Skip to main content
KirkjubæjarklausturSíða og Fljótshverfisögur

Grímsvatnagosið 2011

By January 15, 2020March 27th, 2020No Comments

Laugardagurinn 21. maí 2011 var bjartur og fagur. Hlýtt var í veðri, lambfé á öllum túnum, náttúran komin í græna búninginn og sumar í sinni hjá íbúum Skaftárhrepps. Fréttir af jarðskjálftum undir Vatnajökli voru svo alvanalegar að fáir kipptu sér upp við það. Skjálftum fjölgaði nærri Grímsvötnum þegar leið á daginn. Upptök flestra skjálftanna voru þrjá til fjóra kílómetra suðvestur af skálanum á Grímsfjalli. Óróinn náði hámarki korter fyrir sjö og þá fljótlega sáust gufustrókur stíga upp af jöklinum.

Eldgos var hafið. Gosið var mjög öflugt fyrsta sólarhringinn. Nettur gufustrókurinn varð kolsvartur og fljótlega dimmdi yfir þannig að bjarta vornóttina sá ekki á milli húsa fyrir öskumekki. Gosmökkur fór í byrjun upp í allt að 20-25 kílómetra hæð. Askan lagðist yfir sveitirnar frá Vatnajökli að Mýrdalssandi.

Árið 2018 var gerð 12 mínútna mynd þar sem rifjuð eru upp eldgos í Skaftárhreppi. Nemendur Kirkjubæjarskóla tóku viðtöl við fólk sem upplifði Grímsvatnagosið eða kunni sögur af Kötlugosum. Myndin fékk titilinn að Að upplifa eldgos og er aðgengileg á vefnum Katla100.is þar sem er fleira efni tengt eldgosum í eldsveitunum.

Efri þrjár myndirnar sýna hvernig askan nálgaðist Klaustur milli 20:00 og 22:00 að kvöldi 21. maí. Um miðnætti var aldimmt og sá ekki á milli húsa. 
Neðri þrjár myndirnar eru teknar klukkan átta um morgunn, 22. maí 2011. Ekki var nokkur leið að finna fé á túninu fyrr en ljós bílsins lýstu í augu ánna. Allir voru með grímu og gleraugu og þegar inn var komið var allt grátt, bæði hár og andlit. 

Að morgni sunnudags vöknuðu menn í myrkri. Ekkert sást út um gluggana, aska hafði smogið inn með hurðum og gluggum og loftið var þungt. Allir sem þurftu að fara út urðu að vera með grímur og gleraugu. Aðeins létti öskufallinu um miðjan dag á sunnudag en jókst aftur þannig að það var lítið hægt að gera. Sumir bændur reyndu að ná inn lambfé en aðrir töldu tryggast að hafa féð úti. Reyna að styggja það ekki, til að koma í veg fyrir að það færi sér að voða við ár og læki, því kindurnar voru sáu lítið vegna öskunnar. Ekki var hægt að keyra þjóðveginn því askan þyrlaðist upp og byrgði mönnum sýn.

Fyrsta sólarhringinn sem askan féll var logn. Algjört dauðalogn. Askan lá á grasi, laufum og greinum í margar klukkustundir. Allt landið var þakið sama brúna litnum. Annað sem vakti athygli var þögnin. Það heyrðist ekki tíst í fugli. Það var eins og fuglarnir hefðu gufað upp. Hvergi sá fugl á flugi og þannig var það næstu daga.

Myndirnar hér fyrir ofan sýna hvernig allt breyttist við það að askan fauk burt. Þetta var ótrúleg upplifun. Allt var brúnt eina stundina og stuttu síðar koma græni liturinn aftur, sólin og blár himinn. Rétt eins og ekkert hefði gerst.

Gosið hætti sjö dögum eftir að það hófst. Öskufallið var minna eftir því sem dagarnir liðu og síðan dró úr gosvirkninni og um kl 02.00 aðfaranótt 25. maí mældist gosmökkur síðast á radar og á sama tíma snöggminnkaði gosóróinn. Gosóróinn fór síðan verulega minnkandi þann 26. maí og hætti að mælast á jarðskjálftastöðvum um kl. 07 þann 28. maí. Þar með var gosinu lokið. Gosið stóð aðeins í viku og var öllum létt þegar því var lokið.

Aska var allnokkur í byggð og mjög mikil á Vatnajökli. Skaftfellingar tóku fram kústa og ryksugur og þrifu ösku úr híbýlum sínum, útihúsum, bílum og dráttarvélum. Alls staðar var aska. Þetta var mikil vinna og fjöldi fólks kom austur að hjálpa til. Munaði þar mikið um sjö slökkviliðsbíla sem fóru bæ af bæ og þvoðu húsin með vatni. Viku eftir gosið voru öll hús glansandi hrein að utan sem innan og var þá djarfara upplitið á öllum. Eftir gosið var nokkur rigning og veður gott svo askan truflaði mannlífið ekki mikið.

Allt var smúlað (og svo þurfti að smúla aftur og aftur allt sumarið) og öskunni var mokað af tjaldstæðinu í hjólbörum. Fjölskyldan sem kom í helgarheimsókn á Kirkjubæjarklaustur bjó sig til brottfarar á mánudeginum þegar rofaði til, vel búin grímum og vasaljósi.
Það var allsstaðar aska, bæði inni og úti. Lækjarfarvegurinn við Núpsstað var fullur af ösku og í hrauninu í Fljótshverfinu mátti sjá öskuskafla langt fram eftir sumri.

Á hvítasunnudag 12. júní var sól og norðanátt og þegar líða tók að kvöldi sáust svört ský í austri. Það var allnokkurt áfall fyrir alla sem horfðu á öskuna koma í svörtum flókaskýjum, sem Skaftfellingar kalla morbálka. Öskuskýin nálguðust hratt og dimmdi yfir. Var öskumistur það þykkt að rétt sást á milli húsa. Askan smaug inn í hús og bíla. Ekkert var hægt að gera úti við í nærri sólarhring nema að vera búinn gleraugum og grímu. Öskumistrið var mikið í rúman sólarhring en þá birti til en næstu daga kom mistrið yfir, aftur og aftur.

Verst var ástandið í Fljótshverfinu og austan Keldunúps en lagaðist eftir því sem fjær jöklinum dró. Þegar leið á mánuðinn breyttist veðrið, það lægði og loks kom langþráð rigningin, úrhelli eins og það getur orðið mest í þessum landshluta. Loftið varð hreint og tært og allir tóku gleði sína á ný.

Næst þegar var norðanátt og þurrkur kom askan yfir byggðina á ný. Svartir morbálkar fylltu loftið. Þessir dagar urðu þó færri eftir því sem lengra leið frá gosi. Rigningin var besti vinur Skaftfellinga á þessum tíma því ef askan var blaut fauk hún ekki. Eftir því sem árin líða ber minna á öskunni, bæði í loftinu og í landinu. Hún er þó víða sjáanleg ennþá og þá sérstaklega í Fljótshverfi

Myndin fyrir ofan er tekin 12. júní 2011. Eins og sést var öskumökkurinn þykkur. Þetta gerðist aftur og aftur allt sumarið. Mikil mengun var í loftinu og hefur hún varla verið holl fyrir menn né dýr.
Myndin fyrir neðan er tekin 21. maí 2017, sex árum eftir gos. Askan er enn að fjúka ef það er norðanátt og þurrt. Eins og sést á þessum myndum er heiður himinn og bjart veður en niður við jörð er öskumistrið. Vonandi hverfur það með tíð og tíma og kosturinn við öskuna er nokkuð örugglega sá að hún er góður áburður fyrir gróður í Skaftárhreppi.

Fyrsta myndin á síðunni er frá Íbí, Ingibjörgu Eiríksdóttur sem var stödd austan Lómagnúps þegar gosið hófst en hinar myndirnar tók LM.