Warning: Uninitialized string offset 0 in /var/www/virtual/eldsveitir.is/htdocs/wp-includes/class-wp-term-query.php on line 1

Warning: Uninitialized string offset 0 in /var/www/virtual/eldsveitir.is/htdocs/wp-includes/class-wp-term-query.php on line 1

Warning: Uninitialized string offset 0 in /var/www/virtual/eldsveitir.is/htdocs/wp-includes/html-api/class-wp-html-tag-processor.php on line 1

Warning: Uninitialized string offset 0 in /var/www/virtual/eldsveitir.is/htdocs/wp-includes/html-api/class-wp-html-tag-processor.php on line 1
Prestsbakki, kirkja og prestssetur — Sögur, menning og náttúra Skip to main content
Síða og Fljótshverfisögur

Prestsbakki, kirkja og prestssetur

By January 15, 2020October 28th, 2020No Comments

Sóknarkirkja Kirkjubæjarklausturssóknar var færð frá Kirkjubæjarklaustri að Prestsbakka árið 1859 vegna sandfoksins á Klaustri. Kirkjan á Prestsbakka hefur nýlega verið endurbætt allnokkuð en er þó að flestu leyti upprunaleg. Prestsbakkakirkja er mjög falleg kirkja og stærri en flestar sveitakirkjur frá sama tíma. Kirkjan átti að verða mun hærri en hún er og kom tilsniðin að utan. Enginn veit hver teiknaði hana né hver sá um að sníða til efnið og gluggana. Jón Helgason í Seglbúðum segir það ráðgátu hver stóð fyrir að hanna og sníða til kirkjuna í Danmörku.

Málverk eftir Einar Jónsson frá 1910. Ingibjörg Hermannsdóttir gaf Kirkjubæjarstofu málverkið 2017. (Ljósm MA)

Gluggarnir enduðu í Mýrdalnum

Merkileg er saga glugga sem áttu að vera á kirkjunni. Komust þeir sjóleiðina í Mýrdal en einhverra hluta vegna tókst ekki að flytja þá alla leið austur. Liggur beinast við að halda að það hafi ekki verið framkvæmanlegt vegna þess hve þungir þeir voru og einu flutningatækin hestar sem áttu yfir mörg stórfljót að fara. Annað er að það var ekki einhugur um byggingu kirkjunnar og því hafi menn ekki sameinast um að leysa það verkefni að koma glugggunum austur eins og þeir hefðu kannski getað gert með einhverjum ráðum svo sem með því að draga þá á sleða að vetrarlagi. Gluggarnir lágu því í fjörunni í Mýrdalnum í áratugi. Tveir glugganna voru notaðir í þurrkhjall á Hvoli í Mýrdal og kunnugir tala um að menn hafa sótt sér efni í skeifur og annað í járnhaug sem lá í landi Hvols. Er mögulegt að það séu gluggarnir en þeir voru úr pottjárni. Einn glugganna, sá minnsti, náði áfangastað og prýðir framstafn kirkjunnar. Lengi voru uppi sögur um að gluggarnir í Landakirkju í Vestmannaeyjum væru þessir gluggar sem áttu að fara í Prestsbakkakirkju en Sigþór Sigurðsson hrekur þær fullyrðingar algjörlega í grein um kirkjugluggana í Prestsbakkakirkju.(1)

Mynd af kirkjunni sendi Sr. Gísli Brynjólfsson sóknarbörnunum á jólakorti þegar hann kvaddi söfnuðinn 1963. (Ljósm. GB)
Kór Kirkjubæjarklausturssóknar, gæti verið mynd frá því um 1950. (Eig. LS)

Skreytingar og munir í kirkjunni

Kirkjan var máluð innan 1910 af Einari Jónssyni málara, frá Fossi í Mýrdal. Á hundrað ára afmæli kirkjunnar máluðu Gréta og Jón Björnsson kirkjuna og létu þau veggskreytingar Einars halda sér, en Gréta skreytti þá prédikunastólinn með táknmyndum guðspjallamannanna. (2) Ríkharður Jónsson myndhöggvari gerði skírnarsáinn en á honum eru fjórar myndir sem allar sýna atburði tengda Eldmessunni. Steindir gluggar í kór eru eftir Leif Breiðfjörð myndlistarmann.

Altaristaflan er eftir Anker Lund og kom í kirkjuna 1902. Önnur gömul altaristafla er í kórnum. Hún er eftir Lucie Marie Ingemann og kom frá Sórey í Danmörku. Þykir nokkuð víst að hún hafi komið með sama skipi og gluggarnir í kirkjuna. Sr. Sigurjón Einarsson og Jóna Þorsteinsdóttir leituðu sögu og uppruna þessarar litlu altaristöflu sem prýðir kirkjuna. Hver var þessi? Þau fundu út að Lucie Marie var listakona sem bjó í Sórey, litlum bæ á Sjálandi rétt fyrir utan Kaupmannahöfn. Hún málaði margar altaristöflur í danskar kirkjur, eina töflu gaf hún til Færeyja, aðra til Grænlands og þessa til Íslands. Áletrun á töflunni er á íslensku Ef þér varðveitið mín boðorð þá blífeð þér í minni ástsemd. Vitað er að Jónas Hallgrímsson var mikill vinur eiginmanns Lucie Marie. Hann hét B.E. Ingemann og var þekkt skáld í Danmörku. Frá Jónasi, eða öðrum Íslendingi, gæti hún hafa fengið íslenska textann. Enga skýringu fundu þau Sigurjón og Jóna á því hvers vegna Prestbakkakirku var gefin altaristaflan. (3)

Bókasafn í kirkjunni

Lestrarfélag Hörgslands- og Kirkjubæjarhrepps var uppi á loftinu í Prestsbakkakirkju frá því það var stofnað 1904 og var það organistinn Elías Bjarnason sem sá um útlánin og utanumhaldið um bækurnar.

Prestssetur 

Sr. Jón Steingrímsson bjó á Prestsbakka þegar hann var prestur hér í Skaftáreldunum en þar hefur sennilega verið prestsetur frá því fyrir 1600. Hefur það þá fengið nafnið Prestsbakki en áður hét bærinn Bakki og var í eigu klaustursins. (4) Ekki hefur þó öll árin verið prestur á Prestbakka því sumir prestanna bjuggu í Hörgsdal og aðrir á Hörgslandi.

Prestsbakki var prestsetur allt þar til að séra Magnús Bjarnarson prófastur hætti prestsskap vegna aldurs og fluttist burt árið 1931. Næstu árin bjuggu prestarnir hjá Lárusi Helgasyni og Elínu Sigurðardóttur á Klaustri og einhver ár var prestslaust. Vildi Lárus endilega reisa prestssetur á Klaustri og gekk í það mál. Samþykkti ráðuneytið að byggja prestsbústað á Klaustri og hefur þar verið prestsetur Kirkjubæjarklausturssóknar síðan.

Á myndinni hér til hægri er Sr. Magnús sem var prestur á Prestsbakka frá 1896 til 1931 eða 35 ár. (Ljósm. Kaldal)

Tónlistarmaður og heimshornaflakkari, Ingólfur Guðbrandsson

Prestsbakki var laus til ábúðar eftir að prófasturinn fór og þá fluttu þangað ung hjón með son sinn, Ingólf Guðbrandsson. Ingólfur þessi er nú flestum kunnur fyrir að vera stjórnandi Pólýfonkórsins og fararstjóri um heiminn, stofnandi ferðaskrifstofunnar Útsýnar og áhrifamikill maður í menningarlífinu á Íslandi og síðast en ekki síst, faðir og afi ótrúlega margra tónlistarmanna.

Kirkjan hafði mikil áhrif á Ingólf sem barn og þá ekki síst orgelið í kirkjunni. Þar dvaldi hann löngum og þegar hann var tíu ára bað móðir hans Sigurjón í Mörk, bónda og organista, um að segja drengnum til við orgelleik. Þarna í kirkjunni hófst vegferð tónlistarmannsins. Það var ekki um það að ræða fyrir piltinn að komast á tónleika en hann drakk í sig öll tónverkin sem hann heyrði í útvarpinu og hlustaði á allt sem Páll Ísólfsson sagði um tónlistina.

Skipströndin við ströndina höfðu líka áhrif á piltinn. Flesta daga snérist metorðastiginn í sveitinni um vinnu og verkleg afköst en þegar voru skipsströnd var það kennarasonurinn Bjarni Þorláksson í Múlakoti sem skoraði hæst. Hann var afburða málamaður og gat talað við strandmennina. Bjarni kenndi Ingólfi og hinum börnunum erlend tungumál. Og það var líka þessi erlendi andi sem kom í húsið með skipsklukkunni og “biskvíinu” sem heillaði og vakti þrá unga mannsins til að skoða heiminn. Kynnast löndunum hinum megin við hafið. Og seinna verður það þetta þrennt sem stýrir vegferð hans; tónlistin, þráin til menntunar og ferðalögin. (5)

(1) Sigþór Sigurðsson. 2006. Gluggar í Prestbakkakirkju. Dynskógar 10. Vestur-skaftafellssýsla. s. 113-122

(2) Jón Helgason. Ávarp í afmæliskaffi 23. apríl 2009. óútg. varðveitt hjá höfundi

(3) Sigurjón Einarson. 2006. Frá Sórey til Síðu. Dynskógar 10. Vestur-Skaftafellssýsla. s. 145-158

(4) Loftur Guttormsson. 1999. Var sögu íslensku klaustranna lokið með siðaskiptunum? Dynskógar 7. Vestur-Skaftafellssýsla, Vík. S. 161

(5) Ingólfur Guðbrandsson. 1989. Lífsspegill. Vaka-Helgafell, Rv. s. 10-40 og 90-93