Skip to main content
Síða og Fljótshverfisögur

Þórunn grasakona

By January 4, 2020March 10th, 2020No Comments
Fremst á myndinni er steinn til minningar um hjónin Þórunni Gísladóttur og Filippus Stefánsson. Kálfafellskot og fjallið Harðskafi í baksýn. (Ljósm LM

Þórunn grasakona og ljósmóðir bjó í Kálfafellskoti

Grasalækningar hafa verið til á Íslandi í margar aldir. Það er þó aðeins ein ætt sem beinlínis kennir sig við þessa iðju en það er Grasaættin. Þessi ætt er upprunnin í Vestur-Skaftafellssýslu, nánar til tekið frá Kálfafellskoti. Þar áttu heima hjónin Þórunn Gísladóttir (1846-1937) grasakona og ljósmóðir, og Filippus Stefánsson (1839-1909) silfursmiður og bóndi.

Þórunn fékk lækningaleyfi yfirvalda

Þórunn fæddist í Ytri-Ásum í Skaftártungu og var þar til sex ára aldurs er fjölskyldan flutti á Suðurnes. Þegar hún var 22 ára giftist hún Filippusi og flutti að Kálfafellskoti þar sem hann var fæddur og upp alinn. Þórunn nam ljósmóðurfræði hjá Oddi lækni Johnsen í Odda og stundaði ljósmóðurstörf og grasalækningar á meðan þrek og heilsa entust. Svæðið sem hún þjónaði var frá Geirlandi að Skeiðarársandi en oft fór hún lengra, bæði sem ljósmóðir og læknir. Þann tíma sem þórunn bjó í Kálfafellskoti var læknislaust í nærliggjandi héruðum langtímum saman. Hafði Þórunn óopinbert lækningaleyfi yfirvalda og fékk meira að segja send lyf frá Schierbeck landlækni. Einnig sendi hann henni matjurtafræ eftir óskum hennar en hún var mikil garðyrkjukona og var frumkvöðull í kartöflurækt. Sú ræktun hófst með blárauðum kartöflum komnum úr franskri skútu sem strandaði á söndunum.

Lyfjagras var áður notað til að hleypa mjólk til skyrgerðar. Smyrsl af plöntunni var notað við útbrotum, bólgu, sprungum og gömlum sárum. Seyði af blöðunum var talið gott til þess að hreinsa höfuð og styrkja hársvörð til varnar skalla. (Plöntuvefurinn)

Þórunn Scheving, kona Sr. Jóns eldklerks, var langa-langamman

Móðir Þórunnar Gísladóttur hét Þórunn Sigurðardóttir og var einnig ljósmóðir og grasakona. Hún ólst upp í Steig í Mýrdal. Hennar móðir hét Þórunn Þorsteinsdóttir, dóttir Karitasar Jónsdóttur sem var dóttir Þórunnar Scheving og því stjúpdóttir Sr. Jóns, eldklerksins fræga. [1] Er hugsanlegt að fróðleikur Jóns um jurtir og grös hafi komið fram þarna í gegnum afkomendur stjúpdótturinnar? Hvergi er minnst á það í þeim gögnum sem ég las en nefnt að Þórunn Gísladóttir hafi eignast Grasafræði Hjaltalíns og Grasnytjar Björns í Sauðlauksdal. [2]

Hér er Þórunn grasakona með Helgu, einu af barnabörnunum. (Eig. VR)
Bænhúsið á Núpsstað. (Eig. VR) Á myndinni fyrir ofan eru húsin í Kálfafellskoti um miðja tuttugustu öldina. (Eig. JK_BK)
Silfurkross sem Filippus smíðaði til minningar um Sigurð Ólafsson, lækni á Kálfafelli. (Ljósm. LM)

Filippus var frá Núpsstað

Filippus var þjóðhagasmiður bæði á tré og járn, en einnig góðmálma. Smíðaði hann meðal annars skartgripi úr silfri, brjóstnælur, skúfhólka, nálhús tóbaksdósir, bauka og svipur. Var ein af svipum hans færð Kristjáni níunda í tilefni 1000 ára afmælis Íslandsbyggðar. Einn af gripum Filippusar má sjá í kirkjunni á Kálfafelli. Það er silfurkross sem hann smíðaði til minnningar um Sigurð Ólafsson lækni á Kálfafelli sem lést 1882 þá aðeins 32 ára að aldri.

Leituðu betra lífs á Austurlandi

Þórunn og Filippus bjuggu í Kálfafellskoti til ársins 1897 en þá fluttu þau austur á land. Þau eignuðust alls 14 börn en aðeins 9 þeirra komust til fullorðinsára. Þrátt fyrir mikla vinnu við ljósmóðurstörf og lækningar fékk Þórunn ekki mikil laun og þröngt var í búi. Jörðin í Kálfafellskoti er ekki stór og það var mjög hart í ári þegar fjölskyldan bjó þar, 1882 féll féð vegna kulda, mislingafaraldur gekk stuttu síðar og fleiri hörmungar gengu yfir. Þau hjón ákváðu að flytja austur á land í von um betra líf. Hafði Erlingur sonur þeirra falast eftir ábúð á jörðinni Ormstöðum í Eiðaþinghá þar (þar sem Eiðaskóli stendur). Var ákveðið að synirnir á heimilinu, tveir yfir tvítugt og tveir um fermingu, rækju kindurnar á undan austur. Þeir fóru gangandi, með 150 fjár yfir vötn og sanda, yfir fjöll og fyrir firði, mörg hundruð kílómetra leið í misjöfnum veðrum vorið 1897. [3] Komust bræðurnir austur með féð, höfðu ekki misst eina einustu kind, en þá reyndist manninum sem jörðinni hafði lofað ekki unnt að standa við orð sín, jörðin hafði verið lofuð öðrum. Þá voru engin önnur ráð en selja allt féð. Komu hjónin Filippus og Þórunn síðan austur með hin börnin og varð fólkið að bjarga sér sem best það gat með lausamennsku og öðru uns þau keyptu jörðina Brúnavík á Borgarfirði eystra tveimur árum síðar. Þetta var fjölskyldunni erfitt en þó blessaðist allt að lokum

Kraftaverk grasanna

Eina sögu af lækningamætti grasasmyrslanna sem Þórunn bjó til er að finna í bókinni um Grasaættina. Fjölskyldan var þá árið 1912 komin til Vestmannaeyja og var Gissur, sonur Þórunnar og Filippusar að vinna við vélsmíði. Einn daginn þegar Gissur var að gera við vél í mótorbáti blossaði upp eldur sem læsti sig í föt Gissurar. Gissur henti sér í sjóinn og gat þannig slökkt eldinn en var illa brunninn. Kallaður var til læknir sem sagði að Gissur ætti ekki sér enga von, hann væri dauðans matur. Þórunn reiddist lækninum, rak hann út og sinnti Gissuri ein næstu vikurnar með grasasmyrslum. Ekki er að orðlengja það frekar að Gissur fékk fullan bata og gat haldið til vinnu tæpum tveim mánuðum síðar. [5]

Í Skaftárhreppi eru víða jurtir sem eru góðar til lækninga. (Ljósm. LM)

Grasaættin

Afkomendur Þórunnar og Filippusar hafa haldið áfram starfi Þórunnar og einhverjir stundað  grasalækningar í hverri kynslóð. Sonur þeirra Erlingur (1873-1967) var þekktur fyrir lækningar sínar. Hann gaf út bækling sem hét „Íslenskar nytjajurtir“ 1955 en að öðru leyti var þekkingin falin í huga hans. Bæði Þórunn grasakona og Erlingur urðu fyrir aðkasti og málsóknum vegna lækninga sinna. Var ýjað að því að þarna færu svikarar og galdrafólk. [4] Margir aðrir höfðu þó tröllatrú á lækningunum og almenningur hefur leitað til þessarar fjölskyldu í áratugi. Ásta aðstoðaði Erling föður sinn við grösin og tók við af honum þegar hann lést og starfaði þar til hún lést árið 2005.

Ásta erfði grasakunnáttuna einnig frá móðurömmu sinni, Stefaníu Ólafsdóttur sem var ljósmóðir á Gilsárvöllum í Eiðaþinghá. Söfnun jurta er stór hluti af starfi grasalæknisins. Ásta og Erlingur sóttu mikið af jurtum austur í Skaftafellssýslu. Þar er mjög strjálbýlt og var afar lítil mengun en ekki er vitað hvaða áhrif mikið öskufall í Grímsvatnagosinu 2011 hefur haft á plönturnar og gæði þeirra til lækninga.  Börn Ástu hafa stundað grasalækningar sem og margir aðrir afkomendur Þórunnar og Filippusar sem hafa verið liðtækir við að nýta grösin til lækninga þó þeirra starf hafi ekki orðið eins frægt og umfangsmikið og starf Erlings og Ástu.

[1] Franz Gíslason. 2004. Ágrip af sögu Þórunnar, Filippusar og barna þeirra. Grasaættin. Útg. Ritnefnd Grasaættarinnar, Rv. s. 198

[2] Atli Magnússon. 1987. Ásta grasalæknir. Bókaútgáfan Örn og örlygur, Rv. s. 52

[3] Árni Óla. 1948. Fjöll og firnindi ævissaga Stefán Filippussonar, Iðunn, Rv. Og Atli Magnússon. 1987. Ásta grasalæknir. Bókaútgáfan Örn og Örlygur, Rv. Gissur Ó Erlingsson. 1995.

[4] Erlingur grasalæknir. Bókaútgáfan Skjaldborg, Rv.

[5] Halldór Árnason. 2004. Gissur Kristján. Grasaættin. Útg. Ritnefnd Grasaættarinnar, Rv. s. 293-294