Warning: Uninitialized string offset 0 in /var/www/virtual/eldsveitir.is/htdocs/wp-includes/class-wp-term-query.php on line 1

Warning: Uninitialized string offset 0 in /var/www/virtual/eldsveitir.is/htdocs/wp-includes/class-wp-term-query.php on line 1

Warning: Uninitialized string offset 0 in /var/www/virtual/eldsveitir.is/htdocs/wp-includes/html-api/class-wp-html-tag-processor.php on line 1

Warning: Uninitialized string offset 0 in /var/www/virtual/eldsveitir.is/htdocs/wp-includes/html-api/class-wp-html-tag-processor.php on line 1
Brimrotaður fiskur — Sögur, menning og náttúra Skip to main content
Síða og Fljótshverfisögur

Brimrotaður fiskur

By January 6, 2020March 10th, 2020No Comments

Fiskreki sóttur á fjöru

Eitt af bjargráðum fólks sem bjó við ströndina var að ná sér í soðið eftir að mikil brimveður höfðu kastað fiski á land. Sækja þurfti fiskinn mjög snemma morguns, áður en fuglinn komst í hann. Kom fyrir að fólk náði mörgum hestburðum af fiski á góðum morgni. Vilhjálmur Eyjólfsson sagðist muna eftir að vinnumaður á Hnausum kom heim einn morguninn með hest hlaðinn golþorskum. Voru þorskarnir hengdir á klakkinn og voru sumir það stórir að þeir drógust nánast við jörð. Telur Vilhjálmur að þetta hafi verið um 1930 en eftir þetta man hann ekki til þess að farið hafi verið frá Hnausum til að finna sjórekinn fisk.

Fljótshverfingar í samkeppni við selinn og fuglinn

Erlingur Filippusson segir frá því í bókinni Vestur-Skaftafellsýsla og íbúar hennar þegar hann og Ólafur á Blómsturvöllum fara á fjöru að sækja fisk. Í miklu brimi rak fiskinn á land, rotaður af briminu, og var þá heill og vel ætur ef mönnum tókst að ná honum áður en fuglinn komst í hann. Eitt sinn frétti Erlingur af því að fiskreki væri á fjörunum og vildi ólmur fara af stað og athuga hvort ekki væri hægt að ná einhverju. Hann reyndi að fá menn með sér  en ekki áttu menn heimangengt og leist  heldur ekki á færið. Hann fór að Blómsturvöllum og talaði þar við Ólaf bónda. Var Ólafur fráhverfur fjöruferð og taldi að leiðin væri ófær suður ísa. Datt Erling þá í hug að ríða austur yfir Núpsvötn og fara þar á milli vatna til sjávar. Ólafi leist á þessa hugmynd og fara þeir af stað næstu nótt.

Einstaka afætu áll var í námunda við Núpsvötn, en þó ekki til baga. Eftir það var leiðin hin ákjósanlegasta, og komum við á Núpsstaðarfjöru austan Rauðabergsóss; var þá um fullbirtingu og ekkert að sjá, nema sjó og sand, hvorki fisk eða fugl. Leizt okkur ekki á, að hér mundi verða ferð til fjár; auðvitað hafði ég ekki orð á því, en Ólafur minnti mig á, að við myndum ekki þurfa að kvíða ofhleðzlu til baka. Ég tók því öllu með ró og stillingu, en satt að segja var nú samvizkan orðin í svefnrofunum hjá mér eða vel það; átaldi hún mig fyrir að hafa tælt Ólaf til fjöruferðar, sem ekkert gæfi í aðra hönd, þræla út hestunum, svo að þeir þyrftu miklu meiri gjöf eftir en áður, og í ofanálag fengi ég svo skömm og sneypu. Þetta lét samvizkan mig hafa og þaðan af verra. Tók ég því öllu með þögn, sem vænta mátti. Áttaði ég mig þó brátt á þessu framferði hennar og skipaði henni í flet sitt; sofnaði hún samstundis. – Við vorum komnir að Rauðabergsós og var hann vatnslítill og olli því engri töf. Héldum við nú vestur Núpsstaðarfjöru og urðum ekki reka varir. En er á Rauðabergsfjöru kom, fórum við að sjá máv yfir brimgarðinum, og vestast á henni var talsvert rekið af fiski, en flest fyrir svo löngu að ekki var nema beinagrindur. Einstaka fisk fundum við heilan en úr flestum var selurinn búinn að bíta kviðinn og hirða lifrina. Þegar dró vestur eftir Kálfafellsfjöru, óx rekinn og var fuglinn svo mikill yfir brimgarðinum, að líkast var skýi tilsýndar, en selurinn eins og krap með ströndinni inn á innsta brot, og lék af kappi við aðgerðina, en mávurinn hirti allt hvað hann gat af því, sem selurinn leyfði.

Glaða sólskin var allan daginn og steikjandi hiti, og vorum við á spretti til kvelds í kappi við mávinn, að ná einhverju af fiski, áður en allt væri upp étið. Bárum við hann saman í hrúgur og grófum niður, en settum upp staura við hverja dys. Þetta gekk fram undir rökkur, og vorum við rennblautir af svita eftir dagsverkið. [1]

Þeir Ólafur og Erlingur setja upp á hestana eins og þeir mögulega geta af fiski og enda á að fylla einnig heypokann sem þeir höfðu verið með undir heyið fyrir hestana.

Þeir slógust alla nóttina

Veðrið versnar og komið er snjóbleytuveður. Þeir ganga eftir fjörunni með hestana í taumi og leita fyrir sér. Þeir reyna að fara yfir vötnin, leita fyrir sér með því vaða útí en það er allt of mikið í þeim þannig að þeir verða að bíða morguns, en þá eru jökulvötn minni en að kveldi. Var það ill tilhugsun  að eyða nóttinni blautur á fjörunni en ekkert annað í boði. Þeir ákveða að hvíla sig stundarkorn undir melkolli en ætla sér alls ekki að sofna. Rennur þó báðum í brjóst. Þegar Erlingur vaknar hefur hann heiftarlegan brjóstverk. Drífur Ólafur hann á fætur og fer að tuskast við hann. Líst Erlingi ekki á það en Ólafur gefur ekkert eftir og slást þeir alla nóttina. Þegar morgnar eru báðir við góða heilsu og ekkert kaldir að ráði. Þeir fara  á bak hestunum, ríða yfir vötnin og komast heim. Þegar þangað er komið sækja fjörueigendurnir rekann og þótti ferð þeirra góð. Varð Erlingi ekki meint af þessari vosbúð.

Erfiði eða upplifun?

Þarna er sagt frá tveimur ferðum þar sem menn víla ekki fyrir sér að fara út í nóttina til að sækja lífsbjörgina. Erlingur var sonur Þórunnar og Filippusar í Kálfafellskoti og varð farsæll maður og flinkur að lækna með grösum eins og móðir hans. Það er að sumu leyti hryllileg tilhugsun meðal annars þegar hafður er í huga búnaður mannanna. Engin fjórhjól, upphitaðir jeppar, goretex eða gúmmístígvél, aðeins ullarföt yst sem innst og kannski hafa þeir átt einhver leðurstígvél sem þeir hafa keypt úr strandi. En það er líka heillandi tilhugsun að vera úti tunglskinsbjarta vetrarnótt á fjörunni. Náttúrufegurðin er þarna engu lík og nóttin magnar upplifunina. Þarna eru verðmæti sem ekki verða metin til fjár og við ættum að læra að njóta nú þegar við getum farið á hlýjum jeppanum út í náttúrna að næturlagi.

[1] Erlingur Flippusson. 1995. Farið á Austurfjörur. Vestur-Skaftafellssýsla og íbúar hennar. Kornið forlag, Rv. S. 171