Warning: Uninitialized string offset 0 in /var/www/virtual/eldsveitir.is/htdocs/wp-includes/class-wp-term-query.php on line 1

Warning: Uninitialized string offset 0 in /var/www/virtual/eldsveitir.is/htdocs/wp-includes/class-wp-term-query.php on line 1

Warning: Uninitialized string offset 0 in /var/www/virtual/eldsveitir.is/htdocs/wp-includes/html-api/class-wp-html-tag-processor.php on line 1

Warning: Uninitialized string offset 0 in /var/www/virtual/eldsveitir.is/htdocs/wp-includes/html-api/class-wp-html-tag-processor.php on line 1
Skaftáreldar 1783 — Sögur, menning og náttúra Skip to main content
Síða og Fljótshverfisögur

Skaftáreldar 1783

By January 10, 2020July 6th, 2020No Comments

Það gaus í átta mánuði!

Skaftáreldar hófust 8. júní 1783 og stóðu til 7. febrúar 1784 og voru því nánast samfellt í átta mánuði. Gosið er oftast kennt við gíginn Laka og hörmungarnar sem eldgosið olli eru kallaðar Móðuharðindin vegna þess að það lá móða eða aska yfir öllu landinu og norðanverðri Evrópu. Eftir gosið í Eyjafjallajökli 2010 og Grímsvötnun 2011 sáum við að aska berst mjög langt með vindi og sögur af uppskerubresti í Evrópu í kjölfar Skaftáreldanna verða trúlegri og þar með sú kenning að þær hörmungar sem fylgdu í kjölfarið í Evrópu hafi ýtt undir að almenningur í Frakklandi gerði byltingu til að bæta kjör sín.

Gífurlegt magn af hrauni

Gosið í Lakagígum er eitt mesta hraungos á sögulegum tíma. Skaftáreldahraun er talið vera um 600 ferkílómetrar og rúmmál gosefna um 15 rúmkílómetrar og er eitt mesta hraun í einu gosi á jörðinni síðan sögur hófust. Hraunið er stórfenglegt að sjá í byggð en ekki er síðra að sjá upptök þess, gígaröðina, Lakagíga sem nú er hluti Vatnajökulsþjóðgarðs. Í gosinu kom upp mjög mikil gjóska og barst gjóska um stóran hluta landsins þó öskulag hafi hvergi orðið verulega þykkt.

Efsta myndin er tekin við Varmá. Gígarnir eru nú allir þaktir mosa. Myndirnar fyrir neðan eru teknar við Laka. Stúlkan stendur uppi á Laka og á hinni myndinni sést gígaröðin sem liggur í vestur frá Laka. (Ljósm. LM)

Mikið mannfall

Í gosinu hrundi bústofn niður vegna flúoreitunar og hagleysis og olli hungursneyð á Íslandi á árunum 1783-1786 en í kjölfar eldanna komu líka harðir vetur, köld og vætusöm sumur  og bólusótt sem barst til landsins haustið 1785. Um mitt ár 1783 voru íbúar á Íslandi tæp fimmtíu þúsund (48810) en voru 1786 tæp fjörutíu þúsund   (38973) eða um tíu þúsundum færri.  (Guðmundur Hálfdánarson, 1984:139-162). Í sveitunum á milli Mýrdalssands og Skeiðarársands, þar sem nú Skaftárhreppur, varð mikil fólksfækkun, bæði margir sem létust en líka margir sem fluttu burt. Á svæðinu voru íbúar um 2000 fyrir eld en aðeins  tæp 500 þegar gert var manntal  1785. (Gylfi Már Guðbergsson. 1984:110).

Það hlýtur að hafa haft mikil áhrif á framfarir á Íslandi að landsmönnum fækkaði um 20 % á svo stuttum tíma. Á þessum tíma var upplýsingaöld að renna í hlað í Evrópu en þeirra hugmynda gætti minna hér, sennilega vegna þess að Íslendingar áttu fullt í fangi með það eitt að lifa af.

Sr. Jón Steingrímsson lýsti gosinu og Jón Trausti samdi um það skáldsögu

Hér á eftir verður leitast við að gera grein fyrir því hvernig landið leit út fyrir gos, gefa mynd af hvernig lífið hefur verið á þessum tímum og segja frá gangi gossins eins og það blasti við íbúum héraðsins. Heimildarmennirnir eru séra Jón Steingrímsson sem skráði nákvæmlega  í Eldrit  það sem hann varð vitni að árin 1783-1784 og Jón Trausti sem reynir að gefa okkur innsýn í líf fólksins á þessum tíma í bókinni Sögur frá Skaftáreldi. Fyrri hluti sögunnar heitir Holt og Skál en seinni hlutinn  Sigur lífsins. Jón Trausti fylgir Eldriti Jóns Steingrímssonar um gang gossins en heimildamenn Jóns Trausta voru líka Skaftfellingar sem hann tók viðtöl við í byrjun tuttugustu aldarinnar, um 120 árum eftir að eldarnir brunnu. Skaftfellingar kunnu margar sögur af forfeðrum sínum sem lifað höfðu eldinn. Þeir sem þekkja til fyrir austan vita að fólk segir enn þessar sögur, þær lifa með fólkinu, ganga frá manni til manns og lengi var tímatalið miðað við fyrir og eftir eld.

Skaftáreldahraunið er ævintýralegt. Bærinn Múli í Skaftártungu í baksýn. (Ljósm. LM)

Hvernig leit landið út áður en hraunið rann?

Það er áhrifamikið að horfa á allt það hraun sem blasir við þegar komið er austur fyrir Ása í Skaftártungu. Eins langt og augað eygir er hraun, mosavaxið, úfið, illt yfirferðar en á sama tíma heillandi og eitt helsta aðdráttarafl ferðamanna á þessar slóðir í dag. En hvernig leit landið út áður en þetta hraun rann yfir sveitirnar? Jón Trausti reynir að varpa ljósi á það.

Í þá daga runnu árnar milli Skaftártungunnar og Síðunnar nokkuð öðruvísi en nú. Skaftá rann fram úr djúpu og hrikalegu gljúfri hjá Skaftárdal. Þar fyrir neðan tók hún að kvíslast um eyrar og iðgræna hólma, en hélt þó stefnunni. Lágu þar að henni skógivaxnar hlíðar og valllendisnes, en miklar og fagrar engjar að vestan. Sjálf rann áin á gömlum hraunum. Var hún víða ströng og stórgrýtt og hið mesta vatnsfall. En fram undan Svínadal í Skaftártungu klofnaði hún í þrennt. Ein kvíslin rann í suðvestur, fram með Skaftártungunni að sunnan og út í Kúðafljót fyrir sunnan Leiðvöll. Það var Landá. Önnur kvísl Skaftár rann í suður-suðaustur og var nefnd Melkvísl. Rann hún um sandorpin, gömul hraun og mellönd mikil og var búin að gera sér djúpan farveg. Fram úr þessum hraunum rann hún skammt fyrir austan bæinn Botna í Meðallandi, sameinaðist þar vatnsmiklum uppsprettum, sem komu þar undan hrauninu og hétu Botnafljót. Þá beygði hún til suðausturs og óx jafnt og þétt af uppsprettuvötnum, sem í hana runnu. Hét hún þá ýmsum nöfnum og loks Steinsmýrarfljót. Með því nafni féll hún aftur í Skaftá suður undir ósi.  Jón Trausti, 1965:40.)

Hluti af Skaftá rann austur með Síðunni, framhjá Skálarstapa og sunnan við bæina Skál og Holt. Ár og lækir á Síðunni bættust í ána eins og gerir í dag og er þar helst að nefna Holtsá og Fjaðrá, tærar bergvatnsár sem renna út í mórauða jökulána. Rétt við Skálarstapa skipti Skaftá sér, rann í tveimur álum og myndaði hólma. Á þessum hólma var mikill skógur sem var kallaður Brandaland. Allt var svæðið sem fór undir hraunið grænt og gott til beitar þó það væri að hluta gömul og gróin hraun.

Sr. Jón Steingrímsson tekur fram í sínu riti að þetta land hafi verið afskaplega fallegt land, jafnvel það fegursta á Íslandi þar sem voru skrúðgrænar brekkur, dökkir klettar og fannhvítir fossar sem féllu fram af brúnunum.

Þegar Skaftá var komin að Hunkubökkum, að Dalbæjarstapa, var hár foss í ánni sem var nefndur Stapafoss og þegar komið var að Kirkjubæjarklaustri var áin vatnsmikil, 70 faðma breið og þaðan rann hún í þeim farvegi sem enn er niður með Landbrotinu og til sjávar við Skaftárós. Frásagnir af því hvernig landið leit út fyrir eld hefur Jón Trausti mjög líklega eftir fólki á Síðunni sem hefur heyrt þessar lýsingar eldra fólksins.

Hér eru teikningar Sæmundar Hólm af svæðinu fyrir Skaftárelda og svo eftir að hraunið rann. Sæmundur bjó í Kaupmannahöfn og hefur sennilega bara haft sínar upplýsingar frá öðrum.Takið vel eftir Skaftárgljúfrinu á kortinu fyrir eld. Sagt er að Skaftárgljúfrið hafi fyllst af hrauni og þess vegna hafi tafist að hraunið rann niður í byggðina.
Kort Magnúsar Stephenssen, hvítt og gult, sýnir hraunið vel þó það sé mun stærra í raun en kortið sýnir.

Allsnægtir og ólifnaður kallaði á eldinn!

Sr. Jón Steingrímsson segir að fólk hafi lifað í allsnægtum í þessum sveitum. Jafnvel umfram það sem eðlilegt má teljast og guð gat sætt sig við:

Áður en þessi landplága yfir fjell voru mikil landgæði og árgæzka, þó yfirtæki það síðasta árið, því í undanfarandi nokkur ár hafði ei verið þvílík blómgan og ávöxtur á öllu með spökustu veðráttu til lands og sjávar. […] Hjer lifðu menn í sælgæti matar og drykkjar, sumir orðnir svo matvandir, einkanlegast þjónustufólk, húsgangslýður og letingjar, að ei vildu nema þá allra beztu og krydduðu fæðu. (Jón Steingrímsson. 1907-1916:6

Brennivíns-og tóbaksneyzla keyrði algjörlega um þverbak að mati Sr. Jóns og sumir prestar messuðu ekki nema þeir fengju sér brennivínstár fyrst. Fólk vissi varla sauða sina tal. Og guði blöskraði ólifnaðurinn!

Bæirnir Holt og Skál stóðu niðri á sléttlendinu. Þegar hraunið kom niður flæmdust ár og lækir úr farvegi sínum og fóru yfir bæjarhúsin og í kjölfarið kom hraunið. (Ljósm. LM)

Holt og Skál er skáldsaga byggð á frásögnum Síðumanna af eldunum

Sögur af Skaftáreldum hefjast á þeim hluta sem kallast  Holt og Skál og er aðalpersónan Vigfús á leið heim úr verinu vorið 1783. Hann gengur einn yfir Mýrdalssand, velur efri leiðina, leiður á samferðamönnunum sem hafa hann að háði og spotti vegna föður hans sem hafði verið brennimerktur og sendur á Brimarhólm. Móðir Vigfúsar er látin og hann á ekki systkini. Heima bíður fóstra hans sem Vigfús hlakkar ekki til að hitta. Hún er illa liðin í sveitinni og hann kennir henni um ófarir föður síns. Það er því ekki bjart framundan hjá Vigfúsi en hann heldur samt heim að Holti á Síðu, á ekki í önnur hús að venda. Á leiðinni kemur hann við í Brandaskógi og hittir heimasætuna í Skál sem er nú orðin fönguleg stúlka. Þetta sumar á eftir að verða viðburðaríkt í lífi Vigfúsar. Hann finnur ástina og líður miklar sálarkvalir þegar stúlkan hans veikist. Öll gerist sagan í skugga eldanna. Það eru miklir jarðskjálftar um vorið og 8. júní hefst eldgos. Ástarsagan er tvinnuð saman við frásagnir af eldgosinu. Fólkið í þessum sveitum hafði séð eldgos áður. Hekluelda hafði það séð tilsýndar sem bjarma á himni og Katla hafði gosið. Fólk gerði því ráð fyrir að þetta gos tæki einhverja daga og svo héldi lífið áfram sinn vanagang.: “Það mátti Katla skömmin eiga, að sjaldan var hún lengi að róta úr sér. […] Þannig tóku menn fyrstu eldkveðjunni með nýjungagirni, en ekki miklum ótta. (…) En ekki leið á löngu áður en menn komust á þá skoðun, að hér væri alvarlegra í efni. (Jón Trausti, 1965:127). Saga Jóns Trausta er auðlesin í dag og það er auðvelt að sjá fyrir sér hvernig eldarnir gengu fyrir sig en allar nákvæmar upplýsingar tekur Jón Trausti frá nafna sínum, guðsmanninum Steingrímssyni sem skráði allt nákvæmlega.

Gosannáll Sr. Jóns Steingrímssonar

Lítum þá á Eldritið sem Sr. Jóns Steingrímssonar skrifaði til að lýsa gangi eldanna. Hér er gosannáll fyrstu daga gossins.

Árið 1783 þann 8. Junii, sem var hvítasunnuhátíð, í heiðríku og spöku veðri um dagmálabil kom upp fyrir norðan næstu byggðarfjöll á Síðunni svart sandmistur og mokkur svo stór, að hann á stuttum tíma breiddi sig yfir alla Síðuna og nokkuð af Fljótshverfinu, svo þykkt að dimmt varð í húsum en sporrækt á jörðu. Var það duft, sem niður féll, sem útbrennd steinkolaaska. En af þeirri vætu, sem úr þeim svarta mokk ýrði þann dag í Skaftártungunni, var það duft, sem þar niður féll, svört bleyta, sem blek. Fyrir landsunan hafkalda létti þessum mokk frá og tilbaka um daginn, svo ég sem aðrir prestar hér kunnum undir blíðum himni þann hátíðisdag framflytja guðsþjónustugjörð hver gleði snögglega umbreyttist í sorg. Um nóttina fundust miklir jarðkippir og hræringar.

Þann 9. var hér heiðríkt veður; hækkaði nú mokkurinn óðum. Um kveldið gjörði mikið steypiregn úr honum. En Skaftá, sem rann austur með Síðunni, svo stórt vatnsfall, að hún var hér á ferjustaðnum 70 faðmar á breidd, hestum á sund landa á milli, tók nú að þverra stórmikið.

Þann 10. var þykkt veður með bitrum vatnshvelfir, sem gjörði svo nær óþolandi sviða á augum og beru hörundi, þar það á féll, og svima í höfðinu. Sumir droparnir gjörðu göt á heimulublöðin, þar þeir á féllu, ásamt brunabletti á klippinga sauðfjár, er nýrúið var. Nú þverraði vatnið úr Skaftárfarvegi að öllu leyti, utan byggðarvötnin, sem í hana runnu.

Þann 11. kom austanfjúk, að víða tók af haga, sem reyndar var úr mokknum með svo harðri skel, eins og þá ísing fellur mest á vetrardag, sem þó var enn dýpri og meiri í útheiðum og Skaftártungunni, en hér lá hann á jörðu nærfellt í 5 daga þar á eftir.

Þann 12. var heiðríkt veður með sunnanvindi; kom nú eldflóð fram úr Skaftárgljúfri með ógna framrás, brestum, undirgangi og skruðningum, svo þá eldurinn datt ofan í vatnskvikurnar eða rennsli urðu svo harðir smellir, sem af mörgum fallstykkjum væri hleypt í senn. Hélt nú eldsflóð þetta fyrst fram eftir aðalfarvegi árinnar, læsti sig svo út og ofan í brunahraunin, sem áður voru beggja megin hennar frá gljúfrinu, og hingað austur að Stapafossi. (…)

13. var heiðríkt veður með vindi á útsunnan. Voru nú stórir brestir og dynkir hér í útnorðri á fjallabaki með jarðskjálftum og svoddan suðum og nið, sem mikill fossagangur væri eða mörgum smiðjuöflum væri blásið í eitt, hver óhljóð og skruðningar héldust við í sömu átt þrjár vikur þar eftir. Sand-og gufumokkurinn svo mikill, að hann sást yfir allt land, vestur á heiðar í Gullbringusýslu. Sólin, nær hún sást, sýndist hún sem rauður eldhnöttur, tunglið eins rautt sem blóð, svo þegar þeirra skini slá á jörðina, bar hún sama farva.

14. var logn; dreif hér þá miklum sandi yfir allt með enn meiri hárum, en vart varð við í fyrra regninu, þann 9.; þau voru svartblá og íglittin, að lengd og digurð sem selshár (sagt var úr þeim hefði prófazt járns- og koparbland); þau urðu ein breiða yfir jörðina og þar þau féllu á eyðisanda og vindur komst undir þau, samvöfðust þau í aflanga hola ströngla. Að kvöldi þessa sama dags datt yfir stórregn úr mokknum, þó á landssunnan væri, með skolvatns eður ljósbláum farva, en ofur rammt og svo lyktarslæmt, að brjóstveikir gátu tæplega andann dregið af loftinu og lá við öngvitum; allir sumarfulgar og varpfuglar flýðu nú burt, egg þeirra, er þá eftir fundust, voru lítt ætileg fyrir remmu og brennisteinssmekk. Smásilungar fundust hér dauðir í sokölluðum Veiðikíl og víðar annarstaðar. Grátittlingar, skjaldbera og maríötlur voru hér sem villtir, nokkra stund, og fundust svo dauðir hópum saman. Járn varð sem rauðryðgað; trjáviður missti sinn lit og varð grár af þessu salts- og brennisteinsregni, sem á þau dreif, (þó heldu tré sínum rétta farva þar sem tittlingadrit kom á þau, hvar af merkja mátti hvílíka hreinsandi náttúru það hefur sem læknar hafa sagt).  Gras jarðarinnar, sem þá var í lystilegasta vexti, tók nú að fölna og falla, á sumu lá askan, sem menn ýmist börðu með skafti eða rökuðu með hrífum, að nautpeningur gæti bitið það sér til nota. Sumir slógu grasið af og þvoðu vatni, og gáfu það þeim skepnum, sem allt var til forgefins, nema hvar gamalt hey var að hrista saman við; en það brast sem annað. Hold og mjólk kvikfénaðar fór hvert af eftir öðru. Hjá mér var af stöðli heimbornar 8 fjórðungsskjólur mjólkur annan laugardaginn, en þann næsta þar eftir einar 13 merkur. Hversu sauðfé fór nú úr hendi manns verður nálega ei orðum að komið; það var öllum hulið, sem bezt var, að skera það niður sér til bjargar, meðan hold var á því og til þess náðist. Á hestum sá enn ei svo mikið. (Jón Steingrímsson, 1973:346-348)

Séra Jón hefur verið mjög vel að sér um náttúrufræði. Hann reynir strax að á átta sig á hvernig gosið er og hvaða áhrif það hefur á náttúruna. Fuglinn sem hann nefnir skjaldbera er sennilega tjaldur og hárin sem hann er að lýsa kallast nornahár á máli jarðfræðinnar. Hávaðinn í hrauninu, öskufallið og gufumökkurinn breyta landinu í allt annað en það sem við er að búast á fögrum júnídögum. Eitrið úr öskunni leggst á landið svo skepnur, fuglar og fiskar finnast dauðir. Fólkið gerir allt sem það getur til að lifa af, reynir að þvo grasið til að gefa skepnunum en allt kemur fyrir ekki. Betra er að skera skepnurnar og éta kjötið en að horfa á þær veslast upp af hungri. Hestarnir þola öskuna skár en aðrir.

Við gangnamannahúsið í Skælingum á Skaftártunguafrétti eru þessar skemmtilegu hraunmyndanir. (Ljósm. LM)

Refsing guðs og góðsemi 

Og Sr. Jón heldur áfram lýsingum sínum, ekki bara náttúrufræðilegum heldur líka guðfræðilegum. Hann vill skýra hvers vegna ekki kom niður eins mikið hraun og búast mátti við næstu daga:

Hér verð ég við að standa og meðdeila lesaranum eina mikilsverða frásögn guðlegrar forsjónar áhrærandi þetta eldhlaup. Svo mikil ógn, sem með harðasta hlaupi frambyltist af eldrennslinu áður umgetna viku úr Skaftárgljúfrinu, svo lítið varð úr þeim eldi, þá fram á dróg, varla meir en helmingur eða þriðjungur, sem nokkrir eftirtektarsamir menn lögðu til orða. Tilefni þessa var þetta: Eftir gamalla manna sögn hafði verið til forna eitt djúpt veiðivatn millum Skaftárdals og Ár í einum krók eða kima fyrir innan Nátthagann og framan Hæl, fyrir austan ána, þar hún nú síðast rann, í hvert vatn Skaftá hafði borið í einu hennar vatnshlaupi. Sáust þar til merki nokkur af afætum og uppgönguaugum er þar voru. Ofan í þessi augu og svelgi hljóp nú og rann eldflóðið, hvar á ég í eigin persónu horfði og fjórir aðrir menn með mér, sem þeir geta og vitni um borið. Hringsnerist þar og vafðist ofan í þennan svelg ósegjanlega mikið af eldinum með gusum, stórum hvin, og uppköstum, eins og þá látinn er lögur í tómt ílát, hvar ei er nema eitt gat eða opnan á. […] Hér af mátti sjá og áþreifa, hversu sá alvísi náttúrunnar herra hagaði þessu svo vísdómslega og undursamlega til, að sú fyrsta eldsins ógn og fergilega framhlaup og skyldi ekki of hastarlega, eður óforvarandis koma yfir nokkurn mann eður hans eigur, sem annars var hætt við. Svo frá því fyrsta til síðasta gaf hans náð eftir sérhverjum nógan tíma og tækifæri til að bjarga lífi sínu og dauðum munum, það hann hafði ásett sér að eyðileggja húð eður pláss, ef menn hefðu tekið góða vaktan þá. Get ég ei þenkt þar finnist nokkur svo vanþakklátur, að hann reyni til að mótmæla þessum sannindum. (Jón Steingrímsson, 1973:349).

Séra Jón sér góðsemi guðs í því að hafa komið því þannig fyrir að hraunið rann ekki niður í byggðina strax heldur tafðist í fornu vatnsstæði en eldgosið telur hann refsingu guðs fyrir hversu óguðlega menn lifðu á þessum slóðum. Og vissulega er það rétt að það var ekki mannfall beint af gosinu sjálfu heldur því sem fylgdi í kjölfarið. Eftir því sem líður á gosið minnkar samt umtal Sr. Jóns um guð. Hörmungarnar sem fylgja gosinu eru slíkar að sennilega vefst fyrir prestinum að verja þær gerðir guðs að láta kirkjur brenna, skepnur falla, fólk fara á vergang og héraðið verða nánast óbyggilegt.

Það er ástæða til að skoða hraunið gaumgæfilega. Aldrei að vita hvað maður finnur. Í Skaftáreldahrauninu má sjá sérkennilega hraundranga sem kallaðir eru Sappar. (Ljósm. LM)

Brandaland brann, Skaftárgljúfrið  fylltist

Eyðileggingin heldur áfram næstu daga. Hið fagra Brandaland brennur 16. júní og fer undir hraun. Munkur í Þykkvabæjarklaustri gaf nunnuklaustrinu á Kirkjubæ skóginn til hjálpar sálu sinni árið 1350 og þótti það ein af bestu eignum klaustursins. Skógurinn var nýttur til skógarhöggs en hafði þrátt fyrir það lítið látið á sjá því Skaftá verndaði hann fyrir ágangi búfjár. Bæirnir Á á Síðu og Nes í Skaftártungu leggjast í eyði, fólk flýr frá heiðarbýlinu Geirlandsseli og tekst Sr. Jóni að koma þar á framfæri fordómum sínum og samtíðarinnar gegn samkynhneigðum:

…sló svo greindum loga ofan fyrir Geirlandsheiðina, hvar í var eitt sel frá Geirlandi, er einum manni var leyft í að búa nokkur umliðin ár vegna frómleiks síns. En nú um vorið tóku sig tveir menn saman, sem fluttu sig frá vel viðværilegum býlum í byggðinni þangað; voru þeir haldnir samrýndir í fleiru en einu. En hann, sem sér yfir allra manna verk og vissi bezt þeirra tilgang dreif þessa samlagsbræður með þessum loga þaðan í burtu, fyrst allra úr þessu plássi, aðskildi þá að síðustunni að öllum smaráðum, verkum og sambúð. (Jón Steingrímsson, 1973:351)

Þannig litast texti prestsins af og til af guðfræði og tíðarandanum og skyggir á fræðimennskuna en þannig var þessi tími. Trúin og vísindin voru tengdari en þau eru í dag.

En höldum áfram að skoða lýsingar þeirra nafna á atburðunum.

Féð náði illa til jarðar sökum öskunnar og leitaði alltaf að betri högum. Auk þess voru allar skepnur trylldar af hræðslu við jarðskjálftana, reiðarslögin og eldingarnar, sem látlaust gengu daga og nætur, svo að þær æddu í ofboði á allt, sem fyrir varð, stundum út á heit hraunin og brunnu þar upp til agna. (Jón Trausti, 1965:137)

Sagt er frá því er Vigfús slæst í för með Jóni Steingrímssyni, sem þarna er sögupersóna í sögu Jóns Trausta, er hann fer til að aðstoða Skaftárdalsfólkið við að flytja frá bænum. Og þar sem þeir standa: 

Yfir öllum löndum milli Árfjalls og Skaftártunguhálsa, og svo langt suður, sem augu eygðu, lá koparrauður hraunsjór á beljandi framrás. Hið mikla gljúfur fyrir ofan Skaftárdal, sem Skaftá hafði grafið sér á mörgum tugum alda og víða var 100 faðmar á dýpt, var orðið fullt af hrauni fyrir löngu, og flóðu hraunin út af því á bæði lönd. Skaftá sást hvergi.  En beggjamegin hinnar miklu eldelfar stóðu sjóðandi uppistöðulón úr þveránum, og lagði upp af þeim hvíta, þykka gufubólstra. Óþolandi hitasvækju lagði á móti mönnunum upp á heiðarbrúnina, og skógarnir í hlíðunum voru svartir og skrælnaðir. (Jón Trausti, 1965:150)

Þessar lýsingar minna á hraunfossinn sem varð til þegar gaus á Fimmvörðuhálsi vorið 2010. Jón Steingrímsson segir frá þessari sömu ferð og segir þar að bærinn í Skaftárdal hafi staðið austanvert við gljúfursmunnann og komst því fólkið upp á heiðina fyrir austan bæinn og þaðan að Prestbakka þar sem það það var í fimm vikur. (Jón Steingrímsson, 1973:352)

Hraunið rann sem stórfljót niður Skaftártunguna. Þegar kom að farvegi Melkvíslar tók hraunið stefnu beint í Meðallandið og tók af bæina Hólma, Hólmasel, báða Fljótabæina og Botna. Bærinn Hnausar fór undir vatn og var þar ekki búið næstu fjögur árin. (Jón Steingrímsson, 1973:353)

Botnabóndinn missti allt sitt fé 

Bændur reyna hvað þeir geta að halda lífi í kindum sínum en það er erfitt verk því þær tvístrast út um allt í hamförunum. Jón Trausti sviðsetur atburðina um leið og hann segir frá. Sagt er frá að Björn í Botnum hafi átt erfitt með að hemja sitt fé og hafi því fengið Ólaf galdramann til að aðstoða sig. Safnar sá göldrótti fénu öllu saman í hólma sem var skammt frá upptökum fljótsins þar sem það kom undan hraununum og runnu tærar kvíslir beggja vegna hólmans. Hraunið kom niður farveg Melkvíslarinnar, fyllti farveginn og brenndi bakka hennar, þar á meðal ágæt meltekjulönd þar sem menn höfðu öldum saman tekið melkorn til brauðgerðar.

Þegar það kom fram á hraunbrúnina fyrir ofan Botna, nam það staðar ofur litla stund, hrúgaðist upp með logakömbum og neistaflugi, eins og það væri að safna kröftum undir hina miklu atlögu. Svo steyptist það allt í einu fram af brúninni og ofan í fljótið. Ákafur suðuhvinur heyrðist, og allt hvarf í hvítan mökk. Eftir fáein andartök var fljótið þornað upp, en farvegur þess orðinn fullur af bráðinni grjótleðju.

Þá sá til hólmans. Hann var þá í miðju hraunflóðinu og fylltist óðum í kringum hann. Skepnurnar veinuðu af ofboði og kvölum. En það var ekki lengi. Eftir svipstundu stóð hólminn í björtu báli. Þegar þann loga lægði, var hólminn horfinn með öllu, en hvítar beinagrindur af 80 kindum lágu ofan á rauðri hraunkvikunni. (Jón Trausti, 1965:154).

Botnabóndinn reiðist Ólafi galdramanni svo mikið að hann hótar að fleygja honum út í hraunið, hann gerir það þó ekki en hendir poka einstæðingsins með öllum hans eigum út á hraunið þar sem beinagrindurnar hverfa smátt og smátt. Pokinn brennur og hverfur. Varnarlaus bóndinnn ræðst á enn varnarlausari einstæðinginn sem hafði reynt að bæta lífsafkomu sína með kukli.

Myndin hér fyrir neðan er af Botnum. Bærinn er umlukinn hraunum á alla vegu.(Ljósm. Þórir N. Kjartansson)

Hraunið tók stefnu austur að Holti og Skál

Þegar hraunið hefur fyllt í farvegi fljótsins niður í Meðalland tekur það að renna austur með Síðunni. Hraunið byltist fram láglendið og vatn lokast upp við hlíðina. Það er rigning og því enn meira vatn en ella. Rétt við bæinn Skál er komið lón. Pilturinn Vigfús hleypur frá Holti til að hjálpa nágrönnum sínum á Skál  en verður að fara fjallið því hraunið stöðvar för hans milli bæjanna á láglendi og þegar hann lítur yfir bæjarstæðið er þetta lýsing hans:

Ofan yfir Skál að líta var allt á tjá og tundri. Lónið var að færast allt í kringum bæinn. Fólkið hafði reist tjöld og búið um sig til bráðabirgða á hjalla þeim, sem næstur var fyrir ofan bæinn. Hestar og kindur voru þar uppi í fjallinu, fyrir ofan fólkið, en heimamenn og aðkomumenn gengu að því að bjarga öllu lauslegu úr bænum og kirkjunni upp á brekkurnar. (Jón Trausti, 1965:169)

Jón Steingrímsson segir að þann 2. júlí hafi bærinn í Skál og kirkjan brunnið til grunna og líktst því hels að eldurinn kæmi upp undir húsunum Sögur hafa sennilega lifað af því hvernig þetta gekk til því Jón Trausti segir eina slíka:

Þeir Skálarbændur og Rannveigarsynir frá Holti gengu austur með lóninu, því að þar var eitthvert rekald á sveimi, sem ætla mátti, að væri úr bænum eða kirkjunni. Það reyndist líka svo. Úr stafnaþiljunum á bænum og kirkjunni höfðu losnað fjalir og flotið upp. Innan um þær voru bekkir úr kirkjunni einnig á reki.

Skálarbærinn líktist sokknu skipi, sem sjórinn er að smáliða sundur.

“En hvað er þarna langt úti á vatninu?” sagði einhver.

Allir litu þangað. Úti undir hrauninu var eitthvað sem fuglar á sundi. Þessir “fuglar” syntu hart og alltaf í hringi, og stungu sér í vatnið, þar sem suðan er áköfust. (Jón Trausti, 1965:178)

Menn þrátta um hvaða fuglar þetta geta verið og nefnt er að þetta geti verið sálir framliðinna manna eða torfuskeklar úr eldhússtrompunum. Þegar mennirnir eru að jagast um þetta sjá þeir að:

Eitthvert svart flikki flaut úti í vatninu og barst austur eftir með straumnum.

Það gat varla leikið á tveim tungum, hvað það væri. Það var líkkista úr kirkjugarðinum. Og hitt varla heldur, hvers líkkista það væri. Enginn hafði verið grafinn þar um langan tíma annar en Alexander, eiginmaður Valgerðar og faðir þeirra bræðra, Sveins og Eyjólfs.

Menn setti hljóða við þessa sýn, og það var enginn sem vildi verða til að brjóta þögnina.

Það lá í augum uppi að kirkjugarðurinn hafði bólgnað upp af vatninu og sprungið svo, að grafirnar hefðu opnazt.

Ef til vill hafði hóllinn, sem kirkjan og kirkjugarðurinn voru á hlaupið fram. Þess vegna var svo margt á reki úr kirkjunni.

Það var enginn til frásagnar og ekki unnt að sjá það frá landi.

En það vakti einhvern ónotalegan geig að vita grafarfriði hinna framliðnu raskað svo átakanlega.

Kistan var á fleygiferð austur með landinu. Loks kom hún svo nálægt, að til hennar náðist og hægt var að draga hana á land.

Það stóð heima. Það var kista Alexanders heitins. En, -hún var tóm. Botninn vantaði í hana. (Jón Trausti, 1965:179)

Hvernig tilfinning er það að sjá grafarstæði ættingja raskað á þennan hátt? Við getum sennilega ekki sett okkur í spor þessa fólks sem missti allt og sá ekki fram á betri tíma í næstu framtíð.

Nýja kirkjan í Hólmaseli hvarf í hraunflóðið

Meðallendingar höfðu nýlega byggt kirkju í Hólmaseli eftir að kirkjan í Skarði varð ónothæf vegna sandfoks. Hér er lýsing Jóns Steingrímssonar á kirkjunni og örlögum hennar:

Þann 22. Júnii áður talda, sem var fyrsti sunnudagur eftir trinitatis, afbrann sú væna og nýbyggða Hólmskirkja, 8 stafgólfa lengd, há og breið að því skapi; í henni brunnu öll kirkjunnar ornamenta, bækur og graftól, item fórst þar sú væna klukka frá Þykkvabæjarklaustri, er vó 24 fjórðunga, er þangað hafði áður með biskupsleyfi léð verið, þar til forsvaranleg klukka væri til kirkjunnar lögð, sem búið var að gjöra, og þar með befalað að flytja hana aftur í klaustrið,… (Jón Steingrímsson,1973:354)

Nýja kirkjan hvarf undir hraunflóðið og klukkan þar með. Presturinn flúði áður en hraunelfan fór yfir bæinn og tók með sér lyklana að kirkjunni svo engu varð bjargað.Það er spennandi að ganga um hraunið þar sem kirkjan á að hafa verið og athuga hvort maður heyri í klukkunni en sögur segja að það geti gerst.

Eldur, vatn og hraun eyðir Holtsbænum

Og enn aukast eldumbrotin og hraunið rennur í átt að byggðinni. Nú er hraunið þynnra og rennur eins og rauð olía yfir það hraun sem fyrir er og farið er að storkna. Hraunið fer yfir allt í Skál, rennur meðfram fjallinu og stíflar Holtsá við mynni Holtsdalsins sem verður sem fjörður yfir að líta, áfram yfir bæjarhúsin í Holti og brennir þar allt og eyðileggur og heldur svo áfram austur með hlíðinni, yfir engjarnar á Heiði og stíflar næst Fjaðrá sem rennur úr Fjaðrárgljúfri. Suma daga fellur aska yfir byggðina á Síðunni. Fólkið í Skál flýr fyrst að Holti en þegar hraunið fer þar yfir líka er ekkert að gera nema að taka allt með sem hægt er og flýja upp á heiðina.

Við mynni Holtsár og Fjaðrár mynduðust stór lón þegar hraunið lokaði árfarveginum. Vatnið rann fram á meðan Sr. Jón messaði og kældi hraunið þannig að það stöðvaðist rétt vestan Systrastapa. Skýring Sr. Jóns er að þar hafi guð verið að verki. Hver veit? (Ljósm. LM)

20. júlí er Eldmessan

Þegar líður á júlí eru menn orðnir afar vondaufir um að eldurinn hætti. Skepnur féllu dag hvern úr eitrun sem tengist öskufallinu og eiturgufunum, fólk dó af hungri og vosbúð, bæir eyddust hver af öðrum. Þeir sem gátu, forðuðu sér í aðrar sveitir, með eða án búpenings síns. Hraunið mallar fram í átt að Systrastapa og stefnir austur með síðunni, yfir Kirkjubæjarklaustur. Við þessar aðstæður ákveður Sr. Jón að messa. Fólkið hefur engu að tapa. Það tekur á sig krók og fer niður af heiðinni í kirkjuna á Klaustri til að hlýða á messu Sr. Jóns. Hann hefur farið um sveitirnar og talið kjark í fólk. Hann hefur fylgst með hörmungum sóknarbarna sinna. Mörgum hefur hann boðið heim til sín þegar þeir hafa orðið að flýja og aðra hefur hann aðstoðað við flutningana. Hann er ekki á flótta heldur berst með sínu fólki. Og hann skrifar dagbækur og eldrit sem gefa næstu kynslóðum mynd af þessum miklu náttúruhamförum. Gefum Sr. Jóni orðið:

En af því veður var spakt fór ég og allir, sem hér voru þá á Síðunni, innlendir og aðkomnir, sem því gátu viðkomið, til kirkjunnar með þeim ugga og sorgbitnum þanka að það kynni að verða í seinasta sinni að í henni yrði embættað, af þeim ógnum sem þá fóru í hönd og nálægðust, er litu svo út, að hana mundi eyðileggja sem hinar tvær. Nær vér þangað komum, var svo þykk hitasvækja og þoka, sem lagði af eldinum ofan árfarveginn, að kirkjan sást naumlega eður svo sem í grillingu úr klausturdyrunum. Skruggur með eldingum svo miklar kippum saman, að leiftraði inn í kirkjuna og sem dvergmál tæki klukkunum, en jarðhræringin iðugleg. Sú stóra neyð, sem nú var á ferð og yfirhangandi, kenndi mér nú og öðrum að biðja guð með réttilegri andakt, að hann af sinni náð vildi ei í hasti eyðileggja oss og þetta sitt hús, þá var og so hans almættiskraftur mikill í vorum breyskleika. Ég og allir þeir, er þar voru, vorum þar aldeilis óskelfdir inni; enginn gaf af sér nokkurt merki til að fara út úr henni eður flýja þaðan meðan guðsþjónustugjörð yfir stóð, sem ég þó hafði jafnlengri en vant var; nú fannst ei stundin of löng að tala við guð. […]

Eftir embættið, þá farið var að skoða hvað eldinum hefði áfram miðað, þá var það ei um þverfótar, frá því hann var kominn fyrir það, heldur hafði um þann tíma og í því sama takmarki hlaðizt saman og hrúgazt hvað ofan á annað, þar í afhallandi farveg hér um 70 faðma á breidd, en 20 á dýpt, sem sjáanlegt verður til heimsins enda, ef þar verður ei á önnur umbreyting. Holtsá og Fjaðará hlupu fram yfir þær stíflur, er það nýja hraun hafði gjört þeim, og í mestu flugferð og boðagangi kæfðu nú eldinn, er rumlandi og rennandi var í árfarveginum, og hljóp svo fram og ofan af áður téðri dyngju, með fossum og iðukasti. Vatn þetta var svo mikið, að áin varð hreint ófær á hestum allan daginn, undan klaustrinu. Fórum við svo frá kirkjunni glaðværari heim, en frá geti sagt og þökkuðum guði fyrir svo ásjáanlega vernd og frelsi, sem hann veitti oss og sínu húsi. Já, allir, er þetta almættisverk sjá og heyra af því sagt, aldir og óbornir, prísi og viðfrægi þar fyrir hans háleita nafn. Frá þessum sama degi grandaði ei eldurinn stórvægis minni kirkjusókn á þennan veg. (Jón Steingrímsson, 1973:362-363)

Eldmessan hafði áhrif! Hraunið stöðvaðist rétt fyrir vestan Systrastapa, í farvegi Skaftár, við bæinn Hólm í Landbroti.  Þar er nú Eldmessutangi. Jörðinni Kirkjubæjarklaustri hafði verið hlíft við eyðileggingunni. Jón þakkar guði sínum en hann áttar sig líka á að það er vatnsflaumurinn úr Holtsá og Fjaðrá sem brýst út yfir hraunið, kælir það og stöðvar rennsli þess. Sama gerðist í Heimaeyjargosinu þegar menn dældu vatni á hraunið til að stöðva rennslið og bjarga þannig innsiglingunni. Náttúrufræðingurinn og presturinn í sama manninum koma með skýringar sem virka. Sjálfsagt hefur guð veitt ánum fram á hraunið.

Eyðilegging í Landbroti, Meðallandi og Skaftártungu

Hraunstraumurinn stefndi ekki lengur í austur heldur suður Landbrotið og tók þar af gott melpláss, Vaðhellu, sem Hraunsjarðir áttu, gekk síðan yfir land Efri-Steinsmýrar. Voru menn nú hræddir um að hraunið rynni til sjávar og þar yrði ekki lengur fær leið úr þessum sveitum með sjónum og vestur yfir Kúðafljót. Þetta gekk þó ekki eftir heldur stöðvaðist hraunið við Efri-Steinsmýri. Vestar í Meðallandi tók hraunið af bæinn Botna og stíflaði svo Kúðafljótið, Tungufljótið og Hólmsá við Leiðvöll þannig að til varð einn vatnsfjörður yfir Flöguengjar og Hemruvað. Þann 13. ágúst messaði séra Sigurður Högnason í Ásakirkju og flúði síðan þaðan alfarinn og tók með sér allt innanstokks úr kirkjunni. Hélt hraunið áfram að berast niður frá eldstöðvunum fram í september eða í fjóra mánuði.

Á myndinni hér fyrir ofan eru upptök Hverfisfljótsgljúfursins. Í baksýn er fjallið Laki til hægri og í fjarska hægra megin sést einn Lakagíganna.

29. júlí 1783 er eldur austan við Kaldbak og hraunstraumur í Fljótshverfi

Eldarnir höfðu verið vestan Klausturs en 29. júlí heyrist til gossins austan við Kaldbak og næstu daga kemur hraun niður Hverfisfljótsgljúfur sem sagt var “nærfellt svo stórt og djúpt, sem Skaftárgljúfur.” (Jón Steingrímsson, 1973:366) Eftir það varð loft svo mengað alla daga að menn gáfust alveg upp á að hafa skepnur á Síðunni og segist séra Jón ekki hafa haft neina kú næsta árið. Bæir í Fljótshverfi hurfu undir hraunið; Þverá, Eystri-Dalur, Ytri-Dalur og tún öll hurfu á Seljalandi. Fólk flýði, fénaður drapst. Hörmungarnar héldu áfram í marga mánuði. Mjög mikið hraun kom niður í október, fyllti í svæðið í kringum Miklafell og rann fram Fljótshverfið. Þarna hafa myndast þeir hraunhellar sem kallaðir eru Laufbalahellar.

Fyrir sunnan Skaftáreldahraunið sem umlykur Orrustuhól myndaðist byggð eftir Skaftárelda sem kölluð var Brunasandur og má segja að það sé yngsta sveit á Íslandi. Fyrir eld flæmdist Hverfisfljótið þarna um og enginn sóttist eftir þessu landi en það breyttist eftir eldinn því fyrstu árin sitruðu volgir lækir undan hraunröndinni og myndaðist þar gróðurvin.  Fyrsti bærinn sem var reistur á Brunasandi var Orrustustaðir árið 1822. Voru síðan með stuttu millibili byggðar fleiri jarðir; Teygingalækur, Hruni, Hraunból og Sléttaból. Seinna komu býlin Slétta og Bjarnartangi (eða Glóra). Á Orrustustöðum var búið til 1949, þar eru bæjarrústir en engin hús lengur. Búskapur á Brunasandi er lítill í dag, heilsársbúseta á Sléttu en frítímahús á hinum jörðunum.

Myndirnar hér fyrir neðan eru báðar teknar af Hverfisfljótsgljúfrinu og sýna átökin. Á annarri myndinni má sjá stein sem er á leiðinni niður gljúfrið og á hinni eru fossar þar sem einstaka klettadrangur stendur af sér strauminn. Gljúfrið breytist á hverju ári. (Ljósm. LM)

Skaftáreldar hófust 8. júní 1783 og þeim lauk, loksins, 7. febrúar 1784.

Eldurinn logaði á fjöllunum áfram og var margar nætur bjart sem á degi þó komið væri fram í nóvember. Sr. Jón telur að sandur sem fauk í hraunið hafi hjálpað til við að stöðva rennsli þess. Um jólin logar eldurinn á fjöllum, mest þó austan til, en þegar janúar var liðinn fór að draga úr eldinum og telur Sr. Jón að gosinu hafi lokið 7. febrúar. Voru þá liðnir átta mánuðir frá byrjun gossins og má rétt ímynda sér hversu erfiður þessi tími hefur verið fólki og fénaði.

Hraunbreiðan var þó hvorki hljóð né hugguleg. Úr hrauninu bárust eiturgufur og eldur brann víða. Vatn var eitrað í námunda við hraunið og hljóð heyrðust þó gosi lyki þar sem hraunið hreyfðist, hneig eða seig, lagaði sig að landinu eða vindur náði sér inn í holt hraunið. Gufu lagði upp frá eldstöðvunum, fimm gufustróka svo hátt að þeir sáust auðveldlega frá Skálholti allt árið 1784.

Sveinn Pálsson fór upp í Laka?

En hvernig var umhorfs við Lakagígana á Síðuafréttinum? Í frásögn Jón Steingrímssonar er ekki að sjá að menn hafi hætt sér nærri gosstöðvunum og enginn furða miðað við ástandið á þeim tíma. En tíu árum síðar, sumarið 1794, leggur Sveinn Pálsson, náttúrufræðingur og læknir í Vík, land undir fót með menn með sér að skoða upptök Skaftárelda. Hópurinn ríður upp frá Geirlandi og sem leið liggur í Blágil þar sem þeir gista og ganga svo um svæðið til að skoða hraunið. Þeir sjá greinilega slóð eftir tvo ríðandi menn og einn fótgangandi og vita ekki hver hafi verið hér á ferð en fylgdarmenn Sveins telja ótrúlegt að það hafi verið menn úr byggðarlaginu. og segir þá svo í bókinni: Og hver skyldi líka fara sér til ánægju, en engum til gagns, svo snemma sumars á þessa gróðursnauðu eyðimörk, sem nú er orðin. (Sveinn Pálsson, 1983:561). Þannig var viðhorf manna til fjallaferða sem farnar voru að óþörfu á þessum tíma.

Mjög merkileg er lýsing Sveins á hrauninu sem þarna er enn volgt. Hann fer yfir hraunið á svæðinu milli Blágilja og Tjarnargígs.

Við vorum nú komnir þangað, sem ég hafði fyrirfram ákveðið að reyna að komast yfir hraunið og það mun vera um mílufjórðung á breidd. Brátt urðu torfærur á vegi okkar, því að heilar hraunhvelfingar brotnuðu undan okkur, þegar minnst varði, og var það engan veginn hættulaust fyrir útlimina, svo að varla tekur tali að minnast á hina hvössu hraunbrodda, sem léku iljar okkar og hendur næsta grálega.  […] En það fór heldur en ekki um okkur, þegar við heyrðum allt í einu þungan vatnsnið fyrir suðvestan okkur nær miðju hrauninu, líkast því sem væri þar gjá eða sprunga. Samt héldum við áfram án þess að verða varir við nokkuð slíkt. Á þessum kafla er hraunið að mestu leyti sléttar, láréttar klappir, og þær þræddum við, en þess á milli urðu fyrir dyngjur og hrúgöld af holu og alla vega sprungnu hrauni, og urðum við að klóra okkur yfir þær á fjórum fótum. Kom það oft fyrir, að hraungúlar brotnuðu niður í sömu svifum og við slepptum fótfestu á þeim, en svört og ljót gímöld göptu við.

Loks komum við að djúpri og allbreiðri gjá eða dal með sléttum botni, þar sem hraunflóðið hafði sýnilega gert síðustu megin framrásina og storknað skyndilega án þess að springa. Við komumst heilu og höldnu yfir gjána og allan vesturarm hraunsins að rótum hinna áðurnefndu rjúkandi hóla. Hrósuðum við happi að hafa fyrstir manna komizt yfir hraunbreiðuna á þeim stað, sem við höfðum kosið okkur. (Sveinn Pálsson, 1983:561)

Það er merkilegt að lesa svo nákvæma lýsingu á hrauninu þegar aðeins er liðinn áratugur frá gosi. Farvegurinn sem Sveinn finnur er við Tjarnargíg og er mjög merkilegt náttúrufyrirbrigði sem auðvelt er að skoða í dag. Skaftáreldar teljast ungt gos á mælikvarða jarðfræðinnar og mjög merkilegt að skoða umerkin hvar sem er í Skaftárhreppi.

Skaftáreldargosið var eitt þeirra stærstu sem menn þekkja og afleiðingarnar gífurlegar. Lakagígar laða að fólk úr öllum heimshornum og margir þekkja sögu eldanna mjög vel. Aðeins er fært upp í Laka um hásumarið og fram á haust. Þegar ferðast er um Skaftárhrepp er fróðlegt að skoða ummerkin og sjá hve hrikalegt hraunið þekur stórt landsvæði. En það sem áður var ógn er nú það sem laðar flesta ferðamenn að svæðinu. Lakagígar eru hluti af vestursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs. Á vef þjóðgarðsins má finna upplýsingar, kort og gönguleiðalýsingar

Náttúrufegurðin á Síðunni er mikill. Enginn ætti að láta Fagrafoss framhjá sér fara á leiðinni upp í Laka. (Ljósm. ÁÓ)
Það er upplagt að hjóla hringinn um Lakasvæðið. (Ljósm. LM)

Guðmundur Hálfdánarson. 1984. “Mannfall í Móðuharðindunum.” Skaftáreldar 1783-1784. Mál og menning, Reykjavík.

Gylfi Már Guðbergsson. 1984. “Áhrif Skaftárelda í Leiðvallar-og Kleifahreppum.”Skaftáreldar 1783-1784. Mál og menning, Reykjavík.

Jón Helgason. 1948. “Áfangar”. Úr landsuðri. Heimskringla, Rv.

Jón Steingrímsson. 1907-1916. Fullkomið rit um Síðueld. Safn til sögu Íslands og íslenzkra bókmennta a fornu og nýju. s. 1-57. Kaupmannahöfn og Reykjavík, Hið íslenska bókmenntafélag.

Jón Trausti. 1965. Ritsafn IV. Sögur frá Skaftáreldi. Bókaútgáfa Guðjóns Ó. Guðjónssonar, Rv. (Bókin kom fyrst út 1912-1913).

Jón Steingrímsson. 1973. “Eldritið” Æfisagan og önnur rit. Kristján Albertsson gaf út. Helgafell, Rv.

Sveinn Pálsson. 1983. “Eldritið”. Ferðabók Sveins Pálssonar. Dagbækur og ritgerðir. II. bindi. Bókaútgáfan Örn og Örlygur hf., Rv.