Skip to main content
Síða og Fljótshverfisögur

Gullskipið strandaði 1667

By January 5, 2020January 7th, 2021No Comments
Svona gæti Het Wapen van Amsterdam hafa litið út

Gullskip strandar á Skeiðarársandi

Het Wapen van Amsterdam strandaði á Skeiðarársandi haustið 1667 líklega á Skaftafellsfjöru. Skipið var nokkurra ára gamalt, eitt það stærsta og glæsilegasta sem Hollendingar áttu. Það hafði farið frá eyjunni Jövu sem er við Indónesíu í lok janúar og var því búið að vera um átta mánuði á heimleið. Skipið hrakti undan ofviðri frá Hjaltlandi þar sem það beið fylgdar herskipaflota heim til Hollands. Skipalestinni var siglt norður fyrir Bretlandseyjar af ótta við atlögu enskra herskipa á Ermarsundi enda stóð stríð Hollendinga og Englendinga sem hæst. Hollensk herskip áttu svo að fylgja skipunum yfir Norðursjó og til Hollands. Áður en það gerðist skall á slíkt ofsaverður að skipin hröktust út á Atlantshafið. Einhver þeirra komust til Færeyja, eitt brotnaði þar í spón og fórust flestir skipverjar, Het Wapen Van Amsterdam hraktist að ströndum Íslands en hin skipin komust að lokum til Hollands.

Mannskæðasta sjóslys við Íslandsstrendur

Mikið hefur verið fjallað um farm þessa skips en minna hugað að því að þetta er með allra mannskæðustu sjóslysum við Íslandsstrendur. Talið er að minnst 140 manns hafi farist en aðeins 50-60 menn bjargast. Ekki er vitað hversu margir komust lifandi á land en á Skeiðarársandi er mjög langt til byggða og líklegt að margir sem komust lífs af úr strandinu sjálfu hafi orðið úti á sandinum. Þeir menn sem björguðust fóru til Reykjavíkur og komust sumir í skip til Danmerkur. Öðrum var dreift um bæi í Gullbringu-og Kjósarsýslu yfir veturinn. Einhverjir hafa verið fyrir austan því í alþingisbókum má lesa að sýslumaðurinn í Austur-Skaftafellssýslu sneypti eina kvensnift, Ragnhildi Jónsdóttur, sem eignast hafði barn með Pétri Jacobssen sem var þá sigldur frá landinu en hann hafði verið skipverji á Het Wapen Van Amsterdam. Kannski hafa fleiri skipverjar skilið eitthvað eftir þó ekki sé það skráð í bækur. [1]

Kort frá 1904 sýnir hversu langt og illfært hefur verið fyrir strandmenn að komast til byggða og létust margir á þeirri leið. Þeir sem komust af fóru austur í Öræfi.
Hér er líkan að Het Wapen von Amsterdam sem Karl í Vík gerði. Skipið var nýlegt þegar það fórst.

Gull, silfur, perlur, dementar og kopar?

Annálar segja að í skipinu hafi verið gull, silfur, perlur, demantar, kopar, auk annarra verðmæta. Er talið líklegt að skipbrotsmennirnir hafi reynt að bjarga eins miklu og þeir gátu af verðmætum en frá strandstað er mjög löng ganga til byggða og þrekaðir sjómennirnir hafa varla borið mikið með sér alla leið. Fram kemur að yfirvöld hafi tilkynnt að strandgóssið væri vogrek og ætti því að vera í vörslu embættismanna. Sýslumönnum var skipað að senda allt sem bjargaðist þegar í stað til Bessastaða og er svo að skilja að allan veturinn 1667-8 hafi menn verið að ná einhverju af góssinu og sýslumenn hafi komið því suður á Álftanes. [2] Lög um vogrek sögðu að konungurinn danski ætti allt sem ræki á fjörur á Íslandi. Voru Hollendingar mjög ósáttir við þessa túlkun því þeir töldu sig eiga flakið og allt sem í því var. Þeir reyndu að senda hingað leiðangur til að bjarga einhverju úr skipinu. Til eru bréfaskipti danskra og hollenskra yfirvalda þar sem Hollendingar sækja um leyfi til leiðangursins en ekki er vitað hversu miklu þeir björguðu. [3]

Skipið hvarf í sandinn

Skipsskrokkurinn seig ofan í sandinn en var þó sjáanlegur í 90 ár og siglutréð mun lengur segja Öræfingar. Var talað um að Öræfingar hafi búið upp rúm með silki í nokkrar aldir. Var sumt af þvi þannig til komið að skipbrotsmennirnir útveguðu sér hesta til að fara með sem mest af vörum úr skipinu með sér suður. Áttu þeir ekki reiðtygi en mikið af silki. Gerðu þeir sér beisli, tauma, gjarðir og fleira úr silkinu og ætluðu að ríða þannig. Bændum þótti þetta skrýtinn útbúnaður og heldur dýrt efni til að fórna því í reiðtygi og skiptu því við skipverjana á silki og reiðtygjum.

Hér má sjá bíl Kristins í Björgun til vinstri og bíl Lárusar Siggeirssonar á Klaustri (Z6). (Ljósm. LS)
Mikið var af tækjum og tólum, sumt var keypt, annað smíðað. (Ljósm. LS)

Leitin að gullskipinu

Gullið í sandinum hafði lengi heillað og þar kom að því að menn hófu leit að gullskipinu. Talið er að það liggi um 20 km vestan Ingólfshöfða og var siglutréð hádegismark frá Skaftafelli í mörg ár. Bergur Lárusson frá Kirkjubæjarklaustri var fyrstur til að hefja leitina og eyddi ófáum stundum á sandinum með mælingatæki til að reyna að staðsetja hið sokkna skip. Fékk hann leyfi forsætisráðherra fyrir þessari leit 1960 og þar með samning um skiptingu ágóðans.

Eftir 1970 kom Kristinn Guðbrandsson, oftast kenndur við Björgun, að leitinni ásamt mörgum fleirum. Smíðuðu þeir Bergur mörg tæki sem gerði þeim fært að ferðast um sandinn en hann er víða blautur og illur yfirferðar. Eyddu þeir, ásamt fleirum, drjúgum tíma og peningum við að sinna þessu áhugamáli. Fylgdist þjóðin spennt með og má sjá margar greinar í dagblöðum frá þessum tíma þar sem sagt er frá gangi leitarinnar. Grípum niður í ævisögu Kristins Guðbrandssonar þar sem hann færir rök fyrir því að skipið sé heilt í sandinum:

En ástæðan til þess að við þykjumst vita að skipið sé þarna er sú að þetta er tréskip. Það strandar á útrifi, fer inn fyrir rifið og sekkur á tíu metra dýpi. Þar fyllist það af sandi jafnharðan og sjórinn gengur inn í það. Ég hef horft á þvílíkt gerast, orðið vitni að því, hve sandurinn er fljótur ð berast inn um smæstu glufur. Sandurinn hrannast að og hylur þannig að hvergi er hægt að drepa fingri á skipið. Þess vegna tel ég víst að skrokkurinn sé í heilu lagi einhvers staðar í sandinum. [4]

Og með þessa fullvissu í farteskinu héldu þeir gullleitarmenn áfram. En þetta var ekki bara eftirsókn eftir gulli heldur varð þetta líka einskonar lífsstíll þeirra manna sem að þessu stóðu. Kristinn í Björgun segir svo frá:

Það er ljóst að sandurinn býr yfir einhverju sem laðar menn, lokkar þá til sín. Ef til vill er það víðáttan og þessi síbreytileiki, maður veit raunverulega aldrei á hverju maður á von, og verður því ævinlega að vera við öllu búinn. Svo er ótrúlega mikið líf á þessu vatnasvæði þótt sumir álíti annað. Fuglalíf er auðugt á Skeiðarársandi, enda er hann búinn að gróa mikið upp. [5]

Gullleitin er heillandi en sjálfsagt hafa líka verið dagar þar sem sandrok, rigning eða kuldi hafa gert gullleitarmönnum lífið leitt.

Hér fyrir neðan er hluti af þeim tækjum sem voru á Skeiðarársandi við gullleitina. Vatnadrekinn eða Larkurinn, eins og hann var kallaður, gat farið um á landi og í vatni. Á neðstu myndinni sést þilið sem var smíðað utan um svæðið þar sem skipið átti að vera. (Ljósm. LS)

Hræðileg vonbrigði; gullskipið var gamall togari

Þegar ljóst þótti að skipið væri fundið var settur meiri kraftur í leitina og náðust upp viðarbútar. Leitarmennirnir vildu bora niður og ná í meiri sýni en það var alveg bannað af yfirvöldum, ekki mætti skemma fornminjar! Sýni voru þó send til Skotlands og Svíþjóðar og staðfest að viðarbútur sem kom upp hlyti að vera úr Het Wapen van Amsterdam. Alþingi samþykkti ríkisábyrgð á lán og veðið var farmurinn í skipinu. Frjálsleg umgengi um almannafé er ekki ný af nálinni og almenningur varð ýmist foxillur eða taldi alveg sjálfsagt að leggja allt kapp á að ná fjársjóðnum úr sandinum.  Hollendingar sendu fjölda manna til að fylgjast með uppgreftrinum til að tryggja að engu yrði komið undan. Og 4. september árið 1983, eftir sex mánaða stanslaust bras komust þeir niður að skipinu og í ljós kom að þetta var togarinn Friedric Albert sem strandaði 1903. Vonbrigðin voru hræðileg.

Skeiðarársandur hefur mikið breyst

Frá því að Bergur, Kristinn og félagar voru á Skeiðarársandi hefur ótrúlega mikið breyst; hlaup í kjölfar Gjálpargossins 1996 fór yfir stóran hluta sandsins, hlý sumur undanfarin ára auka gróðurinn, Skeiðarárjökull hefur hopað um fleiri kílómetra undanfarin ár, Skeiðará fer ekki lengur undir stóru brýrnar heldur rennur vestur með jökulsporðinum og til sjávar í farvegi Sandgígjukvíslar. Stóru brýrnar standa einmana á sandinum, eina vatnið sem rennur undir þær er Morsáin. Landið, jökullinn og árnar breytast. Allar þessar breytingar hafa áhrif á leitarsvæðið.

En hvað sem gullskipinu líður er upplifun að ferðast um alla þessa auðn, sem er samt ekki auðn. Gróðurinn er þarna og fuglarnir, en víðáttan er svo mikil að allt verður smátt og maðurinn líka. Síðustu ár hefur mikill birkiskógur vaxið austarlega á sandinum og verður fróðlegt að fylgjast með þróun hans. Þeir sem aka yfir Skeiðarársand ættu að stíga út úr bílnum og njóta víðáttunnar. Ganga út fyrir þjóðveginn og athuga hvað þeir finna.

Myndin er af Berg Lárussyni sem fékk leyfi forsætisráðherra 1960 til að leita að gullskipinu. (Ljósm. LS)

Fréttir af nýrri gullleit.

Alltaf heyrast öðru hverju fréttir af því að einhver ætli að fara austur og halda áfram leitinni að gullskipinu. Verður fróðlegt að fylgjast með hvort ofurhugar með ný tæki og tækni megni að ná þessu glæsilega skipi og verðmætun farminum upp úr sandinum.

[1] Steinar J Lúðvíksson. 2008. “Ekki var ein báran stök. Mannskæðustu sjóslys við Ísland. ”http://www.fishernet.is/images/stories/sjslys-loka.pdf

[2] Helgi Þorláksson. 2000. “Hvar er akkeri gullskipsins sem sökk undan Skeiðarársandi.” Vísindavefurinn. Sótt 13. sept 2010. Slóðin: http://visindavefur.hi.is/svar.asp?id=881

[3] Steinar J Lúðvíksson. 2008. “Ekki var ein báran stök. Mannskæðustu sjóslys við Ísland.”

http://www.fishernet.is/is/samfelag/samfelag/ekki-var-ein-baran-stoek

[4] Árni Johnsen. 1986. Kristinn í Björgun, eldhuginn í sandinum. Almenna bókafélagið, Rv. s. 127

[5] Árni Johnsen. 1986. Kristinn í Björgun, eldhuginn í sandinum. Almenna bókafélagið, Rv s. 138