Warning: Uninitialized string offset 0 in /var/www/virtual/eldsveitir.is/htdocs/wp-includes/class-wp-term-query.php on line 1

Warning: Uninitialized string offset 0 in /var/www/virtual/eldsveitir.is/htdocs/wp-includes/class-wp-term-query.php on line 1

Warning: Uninitialized string offset 0 in /var/www/virtual/eldsveitir.is/htdocs/wp-includes/html-api/class-wp-html-tag-processor.php on line 1

Warning: Uninitialized string offset 0 in /var/www/virtual/eldsveitir.is/htdocs/wp-includes/html-api/class-wp-html-tag-processor.php on line 1
Skipsströnd við Suðurströndina — Sögur, menning og náttúra Skip to main content
Meðallandsögur

Skipsströnd við Suðurströndina

By October 18, 2019January 7th, 2021No Comments

Fólkið fylgdist með skipunum

Skipsströnd við Suðurströnd Íslands eru ekki ný af nálinni, allt frá landnámi má rekja slíkar sögur. Annálar greina stöku sinnum frá skipbrotsmönnum af erlendum fiskiskipum. Á síðari hluta 19. aldar sóttu margar þjóðir stíft á Íslandsmið og má þar nefna Breta, Frakka og Þjóðverja. Fyrst voru það skútur sem sjómennirnir sigldu en eftir að gufuskipin komu til sögunnar urðu togarar alls ráðandi. Skipsströnd voru tíð á þessum tíma við Suðurströndina, að jafnaði tvö á ári í Skaftafellssýslum og langflest í Meðallandi. Segja má að það hafi verið hluti af daglegum störfum þar að fylgjast með skipum úti fyrir ströndu. Þegar skip strandaði varð að rjúka til og sinna því hvernig sem á stóð á heimilinu og hvernig sem viðraði, á nóttu eða degi. Oftar en einu sinni kom það fyrir að fleiri en eitt skip strandaði á sama tíma.

Sýslumaður sá um að allt færi löglega fram. Það þurfti að skrá skipið strandað, fá samþykki eigenda og tryggingarfélags fyrir að björgunarlaun yrðu greidd og skipuleggja björgun verðmæta og uppboð. Ef áfengi var um borð varð að gæta vel að hvað væri gert við það, sérstaklega á bannárunum frá 1915-1935. Koma varð öllum strandmönnum fyrir á bæjum og síðan að koma þeim til síns heima.

Skipakirkjugarður fram til 1911

Skipin sjálf hurfu í sandinn á örfáum árum. Menn reyndu að nýta allt sem hægt var og fluttu það á hestum og seinna á bílum til byggða. Á Steinsmýrarfjöru má sjá eitt skipsflak, Hans V. Pritzbuer, sem strandaði 3. nóv 1925, það er ekki enn horfið í sandinn og er ástæðan talin sú að undir skipinu eru önnur skip sem koma í veg fyrir að það sökkvi. Skipsgrindin veðrast og breytist á hverju ári og Eldvatnsósinn færist til þannig að stundum er skipsflakið á þurru en stundum í vatni. Talið er að Ugadale, enskur togari sem strandaði á Steinsmýrarfjöru 1911 hafi verið fyrsta skipið sem bjargað var á flot aftur eftir strand á söndum V-Skaftafellssýslu. [1] Skipstjórinn var í sinni fyrstu veiðiferð og vildi reyna allt til að ná skipinu á flot aftur. Taldi feril sinn sem skipstjóra ekki verða lengri ef það tækist ekki. Það vakti athygli í þessu strandi að það var íslenskur maður um borð og létti það samskiptin milli skipverja og þeirra sem í landi voru. Haft var samband til Reykjavíkur um aðstoð við björgun skipsins. Björgunarskipið Geir kom og tókst að draga Ugadale út aftur og hélt togarinn áfram veiðum. Eftir þetta var meira reynt til að ná skipunum á flot og forða þeim frá því að grafast í sandinn.

Enginn lést eftir að komið var til bæja

Björgunarstörf heimamanna voru lengst af fólgin í að hjálpa skipshöfn við að komast í land og aðhlynningu hinna sjóhröktu manna. Sem betur fer heppnaðist það oftast án slysa en kuldi og vosbúð bar margan skipbrotsmann ofurliði ef engin hjálp barst úr landi. Það vekur athygli þegar lesið er um ströndin að ekki létust strandmenn eftir að þeir komust til bæja.

Ein kona!

Sjómennirnir voru flestir karlmenn en í einu strandi var kona um borð og er þess getið sérstaklega. Einnig er tekið fram að sjómennirnir, eða svokallaðir léttadrengir, hafi sumir verið mjög ungir allt niður í 14 ára. Tengdust þessir unglingar, svo og aðrir sjómenn, fólkinu á bæjunum sterkum böndum og einhverjir þeirra skrifuðust á við Íslendingana í mörg ár. Nokkrir sjómenn urðu fyrir því að stranda oftar en einu sinni og einn sjómaður var þrisvar sinnum skipbrotsmaður á Meðallandsfjörum.[2]

Flak Hans V. Pritzbuer frá 1925, sést enn á fjörunni vestan við Skaftárósvita en flakið er talið liggja á öðru skipsflaki sem gerir það að verkum að það sekkur ekki. Þessi mynd er frá því um 1980. (Ljósm. LS)
Bærinn á Strönd í Meðallandi. Þar gistu margir skipbrotsmenn. (Eig. LR)
Flak Van der Wayden sást í nokkur ár. (Ljósm. LS)
Sveitapilturinn, Lárus Siggeirsson á Kirkjubæ, horfir út um glugga skipstjórans á Van der Wayden sem strandaði í Skarðsfjöru í mars 1957. Þegar átti að reyna að bjarga skipinu flæddi sjór inn í það, blandaðist olíunni og olli sprengingu. Við þetta kviknaði í skipinu og munaði mjög litlu að skipverjar og björgunarmenn slösuðust en þeir rétt slupp. Togarinn brann til kaldra kola og hvarf í sandinn á nokkrum árum. (Ljósm. LS)

Skipbrotsmenn voru sumir með taugaveiki eða “fransós”

Það var óhugnanleg tilhugsun að fá strandmenn á heimilið þar sem engar sóttvarnir voru, fólk bjó mjög þröngt og ekkert var hægt að gera til að forðast það að heimilisfólk smitaðist af sjúkdómum sem sjómennirnir báru stundum með sér. Var talið að margir þeirra væru smitaðir taugaveiki en mest hræddust Íslendingar „fransós“ en þar er sennilega átt við kynsjúkdóminn sárasótt. Var sýslumönnum landsins falið að hindra óþarfa samskipti sjómannanna og Íslendinga til að koma í veg fyrir smit. Var lagt blátt bann við að innlent kvenfólk færi út í fiskiskipin og að Íslendingar tækju við fiskimönnum inn á heimili sín. [3] Nauðsyn hefur þó brotið lög þegar um skipreika menn var að ræða.  Í sumum frásögnum af ströndum er tekið fram að læknirinn hafi gefið sjómönnunum heilbrigðisvottorð, fólkið þurfti þá ekki að óttast að taka mennina inn á heimilin.

Inflúensa, opin sár, alkahólismi, barneignir og villuljós

En það eru líka til frásagnir af því að farsóttir hafi borist með strandmönnum t.d. kom skæð inflúensa upp eftir skipsstrand 1929. Seinni tíma rannsóknir hafa sýnt að sjómennirnir þjáðust af mörgum kvillum sem rekja má til næringarskorts og erfiðis. Algengt var að sár á höndum og úlnliðum gréru ekki alla vertíðina vegna saltvatnsins og kuldans. Vont vatn var líka talin orsök margra kvilla en alkahólsimi var þó algengasti kvillinn og kemur það ekki á óvart miðað við þann skammt af víni sem sjómönnum voru ætlaðir daglega í marga mánuði.[4] Við þessar upplýsingar dofnar birtan yfir sögunum af samskiptum íslenskra kvenna og franskra sjómanna og sennilega eru fæstar þeirra á rökum reistar.

Elín Pálmadóttir leitaði afkomanda franskra sjómanna en fann afar fá börn sem mögulega gátu verið börn fransmanna og sum þeirra náðu ekki fullorðinsaldri.[5]Er því sennilega þjóðsagnakenndur blær á frásögnunum af fjörugu ástalífi þessara hröktu manna með íslenskum konum.Það er ánægjulegt að lesa frásagnir þar sem tekst að bjarga öllum og menn komast aftur til síns heima. Mikil og erfið vinna lá að baki hverri björgun. Lygilegar eru þær sögur að menn hafi reynt að villa um fyrir skipum til að auka líkur á strandi. Það fylgdi of margt erfiðið og áhætta hverju strandi til að líklegt sé að menn hafi gert sér þetta að leik. Það voru mörg þúsund sjómenn á miðunum á hverju ári. Við fáum aldrei að heyra af öllum þeim skipum sem fórust á hafi úti. Við heyrum heldur ekki af öllum þeim mönnum sem tók fyrir borð eða þeim sem veiktust og létust á miðunum. Líf sjómanna hefur verið erfitt og áhættusamt.

Kveðja frá skipbrotsmanni sem sendir mynd af sér til fólksins á Strönd. Á myndinni stendur: “Zur freundlichen Erinnerung. C Silok M.” Á öðrum stað stendur: “Kriegesjahre 1914-1918” Loftur Runólfsson (1927) telur að hann hafi verið skipstjórinn á Martha, sem fórst á Meðallandsströndinni,  öllum þrettán skipverjunum var bjargað. (Eig. EAV)
Jóhannes á Herjólfsstöðum, áður Söndum, segir frá ferð með strandmenn til Rv. (Eig. SS)
Skipbrotsmenn af áhöfn Aurore frá Paimpol sem strandaði á Skeiðarársandi 27. feb 1912 fóru til ljósmyndara í Rv. með mönnunum sem fylgdu þeim suður. Efri röð: f. v. Jóhann Sigurðsson, háseti, skipslæknir, háseti, Páll Sigurðsson. Neðri röð, f.v. Lárus Helgason, vélstjóri, fiskiskipstjóri, skipstjóri. Öll áhöfnin bjargaðist, alls 24 menn. (Eig. EAV)

Fylgja þurfti skipbrotsmönnum suður

En þó skipbrotsmenn væru komnir í gott skjól á bæjum beið þeirra löng ferð. Þeir þurftu í flestum tilfellum að fara á hestum til Reykjavíkur. Jóhannes Guðmundsson, bóndi á Herjólfsstöðum (áður Söndum í Meðallandi), var oft fenginn til að fylgja þeim. Hann skráði dagbók og má þar sjá eina frásögn frá 1925. Togarinn Rieding frá Newcastle strandaði 8. janúar á Skarðsfjöru. Skipverjarnir komust sjálfir í land á björgunarbátum og komust til bæja. Lagt var af stað með strandmennina til Reykjavíkur 19. janúar í leiðindaveðri, austanroki og rigningu. Skipbrotsmennirnir urðu að sitja hest hvort sem þeir voru því vanir eða ekki og fljótlega eftir að lagt var af stað þurfti að fara yfir Kúðafljótið –

endalausa breiðu af vatni. Komið var til Víkur um kvöldið og gist þar og síðan haldið áfram næsta dag. Sex daga tók að ríða til Reykjavíkur, veðrið slæmt alla leiðina, rok, rigning, krapi og frost. En þá var þessum áfanga ferðarinnar lokið og skipbrotsmenn biðu þess í höfuðstaðnum að komast með skipi til Englands. En fylgdarmenn strandmanna riðu sömu leið heim aftur. Jóhannes skrifar um þessa ferð í dagbók sína:

Þannig höfðum við ferðast báðar leiðir á 17 dögum, ekkert orðið að slysum, einn hestur ekki jafn góður. Eitthvað reynst sem ekki vill batna. Hinsvegar má telja það óhapp að við sem vorum kvefaðir fluttum með okkur inflúensukvef, sem hefur breiðst út og einn okkar fjekk mislinga, sem enn ekki hefur breiðst út nema á sambýlisbæjum.Að ég ferðaðist svo fljótt sem tök voru á kom mikið af því að ég vissi að útlendingarnir myndu illa þola gaddkulda, þeir svo mjög skemmdir á fótum, einnig 4 menn arabiskir, mjög kulvísir, því um að gera að komast sem lengst áður færi að gadda.[6]

Jóhannes fór fjölmargar ferðir með strandmenn. Fyrir það fékk hann laun en annað heimilisfólk hefur þá séð um verkin hans heima á meðan. Þannig var líf allra í Skaftafellssýslum mótað af komu strandmanna.

Vitarnir komu seint á Suðurströndinni

Fyrsti vitinn var reistur 1910 í Dyrhólaey en fyrsti vitinn austan Mýrdalssands kom ekki fyrr en 1929 á Alviðruhömrum í Álftaveri. En þrátt fyrir þessa vita héldu skip áfram að stranda. Menn sáu að eitthvað varð að gera og árið 1953 var reistur viti við Skaftárós í Meðallandi og á Skarðsfjöru í Meðallandi var reistur viti 1959. Eftir það fækkaði skipsströndum.

Skarðsfjöruviti í byggingu en hann var tekinn í notkun 1959. (Ljósm. LS)
Ditlev Thomsen, sem er lengst til hægri á myndinni og er þekktur á Íslandi fyrir að flytja fyrsta bílinn til Íslands 1904, byggði fyrstu skipbrotsmannaskýlin á Suðurströndinni. (Ljósm. S. Eymundsson)

Fyrsta skipbrotsmannaskýlið

Skipverjarnir af Friedrich Albert sem strandaði 1903 sögðu Ditlev Thomsen, ræðismanni Þýskalands á Íslandi, sögu sína af hrakningunum á Skeiðarársandi. Ditlev Thomsen brást fljótt við og hóf að vinna að því að reisa skipbrotsmannaskýli á Kálfafellsmelum á Skeiðarársandi. Ekkert skýli var til við strendur landsins. Margir voru ánægðir með þessa hugmynd og vildu leggja henni lið en hurfu af vettvangi þegar ljóst var að skýlið myndi kosta mikið.

Ditlev Thomsen var fæddur í Keflavík 1867 og hafði alist upp á Íslandi og er kannski þekktastur fyrir að hafa flutt inn fyrsta bílinn til Íslands 1904. Hann vann ötullega að því að koma upp skipbrotsmannaskýlinu á Kálfafellsmelunum og var það risið vorið 1904, ári eftir að Friedric Albert strandaði. Í skýlinu voru rúm fyrir 14 menn, uppbúin með heyi og ullarábreiðum, matvæli, te, sykur, tóbak, eldspýtur sáraumbúðir, kaffi og margt fleira. Þar var einnig tjörukvartil til að gera byggðamönnum viðvart, áttaviti, kort frá dönsku landmælingamönnunum sem kortlögðu Skeiðarársand sumarið 1903 með leiðum til byggða og leiðbeiningar á íslensku, dönsku, þýsku, ensku og frönsk um um hvernig menn skyldu haga ferð sinni til byggða. Bóndinn á Kálfafelli, Steingrímur Steingrímsson, fékk það hlutverk að gæta að húsinu og fylgjast með hvort bál væru kynnt og bregðast þá við og koma skipbrotsmönnum til hjálpar.[7]

Skipbrotsmenn komust í skýlið og helltu upp á kaffi fyrir björgunarmenn

Það hefur verið mikil gleðifregn fyrir Ditlev Thomsen og aðra sem unnu að byggingu skýlisins þegar í febrúar einu og hálfu ári síðar strandaði þýskur togari skammt frá skýlinu og allir skipbrotsmennirnir komust í land. Þeir komust í skýlið og voru búnir að hella á kaffi þegar björgunarmenn úr Öræfum komu til þeirra og þáðu kaffisopa áður en haldið var til byggða. Björguðust allir heilir en bæði skipverjar og björgunarmenn voru hraktir eftir volkið um jökulvötn í vondu veðri. [8]

Lítið gerðist í byggingu fleiri skipbrotsmannskýla næstu árin en árið 1913 var reist skýli uppi á Ingólfshöfða. Það er sami maður, Ditlev Thomsen sem var frumkvöðull að því og sá að mestu um uppsetningu þess. Þriðja skýlið reis svo við Mávabót í Meðallandi (við Skaftárós) og voru það konur úr Slysavarnarfélagi Íslands sem sáu um það.

Á myndinni hér fyrir ofan er líkan að Persier BE sem var vöruflutningaskip sem standaði 28. febrúar 1941. Karl í Vík gerði líkanið. Persier var vöruflutningaskip sem strandaði á Dynskógafjöru. Landhelgisgæslunni, sem þá var undir Skipaútgerð ríkisins, tókst að ná skipinu á flot aftur en til að létta skipið var farminum, 100 vöruflutningabílum  og hrájárni skipað upp á sandinn. Björgun skipsins þótti mikið afrek.

Vörubílarnir voru fluttir upp að Hafursey og þar voru þeir settir saman og keyrðir í burtu. Mikill málarekstur varð út af björgun skipsins og  hrájárnsins, sem var verðmætt efni, en sú saga verður ekki sögð hér. [9]

Þessi skemmtilega mynd af Meðallendingum  var tekin þegar haldin var veisla fyrir þá menn sem aðstoðuðu þegar King Sol frá Grimsby standaði á Skálarfjöru 28.2 1955. Tuttugu manna áhöfn bjargaðist. Skipið náðist út og var dregið til Rv. Myndin er tekin við samkomuhúsið í Efri-Ey.  Talið frá vinstri efri og neðri röð í bland: 
Jón Björnsson Klaustri, Grétar H. Birgis Efri-Steinsmýri, Jón Árnason Efri-Ey, Markús Runólfsson frá Bakkakoti (mjög hávaxinn), Magnús Pálsson Syðri-Steinsmýri, Hávarður Hávarðsson (Valli) í Króki (hávaxinn við vegginn), Magnús Sigurðsson, formaður björgunarsveitarinnar Happasæls og bjó í Kotey, Loftur Runólfsson á Strönd (sést varla), Úlfur Ragnarsson læknir, Eyjólfur á Hnausum, aftan við Eyjólf er maður sem varla sést Halldór Hávarðsson, Króki, Björn Erasmusson í Sandhól, Runólfur Runólfsson, Bakkakoti,  Ólafur  Hávarðsson í Fljóta-Króki,Haraldur  Pálsson á Syðri-Steinsmýri, Vigfús Guðjónsson á Syðri-Fljótum,  sá sem er hávaxinn við vegginn er Björn Sveinsson í Langholti við hlið hans er Sigurgeir Jóhannsson í Bakkakoti og svo  Tómas Gíslason á Melhól.
Haldin var veisla fyrir þá menn sem aðstoðuðu þegar King Sol frá Grimsby standaði á Skálarfjöru 28.2 1955. Tuttugu manna áhöfn bjargaðist. Skipið náðist út og var dregið til Rv. Myndin er tekin við samkomuhúsið í Efri-Ey.  Talið frá vinstri efri og neðri röð í bland: 
Jón Björnsson Klaustri, Grétar H. Birgis Efri-Steinsmýri, Jón Árnason Efri-Ey, Markús Runólfsson frá Bakkakoti (mjög hávaxinn), Magnús Pálsson Syðri-Steinsmýri, Hávarður Hávarðsson (Valli) í Króki (hávaxinn við vegginn), Magnús Sigurðsson, formaður björgunarsveitarinnar Happasæls og bjó í Kotey, Loftur Runólfsson á Strönd (sést varla), Úlfur Ragnarsson læknir, Eyjólfur á Hnausum, aftan við Eyjólf er maður sem varla sést Halldór Hávarðsson, Króki, Björn Erasmusson í Sandhól, Runólfur Runólfsson, Bakkakoti,  Ólafur  Hávarðsson í Fljóta-Króki,Haraldur  Pálsson á Syðri-Steinsmýri, Vigfús Guðjónsson á Syðri-Fljótum,  sá sem er hávaxinn við vegginn er Björn Sveinsson í Langholti við hlið hans er Sigurgeir Jóhannsson í Bakkakoti og svo  Tómas Gíslason á Melhól.

Sögu skipsstranda við Suðurströndina lýkur aldrei. Verkefni Skaftfellinga var að bjarga fólki og verðmætum. Allir lögðu frá sér dagleg verkefni og fóru til strandar. Stundum hefur þetta verið afar erfitt verkefni en líka skemmtileg tilbreyting frá hversdagslegu amstri þegar vel tókst til. Nýjasta strandið þar sem giftusamlega tókst til við björgun var þegar fjölveiðiskipið Baldvin Þorsteinsson  strandaði árið 2004 en þau frægustu eru eflaust strand Gullskipsins, Het wapen von Amsterdam 1667 og  strand franska spítalaskipsins í apríl 1899. Sagt er fá þessum ströndum hér á vefnum en víða má finna meiri heimildir og jafnvel von á kvikmyndum um þessa atburði. Það verður tíminn að leiða í ljós.

[1] Kristinn Helgason. 2001. Dynskógar 8. Sögufélag Vestur-Skaftafellinga, Vík. S. 69

[2] Kristinn Helgason. 2001. Dynskógar 8. Sögufélag Vestur-Skaftafellinga, Vík. S. 141

[3] Tíðindi um stjórnarmálefni Íslands III.

[4] Elín Pálmadóttir. 1989. Fransí biskví. Frönsku Íslandssjómennirnir. Almenna bókafélagið, Rv. s. 51-59

[5] Elín Pálmadóttir. 1989. Fransí biskví. Frönsku Íslandssjómennirnir. Almenna bókafélagið, Rv. s. 122-136

[6] Kristinn Helgason. 2001. Dynskógar 8. Sögufélag Vestur-Skaftafellinga, Vík. s. 106

[7] Kristinn Helgason. 2001. Dynskógar 8. Útg. Vestur-Skaftafellssýsla, Vík. 37-40

[8] Kristinn Helgason. 2001. Dynskógar 8. Útg. Vestur-Skaftafellssýsla, Vík. s. 49

[9] Kristinn Helgason. 2001. Dynskógar 8. Útg. Vestur-Skaftafellssýsla, Vík. s. 163-166