Fimm ára útrás
Sala sauða á fæti til Bretlands gaf vel af sér til bænda í Vestur-Skaftafellssýslu á árunum 1894 til 1899.
Landmiklar jarðir í héraðinu hentuðu vel til sauðfjárræktar og er talið að hafi verið búskapur á um 150 jörðum í hreppunum milli Mýrdalssands og Skeiðararsands á þessum tíma. Það var stofnað félag á Stokkseyri um sauðasölu til Breta og fékk það nafnið Stokkseyrarfélagið. Bændur í Skaftafellssýslu höfðu samband við félagið og ráku sauðina Fjallabaksleið nyrðri til Reykjavíkur þar sem þeir vour fluttir á árabát um borð í skip, farið með þá lifandi til Bretlands þar sem þeir voru settir í haga til fitunar og þeim síðan slátrað. Var gert ráð fyrir að hver sauður hafi lést um 42 pund á þessu langa ferðalagi en sauður á fæti vóg frá 100-140 pund. Bændur gátu pantað vörur fyrir sauðaverðið eða fengið pening.
Má víst telja að það hafi verið í fyrsta skipti sem sumir bændur handfjötluðu peninga en þeir höfðu jafnan fengið úttekt út á afurðir sínar á Eyrarbakka og Djúpavogi. [1] Sauðasalan gaf verulegar innflutningstekjur og hefur verið snjöll leið til að bæta hag Íslendinga.
Sauðirnar reknir til Reykjavíkur
Í fyrsta skipti sem Skaftfellingar sendu sauði til Stokkseyrarfélagsins 1894 voru reknir 700 sauðir til Stokkseyrar. Tóku menn ýmsar vörur út hjá Stokkseyrarfélaginu. Mest var tekið út af kaffi, hveiti, munntóbaki, byggi, melís, grjónum og hvítu garni. Í fyrstu pöntuninni voru einnig tvær saumavélar. Það voru tveir einhleypir karlmenn sem pöntuðu þær, annar ungur og ógiftur, hinn ekkjumaður. Ekki er ljóst hvort þeir ætluðu sjálfir að brúka vélarnar eða hafa þær til að lokka til sín konur en nokkru síðar eru báðir kvæntir og spurning hvort saumavélaeignin hafi þar hjálpað til.
Útrás skaftfellskra bænda stóð aðeins í nokkur ár en gaf vel af sér Í gegnum Stokkseyrarfélagið sem sá um útflutninginn voru seldir að minnsta kosti 15000 sauðir á árunum 1894-1899 og hefur þetta eflaust haft mikil áhrif á efnahag fólks í sveitunum. Úttekt á vörum var aðeins þriðjungur þess sem fékkst fyrir sauðina og hafa menn því fengið annað greitt í peningum. Ástæða þess að útflutningurinn leggst af er sú
…að yfirvöld í Bretlandi bönnuðu innflytjendum þar að fé yrði hleypt lifandi í land nema þá í sóttkví. Þar með var tekið fyrir að breskir bændur gætu fitað íslenskt fé á ökrum sínum og brast þá helsta forsendan fyrir verulegri sölu fjár á fæti frá Íslandi. [2]
Þannig endaði þetta útrásarævintýri en það var búið að kosta allnokkru til þessara ferða með fé og þar á meðal var að varða leiðina þessa löngu leið sem varð að fara til að koma sauðunum í skip.
Ferðin tók sex daga
Vigfús bóndi á Geirlandi var í forsvari þegar fyrsti sauðahópurinn var rekinn til Reykjavíkur 1894. Var gert ráð fyrir einum manni á hvert hundrað en í þessum rekstri voru fleiri menn sem fylgdu hópnum til öryggis því veður voru válynd og valdir voru þeir menn sem líklegastir voru til að þekkja bestu leiðina.
Reksturinn fór eins og leið lá frá Holti á Síðu, yfir heiðarnar og síðan yfir Skaftárdalsvatn (Skaftá) hjá Skaftárdal. Var það helsti farartálminn á leiðinni því það var mikið í ánni og blotnaði bæði fé og menn. Heimilisfólkið á Búlandi tók vel á móti mönnunum, þurrkaði föt þeirra og gaf þeim heitan mat og drykki. Lagt var af stað að morgni frá Búlandi og var markmiðið að komast í Kýlinga að kvöldi þess dags og tókst það þó að snjór tefði þá á leiðinni og veður væri ekki gott. Þegar mennirnir tjölduðu þurftu þeir að hreinsa snjóinn af jörðinni til að koma tjaldinu fyrir en sauðirnir urðu að standa í snjó upp í kvið alla nóttina.
Daginn eftir var skafrenningsbylur og snjór yfir öllu svo mikill að það varð að troða braut með hestunum til að reka sauðina. Veðrið lagaðist er leið á daginn og náði hópurinn í Landmannahelli um nóttina og gisti þar. Var mun minni snjór og betra veður eftir því sem vestar dró. Gekk ferðin tíðindalítið eftir þetta, farið var að Galtalæk og gist þar næstu nótt og síðan til Reykjavíkur þar sem sauðirnir áttu að fara í skip.
Hlaðnar 798 vörður
Árið eftir fór Vigfús með fleirum og hlóð vörður frá Svartanúpi að Kýlingum til að létta ferðamönnum og fjárrekstrarmönnum leiðangurinn og kom það sér vel næstu haust. [3] Vörðurnar voru mjög þéttar, um 130 m á milli þeirra og hver þeirra merkt með númeraplötu. Varða númer 1 var við Svartanúp í Skaftártungu og þegar verkinu lauk nokkrum árum síðar voru vörðurnar orðnar 798 en það númer er á vörðu við Galtalæk, ofarlega í Landsveit. Byggingarefnið var það sem hendi var næst á hverjum stað og er því hver og ein varða sérstök. [4] Vörðurnar standa margar enn og gaman að gera sér að leik að reyna að koma auga á þær af Fjallabaksvegi eða fylgja þeim gangandi, hluta leiðarinnar eða alla leið frá Svartanúp að Galtalæk.
[1] Kjartan Ólafsson. 1987. Verslunarsaga Vestur-Skaftfellinga. Fyrra bindi. Vestur-Skaftafellssýsla, Vík. s. 138-164
[2] Kjartan Ólafsson. 1987. Verslunarsaga Vestur-Skaftfellinga. Fyrra bindi. Vestur-Skaftafellssýsla, Vík. s. 152
[3] Vigfús Jónsson. 1995. Vestur-Skaftafellssýsla og íbúar hennar. Kornið forlag, Rv. s. 187-191
[4] Ólafur Örn Haraldsson. 2010. Friðland að fjallabaki. Ferðafélag Íslands árbók 2010. Ferðafélag Íslands, Rv. s. 210-211