Skip to main content
Kirkjubæjarklaustursögur

Landnám, saga og sýslumenn á Klaustri

By October 18, 2019April 1st, 2020No Comments

Landnámið

Kirkjubær á Síðu var numinn af Katli fíflska sem var sonur Jórunnar mannvitsbrekku systur Auðar djúpúðgu sem nam land í Dölum. Ketill nam land milli Fjaðrár og Geirlandsár, ofan Nýkoma. Sagt er að papar hafi áður búið á Kirkjubæ. Ketill var kristinn og hefur sú sögn loðað við staðinn að þar geti ekki búið nema kristið fólk. Maður nokkur úr Meðallandi, Hildir Eysteinsson, vildi setjast að á Kirkjubæ en varð bráðdauður í túnfætinunum og er þar klettur sem nefndur er Hildishaugur, rétt hjá Kirkjugólfinu. Tæplega er það samt raunverulegur haugur Hildis hann er talinn hafa verið sunnan og vestan við kirkjugólfið og sennilega blásið upp þegar sandurinn herjaði á Kirkjubæ.

Klaustur 1186-1550

Nunnuklaustur var stofnað á Kirkjubæ 1186 og var þar fram yfir siðaskipti. Klaustrum var helst valinn staður á góðum jörðum í gjöfulum sveitum og því lítur út fyrir að tíð hafi verið hin besta og héraðið blómlegt á tólftu öld.

Allt að fara í sand.

Kirkjubæjarklaustur var kostajörð, vel upp byggð og bú í góðum rekstri en sandágangurinn var ábúendum erfiður. Sögusagnir eru um að bærinn hafi fyrst staðið nærri því sem Kirkjugólfið er en þar er örnefnið Fornugarðar og gæti það tengst fornu bæjarstæði. Líklegt er talið að bærinn hafi verið í námunda við Minningarkapelluna, nær fjallinu þó, þegar klaustrið var reist.

Getið er um sandfok á jörðinni frá 1703 og jafnvel fyrr. Jón Steingrímsson segir frá miklum sandágangi á Klaustri og uppblásturinn versnar næstu árin. Engjar og tún skemmast, sandurinn æðir yfir allt sem fyrir er. Árið 1816 fær Jón Magnússon (1758-1840) jörðina leigða en hann hafði þá búið á nokkrum bæjum í sveitinni, síðast í Hlíð í Skaftártungu. Kona Jóns var Guðríður Oddsdóttir frá Seglbúðum. Jón var athafnasamur og vílaði ekki fyrir sér erfiðleika. Skemmtileg vísa er höfð eftir Jóni þegar hann hlustaði á bölmóð og heimsendatal sveitunga sinna:

Illa fór ég ekki skar

allt mitt fé í tunnu,

verði endir veraldar

í vor á hvítasunnu. (1)

Sandurinn að kæfa allt og húsin færð vestar

Jón fellir gömlu klausturhúsin 1821 og flytur þau vestur yfir Fossá og byggir upp þar sem burstabærinn og gistihúsið standa í dag. Voru það allnokkur hús sem Jón flutti. Tekið er fram að það hafi verið helluþak á öllum húsunum og voru hellurnar fluttar á 20 hestum. Einnig var flutt allt grjót og annað byggingarefni sem mögulegt var að flytja. Jón var annálaður framkvæmdamaður og beið ekki eftir byggingarleyfi né fjármagni til þessara framkvæmda heldur flutti allt sjálfur á eigin kostnað. Kostnaðinn reyndi hann að fá greiddan hjá eigandandum, konunginum, en ekki er ljóst hversu mikið hann fékk. Margar sögur eru til af Jóni þessum. Hann hafði alist upp í Eyjafirði en hvarf þaðan og fréttist næst af honum í Mýrdal og seinna austan Mýrdalssands og þar bjó hann það sem eftir var ævinnar. Jón var talinn göldróttur, safnaði grösum og læknaði með þeim. Eitt sem er eftirtektarvert við búskap þeirra hjóna er að í úttekt á staðnum er sagt að það sé kálgarður við bæinn og að hann hafi verið frá því um 1836. (2)  Börn Jóns og Guðríðar settust flest að á milli sanda og eiga margir í Skaftárhreppi ættir að rekja til þeirra hjóna.

Kirkjan stóð á sandi

Kirkjan stóð ein á sandberangrinum eftir að bæjarhúsin voru flutt, óvarin fyrir eyðingunni. Vildu margir færa hana í skjól en aðrir töldu það mesta óráð. Sandurinn hafði betur og kirkjan var lögð af. Kirkjubæjarklaustur var ekki lengur kirkjustaður. Kirkja var reist á Prestbakka 1859 og hefur þar verið sóknarkirkjan síðan. Sjá má móta fyrir rústum gömlu kirkjunnar innan kirkjugarðsins á Klaustri.

Fyrsti sýslumaðurinn á Klaustri

Síðasti klausturhaldarinn á Kirkjubæjarklaustri var Jón Guðmundsson alþingismaður og ritstjóri Þjóðólfs. Hann varð síðar sýslumaður Skaftfellinga en missti það embætti vegna skeleggrar framgöngu á Þjóðfundinum 1851.

Hér er mynd af póstkorti af Holti á Síðu þar sem sýslumaðurinn á Klaustri var með stórt fjárbú.

Árni sýslumaður var stórbóndi

Í hálfa öld sátu sýslumenn Vestur-Skaftfellinga á Kirkjubæjarklaustri. Fyrstur var Árni Gíslason sem var mikill búhöldur og var með stórt fjárbú á Kirkjubæ og í Holti á Síðu. Sagt er að hann hafi átt 1300 fjár. Þegar hann fluttist frá Klaustri til Krísuvíkur árið 1880 rak hann féð suður, ætlaði sér að græða meira á sauðfjárræktinni þar. Féð undi sér ekki syðra, strauk austur og fórst flest á leiðinni í jökulfljótunum á Suðurlandinu. Urðu þessir búferlaflutningar mikill skaði fyrir Árna.

Burstabærinn byggður árið 1884

Hjónin Sigurður Ólafsson sýslumaður  og Sigríður Jónsdóttir létu byggja það glæsilega hús sem setur svip á staðinn 1884, burstabær með tveimur burstum, hlöðnum kjallara og járnþaki, fyrsta húsið austan sands sem skartaði slíku þaki. Guðlaugur Guðmundsson sýslumaður, síðar bæjarfógeti á Akureyri, tók við af Sigurði. Talið er víst að hann hafi reist mylluhús við lækinn og nýtt vatnsorkuna í Systrafossi við mölunina. Eftir að Guðlaugur fór hafa sýslumenn V-Skaft búið vestan Mýrdalssands. (3)

Fermingarveisla á Kirkjubæjarklaustri. Systrafoss í baksýn.
Þessi mynd er á vefnum Sarpur.is og þar eru skráðar þessar upplýsingar við hana. Ekki ber skráningum saman á Þjóðminjasafni og Skógasafni, en myndin kemur tvisvar fyrir í safninu. Ýmist er sagt að það sé fermingarveisla Ásdísar Guðlaugsdóttur eða að það séu systkinin Ásdís og Guðmundur Guðlaugsbörn sem eru að fermast.
Í öftustu röð stendur fermingardrengurinn, Guðmundur, með kollhúfu Við hlið hans sér á vanga Þórdísar Maríu Guðlaugsdóttur, og framan við hana faðir þeirra systkina Guðlaugur Guðmundsson sem var sýslumaður á Kirkjubæjarklaustri og er að fá sér kaffi úr bolla á myndinni, hægra megin við borðið. Dóttir hans Karólína er að aðstoða hann við þessa athöfn, en kona Guðlaugs, frú Ólíva María Svenson situr við borðið og heldur á dóttur þeirra, Kristínu. Ólivía var sænsk að ættum frá Skáni, venjulega kölluð “Frú Guðmundsson”.
Börnin í næstfremstu röð eru f.v.: Sigrún Jónsdóttir, dóttir Guðrúnar vinnustúlku, en hún var þá ekkja. Þá er næst Katrín Ólafsdóttir (síra Ólafs á Sandfelli) og Ásdís Guðlaugsdóttir, annað fermingarbarnanna í dökkum kjól.
Börnin í fremstu röð eru: Margrét Guðlaugsdóttir, Ólafur Guðlaugsson, Soffía Guðlaugsdóttir sem var þekkt leikkona. (Ljósm. EG)

 

Ung hjón taka við jörðinni

Eftir að fjórði og síðasti sýslumaðurinn fór tóku Lárus Helgason og Elín Sigurðardóttir jörðina á leigu og segir frá því þeim í kafla um Klausturfjölskylduna og uppbygginguna.

 

(1) Þórarinn Helgason. 1971. Frá Heiði til hafs. Ævisaga Helga Þórarinssonar í Þykkvabæ. Goðasteinsútgáfan, Selfossi. S. 10

(2) Sigurjón Einarsson. 2004. Dynskógar 9. Sögufélag Vestur-Skaftfellinga,Vík. S. 30

(3) Sigurjón Einarsson. 2004. Dynskógar 9. Sögufélag Vestur-Skaftfellinga,Vík. S. 186