Warning: Uninitialized string offset 0 in /var/www/virtual/eldsveitir.is/htdocs/wp-includes/class-wp-term-query.php on line 1

Warning: Uninitialized string offset 0 in /var/www/virtual/eldsveitir.is/htdocs/wp-includes/class-wp-term-query.php on line 1

Warning: Uninitialized string offset 0 in /var/www/virtual/eldsveitir.is/htdocs/wp-includes/html-api/class-wp-html-tag-processor.php on line 1

Warning: Uninitialized string offset 0 in /var/www/virtual/eldsveitir.is/htdocs/wp-includes/html-api/class-wp-html-tag-processor.php on line 1
Ferðir um Skeiðarársand fyrir brýr — Sögur, menning og náttúra Skip to main content
Síða og Fljótshverfisögur

Ferðir um Skeiðarársand fyrir brýr

By January 15, 2020March 26th, 2020No Comments

Skeiðarásandur var um margar aldir illfær og því lítið um ferðir á milli Austur- og Vestur-Skaftafellssýslu. Skaftfellingar áttu því fátt annað sameiginlegt en búa á sömu strandlengjunni. Landpósturinn fór yfir Skeiðarársand með póst og einhverjir fóru þar yfir á hestum. Oft voru þessar ferðir farnar á jökli ef mikið var í jökulánum. Brýr komu smátt og smátt á allar ár frá Reykjavík að Núpstað, síðast var Djúpá brúuð 1952. En Skeiðarársandur var áfram farartálmi. Hann var þó ekki með öllu ófær þrátt fyrir beljandi jökulárnar. Jeppar og vörubílar komust yfir sandinn þegar lítið var í ánum og eftir stríðið komu öflugir trukkar sem gerðu mönnum kleift að fara yfir jökulvötnin.

Lárus Siggeirsson bóndi á Kirkjubæ II var mikið austur á Skeiðarársandi á trukk, Reo Study Baker, sem hann keypti með föður sínum, Siggeir Lárussyni í Keflavík um 1960. Ætlunin var að nýta þennan bíl til að flytja jarðýtu sem Lárus notaði til að ýta upp varnargörðum, slétta tún fyrir bændur og við vegagerð. Þegar trukkurinn var kominn á Klaustur var það fljótt að fréttast og þegar fólk lenti í vandræðum á Skeiðarásandi var hringt í Lárus og hann beðinn að koma og aðstoða. Flestar ferðirnar austur á Skeiðarársand fór Lárus þó til að flytja kost, varahluti og vélar fyrir gullleitarmennina á Skeiðarársandi.

Hér fer á eftir viðtal Lilju Magnúsdóttur við Lárus Siggeirsson frá því í júlí 2014.

Lárus segir af ferðum yfir sandinn áður en árnar voru brúaðar.

Ja, þetta byrjaði náttúrulega með því að við kaupum þennan trukk, Reóinn, árgerð 1953. Það fréttist af honum. Þetta byrjaði á því að menn voru að festa sig í Núpsvötnum og það voru engar græjur til að ná þessu upp, þá lendi ég í þessu. Bara óvart. þetta var ekkert planað. Bara af því að ég átti trukkinn. Það var 1961 sem ég fór fyrstu ferðina. Til að byrja með þurfti ég ekki að fara nema í Núpsvötnin og Súlu. Magnús Lárusson á Svínafelli var með trukk í Öræfunum. Hann aðstoðaði þeim megin. Núpsvötnin gátu verið mikill farartálmi.

„Það var hægt að keyra trukkinn á kafi í vatni.“

Árið 1962 lenti ég í því að það voru bílar frá vegagerðinni og Esso, á eyri, úti í miðjum Núpsvötnunum. Þeir báðu um hjálp því þeir kæmust ekki í land. Þeir voru búnir að vera alla nóttina á þessari eyri. Ég fór og ég náði þeim í land, ég get ekkert sagt öðruvísi frá því. Ég var á Reonum, það hefði ekkert hafst öðruvísi. Alls ekki. Hann var þannig að hann gekk þó hann færi á kaf í vatn. Þetta var vel útbúin vél. Þetta var hertæki og þessi herdeild sem bíllinn tilheyrði átti að fela sig fyrir flugvélum með því að keyra trukkinn á kaf í vatn svo hann sæist ekki úr lofti, það var bara rörið upp úr, loftinntakið. Svo fylgdu froskbúningar þessum bílum. Menn áttu að vera í froskbúningunum ef þurfti að fara á kaf í vatn. Þetta var útbúið svona. Það var allt vatnsþétt og hann gekk bíllinn þó hann væri á kafi í vatni, það var hægt að starta í gang í vatni. Ég lenti í því oftar en einu sinni að fara þannig að mótorinn fór alveg á svarta kaf, það er svona viss lífsreynsla út af fyrir sig. Það hefði enginn annar bíll þolað það?

En ég man eftir því nokkrum sinnum, og sérstaklega einu sinni að ég hélt að ég myndi nú aldrei koma í land meir, þá fór bíllinn af stað. Það gerist þannig að þegar maður fer svona djúpt þá byrjar að koma svo mikil gufa inni í bílnum að það sést ekkert, húsið fyllist af gufu, vélin og púströrið fara á kaf í vatn og svo hættir maður að heyra í mótornum, maður heyrir bara lætin í vatninu í kringum bílinn, það skellur á bílnum. Maður heyrir ekkert hvort bíllinn er í gangi eða hvort það er dautt á honum nema það sem maður sér í mæliborðinu. Þannig að þetta er svona viss lífsreynsla út af fyrir sig, mikil lífsreynsla, sérstaklega til að byrja með þegar maður er óvanur þessu.

     En þú hefur haft það þó að það liti illa út.

Lárus: Já, ég er hérna ennþá. Annars væri ég ekkert hérna. En þetta er lífshættulegt. Það er ekkert hægt að gera ef bíllinn stoppar, það er ekkert hægt að synda í þessum ám, vatnið er svo kalt og áin straumhörð. Eða ég hefði ekki synt í þessum ám.

     En fljóta bílar ekki upp?

Lárus: Nei, hann gerði það ekki. Við fórum alltaf undan straumnum og bíllinn er 5-6 tonn

     Og er það lagið við að að keyra yfir straumþungar ár, að keyra undan straumi?

Lárus: Það er bara skilyrði. Alveg eins og hægt er undan straumi og fara hægar en straumurinn vegna þess að þá ertu að láta strauminn ýta á þig. Þetta er eins og það séu kannski hundrað hestöfl á eftir þér. Annars er straumurinn á móti þér. Það fer enginn á móti straumi, það er bara þannig. Ekki ef það er djúpt, en ég sé þetta og mér blöskrar bara alveg þegar er verið að sýna myndir í sjónvarpinu af mönnum sem eru að keyra yfir ár, þetta eru bara eins og óvitar þeir keyra bara þvert yfir ána. Og hérna á veginum inn í Laka, þar er búið að merkja veg yfir Geirlandsá, þvert yfir ána, hvað eru menn að hugsa?

Straumurinn bara veltir bílnum ef mikið er í ánni, í staðinn fyrir að láta strauminn hjálpa sér yfir ána, leggja veginn undan straumi austur yfir og eins þegar farið er vestur yfir, alltaf undan straumi. Það er afar lítil hætta á að bíllinn velti ef hann fer undan straumi. Jeppar velta auðveldlega, sérstaklega þessir stóru, á stóru dekkjunum því þeir eru svo léttir í vatni, mikið flotmagn í dekkjunum, þeir fljóta, þeir geta bara farið af stað niður ána,

Trukkurinn kom að góðum notum við ýmsar framkvæmdir. Hér var bíllinn nýttur til að koma efni upp að Hellisá þar sem bændur byggðu brú. (Ljósm. LS)

En þegar þú varst á þessum Reo var einhver möguleiki að hann lyftist upp?

Lárus: Nei, það gerðist aldrei þegar ég var á honum. Ef að brotið var þannig að það var dáldið þvert á strauminn þá rak hann stundum til að aftan og þá varð að bregðast skjótt við því að þá var framendinn kominn upp í strauminn, þá var bara að gefa í og reyna að komast undan.

Ég lenti einu sinni sérstaklega í því í Súlu, þá var ég að koma frá því að fara með kost handa gullleitarmönnum, en það voru langflestar ferðirnar um sandinn tengdar gullleitarmönnum. Ég hef nú ekki einu sinni skráð þær allar, þær voru svo margar. Ég fór með kost kannski tvisvar í viku. Í þessari tilteknu ferð var vatn í öllum álunum. Ég fór austuryfir um morguninn, þá var kolllítið í, svo stoppaði ég nú sáralítið þarna en svo þegar ég lagði af stað heim, og er komin út að Súlu aftur að þá sé ég að það er farið að vaxa rosalega í Súlu og í því að ég er búinn að fara yfir fyrsta álinn þá kalla þeir upp og segja að borinn hafi bilað og biðja mig að koma á móti sér og taka varastykki og fara með það og láta gera við það og ég sneri við, og tók þetta stykki og þegar ég kem aftur til baka sé ég að það er komið flugvatn í Súlu, þá er að byrja smáhlaup, en ég kemst nú yfir fyrsta álinn og hann hafði verið rétt á miðjar felgur um morguninnn en nú er hann orðinn miklu meiri, upp fyrir stuðarann á Reonum, svo kom næsti áll og það var nú minnir mig aðalállinn, og þegar ég var kominn út í hann miðjan þá flaut hann að aftan, það var ekki nóg hlass á honum, það voru mörg dekk að aftan og hann flaut upp að aftan og ég missti af brotinu, ég varð að beygja undan og þá lenti ég í alveg svakalegri sandbleytu, framar í brotinu og þar sat allt fast…og ég man að ég var nú alveg vonlaus um að ég kæmist út úr þessu helvíti. Ég reyndi að bakka og svo bara allt í einu þá fer bíllinn af stað, straumurinn skall náttúrulega aftan á honum, en það var svoleiðis að ég leit svona út austurúr og svo hægra megin út og ég sá hvorugu megin í land því bíllinn var bara ofan í skál, það var svo mikill straumur þarna að bíllinn var bara ofan í skál sem var miklu grynnra, það var æði djúpt vatn samt og það var djúpt vatn inni í bílnum, en svo fór hann af stað og ég bara keyrði eins og fínn maður, niður með allri á og í land þar sem var sæmilegt að komast á land.

Þessir lentu í sandbleytu og bíllinn fór á bólakaf. Þeir sluppu út, voru bara heppnir.  Lárus á Reo Z6 var kallaður til að ná bílnum upp. (Ljósm. LS)

    En hver er lausnin ef maður lendir í svona sandbleytum?

Lárus: Í þessu tilfelli snérist það bara um það að það var svo mikill straumurinn að áin gróf undan bílnum, og af því að hann var í gangi og allt í lagi að þá fór hann bara af stað um leið og sandurinn var farinn, en hann hefði bara grafist niður og oltið ef hann hefði verið stopp en þarna bara grófst undan honum. Þarna hjálpaði straumurinn algjörlega til við að losa bílinn úr sandbleytunni á botninum. Vatnið náði upp á pall að aftan. Og áin var alveg kolsvört af sandinum sem grófst undan bílnum. Ef hætta er á sandbleytum skiptir mestu máli að vera alltaf í nógu lágum gír svo bíllinn stoppi ekki fyrr en hann bara spólar því hann þarf rosalega mikið afl. Ef bíllinn stoppar þá ertu í slæmum málum nema að þú sért eins og í þessu tilfelli í djúpu vatni og það grafist frá bílnum. Annars er ekkert hægt að gera í svona djúpu vatni nema að láta draga sig.

Eiginkona Lárusar, Ólöf Benediktsdóttir og börn þeirra  í bíltúr í Fljótshverfi á viboninum sem kemur við sögu í næstu frásögn. (Ljósm. JSen)

,,Ég var beðinn að fara með líkkistu”

Ég var alltaf á Reonum í þessum ferðum um sandinn en einu sinni fór ég á Víboninum og Stefán á Rauðabergi fór með mér. Ég var beðinn að fara með líkkistu austur. Hún kom með vörubíl hingað á Klaustur sem mátti ekki fara lengra, var of þungur fyrir brúna á Hverfisfljóti. Líkkistan átti að fara á Djúpavog held ég. Jarðarförin átti að vera daginn eftir. Ég spurði aldrei að því hvort það var lík í henni eða hvað. Vissi ekkert um það. Svo ég fór af stað og það gekk vel.

Það var hald á ánum svo við gátum keyrt rakleiðis austur sandinn. Fórum yfir Núpsvötnin, Súlu og Gígjukvísl, sluppum austur yfir hana á haldi líka. Svo þegar við komum austur að Skeiðará þá var flugvatn í henni. Ég fór eitthvað að reyna að vaða út í hana og þegar ég er kominn eitthvað dálítið út í þá finn ég að það skellur eitthvað hérna á mér, á lærinu, henti mér til, ég var rétt dottinn, ég stökk upp, þá var þetta jaki og ég stökk svo á eftir jakanum, langa leið í land, lagði ekkert í að fara að vaða þarna meira því maður sá ekkert og maður gat lent undir þessum jökum sem voru í ánni. Svo við skyldum kistuna eftir þarna á aurnum. Þeir voru hinumegin Öræfingar. Þeir lögðu ekki í ána heldur.

Ég fór svo bara heim og þeir gátu sótt kistuna daginn eftir. Þá hafði minnkað í, minnkaði strax um nóttina. En þeir héldu að ég kæmi á trukknum, þá hefði ég farið yfir, það hefði ekki verið nokkurt mál, en ég hafði farið á Víboninum. En við fórum til baka og það var alveg slengjandi rigning og við vorum hræddir um að ísinn yrði farinn af ánum þegar við kæmum til baka og við kæmust ekki, en við sluppum, það var eiginlega ekkert farið að vaxa í Sandgígjukvísl en það var orðið æði mikið vatn ofan á ísnum á Súlu og hún var mjög breið, kílómeter eða uppundir það. Stebbi stökk svo á undan með járnkall og pikkaði allt og ég keyrði svo á eftir…

   …hvað segirðu? Hann hefði farið fyrstur niður…

Lárus: Ja, en við sluppum. En þetta var svona ævintýri, á heljarþröm. En það er nokkuð öruggt ráð að ef maður tvíhendir járnkarli í ísinn og hann brotnar ekki að þá er hann fær á bíl.

Vegirnir  í Skaftafellssýslu voru mjög slæmir áður en hringvegurinn kom 1974. Hér er vegurinn á Síðunni, það sér í Foss á Síðu, og greinilegt að hér er ekki mikið lagt í vegagerð né viðhald.(Ljósm. LS)
Áhugi Lárusar á bílum hefur ekki minnkað með hærri aldri. Hér er hann kampakátur að skoða Reo hjá sveitunga sínum sumarið 2019. (Ljósm. LM)

     Var ekki líka fólk að koma hérna um páska til að fara austur yfir sandinn?

Lárus: Það var nú alveg kapítuli út af fyrir sig. Það byrjaði einhverntíma um 1960. Eina páskana voru um 400 manns hérna á Klaustri og allir ætluðu í Öræfin og fóru nú held ég, já ég held að þeir hafi nú allir farið en það sukku einhverjir í Núpsvötnin og ég þurfti að fara að draga einhverja upp. Svo eina páskana var alveg ófært í Öræfin vegna rigninga, fólkið var komið hingað á Klaustur og var bara hér, komst aldrei lengra. Þetta var líklega 1964. En þetta gekk vel yfirleitt og það voru hópar alla páska þar til brýrnar komu.

     En þegar þú varst að bjarga mönnum og bílum, eða fylgja fólki yfir árnar, fékkstu borgað fyrir það?

Lárus: Já, það var nú svona upp og ofan. Fór svona eftir efnum og aðstæðum. Oftast fékk ég það borgað. Þetta var bara eftir behag fólks.

     Hvað eyddi Reóinn af bensíni á hundraðið?

Lárus: Hann eyðir svona 100 lítrum af bensíni á hundraðið yfirleitt. 50 lítrum í keyrslu en þegar ég var kominn út á sand var það um 100 á hundraðið.

     Ertu að þessu alveg framundir 1974 þegar er brúað?

Lárus: Já, já og þegar verið var að undirbúa brúna þá lenti ég æði oft í því að keyra með menn um sandinn. T.d. mælingamenn, margar ferðir með mælingamenn, þeir voru að mæla fyrir brúnum. En vegagerðin hafði keypt Drekann af gullleitarmönnum og Jón Pálsson í Svínafelli var á honum. Hann keyrði menn frá vegagerðinni um Skeiðarársandinn.

Lárus vann svo eins og margir aðrir Skaftfellingar að brúarsmíðinni á Skeiðarársandi sem breytti svo mörgu, þar á meðal þörfinni fyrir að kunna að keyra í djúpum jökulfljótum.

Á þessum myndum sjást bílar frá varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli. Mennirnir áttu að fara austur að vinna í Stokksnesi, austan við Höfn í Hornafirði. Það kom fljótlega í ljós að bílarnir dugðu ekki í jökulárnar og þurfti Lárus því að fara á Klaustur og sækja Z6, reoinn, til að aðstoða þá yfir Skeiðarársand og svo alla leið austur. Mennirnir þurftu að bíða alllengi meðan Lárus fór að sækja bílinn og á meðan voru þeir að skoða sig um á sandinum.  Myndirnar sendu mennirnir Lárusi í kjölfar ferðarinnar. (Eig. LS)

,,Hitinn hafði valdið bráðnun jökulsins og áin því aukist frá því um morguninn.” Frásögn Sissa símamanns

Lárus vill lítið gera úr hæfni sinni í þessu vatnasulli eða hættunni sem fylgdi ferðum um jökulvötnin en   Sigþór Sigurðsson, símamaður, í Litla-Hvammi í Mýrdal, sagði mér frá sögulegri ferð með Lárusi um Skeiðarársand.

Sigþór segir svo frá:  Ég þurfti nauðsynlega að komast að símalínunni sem tengdist neyðarskýlinu á Skeiðarársandi. Þetta var 16. júlí ogég var á jeppa frá Pósti og síma og vissi vel að á honum færi ég ekki austur á Skeiðarársand þegar sumarvöxtur væri kominn í vötnin. Ég hringdi því í Lárus Siggeirsson á Kirkjubæ og hann samþykkti að fara með mig austur á sandinn á trukknum.

Morguninn eftir vorum við snemma á fótum. Lárus sagði að það hefði verið hringt í sig frá gullleitarmönnum á Skeiðarársandi um nóttina og þeir væru í vandræðum með Larkinn. Mönnunum tókst að láta vita af sér á Klaustur en sambandið slitnaði svo lítið var vitað hvað hafði komið fyrir. Það var samt vitað að þeir voru í námunda við skýlið á Kálfafellsmelum. Lárus vildi engu breyta um okkar ferð heldur fara fyrst austur í sæluhúsið og lagfæra símann en spurði hvort ég væri ekki tilbúinn að koma með honum að aðstoða mennina á Larkinum áður en við færum heim.

Jú, ég var til í það. Það var blálogn þennan morgun og mikill hiti. Ég nefndi við Lárus hvort ekki yrði mikið í ánum ef mikil jökulbráð yrði yfir daginn. Hann samsinnti því en taldi að það hlyti að verða fært fyrir því.

Við héldum því af stað á trukknum. Ferðin gekk vel. Þegar komið var að Núpsvötnunum leiddi Lárus pústið upp á topp og bað mig halda við stöng svo trukkurinn hrykki ekki úr framdrifinu og yfir sulluðumst við án nokkurra vandræða þó Núpsvötnin væru vatnsmikil. Það var líka mikið í Gígjukvísl en við komumst yfir á broti sem hallaði aðeins undan straumi austur yfir. Vatnið náði upp á pall á trukknum.

Þegar komið var að sæluhúsinu gerði ég við það sem þurfti. Það gekk vel og sambandið mældist mun betra en áður. Þá var mínu erindi lokið en Lárus átti eftir að fara niður á Skaftafellsmela að gá að mönnunum.  Það hafði aldrei verið farið þarna niður úr á svona bíl að sumarlagi og það var engin braut eða slóði. Lárus keyrði beint af augum. Færið var þokkalegt, nánast þurrt en þó glætur af og til og sandbleytur. En við sulluðumst yfir þetta. Sóttist okkur ferðin vel og komum að skýlinu. Svo fórum við frá skýlinu að leita að Larkinum og það var nú það sem var almest afrekið að komast frá skýlinu og fram á kamp því það var svo mikið af sandbleytum þar en einhvernveginn slampaðist það.

Ekkert amaði að mönnunum en Larkurinn var kolfastur. Mátti sjá hvar mennirnir höfðu grafið hann upp aftur og aftur en alltaf fest hann og nú sat hann kolfastur í sandinum. Af fjölda bjórdósa við hverja gryfju mátti greina hversu lengi hafði verið grafið á hverjum stað.

Bergur Lárusson var þarna en flestir voru Ameríkanar sem voru við rannsóknir á Skeiðarársandi. Bergur vandaði þeim ekki kveðjurnar ferðafélögum og sagði að þeir kynnu ekki að keyra í sandi því um leið og þeir náðu Larkinum upp gáfu þeir allt í botn og festu hann aftur.

Lárus tengdi taug í Larkinn og dró hann upp. Eftir það fengum við okkur kaffi hjá Bergi í skýlinu og síðan var haldið heim á leið. Þá var klukkan sennilega á milli tvö og þrjú. Við keyrðum heim á leið og gekk það greiðlega þar til komið var að Gígjukvísl. Það var hitamistur yfir sandinum og hitinn örugglega langt yfir 20 gráður. Hitinn hafði valdið mikilli bráðnun jökulsins og áin því aukist um allan helming frá því um morguninn. Leist mér ekki á að leggja út í það forað sem hún var.

Lárus hægði á, leit yfir ána en taldi af og frá að þetta væri ófært. Bað mig bara að halda við framdrifsstöngina. Síðan bakkaði hann trukknum alllengi á fullri ferð upp í strauminn. Vatnið skall á trukknum og yfir húsið svo ekkert heyrðist í vélinni. Svo rykkti hann trukknum í áframgír og þá fór hann með straumnum yfir og lenti þar sem brotið var á vesturbakkanum. Vatnið náði upp á miðjar rúður meðan við vorum í ánni. En yfir komumst við og þá var bara eftir að fara yfir Núpsvötnin. Tókst það prýðilega, enda voru þau eins og bæjarlækur á móts við það sem á undan var gengið.

Ég hef farið oft yfir vötn og sanda með ýmsum mönnum en ég þori að fullyrða að Lárus er snjallasti vatnamaður sem ég fór með. Hann var djarfur og ótrúlega útsjónarsamur. Það reyndar lék allt í höndunum á honum sem varðaði vélar og hann þekkti þennan trukk og vissi hverng átti að beita honum. Hann kunni að láta strauminn fleyta sér yfir þessar vatnsmiklu ár. Þetta var kúnst sem fáir kunnu.

[1] Sigþór Sigurðsson í Litla-Hvammi. Viðtal tekið við hann 19. apríl 2011