Warning: Uninitialized string offset 0 in /var/www/virtual/eldsveitir.is/htdocs/wp-includes/class-wp-term-query.php on line 1

Warning: Uninitialized string offset 0 in /var/www/virtual/eldsveitir.is/htdocs/wp-includes/class-wp-term-query.php on line 1

Warning: Uninitialized string offset 0 in /var/www/virtual/eldsveitir.is/htdocs/wp-includes/html-api/class-wp-html-tag-processor.php on line 1

Warning: Uninitialized string offset 0 in /var/www/virtual/eldsveitir.is/htdocs/wp-includes/html-api/class-wp-html-tag-processor.php on line 1
Klaustur varð að þorpi — Sögur, menning og náttúra Skip to main content
Kirkjubæjarklaustursögur

Klaustur varð að þorpi

By October 18, 2019April 1st, 2020No Comments
Kirkjubæjarklaustur var fram yfir 1940 eins og hver annar sveitabær þar sem bjuggu bændur með vinnufólki sínu. Með tímanum breyttist sveitabærinn í þorp þar sem risu íbúðarhús, prestsbústaður, læknisbústaður, samkomuhús, sjoppa, verslun, hótel og þegar var byggður var grunnskóli 1971 breyttist sveitabærinn í þorp.  (Ljósm. LM)

Prestsbústaðurinn

Prestsbústaður var tekinn í notkun rétt fyrir jólin 1939. Lárus seldi 5 ha af túni sínu til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins og var það lóð undir prestsetrið og tún með. Þótti bændum í sveitinni með fádæmum vitlaust af Lárusi að fara svona með góð tún. Óskar J Þorláksson hafði verið prestur frá 1931-1935 og bjó þá hjá Lárusi og Elínu í bustabænum.

Myndin er af þeim hjónunum en Sr. Óskar varð síðar Dómkirkjuprestur. Eiginkona Óskars var Vigdís Elísabet Árnadóttir (Eig. LS).

 

Eftir að Sr. Óskar fór  var prestlaust í  tvö ár  en þá kom Sr. Gísli Brynjólfsson. Gísli kynntist konu sinni, Ástu Valdimarsdóttur, þegar hún kom að Klaustri til að vinna hjá Lárusi og Elínu, felldu þau hugi saman, giftust og fluttu í nýja prestbústaðinn. Sr. Gísli og Ásta reistu fjárhús, hesthús og súrheysgryfju ofan við húsið og voru með búskap jafnframt prestsembættinu eins og þá tíðkaðist í sveitum. Íbúðarhúsin við Skerjavelli og Skriðuvelli, milli prestsetursins og heilsugæslustöðvarinnar, eru því reist á landi sem prestsetrið á og kallað var Preststúnið. Á eftir Sr. Gísla komu Sigurjón Einarsson og Jóna Þorsteinsdóttur og voru þau marga áratugi. Frekar fáir prestar hafa verið  á Klaustri frá því þar varð aftur prestsetur og má því ætla að það hafi farið þokkalega um þá.

Á myndinni eru konur í heimsókn hjá prestsfrúnni Ástu Valdimarsdóttur sem er þriðja frá hægri í neðri röðinni. (Eig. HK_RB)

Jónshús

er lítið hús við lækinn á Klaustri, beint á móti Kirkjubæjarskóla. (Ljósm. LM) Það hús reistu þau Jón Björnsson og Ingibjörg Ásgeirsdóttir 1946. (Sjá ljósm. t.h. eig. LS) Jón vann fyrir Klausturbræður og aðra sem bílstjóri en lengst af sem frystihússtjóri. Ingibjörg kom sem vinnukona til Lárusar og Elínar. Þau Jón ákváðu að rugla saman reytum og byggja hús á þessum stað þrátt fyrir að því fylgdi ekkert land, aðeins lítil lóð. Þau treystu á að þarna væri að verða til þéttbýli, þau gætu lifað á því að vinna hjá öðrum, byggðu samt lítið fjós og höfðu nokkrar kindur. Þetta var mikil bjartsýni og þótti fyrirhyggjuleysi að ætla að lifa landlaus. Jón og Ingibjörg trúðu á framtíð staðarins sem vaxandi þéttbýliskjarna og það gekk eftir. Jón hafði alltaf vinnu og tók þátt í allri uppbyggingunni á Klaustri og Ingibjörg vann eitt og annað ásamt því að sjá um heimilið og ala upp fjóra syni. Jón var natinn vélamaður, bróðir bræðranna frá Svínadal sem smíðuðu rafstöðvar með Bjarna í Hólmi og sá Jón um rafstöðina á Klaustri meðan honum entist aldur og heilsa.

Læknisbústaðurinn

Breiðabólsstaður var læknissetur frá 1900-1950 en þó ekki samfellt því 1914-1923 var læknir með aðsetur á Geirlandi. Læknir var á Klaustri frá 1950 og tók á móti sjúklingum á neðri hæð læknisbústaðarins en á efri hæðinni bjó læknirinn með fjölskyldu sinni. Heilsugæslustöðin var opnuð 1979 og eftir það hefur læknisbústaðurinn verið íbúð fyrir lækna og fleiri. Læknisbústaðurinn á Klaustri er stórt hús, teiknað af Guðjóni Samúelssyni og byggt af Valdimar Runólfssyni í Hólmi. Húsið var nánast horfið í gróður um 2010. (Ljósm. LM)

Félagsheimilið Kirkjuhvoll 

Félagsheimili er þarfaþing í hverri sveit. Klausturbæður keyptu bragga fyrir sunnan og gáfu braggaþak og járnboga með texeinangrun til byggingarinnar. Gísli Halldórsson arkitekt teiknaði svo húsið  og byrjað var að byggja 1949. Félagasamtök og einstaklingar lögðu til peninga og vinnu og tók nokkur ár að klára húsið. Þar hefur síðan verið ýmis starfssemi: Unglingaskóli frá 1955-1971, íþróttir voru stundaðar í þessu húsi þar til íþróttahúsið var tekið í notkun, skrifstofa Kirkjubæjarhrepps og síðar skrifstofa Skaftárhrepps á efri hæðinni, handverksbúð og þar er Skaftárstofa í dag, sem er gestastofa fyrir Vatnajökulsþjóðgarð á Klaustri. Í Kirkjuhvoli hafa margir fundið ástina sína á balli og haldin hafa verið brúðkaup, afmæli, erfidrykkjur, markaðir, kvikmyndasýningar og samkomur af öllu tagi. Hljómur er sérstaklega góður í sal hússins og hafa Skaftfellingar og aðrir átt þar góðar stundir á tónleikum.

Kammertónleikar á Klaustri hafa verið haldnir frá árinu 1990. Það var Edda Erlendsdóttir, (barnabarn Gyðríðar og Helga í Seglbúðum) sem var upphafsmaður tónleikanna og listrænn stjórnandi þeirra fyrstu árin. Hún stóð einnig fyrir söfnun fyrir konsertflygli sem var forsenda þess að hægt væri að halda svo glæsilega tónleika. Ríkisútvarpið hljóðritaði marga af kammertónleikunum á Klaustri og má því ganga að þeim vísum þar næstu árin.

Minningarkapella Sr. Jóns Steingrímssonar 

Minningarkapellan var byggð af fólkinu í sveitinni og vígð 1974.

Skaftárskáli 

Skaftárskáli reistur af Kaupfélagi Skaftfellinga 1974 til að bregðast við aukinni umferð eftir að hringvegurinn var opnaður. Hann var fyrst lítill skúr en síðan hefur verið byggt nýtt hús og bætt við það á alla kanta.

Barnaskólinn á Klaustri 

Skólahúsið á Kirkjubæjarklaustri var reist 1917 rétt fyrir austan burstabæinn. Börnin á Klaustri gengu í skóla þar en sum árin voru það fá börn að þeim var kennt á Þykkvabæ í Landbroti með börnunum úr Landbrotinu. Skólahúsið var rifið 1950 og eftir það var skóli í félagsheimilinu Kirkjuhvoli þar til flutt var í Kirkjubæjarskóla.

Skólahúsið á Kirkjubæjarklaustri og karlarnir í sveitinni. (Eig. EAV)
Kennarinn! Kristjana Jónsdóttir, frá Sólheimum í Landbroti, kenndi börnum í Landbroti og á Síðunni í mjög mörg ár. Hún kenndi allar greinar og þótti tíðendum sæta að stúlkur lærðu smíði og piltar lærðu hannyrðir. (Ljósm. Loftur, eig. EAV)

Kirkjubæjarskóli á Síðu

Kirkjubæjarskóli var vígður 30. okt 1971 en það hafði tekið langan tíma að undirbúa stofnun hans og byggja húsið. Þar með voru allir krakkar í Skaftárhreppi í sama skóla en áður hafði verið skóli í hverjum hreppi. Skólinn var að hluta heimavistarskóli þar sem nemendur úr Álftaveri, Fljótshverfi, Skaftártungu og Meðallandi gistu fjórar nætur í viku.  Sundlaug var byggð við skólann. Þegar skólinn var byggður var gert ráð fyrir að þar væri hótel á sumrin og þar starfaði Hótel Edda í mörg ár þar til að reis nýtt hótel og reyndar var seld gisting í skólanum eftir það á vegum hótelsins.

Héraðsbókasafnið á Kirkjubæjarklaustri

Héraðsbókasafnið var byggt við Kirkjubæjarskóla og hófst starfsemi þar í byrjun árs 1988. Bókasafnið er glæsilegt hús og eitt fárra húsa á Íslandi sem er byggt sem bókasafn. Jóna Þorsteinsdóttir sem var kennari við Kirkjubæjarskóla og Sr. Sigurjón Einarsson, eiginmaður hennar, börðust ötullega fyrir byggingu þessa glæsilega bókasafns og var Jóna forstöðumaður fyrstu tíu árin.

Íþróttamiðstöðin

Íþróttahúsið var vígt 2004 og er þar líf og fjör flesta daga.  Íþróttahúsið, lítil líkamsrækt og sundlaug mynda nú þá starfsemi sem er Íþróttamiðsstöðin á Kirkjubæjarklaustri.

Hótel Klaustur

Veitingasala færðist úr gamla gistihúsinu á Klaustri í hótelið árið 1994. Gisting hafði verið í lausum húsum sem nú eru hluti hótelbyggingarinnar. Þótti mikil bjartsýni að reisa svo stórt hótel á þessum stað. Það kom þó að góðum notum næsta vor á eftir þegar Síðujökull skreið og fólk flykktist austur að skoða umbrotin.

Haustið 1996 var Gjálpargosið í Vatnajökli og lokaðist þá vegurinn austur yfir Skeiðarársand eftir hlaupið. Mjög margir komu austur að skoða jakana á sandinum þennan vetur. Þessar náttúruhamfarir sýndu að það var virkileg þörf á stóru og glæsilegu hóteli á Klaustri.

Það eru fleiri hús og margvísleg starfsemi á Kirkjubæjarklaustri í dag en ekki verður farið nánar yfir þá sögu hér.

Heimildir: Sigurjón Einarsson. 2004. Dynskógar 9. Dynskógar Sögufélag Vestur-Skaftafellssýslu, Vík.

Ljósmynd af Kirkjubæjarklaustri tekin úr lofti. (Ljósm. Helga Davids)