Skip to main content
Síða og Fljótshverfisögur

Njálssaga

By January 5, 2020March 27th, 2020No Comments

Jötuninn í Lómagnúpi, Kirkjubær, Kringlumýri og Granagil

Það eru nokkrir atburðir í Njáls sögu sem tengjast stöðum í Skaftárhreppi. Fyrst er að nefna jötuninn í Lómagnúpi, annað þegar Flosi og félagar koma við í Kirkjubæ á Síðu á leið sinni til Bergþórshvols og það þriðja er að Kári eltir brennumenn austur og drepur þá við Granagil í Búlandsheiði og Kringlumýri í Meðallandi. Jötuninn hefur vakað yfir sveitinni í margar aldir og hefur frá mörgu að segja.

(Hlustið á stutta frásögn.)  

Njálsbrenna

Brennan á Bergþórshvoli varð vegna þess að Flosi á Svínafelli var að hefna Höskuldar Hvítanesgoða.

Í Lómagnúpi býr jötuninn, einn landvættanna sem gætir landsins. Jötuninn birtist Flosa á Svínafelli í draumi í Njálssögu.

Forsaga þess er sú að Njáll á Bergþórshvoli tók Höskuld Þráinsson í fóstur til að bæta fyrir að synir Njáls drápu föður Höskuldar. Þótti Njáli mikið til Höskuldar koma og gerði vel við hann, jafnvel betur en sína eigin syni. Fékk hann meðal annars Hvítanesgoðorð og var eftir það kallaður Höskuldur Hvítanesgoði. Kona Höskuldar var Hildigunnur Starkaðardóttir úr Öræfum sem var allra kvenna grimmust og skaphörðust. Njálssonum líkaði vel við þennan uppeldisbróður en það var þó grunnt á öfundinni. Það kunni Mörður Valgarðsson að nýta sér þegar hann rægði Höskuld við bræðurna sem endaði með því að þeir drápu Höskuld.

Hildigunnur, kona Höskuldar, fór þá heim í Öræfin og sat þar um hríð. Reyndi hún að fá ættingja og vini til að hefna Höskuldar en varð lítið ágengt því engum leist á að berjast við Njálssyni. Hildigunnur lét þó ekki þar við sitja og eggjaði Flosa föðurbróður sinn til að fara og hefna Höskuldar. Til að leggja áherslu á orð sín fleygði hún blóðugri skikkju Höskuldar yfir Flosa. Flosi sótti málið á þingi og voru boðnar háar bætur. Var allt frágengið þegar kastaðist í kekki milli Flosa og Skarphéðins Njálssonar og var málið óklárað.

Flosi ákvað því að hefna með því að fara að Njálssonum með mikið lið. Fór Flosi frá Svínafelli og reið rakleiðis yfir Lómagnúpssand og að Kirkjubæ á Síðu. Þar fóru þeir allir í kirkju og báðust fyrir en héldu svo áfram upp með Skaftá og upp úr Skaftártungu. Fóru þeir yfir fjöllin og niður í Goðaland.

Endaði þessi för með Njálsbrennu. Kári, tengdasonur Njáls hljóp út úr brennunni og faldi sig í þykkum reykjamekkinum. Kári var kappi mikill og töldu sumir hann komast næstan Gunnari Hámundarsyni að atgervi. Bregður Flosa mjög við þau tíðindi að Kári hafi komist lifandi úr brennunni og óttast hefnd hans.

Mál­verk Sig­ur­jóns Jó­hanns­son­ar af at­b­urðum úr Njáls­sögu eru á Njáls­sögu­sýn­ing­unni í Sögu­setr­inu á Hvolsvelli

Draumur Flosa um jötuninn í Lómagnúpi

Flosi óttast hefnd Kára og eina nóttina dreymir hann jötuninn Járngrím í Lómagnúpi.  Grípum niður í Njálu, kafla 133:

Nú er þar til máls að taka að Svínafelli, að Flosi lét illa í svefni eina nótt. Glúmur Hildisson vakti hann, og var lengi, áður en hann vaknaði. Flosi bað hann kalla Ketil úr Mörk. Ketill kom þangað.

Flosi mælti; “Segja vil ég þér draum minn.”

“Mig dreymdi það” segir Flosi, “að ég þóttist vera að Lómagnúpi og ganga út og sjá upp til gnúpsins. Og opnaðist hann, og gekk maður út úr gnúpnum og var í geithéðni og hafði járnstaf í hendi. Hann fór kallandi og kallaði á menn mína, suma fyrr, en suma síðar, og nefndi á nafn. Hann kallaði fyrstan Grím hinn rauða og Árna Kolsson. Þá þótti mér undarlega; mér þótti sem hann kallaði Eyjólf Bölverksson og Ljót, son Síðu-Halls, og nokkra sex menn. Þá þagði hann stund nokkra. Síðan kallaði hann fimm menn af voru liði, og voru þar Sigfússynir, bræður þínir. Þá kallaði hann aðra fimm menn, og var þar Lambi og Gunnar Lambason og Kol Þorsteinsson. Eftir það gekk hann að mér; ég spurði hann tíðinda. Hann kvaðst segja mundu tíðindin. Og spurði ég hann að nafni; hann nefndist Járngrímur. […]

Þá laust hann niður stafnum, og varð brestur mikill; gekk hann þá inn í fjallið, en mér bauð ótta. Vil ég nú, að þú segir, hvað þú ætlar draum minn vera.”

“Það er hugboð mitt,” segir Ketill, “að þeir muni allir feigir, er kallaðir voru. Sýnist mér það ráð, að þennan draum segjum við engum að svo búnu.” [1]

Draumur Flosa rætist. Kári drepur mennina sem jötuninn kallar. Örnefni tengd hefnd Kára má finna í Skaftárhreppi.

Hefnd Kára Sölmundarsonar

Kári drepur nokkra af mönnum Flosa við Granagil á Skaftártunguafrétti sem er skammt frá Búlandi. Þar sat Kári fyrir mönnum Flosa og með honum var Björn úr Mörk. Þeir tveir drepa nokkra af mönnum Flosa þar á meðal Gunnar bónda í Skál og særa aðra. Einn þeirra sem særðist var Grani Gunnarsson, sem var sonur Gunnars á Hlíðarenda. Stutt frá Granagili er Granahaugur sem bendir til að Grani hafi látist þar af sárum sínum og verið heygður.

Eftir þessa atburði ríða þeir Kári og Björn að Skál, lýsa vígi Gunnars bónda og ákveða síðan að ríða í Meðalland en þeir vissu að nokkrir úr hópnum höfðu farið þá leið. Björn og Kári riðu niður með miðkvísl Skaftár og komu að þeim stað sem umlukin var hrauni á þrjá vegu og kölluð er Kringlumýri. Þar sátu þeir fyrir mönnunum. Þeir slepptu sumum þeirra en drápu Glúm Hildison og fleiri. Til er örnefnið Glúmshóll ekki langt frá Kringlumýri og er það rakið til þessara atburða í Njálssögu.

Kringlumýri er í hraunbrúninni ekki langt frá Melhól. Þar var hraunið undir sandi að hluta fram eftir síðustu öld en þegar sandurinn fauk frá kom í ljós skeifulaga hraunbrúnin sem menn telja að geti verið Kringlumýri.

Aðrar Íslendingasögur í Skaftárhreppi

Skaftfellingar koma ekki mikið við sögu í Íslendingasögum nema í Svínfellingasögu sem endursögð er hér á vefnum og gerist mest á Kirkjubæ á Síðu.

 

[1] Brennu-Njáls saga. 1986. Almenna bókafélagið, Rv. s.252-253

Erindið úr ljóðinu  Áfangar:  Jón Helgason. 1948. Úr landsuðri. Heimskringla,

Á Hvolsvelli er Sögusetrið sem sýnir og segir frá atburðum úr Njálu