Warning: Uninitialized string offset 0 in /var/www/virtual/eldsveitir.is/htdocs/wp-includes/class-wp-term-query.php on line 1

Warning: Uninitialized string offset 0 in /var/www/virtual/eldsveitir.is/htdocs/wp-includes/class-wp-term-query.php on line 1

Warning: Uninitialized string offset 0 in /var/www/virtual/eldsveitir.is/htdocs/wp-includes/html-api/class-wp-html-tag-processor.php on line 1

Warning: Uninitialized string offset 0 in /var/www/virtual/eldsveitir.is/htdocs/wp-includes/html-api/class-wp-html-tag-processor.php on line 1
Friedrich Albert 1903, lækningaafrek — Sögur, menning og náttúra Skip to main content
Síða og Fljótshverfisögur

Friedrich Albert 1903, lækningaafrek

By January 15, 2020March 9th, 2020No Comments

Skipsströnd eru hverjum manni þrekraun og það hefur verið andstyggileg lífreynsla að berjast í brimi og myrkri við strendur Íslands. Eitt strand var þó sýnu hryllilegra en önnur fyrir það að enginn sá til strandsins og mennirnir komust ekki til byggða fyrr en eftir margra daga hrakninga í vitlausu verði um hávetur. Hér fer ótrúleg saga af einstökum mannraunum og farsælli læknismeðferð.

Þýskur togari strandar á Skeiðarársandi

Í ársbyrjun 1903 strandaði þýski togarinn Friedrich Albert frá Geestemünde á Skeiðarársandi. Skipverjar bundu sig við reiðann meðan sjógangurinn var mestur og tókst að komast í land af sjálfsdáðum eftir að lægði. [1] Að morgni 20. janúar stóðu skipverjarnir tólf, blautir, matarlausir og kaldir á ströndinni, langt frá mannabyggð. Veður var slæmt, frost, rok og snjókoma. Mennirnir reyndu að ná mat úr skipinu og tókst það eftir nærri tvo sólarhringa. Skýli gerðu sjómennirnir úr segli, tunnum, skipsbátnum og öðru tiltæku.

Glímt við jökulvötnin

En hvernig áttu þeir að komast til byggða? Þeir héldu fótgangandi í vesturátt, og stefndu á Lómagnúp. Þegar þeir komu að vötnum lentu þeir í sandbleytum og urðu að draga hvern annan upp úr bleytunni og þökkuðu sínum sæla fyrir að komast lifandi þaðan. Fóru þeir svo til skipsins aftur og héldu þar til. Þeir reyndu næsta dag en urðu að hrekjast aftur að skipinu vegna þess að allar leiðir voru lokaðar af jökulfljótum. Einn daginn reyndu þeir að vaða Hvalsýki sem breiðir úr sér á sandinum (myndast af Núpsvötnum, Djúpá, Brunná, Hverfisfljóti og fleiri ám) en þegar þeir höfðu vaðið lengi komu þeir að svo djúpum ál að þeir treystu sér alls ekki yfir hann. Komið var kvöld og urðu þeir að láta fyrir berast á sandeyri úti í miðju fljótinu um nóttina. Fjórir menn reyndu að snúa aftur að skipinu. Komu tveir þeirra til baka á eyrina aftur en tveir héldu áfram.  Um nóttina vakti skipsstjórinn alla á hálftíma fresti og lét þá hreyfa sig. En þegar morgnaði gat hann ekki vakið einn þeirra og var hann örendur þarna á eyrinni. Þegar dagaði snéru þeir aftur á strandstaðinn. Á leiðinni fundu þeir annan skipverjann sem fór frá hópnum kvöldið áður hálfdauðan í síki. Reyndu þeir að lífga hann við en tókst það ekki og lést hann þarna í höndum þeirra. Þegar komið var á strandstað sást ekkert til hins mannsins sem farið hafði kvöldið áður og vissu þeir aldrei afdrif hans.

Maður í sjónmáli, von, vonbrigði, kuldi og kal

Nú voru skipverjar búnir að missa þrek og von. Þeir voru níu eftir, tveir félagar látnir, einn horfinn. Janúarkuldinn nísti og þeir töldu sig hafa komist að því að það væru algjörlega ófær vötn hvert sem farið var. Skipstjórinn taldi kjark í mennina og útbjó fleka til að freista þess að fleyta þeim yfir vötnin. Aðeins einn skipverji hafði kraft til að sinna flekasmíðinni, hinir voru uppgefnir. Þeir voru kaldir, blautir, matarlausir og sumir kalnir. Þeir héldu samt af stað enn einu sinni, með flekann með sér. Þegar þeir komu að Hvalsíki sáu þeir til ríðandi manns eða manna á hinum bakkanum. Lifnaði heldur yfir þeim og gerðu þeir allt sem þeir gátu til að vekja athygli á sér.Ekki tókst það. Maðurinn reið sína leið og horfðu þeir eftir honum daprir en þó aðeins vonbetri en áður, það var þá einhver von um að finna mannabyggð. Þeir komu flekanum á flot og fleyttu honum yfir dýpstu álana milli þess sem þeir óðu. Þeir náðu landi og héldu áfram ferð sinni aðframkomnir af kulda. Það voru liðnir tíu dagar frá strandinu og veðurhamurinn verið stanslaus þá daga. Þessa nótt var mikið frost. Þeir fundu bátsflak sem skýldi þeim fyrir vindi en frostið beit sem fyrr og enginn möguleiki að þurrka föt eða ylja sér á annan hátt.

Tíu dögum eftir strandið komu þeir til bæja

Morguninn eftir héldu þeir í þá átt sem reiðmaðurinn hafði farið og 30. janúar náðu þeir að bænum Orrustustöðum á Brunasandi. Var strax reynt að hlúa að mönnunum. Sent var eftir sýslumanninum á Kirkjubæjarklaustri ásamt lækninum á Breiðabólsstað. Þegar læknirinn kom að Orrustustöðum voru kalnir fætur mannanna að mestu þiðnaðir og gat læknirninn fljótlega gert sér grein fyrir ástandinu.

Fjórir heilir, fimm kalnir

Læknirinn úrskurðaði að fjórir menn væru nánast óskemmdir en fimm mjög illa farnir af kali og þá sérstaklega tveir þeirra. Næsta morgun fóru fjórir skipverjanna á hestum að Kirkjubæjarklaustri. Þrír voru fluttir á læknissetrið á Breiðabólsstað. Tekið er fram í frásögnum að þeir hafi verið fluttir á sleða á milli bæjanna. Furða menn sig á því að tekið er fram að þeir hafi legið í járnrúmum á sleðanum. Hvaðan komu járnrúm í Skaftafellssýslu á þessum tíma? Líklegast er að þau hafi komið þegar spítalaskipið St. Paul strandaði á Meðallandsfjörum fáum árum áður. Þá má sjá á uppboðsskrá að 20 járnrúm voru boðin upp og þau keyptu séra Magnús á Prestbakka og Vigfús á Geirlandi. Er líklegt að hér hafi þessi rúm verið orðin hvíla þýskra strandmanna. Tveir mannanna gistu áfram á Orrustustöðum en fóru seinna að Breiðabólsstað.

Riðu til Reykjavíkur 5. febrúar 

Mennirnir fjórir sem best voru á sig komnir riðu til Reykjavíkur 5. febrúar ásamt fylgdarmönnum sem voru Lárus Helgason, Sigurður Pétursson og Eiríkur Steingrímsson. Er með ólíkindum að þessir fjórir hafi verið svo heilir, eftir 11 daga hrakninga í vetrarveðri, matarlausir, blautir og skjóllausir allan tímann, að ekkert amaði að þeim. Þeirra á meðal var skipstjórinn sem af frásögnum að dæma átti stærstan þátt í því að mennirnir lifðu þessa hrakninga af með því að telja í þá kjarkinn og loks að útbúa flekann sem varð þeim lífsbjörg. Var í þessari ferð reynt að safna lyfjum og umbúðum til að sinna þeim fimm sem urðu eftir.

Tveir jarðaðir í Prestbakkakirkjugarði, einn fannst ekki

Sýslumaður sendi vana vatnamenn að kanna strandstaðinn og leita að líkum þeirra tveggja sem létust og svipast um eftir þeim sem hvarf. Var skipið sokkið og sandkafið og engin tök á að bjarga nokkru úr því. Það sem rak á land úr skipinu var lítið og einskis virði. Kom þetta heim og saman við frásögn skipstjórans sem taldi enga möguleika á að bjarga skipinu eða neinu sem í því var. Lík mannanna tveggja sem höfðu látist á leiðinni fundust í mars og voru þeir jarðsettir í Prestbakkakirkjugarði. Maðurinn sem hvarf fannst aldrei.

Guðlaugur, sýslumaður á Klaustri er með könnuna fyrir miðri mynd. Séra Sveinn í Ásum er með hatt og kaffibolla aftast á myndinni. Sýslumaðurinn og prestarnir urðu að aðstoða við aðgerðirnar. (Ljósm. EG)
Aðgerðirnar fóru fram á stofuborðinu á Breiðabólsstað. Þetta er húsið sem var læknissetrið á Breiðabólsstað á Síðu og stóð til 1962. Húsið sem var 1903 var hluti af þessu húsi en byggt var við það. (Eig. GR)

Lækningaafrek á Breiðabólsstað á Síðu

Bjarni Jensson var læknir á Breiðabólstað á Síðu og hefur fljótlega gert sér grein fyrir að mennirnir yrðu ekki læknaðir nema með því að taka af kalna limi. Hann bað sýslumanninn um að kallaður yrði til læknir frá Borgum í Hornafirði, Þorgrímur Þórðarson. Þorgrímur var þekktur fyrir hæfni sína við að aflima menn. Var hann fenginn til verksins, þrátt fyrir að það tæki Þorgrím sex daga að komast frá Hornafirði að Breiðabólsstað en á þeirri leið eru mörg erfiðstu vatnsföll landsins. Þegar Þorgrímur var mættur að Breiðabólstað virðist hann taka við stjórninni. Hann sendir bréf til Guðlaugs Guðmundssonar, sýslumannsins á Kirkjubæjarklaustri og vill að séra Sveinn Eiríksson í Ásum komi og aðstoði við aðgerðirnar en hann hafði áður aðstoðað við aflimun. Séra Magnús Bjarnarson á Prestbakka var líka kominn til hjálpar og Þorgrímur krefst þess að sýslumaður sjálfur aðstoði, ella verði ekkert gert. Sjúklingarnir voru logandi hræddir. Þeir kröfðust þess af sýslumanni að hann gæfi út yfirlýsingu um að óhætt væri að treysta læknunum til að aflima þá. Sýslumaðurinn var í vanda. Aðgerðir voru dýrar og hættulegar en það var enn hættulegra að flytja mennina. Hann samþykkti allt sem Þorgrímur krafðist og fullvissaði sjúklingana um að læknarnir væru fullfærir um að gera aðgerðirnar.

Höggva varð af útlimi og sárin gréru á tveimur vikum

Skurðstofan var stofan á Breiðabólsstað og aðgerðirnar fóru fram á stofuborðinu tveimur vikum eftir að mennirnir komu til byggða. Húsmóðirin, Sigríður Jónsdóttir, eiginkona Bjarna læknis, sá um að sjóða og sótthreinsa. Sjúklingarnir voru fimm. Af þeim voru teknir 8 fætur, 2 fætur fyrir neðan hné, 6 fætur við ristarlið rétt fyrir framan ökla. Fyrst var reynt að taka bara tærnar af einhverjum skipverjum, það dugði ekki og taka varð fótinn af við ökla. Þegar taka þurfti tvo fætur af sama manni leið vika á milli. Eftir aðgerðirnar þurfti að búa um sárin og hreinsa þau í nokkrar vikur. Það er ótrúlegt, en í öllum heimildum er því haldið fram, að flest sárin hafi gróið á tveimur vikum. Það hefur verið vandasamt verk að annast mennina fyrir og eftir aðgerð. Ljósmóðirin, Guðríður Jónsdóttir, var hjúkrunarkona allan tímann sem mennirnir voru undir læknishendi.[2] Kemur fram á reikningi að það hafi verið greitt fyrir hjúkrunarkonu í samtals 85 daga sem hafi skipt 20 sinnum um umbúðir á þessum 5 mönnum.

Guðríður ljósmóðir, Anna María og Helgi Jensson, barnabarn læknishjónanna standa við húsvegginn. (Eig. SSk)
Sigríður Jónsdóttir og Bjarni Jensson, læknir á Breiðabólsstað á Síðu. (Eig. Skógasafn)

Smitgát var með ágætum og sérsmíðuð ístöð

Læknishjónin á Breiðabólsstað leggja allt undir og líf þeirra hefur snúist um að bjarga mönnunum og létta þeim kvalirnar þessa rúma fjóra mánuði sem þeir dvöldu á heimilinu. Það hefur komið í hlut þeirra systranna húsfreyjunnar, Sigríðar, og ljósmóðurinnar, Guðríðar, að huga að smitgát allan tímann, sótthreinsa það sem þurfti og gæta mikils hreinlætis á heimilinu til að ekki kæmi drep í sárin. Skipbrotsmennirnir fóru ekki fyrr en í byrjun maí, þó sárin væru gróin, vegna þess að ekki var fært yfir Mýrdalssand. Þá komust fjórir þeirra til Víkur og í skip þaðan til Reykjavíkur. Hafði bóndinn á Keldunúpi, Jón Pálsson, útbúið hækjur og sérsniðin ístöð sem voru stór og fóðruð með skinni og ull. Einn skipverji varð að jafna sig betur og fór ekki fyrr en um miðjan maí til Reykjavíkur.

Silfurkross og gersemisnæla frá Þýskalandskeisara

Skipverjarnir höfðu í byrjun ekki mikla trú á þeim Bjarna og Þorgrími en það breyttist eftir aðgerðirnar, þegar þeir sáu hversu vel sárin gréru. Á þessum tíma er ekkert rætt um andlegu sárin en þess má nærri geta að það hafi setið í mönnum að berjast svona lengi úti í kuldanum, horfa á félaga sína deyja og týna einum, vitandi ekkert um hvort þeir hefðu nokkra von um að komast til byggða. En þeir lifðu af og það er í raun ótrúlegt kraftaverk. Það má því segja að þarna hafi verið mörg þrekvirki unnin, bæði af skipstjóranum, skipverjunum, læknunum, ljósmóðurinni, húsfreyjunni og heimilisfólki á Breiðabólstað á Síðu. Til heiðursviðurkenningar sæmdu þýsk yfirvöld báða læknana prússnesku arnarorðunni af 4. gráðu og Guðríði ljósmóður brjóstnælu.  [3] Nælan sem Guðríður fékk var eins og kóróna í laginu, afskaplega falleg, hafa margir furðað sig á að Sigríður húsmóðirin hafi ekki fengið verðlaun líka. Sr. Magnús og Sr. Sveinn Eiríksson fengu silfurkross sem má sjá til hægri  á myndinni af Magnúsi. (Þessi mynd af Magnúsi kom frá Ingibjörgu Hermannsdóttur, barnabarni Magnúsar.) Hefur fólkið verið vel að þessum verðlaunum komið.

[1] Kristinn Helgason. 2001. Dynskógum 8. Útg. Vestur-Skaftafellssýsla, Vík. Bls. 19-41.

[2] Þórarinn Helgason. 1957. Lárus á Klaustri. Bókaútgáfa Guðjóns Ó Guðjónssonar. Rv. s. 330

[3] Bjarni Jensson og Sigríður Jónsdóttir, læknishjón á Breiðabólsstað á Síður og í Reykjavík. 150 ára minning. Bjarni Bragi Jónsson skráði og gaf út 2007.

[4] Steinar J. Lúðvíksson. 1980. Þrautgóðir á raunastund. XII. bindi. Bókaútgáfan Hraundrangi – Örn og Örlygur hf.