Skip to main content
Skaftártungasögur

Skógarnir í Skaftártungu

By October 18, 2019December 3rd, 2019No Comments

Eyðing skóganna

Í Skaftártungu eru fallegir skógar. Hluti þeirra hefur verið þarna frá fornu fari en annað hefur verið ræktað síðustu ár. Skaftártungan var skógi vaxin og komu menn víða að til að ná sér í hrís til kolagerðar og eldiviðar. Mest var það úr nærliggjandi sveitum en jókst svo og voru bæði Mýrdælingar og Eyfellingar orðnir stórtækir í að sækja sér skóg. Voru heimamenn ósáttir við hversu gekk á skóginn og hvernig um hann var gengið. Kröfðust þeir þess að yfirvöld kæmu skikki á málin og settu einhverjar reglur um hversu mikið mætti taka af skógi. Lítum á stuttan texta sem birtist í Blöndu I í grein sem heitir Úr sögu skóganna:

Hinn 2. Sept.1816 ritar Þorkell hreppstjóri Jónsson á Herjólfsstöðum kæru til Jóns sýslumanns Guðmundssonar í Vík, sem þá var umboðsmaður Þykkvabæjarklaustursjarða, og til Páls klausturhaldara Jónssonar á Elliðavatni, umboðsmanns Kirkjubæjarklausturs og Flögujarða, yfir gegndarlausu skógarhöggi og kolabrennslu, einkum utansveitar- og utansýslu-manna, í Skaptártunguskógum, svo og yfir skemmilegri og hraklegri umgeingni þeirra um skógana, svo að til stórspjalla og aleyðingar horfi.[1]

Heimamönnum blöskrar algjörlega hvernig utansveitarmenn vaða í skóginn og taka eins mikið og þeir geta flutt með sér hverju sinni. Eyfellingar voru ekkert ánægðir með aðfinnslur Skaftfellinganna og biðja um sanngjarnar reglur ella verði gripið til „óleyfilegra ráða“. Þegar betur er að gáð kemur í ljós að Eyfellingar hafa engan skóg lengur, í Þórsmörkinni, Goðalandinu og Landskógi hefur öllum skógi verið eytt algjörlega.

Lög til að vernda skóginn

Jón Guðmundsson sýslumaður setti reglur um skóginn og voru þær lesnar upp í Ásakirku og Búlandskirkju vorið 1817. Var þar sagt nákvæmlega fyrir um hverjir mættu sækja sér skóg í Skaftártungu, hvernig þeir ættu að standa að skógarhögginu og hver væru viðurlög við því að fylgja ekki settum reglum. Voru bæði sektir og „arrest“ möguleg viðurlög. Menn voru fengnir til að skrá nákvæmlega hvernig skógurinn var á sig kominn og „skoðunarforretning“ lesin á þingi á Leiðvöllum í júní 1918. Þarna var mikið á sig lagt til að vernda skógana og umhugsunarefni hvort þetta sé í fyrsta sinn sem Íslendingar setja sér reglur til verndar náttúru landsins.

 

[1] Blanda I. Úr sögu skóganna. Sögufélagið 1918-1920. S. 256