Skip to main content
Meðallandsögur

Kjarval þakkaði fyrir sig með málverkum

By January 15, 2020October 28th, 2020No Comments

Hann hreykir sér ekki hátt miðbærinn í Efri-Ey á hinni víðáttumiklu Meðallandssléttu. Þar fæddist þó sá maður sem hvað hæst hefur lyft kyndli listarinnar á Íslandi; Jóhannes Sveinsson Kjarval. (Ljósm. Willems van de Poll)

Meðallendingur úr stórum systkinahópi

Jóhannes Sveinsson var fæddur árið 1885 og lifði til 1972. Hann var níundi í röð þrettán systkina. Foreldrar hans voru hjónin Sveinn Ingimundarson og Karítas Þorsteinsdóttir, bæði fædd og uppalin í Meðallandi. Sveinn fæddist að Feðgum 1843 en Karítas að Króki árið 1852. Þau Sveinn og Karítas voru fátæk enda jarðnæðið lítið. Hann var skotmaður hinn mesti og aflaði fanga með byssu sinni. Karítas var stór kona, vel á sig komin og hin tígulegasta í framkomu. Hún var dugleg, aðsópsmikil og smekkvís í verkum. Munu þau hafa átt heima í Efri-Ey í 27 ár en fluttu 1899 á Suðurnes. Voru þá öll börnin fyrir nokkru fædd.[1]

Í Efri-Ey sleit Kjarval barnsskónum

Í Meðallandinu sá hið listræna auga hans fyrstu ljósgeislana og þar lék hann sér með eldri systkinum sínum og börnum úr nágrenninu. Leikföngin voru meðal annars kögglar, sem tákna áttu ær og lömb. Þegar hin börnin brenndu kögglana í kertaljósi til þess að gera fénað sinn flekkóttan, málaði Kjarval sína köggla.

Kjarval ólst upp á Borgarfirði eystra

Skömm varð þó dvöl Jóhannesar Sveinssonar í Meðallandi. Fjögurra vetra gamall fór hann í fóstur austur á Borgarfjörð eystra. Frænka hans, Þórunn Jóhannesdóttir, fylgdi honum alla leið og sat drengurinn ýmist hjá henni á hestinum eða hann var bundinn fastur á annan hest. Þegar austur kom tók önnur frænka ástfóstri við drenginn. Hún hét Margrét og var líka dóttir fósturforeldranna; Jóhannesar Jónssonar og Guðbjargar Gissurardóttur konu hans. Fósturfaðirinn Jóhannes var móðurbróðir Jóhannesar Kjarvals. Á Borgarfirði var Jóhannes fram yfir fermingaraldur, mannaðist vel, vann öll hefðbundin sveitastörf og málaði látlaust í tómstundum. Þótti það merki um undarlegheit hans að hann var:

…alltaf að föndra og dutla við að teikna.

En það kom sér vel að frænkur hans, Jóhannesardætur voru skilningsríkar gagnvart þessari áráttu, og hann var ekki gamall þegar þær útveguðu honum ullarbandsliti til að mála. Þá var pappír dýrmæti, blýantur mikið þing. En einhvernveginn tókst honum að ná sér í þetta og brátt fór orð af kunnáttu drengsins. Fólk sem var að taka sig upp og fara til Ameríku fékk hann til að teikna bæinn sinn; einu sinni seldi hann mynd fyrir stórfé, krónur tvær. En löngum lá hann á kálgarðsveggnum og teiknaði forkostulegar skútur sem slæddust inn á fjörðinn.[2]

Jóhannes hugsaði vel um frænkur sínar  í ellinni og sennilega hafa þær átt nokkurn þátt í því að móta unga listamanninn. Þær hafa skilið þrá Jóhannesar til listarinnar og ýtt undir áhugann frekar en draga úr honum og hvetja til „vinnu“ eins og umhverfið allt hefur sennilega gert. Það hefði orðið mikill skaði fyrir þjóðina ef Jóhannes Sveinsson hefði munstrað sig á skútu og verið þar ævina út. Þarna hefðu Íslendingar líka getað misst góðan mann til Ameríku en þá leið völdu nokkur systkina hans og mjög margir Austfirðingar.

Árið 1901 þegar Jóhannes var 16 ára fór hann með farþegaskipinu Hólum til Reykjavíkur. Foreldrar hans komu um borð í Keflavík en þau voru þá að flytjast búferlum til Reykjavíkur. Þau höfðu ekki séð piltinn frá því hann fór úr Meðallandinu, 12 árum áður.[3]

Jóhannes vann ýmsa vinnu næstu árin, var til dæmis á skútum en tvo vetur nærri tvítugu var hann í Flensborgarskóla þar sem hann skaraði fram úr í teikningu. Og áfram lá leiðin á listabrautinni. Þar gat hann ekkert stöðvað. Kjarval tók próf frá konunglega listaháskólanum í Kaupmannahöfn 1918. Áður en hann hleypti heimdraganum tók hann sér nafnið Kjarval en það er þekkt sem írskt konunganafn.[4] Kjarval dvaldist síðan á Ítalíu, einkum Róm og síðar í París og helgaði sig málaralistinni.

Afstaða Kjarvals til náttúrunnar var einstök.

Hann sá ýmsar myndir í klettum og björgum sem mönnum með meðalsjón voru ósýnileg. Í fjöllum og gljúfrum sá hann andlit, jafnvel andlit bændanna í grenndinni og það má þekkja þessi andlit í sumum málverka hans. Kjarval var líka mikill vinur huldufólksins. Náttúran var helgidómur í augum hans. Sagt hefur verið að Kjarval hafi opnað löndum sínum nýja náttúrusýn og kennt þeim að meta fegurð hins smáa og nálæga í náttúrunni. Úfið hraunið var í augum Íslendinga ekkert annað en hinn versti farartálmi en í málverkum Kjarvals birtist það okkur í nærmynd sem heillandi mynstur smágerðra forma og fagurra litbrigða.

Kjarval var brautryðjandi í listsnauðu landi

Mikilvægi Kjarvals í íslenskri myndlistarsögu er ótvírætt og Halldór Laxness, sem var 18 árum yngri en Kjarval, tekur svo sterkt til orða þegar hann segir:

Verk Kjarvals samanlagt er alt merkilegt af þeim orsökum að hann er ekki aðeins mikill listamaður þar sem hann ber hæst, heldur er hann umfram alt brautryðjandi og landnámsmaður. Í listsnaðu landi eins og hér var framá hans fullorðinsár er jafnvel smávægileg gjöf slíks manns nokkur viðburður. [5]

Listasafn Reykjavíkur varðveitir verk Kjarvals á Kjarvalsstöðum í Reykjavík og það má skoða ljósmyndir af verkunum á vef safnsins.

Tvær ljóðabækur eru til eftir Kjarval og eru ljóðin líkari því sem menn eru að semja í dag en því sem samtímamenn hans voru að senda frá sér.

Kjarval vildi varðveita gamla fjósið á Klaustri en fékk engu ráðið. Það var rifið 1944. 
Kjarval málaði þessa mynd af gamla fjósinu til að það varðveittist að einhverju leyti. Málverkið var gjöf til Kirkjubbæjarstofu frá Guðmundi Jónssyni en faðir hans Jón Þorsteinsson, íþróttakennari, átti verkið. 

Kjarval málaði í Eldsveitunum.

Ævi og listamannsferill Kjarvals verður ekki rakinn nánar hér en þó er við hæfi að geta þess tíma er hann dvaldi í nágrenni fæðingarsveitar sinnar, Meðallandsins,  og gerði skaftfellskt landslag ódauðlegt í list sinni. Á fimmta áratug síðustu aldar kom hann austur að Kirkjubæjarklaustri á hverju sumri og málaði af miklu kappi. Hann hafði vinnustofu í gamla barnaskólanum á Klaustri og var auðfúsugestur því hann var mikill og góður vinur margra á Klaustri og í sveitunum í kring. Heimamenn töldu það ekki eftir sér að aka honum með liti og hafurtask út í náttúruna þar sem hann reisti trönur sínar. Hann sóttist eftir að mála austur í Fljótshverfi þar sem hinn stórbrotni fjallahringur, tign Lómagnúpsins og birta jöklanna seiddu hann til sín. Dvöl Kjarvals eystra er fólki mjög minnisstæð og hægt er að rekja slóð hans, því að alls staðar, þar sem hann naut gistingar og gestrisni skildi hann eftir málverk og borgaði þannig greiðann með list sinni.

Það voru margir krakkar á Klaustri en enginn fékk að vera á vinnustofunni hjá Kjarval nema Erró. Einu skiptin sem hinir krakkarnir fengu að koma inn á vinnustofuna var þegar Kjarval málaði myndir af þeim. (Eig. EAV)
Vinnustofan var í barnaskólanum sem er lengst til hægri á stærri myndinni. Erró ólst upp í húsinu við hliðina og fékk pensla og málningu þegar Kjarval fór suður. (Eig. AL)

Kjarvalssýning á Klaustri. Árið 1974 voru 1100 ár liðin frá upphafi norrænnar byggðar í landinu og víða var þess minnst með hátíðarhöldum. Einn þáttur hátíðarhaldanna í Vestur-Skaftafellssýslu var Kjarvalssýning í Kirkjubæjarskóla á Kirkjubæjarklaustri. Þar voru sýndar myndir Kjarvals sem til voru á heimilum í Skaftárhreppi, 45 talsins. Margar þessara mynda hafði Kjarval gefið fólkinu sem lánaði þær á sýninguna. Sýningin var fjölsótt og vakti það undrun og aðdáun sýningargesta hvílíkan fjársjóð var að finna hér í þessu fámenna byggðarlagi.[6]

Göngubrú yfir Skaftá. Kjarval bar hag þessarar sveitar fyrir brjósti og vildi vinna að ýmsum umbótum. Til dæmis teiknaði hann göngubrú yfir Skaftá beint suður af gamla bænum. Hann taldi að fegurðin á Klaustri nyti sín best sunnan árinnar. Þessi teikning er nú glötuð en hún var í eigu Jóns Björnssonar á Klaustri. Einnig talaði hann mikið um að það ætti að gera flugvöll og fljúga á Klaustur því ferðalög yfir jökulvötnin væru slíkt hættuspil.[7]

Andlitsmynd af Kjarval prýðir 2000 króna seðilinn.
Kjarval dvaldi löngum stundum í Fljótshverfi og málaði margar myndir af Lómagnúpi. Oft dvaldi hann þá í Kálfafellskoti hjá Jakob og Rósu og ef ekki var veður til vera úti átti hann það til að sitja við þennan glugga og mála Lómagnúpinn. (Ljósm. LM)

Giovanni Efri-Ey. Jóhannes Sveinsson Kjarval var mikill Skaftfellingur þótt hann færi ungur úr héraðinu austur á land. Hann talaði oft um systkini sín og frændfólk og þótti mikið vænt um Meðallandið. Hann kallaði sjálfan sig “fráfærulamb” og að þess lags lömb verði harðgert fé. Er ómögulegt að segja til um hvernig honum leið yfir að vera tekinn svo ungur frá sínu fólki og fluttur burt. Einhverjar taugar hefur hann borið til litla bæjarins í Meðallandinu því þegar hann skrifaði texta átti hann til að kvitta undir með nafninu Giovanni Efri-Ey. [8] Hann hafði oft orð á að mála í Meðallandi þegar hann dvaldi á Klaustri. Einhverju sinni á björtum degi þegar fjallasýn var mikil var honum ekið að Efri-Ey. Þegar hann kom aftur um kvöldið sagði hann „að fegurðin til fjalla væri slík í Meðallandinu að hún yrði ekki máluð“. [9]

Kjarval málar

Kjarval fór að mála stóra mynd

mörgum fannst það vera skömm og synd

að hann skyldi mála mosa og grjót.

Myndin fannst þeim ljót.

 

Síðan liðu ótal ár

öllum fór að þykja hann klár.

Enginn kvartar lengur hætishót

við horfum uppi í sveit á mosa og grjót.

 

Enginn heyrist segja: Þvílík synd!

Við segjum: Fallegt eins og Kjarvalsmynd.

Þórarinn Eldjárn

[1] Eyjólfur Eyjólfsson. 1985. „Hann málaði kögglana.“ Dynskógar 3. Vestur-Skaftafellssýslu, Vík. s.7 -9 (Þessi grein birtist í sýningarskrá á Kjarvalssýningu í Kirkjubæjraskóla árið 1974)

[2] Thor Vilhjálmsson. 1964. Kjarval. Helgafell, Rv. S. 20

[3] Thor Vilhjálmsson. 1964. Kjarval. Helgafell, Rv. S. 28

[4] Kristín G. Guðnadóttir, Gylfi Gíslason, Arthur C. Danto, Matthías Johannessen, Silja Aðalsteinsdóttir, Eiríkur Þorláksson. 2005. Kjarval. Nesútgáfan, Rv. s. 33-34

[5] Halldór Kiljan Laxness. 1950. Jóhannes Sveinsson Kjarval, inngangsorð eftir HKL. Helgafell, Rv. S. 26

[6] Sigurjón Einarsson. 1985. “Jóhannes S Kjarval í sveitunum milli sanda.” Dynskógar 3. Vestur-Skaftafellssýslu, Vík s. 15

[7] Sigurjón Einarsson. 1985. Jóhannes Sveinsson í sveitunum milli sanda. Dynskógar 3. Vestur-Skaftafellssýsla, Vík s. 19

[8] Björgvin Salómonsson. 1985. “Jóhannes S. Kjarval og Hallur L. Hallsson, heimildabrot um ævilanga vináttu.” Dynskógar 3, Vestur-Skaftafellssýsla. s. 58-60

[9] Sigurjón Einarsson. 1985. Jóhannes Sveinsson í sveitunum milli sanda. Dynskógar 3. Vestur-Skaftafellssýsla, Vík s. 33

Þórarinn Eldjárn. 2001. Grannmeti og átvextir. Vaka-Helgafell, Rv. S. 60