Gullmolinn er umhverfislistaverk sem listatvíeykið YottaZetta hefur unnið. Meðlimir YottaZetta eru Ólöf Rún Benediktsdóttir og Rán Jónsdóttir. Í verkinu Gullmolinn er markmiðið að minna á sögu vatnsaflsvirkjana á Íslandi og menninguna sem þeim tengist. Skaftfellingar byggðu í upphafi tuttugustu aldar hátt í 200 virkjanir í bæjarlækjum hingað og þangað um landið. Litlu heimavirkjanirnar viku svo fyrir stórum og öflugum vatnsaflsvirkunum í eigu ríkisins.
Gullmolinn er inntakshús fyrir heimavirkjun. Verkið sjálft felst í því að umbreyta inntakshúsinu á Kirkjubæjarklaustursvirkjun með því að mála það glóandi gyllt. Virkjunin er í rekstri og rennur stöðugt vatn inn í inntakshúsið og steypist niður í tilkomumiklum svelg inni í húsinu. Með því að mála inntakshúsið gyllt vakna hugrenningartengsl við hversu mikill fengur var í einni svona lítilli virkjun sem veittil ljós og yl án sótsins og stybbunnar sem fylgdi lýsislömpum og olíukyndingu. Það er þó ekki laust við að Gullmolinn minni áhorfandann líka á gullæðið sem stundum einkennir málflutning virkjanasinna, sem ræða uppistöðulón og risavaxna ruðninga á náttúruperlum með gullglampa í augum.
Þó svo að inntakshúsið sé manngert, er það fyrir löngu orðið hluti af landslagi heiðarinnar, en það hefur mætt göngugörpum sem klífa fjallið síðan virkjunin var byggð í kringum 1940. Börn sem alast upp á Kirkjubæjarklaustri hafa ekki hugmynd um að Systravatnið sem þau þekkja er langtum stærra en það sem systurnar úr klaustrinu heimsóttu forðum daga. Vatnið og fossinn eins og hann blasir við okkur í dag eru hluti af manngerðu landslagi þar sem gerðir voru stórir skurðir inn alla Klausturheiðina til að veita meira vatni í Systravatnið og tryggja þannig vatn til að framleiða rafmagn allt árið. Túrbínan er í húsi neðan við fjallið og sjá má rörið á göngustígnum upp á brúnina. Fallið er hátt og því mikið rafmagn sem verður til. Ólöf er alin upp á Kirkjubæjarklaustri í húsi sem enn þann dag í dag er kynt og lýst með rafmagni úr heimavirkjuninni. Hún hefur því mjög persónulega tengingu við virkjunina og landslagið hefur mótast í kringum mannvirkið.
Sérstaða verkefnisins í Íslenskri myndlist
Verkefnið Gullmolinn beinir sjónum að forvitnilegum afkima í innviðum samfélagsins: Smávirkjunum og heimarafstöðvum sem eru við það að falla í gleymsku í hinni öfgakenndu sögu rafvæðingar á Íslandi. Á síðustu öld var landið rafvætt með einkaframtaki bænda. Litlu bæjarlækjarvirkjanirnar lutu síðan í lægra haldi fyrir stórvirkjunum fyrir stóriðju og háspennulínum: hinu svokallaða “ríkisrafmagni”. Í dag er hinsvegar dæmið að snúast við og í hinni nýju umhverfis- og orkustefnu Evrópubandalagsins “Clean energy for all” er sleginn nýr tónn með áherslu á umhverfivæna orkuframleiðslu “heima í héraði” og sérstaklega skal hlúa að neytendum sem hafa ekki sterka efnahagslega stöðu. Þessi stefna á sér samnefnara í þeirri útbreiðslu virkjana sem varð á Íslandi snemma á tuttugustu öld þegar Skaftfellingarnir Bjarni í Hólmi, Svínadalsbræður og fleiri voru upp á sitt besta og byggðu túrbínur úr strandgóssi og virkjanir fyrir alla þá sem höfðu þörf fyrir. Gullmolinn er minnisvarði um þessa gullöld lítilla heimavirkjana á þessum núllpunkti virkjanavæðingar Íslands. Verkefnið á einnig fullt erindi til samfélagsins í ljósi þess að við stöndum á tímamótum í umhverfis- og orkumálum.
Í listatvíeykinu YottaZetta eru þær Ólöf og Rán, en þær voru á sama tíma í BA námi í myndlistadeild Listaháskóla Íslands.
Rán og Ólöf hófu að vinna saman árið 2015 og héldu sýningu í Anarkía Listasal í Kópavogi í byrjun árs 2016. Það var sameginlegur áhugi á iðnaðarefnivið sem að dró þær saman og í gegnum samstarfið hafa þær kannað íslenska iðnaðarrómantík og tengsl kvenna og hins rómantíska kvenleika við þann heim, sem oft koma fram sem skýrar andstæður en á öðrum stundum samræmast og samtvinnast á óvæntan hátt.
Ólöf Benediktsdóttir er alin upp á Kirkjubæjarklaustri. Hún hefur starfað sem skáld og myndlistarmaður eftir útskrift frá LHÍ. Ólöf hefur sett upp sýningar víðsvegar um land, þ.á.m í Alþýðuhúsinu á Siglufirði, í verksmiðjunni á Hjalteyri og á LUNGA á Seyðisfirði. Ólöf hefur líka ferðast um Evrópu, lesið upp eigin ljóð og kynnt sér slammljóðasenuna á vegum UNESCO, Bókmenntaborginni Reykjavík. Ólöf hefur einnig lokið hljóðtækninámi frá Tækniskóla Íslands.
Rán Jónsdóttir er með MSC gráðu í rafmagnsverkfræði er starfandi verkfræðingur og myndlistarmaður en hún tók tók MA gráðu frá myndlistardeild LHÍ í framhaldi af BA námi sínu. Auk þessa rekur Rán eigið fyrirtæki: Hálogi Distillery Reykjavík.
Aðstoðarmaður við málningarvinnuna var Lárus Siggeirsson. Hann er fæddur á Klaustri og hefur búið þar alla ævi. Lárus man eftir uppsetningu þessarar virkjunar og byggingu inntakshússins. Frásagnir af Klausturfjölskyldunni og um rafvæðingu sveitanna fyrir austan má lesa á Eldsveitir.is
Styrki til vinna þetta verk veittu: Uppbyggingarsjóður SASS, Menningarmálanefnd Skaftáhrepps, Eignarhaldsfélag Brunabótafélags Íslands. Skaftárhreppur er hluti af Katla Unesco Geopark svæði.