Skip to main content
LandbrotMeðallandsögur

Skaftfellingur og verslun við Skaftárós

By October 18, 2019February 29th, 2020No Comments

Skaftfellingur sigldi í 21 ár og verslunin starfaði í 17 ár við Skaftárós

Skaftfellingar þurftu um margar aldir að fara í langar og erfiðar ferðir til að komast í verslun. Lengst af fóru þeir til Eyrarbakka eða austur á Papós til að sækja vörur. Árið 1884 kom fyrsta vörusendingin til Víkur og hófst þar með verslun þar. Upp úr aldamótunum 1900 fóru menn að velta fyrir sér möguleikum á að fá vörur fluttar með skipi að Skaftárósi og árið 1908 var Skaftárós löggiltur verslunarstaður.

Skaftfellingur kom með vörur vorið 1918

Samþykkt var á sýslufundi 1916 að safna fé til kaupa á báti til að flytja vörur frá Reykjavík að Vík, Skaftárósi, Hvalsíki og Ingólfshöfða. Lögðu margir hönd á plóginn, voru jafnvel dæmi um að unglingar leggðu af því sparifé sem þeir áttu til kaupa á bát. Var safnað í Mýrdal, Skaftárhreppi og í Öræfum. Lagði Kaupfélag Skaftfellinga 500 kr, til kaupanna en gildir bændur á bilinu 100-700 kr. Árið 1917 komu menn saman til að samþykkja frumvarp til laga fyrir Hlutafélagið Skaftfelling og ákváðu að báturinn skyldi heita Skaftfellingur. Formaður stjórnarinnar var kosinn Lárus Helgason Kirkjubæjarklaustri og gegndi hann því embætti þar til hann lést 1941. Vorið 1918 hóf Skaftfellingur vöruflutninga.

Það kom bíll með Skaftfellingi

Við uppskipunina við Skaftárós þurfti að nota báta til að flytja vörurnar frá Skaftfellingi og upp í fjöru. Þurfti lagni til að róa í brimgarðinum og oft varð að sæta lagi og bíða heppilegs veðurs til að koma vörum frá skipinu til lands. Þegar í land var komið voru vörurnar fluttar á hestvögnum. Það var erfitt að vera með hesta á sandinum vegna hagleysis en þar var ekki stingandi strá svo menn þurftu að taka hey með sér. Meðallendingar sáu gjarnan um landvinnuna og fengu sæmilega borgað fyrir en það var mikil erfiðisvinna. Árið 1926 fékk Bjarni í Hólmi sendan bíl með Skaftfellingi. Sá bíll var oft notaður við vöruflutninga á fjöru svo og annar sem Siggeir á Klaustri eignaðist og létti það vinnuna umtalsvert. Bílunum gekk þó ekki alltaf vel að komast um sandinn og stundum varð að nota hesta.

Kötlugos

Haustið 1918 varð Kötlugos. Bændurnir austan Mýrdalssands komu ekki fé sínu til Víkur til slátrunar en fengu í staðinn tunnur og salt til að salta kjötið og rúgmjöl  til að gera slátur. Um vorið var kjötið flutt á ís suður að Skaftárósi og skipað þar út í Skaftfelling og seldist á góðu verði. Þannig sannaði Skaftfellingur mikilvægi sitt sem samgöngutæki því vandasamt hefði verið að koma öllum þessum tunnum landleiðina á markað.

Lárus var stjórnarformaðurinn. (Eig. EAV)  Verslunarhúsið  var stórt og glæsilegt hús. Bíll Siggeirs er framan við húsið. (Eig. EAV) Meðallendingar sunnan Eldvatns sóttu vörur í verslunina við Skaftárós og fóru með ferjunni á Syðri-Fljótum yfir Eldvatnið. (Eig. EAV) Skaftfellingur var glæsilegt skip og mikið afrek að fámennar sveitir hafi safnað fyrir skipinu og látið smíða það. Hér er skipið í fyrstu ferðinni austur 1918.

Verslun reist við Skaftárós

Vöruhús var reist við Skaftárós árið 1920 og var það mikil bragarbót. Húsið var á þremur hæðum og gólfflötur 85,5 fermetrar. Þegar það var byggt var það reisulegasta verslunarhúsnæðið sem Kaupfélag Skaftfellinga átti. Líklega munu fá dæmi um verslunarstað svo fjarri mannabyggð sem Skaftárós. Húsið stóð í landi Syðri-Steinsmýrar en þangað eru 8 kílómetrar og yfir sand og gljár að fara. Björgunarskýlið sem nú stendur við vitann er reist á grunni þessa húss en er mun minna. Sjálfboðaliðar úr samtökum í Skaftárhreppi sem nefna sig Fótspor tóku sig til veturinn 2009 og lagfærðu skýlið og komu fyrir fræðsluskiltum um sögu húsins og verslunarinnar við Skaftárós. Sími var lagður í verslunarhúsið við Skaftárós 1930. Þar með var mun auðveldara að hafa samband við þá menn sem unnu við uppskipunina og ekki síður að láta Skaftfelling vita hvenær heppilegast væri að reyna að koma vörunum í land.

Skaftfellingur sigldi til 1939

Þessir flutningar Skaftfellings gengu slysalaust fyrir sig þau ár sem báturinn sigldi. Þegar menn sáu að uppskipunin gekk vel fengust stór flutningaskip til þess að staldra við og skipa upp vörum á sama hátt. Það hafði ekki komið til greina áður. Skaftfellingur sigldi með vörur að Skaftárósi í rúm 20 ár eða frá 1918 til 1939. Síðasti fundur hlutafélagsins Skaftfellings var haldinn 1942 og var þá samþykkt að leggja félagið niður enda hafði þá Alþingi Íslendinga samþykkt að styrkja annað skip til Suðurlandsferða.Vöruflutningar á landi voru nú orðnir mun auðveldari en áður með bættum vegum, brúm og betri bílakosti. Búið var að selja bátinn og ekkert eftir annað en að skipta eignum. Rekstur Hf. Skaftfellings gekk brösuglega og því var lítið til skiptanna í lokin. Markmiðið með félaginu og flutningunum var heldur ekki að græða heldur að bæta samgöngur og lífsskilyrði í héraðinu.

Bjarni í Hólmi fékk sendan bíl með Skaftfellingi. Hann var ósamsettur og kom sér vel verkhyggni Skaftfellinga við að koma honum saman. (Eig. LS) Haldin var mikil hátíð í Vík í Mýrdal þegar 100 ár voru liðin frá fyrstu ferðinni. Börn Sigrúnar voru öll mætt til að segja frá baráttu móður sinnar við að koma Skaftfellingi til Víkur þar sem hann er til sýnis í skemmu beint á móti Halldórskaffi. Sigrún var glæsileg kona og Skaftfellingur var glæsilegt skip, þó nú hafi það látið nokkuð á sjá.

Skaftfellingi bjargað til Víkur

En sögu skipsins er þó ekki lokið. Það var ung stúlka í Vík á upphafsárum Skaftfellings sem tók ástfóstri við bátinn. Hún minntist komu hans til Víkur á vorin sem vorboðans og hún átti góðar minningar um allt það góðgæti og alla þá fallegu muni sem komu með skipinu. Þegar hún fór til Vestmannaeyja í kjölfar gossins 1973, þá fullorðin kona, gekk hún um eyjuna og sá Skaftfelling liggja og grotna niður í Vestmannaeyjum. Þessi kona var Sigrún Jónsdóttir, myndlistarkona sem þekktust er fyrir að vefa hökla og aðra kirkjulistmuni. Sigrún ákvað að koma Skaftfellingi til Víkur í öruggt húsnæði. Báturinn var veðsettur og til að aflétta því varð að semja við margar lánastofnanir. Eigendurnir í Eyjum voru meira en til í að gefa Sigrúnu bátinn. Hennar vandi var að losna við skuldirnar. Þetta verkefni tók mörg ár og kostaði Sigrúnu mikla peninga.Árið 2000 kom út ævisaga Sigrúnar og allur ágóði af sölu ævisögunnar rann til þessa verkefnis ásamt meiru af hennar fé. Það er eftirminnilegt þegar Sigrún Jónsdóttir kom á Klaustur að kynna ævisögu sína og hugur hennar var allur bundinn því verkefni að koma Skaftfellingi til Víkur. Þarna sat þessi litla kona í djúpum stól á hótelinu á Kirkjubæjarklaustri og talaði um Skaftfelling, illa farinn eikarbát sem var orðinn 84 ára gamall. Hún ætlaði sér koma honum heim. Og það tókst.

Skaftfellingur er til sýnis í Vík

Skaftfellingur komst til Víkur þar sem hann er vel geymdur í skemmu. Hópur fólks hefur unnið að því að opna sýningu á skipinu og segja sögu þess. Sýningin var formlega opnuð 4. júní 2017 og er í húsi beint á móti Halldórskaffi í Vík. Með því framtaki tekst vonandi að segja sögu skipsins segja frá hlutverki þess í  að bæta líf Skaftfellinga á árum áður. Hér eiga Mýrdælingar, íbúar Skaftárhrepps og Öræfingar sameiginlegt framtíðarverkefni.

Kjartan Ólafsson. 1991. Verslunarsaga Vestur-Skaftafellssýslu. II bindi. Vestur-Skaftafellssýsla, Vík. III. bindi S. 202-221, III. bindi s. 9-43

Þórarinn Helgason. 1957. Lárus á Klaustri. Ævi hans og störf. Bókaútgáfa Guðjóns Ó Guðjónssonar, Rv. s. 176-198 og s. 235-267

Þórunn Valdimarsdóttir. 2000. Engin venjuleg kona. Litríkt líf Sigrúnar Jónsdóttur kirkjulistakonu. JPV, 2000. S. 32-33 og 158-160