Warning: Uninitialized string offset 0 in /var/www/virtual/eldsveitir.is/htdocs/wp-includes/class-wp-term-query.php on line 1

Warning: Uninitialized string offset 0 in /var/www/virtual/eldsveitir.is/htdocs/wp-includes/class-wp-term-query.php on line 1

Warning: Uninitialized string offset 0 in /var/www/virtual/eldsveitir.is/htdocs/wp-includes/html-api/class-wp-html-tag-processor.php on line 1

Warning: Uninitialized string offset 0 in /var/www/virtual/eldsveitir.is/htdocs/wp-includes/html-api/class-wp-html-tag-processor.php on line 1
Skaftárhlaup — Sögur, menning og náttúra Skip to main content
Skaftártungasögur

Skaftárhlaup

By October 18, 2019March 22nd, 2020No Comments
Skaftárhlaupið 2018 var með stærra móti því þá rann úr báðum kötlunum, eystri og vestri. Myndin hér fyrir ofan er tekin við brúna yfir Eldvatnið hjá Ásum en myndin fyrir neðan er af þjóðveginum um Eldhraunið, við Dyngjurnar, þar sem flæddi yfir þjóðveginn. (Ljósm. IH)

Skaftá rennur um Skaftárhrepp og setur mikinn svip á umhverfið. Áin á upptök sín í Skaftárjökli og er með lengstu ám landsins, 115 km frá upptökum til ósla. Frá árinu 1955 hafa orðið stór hlaup undan Skaftárjökli.

Það hljóp úr báðum Skaftárkötlunum 2018

Skaftárhlaupið sem hófst í byrjun ágúst 2018 og stóð í rúma viku var óvenjulegt að því leyti að báðir Skaftárkatlarnir tæmdust og loka þurfti þjóðvegi 1 um tíma vegna þess að vatnið rann yfir þjóðveginn.

Þetta hlaup sem byrjaði rólega varð eitt af þeim allra stærstu. Brúin yfir Eldvatnið við Ása skemmdist mikið 2015 og voru menn hræddir um hvað myndi gerast 2018, var brúnni lokað um tíma en ekki lítur út fyrir að hún hafi skemmst meira. Haustið 2019 var svo lokið við nýja brú yfir Eldvatnið.

Þjóðvegur 1 skemmdist allnokkuð við Dyngjurnar en þar rann vatn yfir veginn í tvo sólarhringa. Umferðinni var beint um Meðallandsveg sem er lítt til þess fallinn að taka við mikilli umferð; vegurinn er mjög mjór, lítið upp byggður og illa við haldið. Skemmdir á túnum, mosa og grónu landi eru verulegar í þessu hlaupi og mikill jökulleir sem borist hefur um stórt svæði. Myndirnar segja meira en mörg orð.

Við Dyngjurnar voru falleg,blágræn vötn í nokkra daga eftir að hlaupinu lauk. (Ljósm. ABS)
Þjóðvegurinn fór undir vatn og var lokaður í tvo sólarhringa. Það hefur ekki gerst áður í hlaupum. (Ljósm. IH)
Hundurinn fylgist með vatninu í Landbrotshólunum. Hraunið er orðið mettað af leir og vatnið stendur uppi löngu eftir að hlaupi er lokið. (Ljósm. IH)
Blágrænt hlaupvatn í  lautum í hrauninu er augnayndi. (Ljósm. ABS)
Þessar myndir eru frá Skaftárdal. Fyrsta myndin sýnir brúna og veginn heim að Skaftárdal. Næsta mynd sýnir hvernig hlaupið leit út og þriðja myndin sýnir afleiðingarnar; vegurinn er allur farinn en brúin stendur ein eftir. (Myndirnar eru frá Sigurði Bergmann Jónassyni.)
Fjórða myndin sýnir leirinn sem er í landinu eftir að hlaupið sjatnar. Þegar er mikið af leir á fokstri segja menn að það sé mor í lofti.(Ljósm. LM)

En hvað er það sem veldur Skaftárhlaupum? Ari Trausti Guðmundsson jarðfræðingur skýrir hlaupin þannig:

Á Lokahrygg, á milli Hamarsins og Grímsvatna, eru a.m.k. þrjú jarðhitasvæði. Jökull á vatnasviði Skaftár bráðnar yfir hitunum og myndast þar stórar, vatnsfylltar hvelfingar í ísnum en tveir djúpir sigkatlar og einn grunnur sjást á yfirborði jökulsins. Þegar vatnsþrýstingur er nægur til að lyfta jökli við jaðra annarrar hvorrar af stærstu hvelfingunum rennur vatn í Skaftá. Rennsli hennar nær þá 500-1.500 m3 á sekúndu og vatnsmagnið nemur frá tuttugasta hluta úr rúmkílómetra til þriðjungs (50-50 gígalítrum). Jökulhlaupin hafa gengið yfir á 1-2 ára fresti frá árinu 1954 í 2-6 sólarhringa en eru líka þekkt fyrr á 20. öldinni. Hvor sigketill er 2-3 km í þvermál og 100-150 m djúpur eftir hlaup. Hlaupunum fylgir afar mikill framburður. Lágtíðnititringur hefur komið fram á skjálftamælum og er talinn vera vísbending um smágos eða suðu í jarðhitakerfum á Lokahrygg í tengslum við hlaupin[1]

Jarðhitinn undir jöklinum er sem sagt orsök Skaftárhlaupa. Frá því hlaupin hófust um miðja síðustu öld hafa þau verið nokkuð regluleg og heldur fjölgar þeim en hitt. Hlaupin verða oftast að sumri til og hefur síðustu ár hlaupið á hverju ári og stundum hefur jökulvatnið komið fram í Hverfisfljótið líka. Það er óvenjulegt að hlaupi úr báðum kötlunum í einu en sumarið 2010 komu tvö hlaup og var þá mikill atgangur og tilkomumikið að sjá.

 

Jökulleirinn er á fokstri löngu eftir hlaup

Hlaupunum fylgir mikill framburður af jökulleir sem fýkur um þegar hann þornar. Segja menn eystra að það sé mikið mor í loftinu þegar leirinn fýkur. Lengi vel rann allnokkur hluti Skaftár undir Skaftáreldahraunið en nú hefur jökulleirinn fyllt hraunið upp og vatnið rennur víða ofan á hrauninu. Á þurrviðrisdögum má oft sjá moldarstróka í Skaftáreldahrauninu á milli Ása og Hunkubakka.

Stutt frá upptökum Skaftár, sunnan við Sveinstind, er geysilega mikill leir og tilkomumikið að sjá þegar hann þornar og verður eins og eyðimörk og svo er þar skemmtilegt leiksvæði fyrir káta krakka. (Ljósm. LM)

Skaftárhlaupið 2015 var geysistórt

Haustið 2015 var Skaftárhlaup sem var með því allra stærsta sem menn hafa séð. Skaftáreldahraunið var beljandi fljót á milli Skaftártungu og Síðunnar. Eldvatnið fór yfir bakka sína víða, braut óhemjumikið af landi og tók stóran hluta af undirstöðu brúarinnar við Ása og er þegar farið að vinna að byggingu nýrrar brúar yfir Eldvatnið. Myndirnar hér við hliðina eru af þessu hlaupi en þær tók Ingibjörg Eiríksdóttir.

1. Gljúfrið við Ása í Skaftárhlaupinu 2015 (Ljósm. Íbí)
2. Ofan brúna við Ása (Ljósm. Íbí)
3. Gljúfrið eins og það var í júlí 2017 en það grófst mikið úr því í hlaupinu 2015 (Ljósm. LM)
4. Ofan við brúna hjá Ásum á góðviðrisdegi í júli 2017 (Ljósm. LM)
Þessar myndir eru allar af hlaupinu 2015.
1. Vatnsflaumurinn sunnan við bæinn í Ytir-Ásum (Ljósm. Íbí)
2. Tjaldstæðinu í Hrífunesi. Aðstöðuhúsið er úti í vatninu (Ljósm. Íbí)
3. Skaftá við Uxatind (Ljósm. Íbí)
4. Við Dalbæjarstapa og sést vel hversu mikill leir er í vatninu (Ljósm. Íbí)

Brúin skemmdist! Næsta brú á undan brotnaði í miðju

Eldvatnið er mikið vatnsfall þó ekki séu hlaup. Hún var fyrst brúuð 1907 við Ása, 1929 var byggð brúin við Stórahvamm, aftur var byggð brú 1938 við Ása og við hlið hennar ný brú árið 1965.  Áður rann Eldvatnið í fjölda kvísla austan við Ása og  suður í Meðalland en til að einfalda brúargerð var því öllu veitt í Eldvatnið hjá Ásum.

Á myndinni hér fyrir neðan sést hvernig undirstöður brúarinnar stóðu út úr  landinu eftir hlaupi 2015. Við hliðina er brúin við Stóra-Hvamm sem stendur enn. (Ljósm. Íbí)
Brúin sem var byggð 1965 brotnaði tveimur árum síðar. Brúin var byggð með einum náttúrulegum stöpli undir miðju sem menn héldu að væri klettur en reyndist hrauneyja. (Ljósmyndirnar eru frá Sigrúnu Gísladóttur á Flögu).

Brandur vegaverksstjóri var á ferð í Skaftártungunni þegar þetta gerðist:

Ég frétti af Skaftárhlaupinu þegar það var að hefjast og keyrði að Ásavatni og var kominn að brúnni í hálfbjörtu. Keyrði ég út á miðja brúna og sá að óhemjuvatn var undir henni og fannst mér rennsli hennar eitthvað ókunnuglegt, fer því út úr bílnum og sé þá að skerið sem miðstöpullinn stóð á var með öllu horfið og stöpullinn með. Ég flýtti mér því að bakka aftur út af brúnni en gat þó ekki í upphafi séð að neinn slakki væri kominn í hana þó miðstöpullinn væri horfinn. En þetta var ljót aðkoma og ég ætlaðibókstaflega ekki að trúa þessu. Síðan lokaði ég brúnni beggja megin frá og hélt upp að Stórahvammi til að sjá hvort gamla brúin væri fær. En þar voru allar uppfyllingar á bak og burt og sýnilegt að þetta hlaup var með þeim allra stærstu sem komið höfðu. Ekkert var hægt að gera við Ásabrúna meðan hlaupið geisaði og eftir nokkurn tíma sveik landstöpullinn að austan og brúin féll í ána. Var það ljót sjón. Allt þett skapaðist af því að miðstöpullinn stóð á skeri og var álitið að þar væri föst klöpp undir en þar undir reyndist vera þykkt moldarlag og svo var einnig með undirstöðu austurendans sem líka hafi verið talin örugg. Þriðja brúin á þessum stað var svo byggð á stálbitum með skástífum og var hún eitt haf.”[2]

Brúin yfir Eldvatnið við Ása sem var byggð 1968 er því fjórða brúin á þessum stað. Brúin skemmdist mikið 2015 og var fljótlega ákveðið að beina umferð stærri farartækja yfir Hólmsá hjá Hrífunesi en nýta þessa brú áfram fyrir minni bíla. Strax eftir hlaupið var farið að huga að góðu brúarstæði fyrir nýja brú og má sjá mynd af framkvæmdunum í júlí 2019 hér fyrir neðan.  Brúin er glæsilegt mannvirki og í október 2019 var hleypt umferð yfir brúna yfir Ása-Eldvatnið.

[1] Ari Trausti Guðmundsson. 200. Íslenskar eldstöðvar. Vaka-Helgafell, Rv. s. 82

[2] Sigþór Sigurðsson. 1997. Dynskógar 6. Sögufélag Vestur-Skaftafellinga, Vík. s. 236-237 (Sama bók kom út í annarri útgáfu en hét þá Vatna-Brandur.)

Um sögu brúargerðar yfir Eldvatnið hjá Ásum í Skaftártungu má lesa, og skoða mikið af ljósmyndum, í Framkvæmdafréttum Vegagerðarinnnar 15. tbl. 2015.