. Það var líka hægt að búa til brauð og kökur úr mjölinu en það þótti honum ekki eins gott.
Og það var reynt að nýta allt sem þessi harðgera planta gaf af sér. Gefum Hannesi orðið:
Melstöngin hefir, eftir að búið er að taka úr henni kornið, verið höfð í þök á hús. Er hún lögð utan á timbrið, undir torfið. Ver hún þannig timbrið mjög fyrir bleytu og fúa, gerir húsin hlý og rakalaus og varnar því, að þau leki. »Buska« (grófar rætur úr melakollum) og »sumtag« (fínar rætur, sem liggja milli melakollanna í sandinum, en blása upp þegar stormar eru miklir) hefir verið haft í reiðinga og er svo enn í dag. Áður var það einnig haft í »þófa«. Voru þeir notaðir fyrir hnakka og höfð með þeim hornístöð, en nú er þetta lagt niður að mestu. Einnig þykir húsmæðrunum bezti fengur að fá sumtagið til notkunar við uppþvott í eldhúsi. Nefnist það þá »þvaga« og jafnast fyllilega á við útlenda
skurkbursta. […] Sumsstaðar hefir “blaðkan” ̶ það er grasið, sem melstöngin vex upp úr ̶ verið slegin með orfi og ljá, þegar búið var að skera melinn úr henni og þurrkuð og gefin fé að vetrinum. Var hún talin ágætt fóður.[4]
Melinn má semsagt nýta sem byggingarefni, í reiðinga, þófa og hnakka, sem uppþvottabursta og skepnufóður.
Melskurðarferð, erfið en skemmtileg
Hannes lýsir einni melskurðarferð frá Herjólfsstöðum að Bólhraunum en þar var góð meltekja. Fólkið hafðist við í sérstökum kofa sem reistur hafði verið í þeim tilgangi að hýsa melskurðarfólkið og skar mel allan daginn. Fyrsta daginn byrjuðu karlmennirnir á að dytta að húsinu, konurnar fóru strax að skera mel, unglingarnir söfnuðu því sem konurnar skáru og einhver fór að huga að matseld. Síðan sváfu allir á gólfi kofans á mottum sem voru gerðar úr busku, sem eru uppblásnar melarætur með skinni eða poka yfir. Ofan á sér höfðu menn brekán en undir höfðalaginu utanyfirföt sín. Þótti unglingunum þetta spennandi tími. Í þetta skiptið var verið tæpa viku við melskurðinn. Einn daginn rigndi svo mikið að fólkið fór ekkert út úr húsi. Var mjög erfitt að eiga við melinn í rigningu og svo hafði fólkið engan stað til að þurrka neitt og hefði orðið að sofa í blautum fötunum. Um nóttina blés hraustlega og komu þá nágrannar, sem höfðu hafst við í tjöldum og tjaldið rifnað upp, til þeirra í kofann. Var þá orðið svo þröngt í kofanum að þar var ekki hægt að liggja og alls ekki hægt að sofa, bæði vegna plássleysis en ekki síður vegna þess að þá var glatt á hjalla. Minnist Hannes þessarar ferðar með gleði; þær voru skemmtilegar melskurðarvikurnar en erfiðar og þá sérstaklega fyrir það hvað melskurðurinn reyndi mikið á bakið.
Melur nýttur til beitar
Bændur í Álftaveri og Meðallandi nýttu melinn til beitar og segir Hannes að það hafi verið besta beitiland fyrir sauðfé. Þó er einn galli þar á sem getur verið skepnunum lífshættulegur. Þegar sandveður eru mjög mikil fyllist ullin á fénu af sandi svo þéttum að þegar í hana er tekið, er eins og tekið sé í stein. Getur féð orðið svo þungt af þessum sökum að það standi ekki undir sjálfu sér, leggist, verði afvelta og drepist. Þarf að taka skepnurnar og hrista sandinn úr ullinni á sérstakan hátt. [5] Það hefur því ekki verið hættulaust að nýta melinn á þennan hátt en eflaust mikil búbót þar sem ekki var annað beitarland.
Matur, skepnufóður eða handverk
Það væri þarft verkefni fyrir einhvern að læra þessar skaftfellsku aðferðir sem notaðar voru til að vinna melinn til að viðhalda þessari hefð og kannski er hægt að þróa þær þannig að melinn mætti nýta til matar, skepnufóðurs og í handverk í dag.
[1] Þórður Tómasson. 1973. Meltekja á Herjólfsstöðum í Álftaveri. Árbók fornleifafélagsins. s. 46
[2] Eggert Bjarnason og Bjarni Pálsson. 1974. Ferðabók Eggerts og Bjarna. II. bindi. Bókaútgáfan Örn og Örlygur, Rv. s. 100 og s. 134-135
[3] Sæmundur Magnússon Hólm. 1958. Um meltakið í vesturparti Skaftafellssýslu. Sandgræðslan. Búnaðarfélag Íslands og Sandgræðsla ríkisins, Rv. S. 102-104
[4] Hannes Hjartarson. 1930. Íslenzka kornið. Vestur-Skaftafellssýsla og íbúar hennar. Forlagið Kornið, Rv. S. 113-114
[5] Hannes Hjartarson. 1930. Íslenzka kornið. Vestur-Skaftafellssýsla og íbúar hennar. Kornið forlag, Rv. s. 114