Skip to main content
Kirkjubæjarklaustursögur

Geysisslysið, björgun flugvélar

By October 18, 2019April 1st, 2020No Comments
Myndin hér fyrir ofan sýnir hvar búið er að draga Dakotavélin niður og búa til flugbraut fyrir hana. Blængur er fjallið fyrir ofan og Laki til hægri. Vélin hafði verið hulin snjó á jöklinum í átta mánuði. Hún var í fullkomnu lagi og var flogið til Reykjavíkur. (Ljósm. KO, eig. LS)

Eigendur Loftleiða og og sveitamenn náðu í vél upp á Vatnajökul

Einstætt afrek í sögu flugmálanna. Dakotavélinni bjargað af Vatnajökli – og flogið til Rvíkur í fyrradag.“ var fyrirsögn á forsíðu Þjóðviljans í maí 1951, átta mánuðum eftir að Geysir hrapaði á Vatnajökli með fimm manna áhöfn. Geysisslysið er mörgum Íslendingum minnisstætt? Send var flugvél til að sækja áhöfnina en sú komst ekki upp aftur og varð eftir á jöklinum, við hlið Geysis.  Björgun Dakotavélarinnar er mönnum á Síðunni hugleikin. En byrjum á byrjuninni.

Flugvélin Geysir hrapar 

Það var glatt á hjalla á veitingastaðnum í Lúxemborg 14. september 1950 þar sem áhöfn Loftleiðaflugvélarinnar Geysis sat að snæðingi áður en halda átti heim til Íslands. Þetta var sex manna áhöfn sem var á leið til Íslands með vörur og farangur fyrir bandarískt flugfélag. Áhöfnin; ein flugfreyja, tveir flugmenn, loftskeytamaður, flugvélstjóri og siglingafræðingur héldu út í vélina og flugu frá Luxemborg. Ráðgert var að lenda í Reykjavík fyrir miðnætti. Ferðin gekk vel en þegar þau nálguðust Ísland var ljóst að veðrið var verra en þau ætluðu. Það gekk illa að finna réttu leiðina, ísing settist á vængi og skrúfu vélarinnar og flugvélin hrapaði. Karlmennirnir fimm sem voru í flugstjórnarklefanum komust út úr vélinni af sjálfsdáðum en flugfreyjan var föst í rými aftan við flugstjórnarklefann?

Eftir nokkra leit í myrkrinu tókst öðrum flugmanninum að aðstoða hana við að komast út. Allir voru á lífi. Flugfreyjan var illa haldin af verkjum, annar flugmannanna var nefbrotinn, hinn flugmaðurinn var mjög særður í andliti og kraftlaus fyrstu dagana. Hinir voru vel á sig komnir. Þau voru léttklædd og kuldinn var ógurlegur. Þeim tókst að komast inn í flugvélina og koma sér þar fyrir. Þau rifu upp allan farangur og kassa í vélinni og fundu sokka, mikið af vefnaðarvöru, ullarteppi og fleira sem þau gátu notað til að skýla sér. Matur og drykkur var sáralítill. Ekki bætti heldur líðanina að það voru 18 hundar með í för. Hiti var þó frá hundunum en óhljóðin og lyktin hræðileg. Sumir voru sárir og vældu í búrum sínum, aðrir höfðu kastast út úr og voru dauðir.[1]

Hvar erum við?

Áhöfnin vissi ekki hvar hún var en hélt að hún væri á Mýrdalsjökli eða Eyjafjallajökli. Datt þeim í hug að ganga til byggða og reyna að láta vita af sér. Tveir karlmannanna fóru af stað og gengu í suður því þar töldu þeir styst niður af jöklinum. Þeir hættu þó við því færið var slæmt, þeir illa búnir og skyggni afleitt. Einnig þótti þeim slæmt að halda ekki hópinn. Fjarskiptatæki vélarinnar voru í stjórnklefanum en það var erfitt komast að þeim. Allt sem var í lestinni hafði hrúgast þar yfir. Mennirnir færðu kassa og farangur til að brjóta sér leið í flugstjórnarklefann. Þeir höfðu engin verkfæri og það var kalt og erfitt að færa til dótið. Á fjórða degi frá því að vélin hrapaði náðu þeir fjarskiptatækjunum og sendu neyðarskeyti. Það kom ekkert svar.

Einn heyrði neyðarskeytið á fjórða degi

En það var ekki alveg árangurslaust að senda neyðarskeytið því loftskeytamaður á varðskipinu Ægi heyrði í þeim. Hann heyrði veika sendingu og trúði varla sínum eigin augum þegar hann sá nafn flugvélarinnar. Fólk hafði almennt talið óhugsandi að áhöfn Geysis væri á lífi. Nú efldist hugur manna til leitar og flugvélin Vestfirðingur var send yfir Vatnajökul því þaðan barst neyðarskeytið. Vestfirðingur fann Geysi fljótlega og það ríkti mikill fögnuður þegar flugvélin flaug yfir slysstaðinn. Ekki var þó nokkur leið að lenda á jöklinum til að bjarga fólkinu að svo stöddu en menn frá Reykjavík og Akureyri fóru strax áleiðis að jöklinum að norðanverðu á Willysjeppum og voru reiðubúnir að ganga upp að slysstaðnum og sækja fólkið.

Dakotavélin komst ekki á loft svo áhöfnin gekk norður Vatnajökul

Ameríkanar sendu sérútbúna Dakotavél til að sækja fólkið. Vélin lenti á jöklinum og áhöfnin á Geysi settist inn, nú styttist í að þau kæmust heim til fjölskyldna sinna. En Dakotavélin komst ekki á loft. Hent var niður frekari búnaði fyrir flugvélina og aftur átti að reyna flugtak. Þá brá svo við að áhöfnin á Geysi neitaði að fara um borð, aðeins einn þeirra þáði að setjast inn í flugvélina. Áhöfnin vildi heldur bíða leiðangursmannanna sem voru á leiðinni, gangandi yfir jökulinn. En það tókst ekkert betur til í seinni tilrauninni. Dakotavélin komst ekki á loft. Það tókst ekki að fljúga vélinni frá slysstaðnum.

Flugmaðurinn varð að játa sig sigraðan og þar með urðu allir að fara gangandi niður af jöklinum. Það var mikil þrekraun fyrir fólkið að ganga 34 km leið að jökulröndinni og björgunarmennirnir gengu báðar leiðir sama daginn. Björgunin tókst í alla staði vel þó flestir væru þrekaðir eftir gönguna. Fólkið gisti í tjöldum leiðangursmanna eina nótt en fór svo á Willisjeppum yfir ár, urðir og sanda. Tvær flugvélar komu á móti hópnum og fór áhöfnin með þeim suður og kom til Reykjavíkur 21. september, viku eftir að ferðin hófst í Luxemborg.

Minjar um björgun Dakotavélarinnar eru enn upp við jökul. Hér má sjá beislið sem var tengt í vélina til að ýturnar gætu degið hana niður af jöklinum. (Ljósm. BL)

Dakotavélin var grafin úr fönn og flogið til byggða!

Loftleiðamenn fóru í leiðangurinn upp á jökul 8. apríl 1951. Þetta var mikill leiðangur og vel undirbúinn. Farið var upp á heiðina hjá Kirkjubæjarklaustri og stefnt beint inn að jökli. Við jökulröndina var vont veður og 20-30 gráðu frost og urðu mennirnir að bíða í tvo daga. Það voru tveir sérsmíðaðir sleðar með í leiðangrinum, annar þeirra yfirbyggður og höfðust leiðangursmenn við í honum, einnig voru tvær jarðýtur með í för.

1. Verið að smíða sleðana inni í sláturhúsinu á Klaustri. Sleðinn til vinstri var svefnsleði fyrir leiðangursmennina á jöklinum.
2. Sleðinn kominn út og byrjað að hlaða í hann dóti.
3. Peyjarnir á Klaustri höfðu gaman af þessu verkefni.
4. Lagt af stað upp klifið. Lengst til hægri er Jón Kristjánsson frá Skaftárdal sem var ýtustjórinn á Klaustursýtunni.
5. Alveg að verða komnir upp klifið. Erik Eylands er á ýtunni sem var í eigu Ræktunarsambands Síðumanna.
6. Komnir upp á Klausturheiði, mennirnir sestir á og ýtustjórinn stefnir upp að jökli. Veðrið varð vitlaust inn við jökul og ýta Ræktunarsambands Síðumanna, sem hér sést, stoppaði alveg um tíma. Loks tókst þó að koma henni í gang eftir að mennirnir fundu út að lofthreinsarinn var fullur af ís. (Þessar 6 myndir eru teknar af Kristni Olsen en eru í eigu Lárusar Siggeirssonar).

Þegar leiðangurinn komst upp á jökulinn að þeim stað þar sem þeir töldu að vélarnar væru sáu þeir litla þúst og þar undir var Dakotavélin. Flugvélin var á kafi í snjó og mokuðu ýturnar mesta snjónum frá henni en restina varð að moka með handafli. Flugvélinni var síðan komið niður af jöklinum með jarðýtunum, önnur dró, hin hélt við. Þegar komið var niður af jöklinum ruddu ýturnar flugbraut og flugvélin flaug að Kirkjubæjarklaustri og síðan til Reykjavíkur. Þetta hljómar eins og ævintýri í fáum orðum en þetta heppnaðist, endaði vel eins og bestu ævintýri. Loftleiðir höfðu nú eignast verðmæta vél sem varð mikil lyftistöng fyrir þeirra starfsemi. Borga varð allnokkur björgunarlaun en samt var miklu meiri fengur af vélinni þannig að fjárhagslega kom félagið mjög vel út úr þessu.

Geysisslysið verður lengi í minnum haft á Íslandi. 

Flugvélin Geysir hvílir enn í fangi jökulsins og enginn veit hvenær jökullinn skilar henni aftur?

Bjarki Karlsson hefur sett fjölda mynda af Geysisslysinu á opinn vef til minningar um Ingigerði Karlsdóttur. Meðal annars eru myndir af slysstaðnum og áhöfninni meðan hún beið björgunar.

[1] Óttar Sveinsson. 2002 . Útkall. Geysir er horfinn. Stöng, Rv.

Það kom þreifandi bylur rétt áður en leiðangurinn fór upp á Vatnajökul og því var snjór yfir öllu sem létti ferðina. Hér má sjá að burstabærinn er nánast fenntur í kaf. (Ljósm. KO, eig. LS)