Skip to main content
Meðalland

Sandstormur í Meðallandi

By April 6, 2020October 11th, 2023No Comments

Sandurinn við Suðurströndina herjaði á byggðina í Meðallandi. Um 1700 voru fengnir menn til að meta eignir Klaustursins á Kirkjubæ og þá segir að jarðirnar í Meðallandi; Slýjar, Eystri-Steinsmýri og Undirhraun hafi talist óbyggilegar með öllu sökum sandfoks og hagleysis. Ágerðist þessi ásókn sandsins enn frekar eftir Skaftárelda þegar hraun rann yfir gróið land og vatn flæmdist um, reif upp gróður og spillti landi. Einnig hefur öskufallið valdið gróðurskemmdum og þar með hefur gróðurþekjan rofnað. Mikið kuldaskeið fyrir aldamótin 1900 jók enn á gróðureyðinguna.

Harðindi og sandfok eyddu byggðinni

Árið 1882 urðu mikil þáttaskil í gróðurfari í sveitunum á milli sanda, til hins verra og þá sérstaklega í Meðallandinu. Í lok janúar það ár kom svo mikill hafís í Meðallandsbugtina að ekki sást til sjávar af sandströndinni í nokkrar vikur. Bjarndýr komu á land í sveitunum milli sanda, eitt í landi Arnardrangs og annað í landi Gamlabæjar sem var austastur af Steinsmýrarbæjunum, eitt dýr sást í Núpsstaðarskógi og annað á Brunasandi. Voru menn reyndar ekki vissir um hvort dýrin væru tvö eða þrjú. (Ekki fer sögum af afdrifum bjarndýranna). Eftir það voru mikil harðindi lengst af þann áratug.

Sandstormar færðu gróðurlendi og hvern bæinn eftir annan á kaf. Fyrstir fóru ábúendurnir í Gamlabæ, sem var á sléttlendinu vestan við Skaftárós, síðan fór hver bærinn eftir annan í eyði, flestir syðst. Sagt er að bóndinn á Grímsstöðum, býli sem var sunnan Lynga, hafi borið baðstofuþilið á bakinu til að setja í tóft sem hann hlóð á landi nágranna síns til að fá eitthvert húsaskjól. Þegar komið var fram til 1890 hafði íbúum í Meðallandinu fækkað um fjórðung. Eyjólfur Eyjólfsson hreppsstjóri á Hnausum telur upp jarðirnar:

Hafa þar orðið óbyggilegar þessar jarðir: Grímsstaðir (8 býli), Oddar (síðast 2 býli), Eystri Lyngar (1-2 býli), Slýjar (2 býli), Skurðbær eða Ós (3 býli), Klauf og Gamli Bær, en fyrir löngu Skarð með hjáleigum sínum, Strandaholt og Selkrókur o. fl. [1]

Enginn þessara bæja hefur byggst aftur og erfitt að sjá hvar þeir stóðu. Sandurinn var ógurlegur skaðvaldur. Sandskaflarnir lögðust yfir gróið land og drápu allan gróður, fólk gat varla hafst við úti ef var hvasst og sandurinn smaug inn um allar rifur. Iðulega þurfti að moka frá húsunum til að geta gengið um útidyr.

Girðingar, varnargarðar og áveitur til að hefta sandfokið

Eftir aldamótin 1900 var farið að huga að því að stöðva sandfokið. Fyrsta sandgræðslugirðingin í Meðallandi var girt í landi Hnausa árið 1927 og melnum þannig hlíft við beit búfjár. Höfðu þessar aðgerðir mikil áhrif. Greinilegt er að ofbeit hefur verið stór þáttur í því hvernig melurinn hopaði og landið blés upp. Kindurnar bókstaflega tættu upp melinn, nöguðu ræturnar og drápu þannig plöntuna. Um leið og landið var friðað óx melurinn og græddi svæðið upp. Áveitur voru lagðar til að veita vatni á sandsvæðin og eftir 1950 var ræst fram allnokkuð af mýrum til að auka beitarland. Einnig voru gerðir varnargarðar sem hindruðu að Kúðafljótið færi yfir Meðallandið eins og það hafði gert árum saman.

Sandstormur í sjö daga eyðir byggð á Leiðvelli

Síðasta stóra áfallið í Meðallandinu var ofsarok sem hélst í heila viku vorið 1944. Sandurinn fauk yfir byggðina. Háflóð var og sjórinn gekk langt inn í landið. Eftir að veðrinu slotaði kom í ljós að sandur hafði fokið í skafla við bæinn Leiðvöll, túnin voru undir sandi, djúpur brunnur hafði fyllst svo ekkert drykkjarvatn var að hafa. Féð hafði flest bjargast því það hafði verið í skjóli í hraununum fyrir norðan bæinn. Fólkið hafði lítið getað farið út í sjö daga og þegar storminum linnti sá fjölskyldan á Leiðvelli sér ekki annað fært en að taka saman föggur sínar og flytjast búferlum. Rústir bæjarins á Leiðvelli eru augljósar ef gengið er frá veginum, í austur, yfir túnið. Reisulegur bærinn á þessu fallega bæjarstæði og forna þingstað var algjörlega óbyggilegur næstu árin því sandurinn fauk um bæjarhlaðið í mörg ár.

Feðgar fóru í eyði 1945

Bærinn Feðgar sem stóð á bakka Eldvatnsins vestan Hnausa varð einnig illa úti í þessu fárviðri. Þar þraukuðu ábúendur í eitt ár en fóru þá í burtu með allt sitt. Jörðin Feðgar hafði verið byggð upp um 1830. Þar eru miklar rústir og átakanlegt að hugsa til þess að fólkið hafi þurft að yfirgefa jörð sína vegna þessara náttúruhamfara. Feðgar eru nú fjarri vegi og fáir sem þar koma en þar lá þjóðleiðin þegar farið var úr Álftaveri yfir Kúðafljótið hjá Söndum og yfir Eldvatnið hjá Feðgum. Eftir að komið var yfir Eldvatnið var fylgt hraunbrúninni að Steinsmýri og þaðan í norður upp Landbrotið. Þeir sem vilja skoða rústir bæjarins geta auðveldlega að komist að bæjarstæðinu í gegnum landgræðslugirðinguna eða með því að ganga frá Hnausum vestur með Eldvatninu. Bæjarnafnið Feðgar er dregið af tveimur skerjum við Eldvatnið.

Uppgræðslan hefur tekist vel

Meðallandið er í dag gróið svæði þar sem erfitt að ímynda sér sandfokið sem þarna var. Sandgræðslan og bændurnir tóku höndum saman, girtu og sáðu mel.  Arnór Sigurjónsson skrifar grein í Sandgræðslubókina þar sem hann lofar melinn og mikilvægi hans við uppgræðslu örfoka lands, sérstaklega þar sem sandur hefur lagst yfir landið eins og raunin var í Meðallandinu. Arnór lýsir því er hann kemur að Leiðvelli 1956:Þvílíka kornstangamóðu hef ég ekki séð annars staðar, þvílíka breiðfylkingu melsins gegn auðn sandsins! Fyrir 12 árum, eftir að hið forna höfuðból Leiðvöllur var bókstaflega kafnað í sandi, ̶ bærinn, peningshúsin, túnið, engjarnar, hagarnir, allt sandkafnað, ̶ hafði landareignin öll verið friðuð, til þess að melurinn fengi óáreittur af öðrum, en einn, að berjast við sandinn. Og þessi var árangurinn: Háar breiðar melaöldur um allt túnið og langt út í hraun með blöðku, sem var þrútin af lífsorku, og háu, þéttu og þungu axi, sem sterkleg stöngin fékk trauðlega borið. [2]

Kennslustofa í landgræðslu

Meðallandið í dag er allt vel gróið. Melurinn sést á kollum niður við ströndina en gróður er annars fjölbreyttur og gras hefur tekið við af melnum. Svæðið allt er eins og kennslustofa í landgræðslu. Á bænum Sandhóli hefur verið byggt upp stórbýli þar sem er ræktað bygg, hafrar og repja. Repjuolía, bygg og hafrar frá Sandhóli eru til sölu matvöruverslunum.  Einnig er á Sandhólis eitt stærsta og tæknilegasta  gripahús á Íslandi  þar sem verða um 200 naut til kjötframleiðslu. Meðallandið er ein syðstu sveita landsins og þar er hlýrra og sumarið lengra en víðast annarsstaðar. Það er spennandi að sjá hvernig byggðin á eftir að þróast. Kannski er þarna að verða til matarkista framtíðarinnar.

 

[1] Eyjólfur Eyjólfsson. 1930. Meðalland. Vestur-Skaftafellssýsla og íbúar hennar. Kornið forlag, Rv. s. 126

[2] Arnór Sigurjónsson. 1958. Melgrasskúfurinn harði. Sandgræðslan. Búnaðarfélag Íslands og Sandgræðsla ríkisins, Rv. S. 99