Skip to main content
Álftaversögur

Kötlugosið 1918

By October 18, 2019February 28th, 2020No Comments

Myndin hér fyrir ofan sýnir hvar hlaupið kom niður árið 1918. Myndin fylgir grein eftir Guðrúnu Larsen sem birtist á Vísindavefnum.

Til eru allmargar frásagnir af gosinu 1918 og afleiðingum þess. Gosið hófst um miðjan dag 12. október 1918. Fólk fann fyrir jarðskjálfta rétt eftir hádegi þennan dag, gosið hófst um þrjú og hlaupið kom niður sandinn seinnipart dagsins. Fór hlaupið yfir mestan hluta Mýrdalssands. Þetta gos stóð í 24 daga. Það gerði ekki boð á undan sér og kom mönnum í opna skjöldu en menn sáu þó eftir á ýmislegt sem var óvenjulegt mánuðina á undan: Austurhluti jökulsins lyftist lítið eitt en vesturhlutinn seig svo klettar komu í ljós sem áður voru huldir ís, Múlakvísl var allt sumarið nærri vatnslaus og það þriðja var að mikil brennsteinslykt var af ám sem féllu til austurs.

Kötlugosið 1918 var stórt, kom óvænt og stóð í 24 daga en þrátt fyrir umfangið varð ekki manntjón en ýmis vandræði. Á 100 ára afmæli Kötlugoss voru tekin viðtöl við fólk um gosið og búin til stuttmynd sem fjallar um gos á á 21. öldinni, þar á meðal Kötlugosið, þetta má sjá á slóðinni http://Katla100.is

Jakarnir 1918 voru gríðarstórir. Hér sést einn Álftveringa, sem var um 2 m á hæð, uppi á einum jakanum. (Eig. KH)

Hér á eftir verða raktar nokkrar sögur af fólki sem lenti í hrakningum vegna Kötlugossins 1918.

“Þeystum á fleygiferð yfir skurði og læki”

Jón Gíslason, bóndi í Norðurhjáleigu, var einn þeirra bænda úr Álftaveri sem voru að koma með fé af afrétti og smala svæðið frá Rjúpnafelli að Skálm sem kallast Upphagar. Jón segir svo frá:

Ég var einn af 7 afréttarmönnum, sem komu með safnið. Þegar við komum fram fyrir Hrísneshólm, fórum við að heyra nið í vesturátt. Í fyrstu var honum lítill gaumur gefinn, en svo fór hann smávaxandi, þar til við fórum að heyra óglögga dynki, sem urðu hærri og hærri, og loks heyrðum við drunur miklar. Vorum við þá komnir svo nærri réttinni, að við sáum, hvar menn þeir, sem þar voru, hleyptu þaðan á hestum sínum sem harðast. Í sama bili sáum við, að menn þeir, sem voru að safna úthagana, fóru austur allt hvað af tók, og stefndu þeir tilSkálmabæjarhrauna. Duldist okkur nú ekki, að eitthvað óvenjulegt væri á seyði. En svo hagaði til, að við rákum safnið eftir sandlægð nokkurri, og voru hraunhálsar beggja vegna, svo við sáum ekkert til vesturs. Í sama svip og við sáum til þeirra manna, er hröðuðu sér heimleiðis, varð mér litið aftur. Mun mér lengi minnisstæð sjón sú, er mér bar fyrir augu. Var þá að geisast fram að baki okkur jökulhlaup mikið og ægilegt, sem brunaði fram lægðina milli hraunhálsanna. Geri ég þá félögum mínum aðvart sem skjótast. Sáum við nú okkur þann kost vænstan að yfirgefa safnið og ríða sem hraðast undan hlaupinu. Fórum við nú sem við máttum, og stefndum suður á Ljósavatnsháls. Þegar þangað kom sáum við, að hlaupið var komið austur úr Skálminni fyrir sunnan okkur, var því eigi fært að halda lengur þá leið. Breytttum við þá stefnu og héldum nú í áttina til Skálmabæjarhrauna, því þar sáum við að saman voru komnir margir menn á skeri einu í vesturbrún hraunsins. Hleyptum við nú hestunum á lægðina, sem er á milli Ljósuvatnanna og hraunsins, og þeystum á fleygiferð þvert yfir skurði og læki. Mátti nú varla á milli sjá, hvort okkur eða hlaupinu mundi veita betur. Þó náðum við hraunbrúninni áður en hlaupið skall á henni, en svo var það nærri komið, að það féll yfir slóð okkar 40-50 metra frá hraunbrúninni. Þessu næst héldum við til manna þeirra, er safnast höfðu í skerið. Voru þar komnir allir afréttarmenn og einnig réttarmenn þeir, er eigi höfðu komist fram yfir Skálm. Urðu menn harla fegnir, er engan vantaði.

Var nú haldið kyrru fyrir um stund. Köstuðu hestarnir mæðinni, en mennirnir horfðu á hlaupið, þar sem það brunaði fram með flaumi miklum og jakaferð yfir hvað sem fyrir varð. Var það kolmórautt og ægilegt, og lagði af því megna jökulfýlu.

Ekki var vistlegt að dvelja lengi á skeri þessu með fjölda hesta, því þar var enginn gróður, heldur sandur einn, enda stefndi hlaupið kringum skerið suður úr gjótum fyrir vestan Skálmabæjarhraun.

Jafnskjótt sem við fórum úr skerinu kom hlaupið fram Kúðafljót milli Skálmabæjarhrauna og Leiðvallar. Var ótrúlega mikið flug á því, er það kom fram fljótið. Fyllti það upp í skarðið milli Leiðvallar og hraunanna, svo að upp tók í miðjar brekkur fyrir vestan Leiðvöll.

Þegar við komum til Skálmabæjarhrauna, var flóðið komið þar fast að bænum. Var það því okkar fyrsta verk að bjarga öllu úr bænum, er hægt var að flytja burtu. Gekk þaðvel, enda voru þar að verki um 20 karlmenn. Fluttum við það upp á hraunbrún, sem er þar fyrir ofan bæinn. En heimilisfólk allt og aðkomumenn gistu nóttina í fjárhúsi nokkru, sem er lengra uppi í hrauninu. Eigi varð okkur svefnsamt um nóttina, því margt var nú óvenjulegt. Alltaf var kolamyrkur, nema þegar eldingar komu og leiftur. En þá varð furðulega bjart. Þrumur kváðu við í sífellu og dynkir miklir. Og þess í milli heyrðist dimmur vatnsniðurinn allt í kring. Jafnan dreif vikur smágerðan, og olli hann mestu um myrkrið. Þegar morgna tók, þótti vænlega horfa, að eigi hélst myrkrið, heldur birti af degi. En því kviðum við einna mest, að myrkur myndi verða af öskufalli. En stormkaldi var þá kominn af austri, og bægði hann öskumökknum vestur. Þegar bjart var orðið, sáum við, að vatnsflóðið mundi runnið af að mestu, en eftir sátu hrannir miklar og hrikalegar jökulborgir. Fórum við nú að vitja um bæinn, og hafði vatnið farið allt í kringum hann um nóttina. Nú var vatnið hlaupið, en eftir sat við húsið á stéttinni mittishá jakahrönn. Þegar við höfðum fengið okkur hressingu íSkálmabæjarhraunum eftir þessa einkennilegu andvökunótt, bjuggumst við af stað heimleiðis. Létum við eftir hestana og fórum gangandi. Fórum við saman suður að Skálm. Reyndist hún vatnslítil og óðum við hana. Hélt síðan hvert heim til sín sem hraðast. Urðu menn fegnir mjög komu okkar og þótti sem við værum úr helju heimtir. Lýk ég svo frásögu minni um Kötluhlaup [1]

Jóhann Pálsson í Hrífunesi slapp til baka yfir Hólmsárbrúna. (Eig. KH)
Jón Gíslason í Norður-Hjáleigu var einn þeirra sem var að smala á Mýrdalssandi þegar flóðið kom niður. (Eig. KH)

Jóhann í Hrífunesi rétt slapp

Jóhann Pálsson átti fótum fjör að launa þegar vatnsflóðið gusaðist fram eftir að gosið hófst. Hér er frásögn Sr. Gísla Brynjólfssonar af Jóhanni Pálssyni sem rétt slapp undan Kötlu. Frásögnin er hér stytt og endursögð að hluta.

Einn þeirra sem ætlaði í Fossarétt þennan dag var Jóhann Pálsson. Hann átti heima í Hrífunesi og ætlaði sér að fara gangandi í Fossaréttina sem var hjá Ljósuvötnum í landi Skálmabæjarhrauns. Hún var ekki notuð aftur eftir Kötlugosið og jörðin Skálmabæjarhraun fór í eyði. [2] Jóhann fór yfir brúna á Hólmsá og gekk suður að Hrífuneshólmanum (sem Jón Gíslason kallar Hrísneshólm í frásögninni hér á undan). Hundur Jóhanns var órólegur, hnusaði í áttina að jöklinum en Jóhann taldi að það væri bara vegna þess að hann fyndi þefinn af fólki og hundum í þeirri átt. Þegar Jóhann hafði gengið um kílómetra frá brúnni heyrði hann drunur og sá jakahrönn koma æðandi fram sandinn. Hann áttaði sig strax á að Katla var að koma og vissi að hann ætti aðeins þá einu undankomuleið að komast yfir brúna og að Hrífunesi aftur. Hann tók til fótanna: Þegar Jóhann kom fram á gilbarminn við brúna, hafði íshrönnin fyllt árgljúfrið og hlaðizt upp að brúnni en stíflaði ána svo, að hún var næstum þurr. Á stöku stað fossaði vatnið út úr jakaveggnum og gusaðist niður á brúna. Enda þótt ekki væri árennilegt að fara yfir ána með íshrönnina gínandi yfir sér, sem lá á þessari gömlu, veiku trébrú með heljarþunga, dugði hér ekki að hika. Að hika var sama og að tapa – í þessu tilfelli að tapa lífinu. Hér varð að tefla á tæpasta vað. Hér mátti engu muna. Rétt í þeim svifum, sem Jóhann var kominn austur yfir og hann leit til baka, ofan af hæðinni á eystri bakkanum, hrundi íshrönnin yfir brúna og muldi hana sundur, eins og eldspýtnastokk.

Jóhann komst heilu og höldnu heim að Hrífunesi. Þá var flóðið í ánni orðið svo mikið, að það lónaði upp á túnið og bærinn var í hættu. Fólkið taldi öruggara, að bera úr honum það nauðsynlegasta, og hlóð því saman á hól fyrir utan túnið og hafði það undir segli un nóttina. Daginn eftir var flóðið fjarað.

Eins og fyrr segir var hundurinn í fylgd með Jóhanni þennan dag. Eftir að Jóhann varð hlaupsins var, gafst honum eðlilega enginn tími til þess að hugsa um hundinn, en er hann var kominn yfir Hólmsárbrúna, varð hann þess var, að hundurinn hafði ekki fylgt honum yfir hana. Hafa myndast nokkurs konar þjóðsögur um þennan hund síðar, meðal annars sú að hann hafi verið kominn á miðja brú, er flóðið tók hana af. En sannleikurinn í málinu er sá, að daginn eftir kom hvutti trítlandi heim að Hrífunesi við beztu heilsu.

Missir Hólmsárbrúarinnar var mikið afhroð fyrir samgöngurnar í sýslunni. Hólmsá er mesta foraðsvatnsfall, hættuleg og erfið yfirferðar. Fljótlega var komið ferju á ána og var það til nokkurra bóta, unz brúin var endurbyggð.

Jóhann í Hrífunesi horfði á Hólmsárbrúna kurlast í sundur undan jökulflóði Kötlu, og sjálfur slapp hann undan því með miklum naumundum. 2 árum síðar hafði hann “hefnt” þessa á næsta eftirminnilegan hátt. Hann var sjálfur yfirsmiður við nýja Hólmsárbrú. Smíði hennar lauk haustið 1920. [3] Jóhann slapp og gat meira að segja hefnt sín á óvættinni með því að smíða aftur brúna sem hún eyðilagði. Það var tilviljun að smalarnir í frásögn Jóns Gíslasona og Jóhann í Hrífunesi sluppu undan jökulflóðinu. Jóhann var bróðir Þuríðar á Söndum sem forðaði sér og börnunum frá Söndum þegar flóðið stefndi beint á bæinn. Hér er enn ein frásögnin um undarlegar tilviljanir sem gerðu það að verkum að ekki varð manntjón í Kötlugosinu 1918.

Lán í óláni að ekki var fólk með fjárrekstur á sandinum

Haustið 1918 var Kötlugosið þann dag sem Síðumenn áttu að reka fé sitt til slátrunar í Vík. Vildi þá svo vel til að vegna veðurs hafði ekki verið hægt að skipa upp salti og tunnum í Vík og því bárust þau boð að menn ættu ekki að koma með féð strax. Má það kallast mikil mildi að ekki skyldu hafa verið fjárrekstar á sandinum þegar Kötluhlaupið geystist fram.En nú voru góð ráð dýr. Hvað átti að gera við öll lömbin sem átti að slátra í Vík? Ákveðið var að slátra á bæjunum fyrir austan Mýrdalssand en menn urðu að fá mél, salt og tunnur til að geta saltað kjötið og gert slátur. Fyrir harðfylgi heimamanna sendi landstjórnin björgunarskipið Geir með þetta austur. Hefur þar eflaust haft áhrif að Skaftfellingur var búinn að koma með vörur austur að Skaftárósi um vorið og því talið fært að koma vörum þangað. Liðið var það langt fram á haustið er menn fengu vörurnar með Geir að ekki gafst færi á að skipa þeim upp vegna veðurs.Var þá brugðið á það ráð að setja rúgmjölið og saltið í tunnurnar, slógu skipverjar síðan botn í báða enda og hentu tunnunum í sjóinn við Skaftárós, alls 400 tunnum.

Voru menn í landi þrjá sólarhringa við þessi björgunarstörf, holdvotir af sjó og óveðri. Náðust þar allar tunnurnar nema átta en eitthvað mun hafa blotnað í sumum. Tókst þetta betur en menn höfðu þorað að vona. Um vorið var kjötið flutt á ís suður að Skaftárósi og skipað þar út í Skaftfelling og seldist á góðu verði. [4]

Þannig tókst að leysa málin í kjölfar gossins og guðs lukka að enginn fórst við þessar tilfæringar. Menn reyndu það sem þeir gátu til að ná björg í bú og nú kom Skaftfellingur að góðum notum. Hann hafði komið með mikið af saltsíld til skepnufóðurs um sumarið og vorið 1919 var hann fenginn til að flytja 200 tunnur af saltsíld og 200 heilsekki af rúgmjöli austur að Skaftárósi. Þar var því skipað upp og dreift á bæina. [5] Sjálfsagt hefur munað um allt þennan vetur til að halda lífi í mönnum og skepnum.

Mýrdalsjökull er fagur séð frá Hrífunesi en það hefur mönnum ekki verið efst í huga 12. okt 1918 þegar Katla gaus (Ljósm. LM)

Afleiðingar Kötlugossins

Aska lá yfir sveitunum mánuðina á eftir, sérstaklega í Skaftártungu. Í Álftaveri hafði jökulhlaupið valdið skemmdum og svo var einnig í Meðallandi. Ekkert manntjón varð í gosinu en nokkur hundruð sauðfjár ásamt 37 hestum féllu. Eftir gosið fluttu nokkrir burt úr sveitinni; 32 úr Skaftártungu og 46 úr Álftaveri. Nokkrir bæir fóru í eyði: Skaftárdalur var í eyði til 1923, Snæbýli til 1926, Ljótarstaðir til 1920, Búlandssel til 1923 en jörðin Svartinúpur fór alveg í eyði. Í Álftaveri fóru tvær jarðir alveg í eyði það voru Skálmabæjarhraun og Sauðhúsnes. Einnig fækkaði um eitt býli á jörðinni Holti í Álftaveri. Í Leiðvallarhreppi eyðilagðist jörðin mikið þegar hlaupið geystist fram Kúðafljótið en bærinn stendur á hólma úti í fljótinu. [6] Bjuggust menn við að búseta á Söndum væri þar með úr sögunni en öllum að óvörum kom fjölskylda frá Búlandsseli vorið 1919, settist að á Söndum og bjó þar til 1945. [7]

Íbúar Vestur-Skaftafellssýslu hefðu þurft meiri aðstoð veturinn eftir gosið en það var margt annað en Katla sem herjaði á Ísland þetta árið. Frostaveturinn mikli var nýliðinn en þá hafði verið svo mikið frost að Reykvíkingar gátu gengið á ís upp á Akranes og um haustið, stuttu eftir Kötlugosið, barst Spænska veikin til Reykjavíkur. Mátti segja að þar væri allt lamað og því lítillar hjálpar þaðan að vænta. Sýslumaðurinn í Vestur-Skaftafellssýslu bannaði alla umferð yfir Jökulsá á Sólheimasandi til að koma í veg fyrir að spænska veikin bærist austur í sveitirnar. Ef einhver vildi fara til Reykjavíkur fékk hann ekki að koma aftur. Með þessum aðgerðum tókst að koma í veg fyrir að pestin bærist austur. En ekki var allt slæmt sem gerðist þetta ár því 1. desember 1918 fögnuðu Íslendingar fullveldi landsins og drógu Íslendingar loks íslenskan fána að húni. Hefur það væntanlega létt einhverjum lund þetta hörmungaár.

Gísli á Melhól var ekki kvartsár frekar en aðrir Skaftfellingar. Í stuttu ljóði eftir Gísla sjáum við hvernig trúin á hjálp æðri máttarvalda og trúin á betri tíma vísa veginn.

 

Kötlugosið 1918

Sól virtist síga í sæinn

sem næst um miðjan daginn.

Það húmaði heldur fljótt.

Dauft er við dimmu að búa,

dagurinn við nam snúa.

Koldimm nú virtist nótt.

 

Það birtir ætíð aftur,

því æðri ræður kraftur,

– oss fyrir beztu er.

Við skulum vona og biðja

að vilji hann okkur styðja

unz þessu linnir aftur hér.

 

Þótt askan á oss falli,

öll sinnum klukkna kalli,

í kirkju ganga skal.

Huganum hressing leita,

hvíld megnar lúa að breyta,

það gleður bæði hrund og hal. [8]

 

[1] Júlíus Jónsson Norðurhjáleigu. 1997. Örlagasaga Álftavers. Ársrit Útivistar, 23. s. 10-12

[2] Sunnlenskar byggðir VI. 1985. Búnaðarsamband Suðurlands. S. 291

[3] Gísli Brynjólfsson. 1963. ”Átti fótum fjör að launa.” Fálkinn 43. tbl. 36. árg. s. 12, 38 og 41

[4] Þórarinn Helgason. 1957. Lárus á Klaustri. Ævi hans og störf. Bókaútgáfa Guðjóns Ó. Guðjónssonar, Rv. S. 184-189

[5] Kjartan Ólafsson. 1991. Verslunarsaga Vestur-Skaftafellssýslu. Annað bindi. Vestur-Skaftafellssýsla, Vík. S. 210

[6] Anna Lilja Oddsdóttir. 2008. “Undur yfir dundu”. Áhrif Kötlugossins 1918 á byggð og samfélag í Vestur-Skaftafellssýslu. M.S. Ritgerð HÍ s. http://skemman.is/bitstream/1946/3367/1/Anna_Lilja_Oddsdottir_fixed.pdf

[7] Sunnlenskar byggðir VI. 1985. Búnaðarsamband Suðurlands. S. 231

[8] Gísli Tómasson. 1964. Laufskálar. Ljóð eftir 39 Vestur-Skaftfellinga. Útg. Einar J. Eyjólfsson. S. 93