Skip to main content
Álftaversögur

Þykkvabæjarklausturskirkja

By October 18, 2019February 28th, 2020No Comments

Kirkja hefur verið á Þykkvabæjarklaustri  í Álftaveri frá því fyrir stofnun klausturs og alla tíð síðan. Kirkjan sem nú stendur á Þykkvabæjarklaustri var byggð 1864 úr rekavið af fjörum Þykkvabæjarklausturs. Gagngerð viðgerð fór fram á kirkjunni 1964 og miklar endurbætur voru gerðar 2014. Kirkjan er hið veglegasta hús og tekur 100 manns í sæti. Kirkjan er í eigu ríkisins. (Ljósm. IH)

Þrír kertastjakar og ljósakróna eru í kirkjunni sem komu úr franska spítalaskipinu St. Paul eftir strand skipsins 1894.

 

Á fæti kertastjakans, hér til vinstri, má sjá gat til að festa stjakann til að hann færi ekki á hliðina í skipinu. (Ljósm. LM)

 

Ljósakrónan til hægri er mjög falleg og sómir sér vel í kirkjunni. Ekki er vitað hvort kirkjunni voru gefnir þessi munir af skipverjum eða hvort einhver keypti þá á uppboði og gaf þá kirkjunni. (Ljósm. LM)

 

Altaristaflan sem sést fyrir neðan ljósakrónuna er eftirprentun af mynd Ankers Lund af upprisunni. (Ljósm. LM)

Klukkan fór undir hraunið

Sagt er að klausturskirkjan á Þykkvabæjarklaustri hafi átt klukku sem vó 24 fjórðunga, 600 pund, og var hún svo hljómsterk að hringing hennar heyrðist í kyrru veðri vestur yfir Mýrdalssand að Höfðabrekkukirkju. Þessi klukka var lánuð Hólmaselskirkju og þar var hún þegar Skaftáreldahraunið rann yfir og grófst klukkan með kirkjunni.

Myndirnar hér að ofan sýna viðgerðina á Þykkvabæjarklausturskirkju 2014.  Allar viðgerðir á svo gömlu húsi eru unnar í samráði við Minjavernd.  (Ljósm. BL)
Á ljósmyndinni efst á síðunni sést hvernig kirkjan leit út komin í nýja búninginn. Aftan við kirkjuna er skrúðhúsið.