Skip to main content
Síða og Fljótshverfisögur

Guðjón Samúelsson

By January 15, 2020January 24th, 2020No Comments
Læknisbústaðurinn á Kirkjubæjarklaustri er teiknaður af Guðjóni Samúelssyni. Íbúð fyrir lækninn var uppi en læknastofan og biðstofan niðri. (Ljósm. JSen)

 

Guðjón Samúelsson var fæddur 1887 á Hunkubökkum í Skaftárhreppi. Það má velta fyrir sér hvort fjöllin og stuðlabergið fyrir austan hafi haft áhrif á teikningar hans. Guðjón var starfandi húsameistari ríkisins  í þrjátíu ár og hannaði margar af helstu opinberu byggingum landsins á þeim tíma, frá 1920 og var að alveg þar til hann lést 1950.

Bæjarstæðið á Hunkubökkum var á bökkum Skaftár en eftir Skaftárelda var bærinn fluttur hátt upp í hlíðina. (Ljósm. BP. Eig. HK_RB)
Seinna var bærinn færður þangað sem hann er núna. Nýrri myndin er tekin af Holtsborginni sem er eitt stuðlabergsundranna fyrir austan. (Ljósm. LM)

Fæddur á Hunkubökkum 1887

Guðjón lærði trésmíði hjá föður sínum og lauk prófi í þeirri grein 1908. Faðir Guðjóns var Samúel Jónsson trésmíðameistari sem fæddist 1864 á Brattlandi á Síðu. Samúel var mikilvirkur smiður og teiknaði sum þeirra húsa sem hann byggði t.d. Grafarkirkju í Skaftártungu, Reyniskirkju í Mýrdal og Skeiðflatarkirkju í sömu sveit. Móðir Guðjóns, Margrét Jónsdóttir f. 1859, var Eyfellingur, frá Steinum undir Eyjafjöllum. Fjölskyldan bjó á Hunkubökkum fyrstu þrjú æviár Guðjóns en fluttist síðan til Eyrarbakka, bjó þar í tíu ár og flutti svo til Reykjavíkur um aldamótin. Samúel byggði hús fyrir fjölskylduna á Skólavörðustíg 35 og þar bjó Guðjón alla ævi. Húsið er glæsilegt bárujárnsklætt timburhús á horni Kárastígs og Skólavörðustígs og er mikil bæjarprýði.[1]

Arkitekt og húsameistari 1919

Guðjón stundaði nám í arkitektúr í Listaakademíunni í Kaupmannahöfn, lauk því námi 1919 og varð húsameistari ríkisins sama ár. Teiknaði hann margar byggingar sem setja mikinn svip á Reykjavík og má þar helstar nefna Reykjavíkurapótek, Landakotskirkju, Hallgrímskirkju, Hótel Borg, Landspítalann og aðalbyggingu Háskóla Íslands. Segja sumir að form aðalbyggingar Háskóla mótist af fjöllunum í Fljótshverfi og þá helst Núpafjalli í Fljótshverfi. (Ljósm. LM) Þjóðleikhúsið teiknaði Guðjón líka og vann að því verki allt til dauðadags. Stuðlabergið í lofti salarins í leikhúsinu líkist stuðlaberginu á myndinni sem er tekin í landi Merkur á Síðu. (Ljósm. LM) Fleiri hús teiknuð af Guðjóni má finna um allt land t.d. Héraðsskólann á Laugarvatni, Þingvallabæinn og Akureyrarkirkju. Nokkra embættismannabústaði teiknaði hann líka og var þá sama teikningin jafnvel notuð á fleirum en einum stað.

Þjóðleikhúsið teiknaði Guðjón líka og vann að því verki allt til dauðadags. Stuðlabergið í lofti salarins í leikhúsinu líkist stuðlaberginu á myndinni sem er tekin í landi Merkur á Síðu. (Ljósm. LM) Fleiri hús teiknuð af Guðjóni má finna um allt land t.d. Héraðsskólann á Laugarvatni, Þingvallabæinn og Akureyrarkirkju. Nokkra embættismannabústaði teiknaði hann líka og var þá sama teikningin jafnvel notuð á fleirum en einum stað.

Lítill peningur, lítið hús.

Skemmtileg saga er til um það þegar Guðjón, húsameistari, teiknaði lítið íbúðarhús á bænum Borgarfelli í Skaftártungu. Það kom þannig til að Vigfús á Borgarfelli hringdi í Guðjón, en þeir voru kunningjar, og bað hann um góða teikningu. Guðjón vildi vita hversu mikla fjármuni hann hefði til byggingarinnar og sagði Vigfús honum það. Eftir nokkurn tíma kom teikning að 37,1 fermetra húsi á einni hæð og það var byggt árið 1940. Það var ekki byggt um efni fram á þeim bænum. Fjölskylda Vigfúsar bjó í þessu húsi í marga áratugi og afkomendur hans hafa haldið því vel við. (Ljósm. LM)

Skaftfellsk fjöll og stuðlaberg

Guðjón notaði íslenska stuðlabergið sem fyrirmynd, bæði utan húss og innan. Það er skemmtilegt að ímynda sér að þá hugmynd hafi hann fengið úr skaftfellskum klettum og gljúfrum sem mörg eru eins og meistaraverk þar sem stuðlabergið myndar allrahanda mynstur.

Þegar Guðjón vann að hönnun Þjóðleikhússins vafðist fyrir honum hvernig mætti gera íslensku steinsteypuna fallegri. Hann vildi hafa húsið glæsilegra, jafnvel ævintýralegra, en önnur hús og lagði mikla vinnu í að velta fyrir sér útliti og áferð. Hann endaði með þá hugmynd að sennilega ætti okkar þjóðleikhús frekar að líkjast kletti álfa en konungshöllum úr ævintýrunum. Hann hugsaði leikhúsið sem einn risastóran klett þar sem stuðlabergið er til skrauts, bæði utan og innan. Efnið sem notað var utan á Þjóðleikhúsið var uppfinning Guðjóns. Mulin var saman hrafntinna, kvars og silfurberg og steypan húðuð með þessu efni. Þannig fékk húsið allt annan svip en væri það steinsteypt og múrað á hefðbundinn hátt. Þessi aðferð varð mjög vinsæl og má sjá íslenskan bergmulning á mörgum steinsteyptum húsum eftir þetta.[2]

Stuðlabergsfoss í ánni Rauðá á Kirkjubæjarklaustri. Í Rauðá er annar stærri foss rétt við göngustíginn að Systrastapa. Þar er mikið stuðlabergsmynstur.   (Ljósm. LM)

Ævistarf Guðjóns var með fádæmum mikið. Minnisvarði um allt hans starf býr í okkar veglegustu byggingum í Reykjavík og um allt land.

[1] Pétur H. Ármannsson. 2008. “Húsameistarinn frá Hunkubökkum.” Dynskógar 11. Rit Vestur-Vestur Skaftfellinga. Dynskógar Sögufélag Vestur-Skaftfellinga, Vík.

[2]Pétur H. Ármannsson. 2008. “Húsameistarinn frá Hunkubökkum.” Dynskógar 11. Rit Vestur-Vestur Skaftfellinga. Dynskógar Sögufélag Vestur-Skaftfellinga, Vík.